Þvílíkur endir á þvílíkum degi!

Ja hérna! Slúðrið sem Einar setti hér inn í gær um að Michael Owen gæti verið á förum frá Liverpool reyndist vera á stoðum byggt, og kom frá sama manni og skúbbaði kaupunum á Josemi og sölunni á Danny Murphy.

Nú, í kvöld, kom sami maður með enn eina fréttina inn á spjallborð YNWA.tv. Ástæðan fyrir því að hann setur fréttina inn á spjallborðið en ekki á fréttasíðuna (hann setti Owen-fréttina líka inn á spjallborðið í gærkvöld og beið þangað til síðdegis í dag, þegar búið var að staðfesta hana frá minnst 2 heimildum, með að setja hana á fréttasíðuna) er sú að hann er ekki enn búinn að fá staðfestingu frá a.m.k. tveimur heimildum, sem hann segir að sé stefna hjá þeim. Þeir setja ekki skúbb inn sem frétt fyrr en það eru a.m.k. tveir góðir heimildarmenn búnir að staðfesta hana.

Þangað til er hún slúður. Murphy: slúður sem varð að frétt. Josemi: slúður sem varð að frétt. Owen: slúður sem varð að frétt. Og nú í kvöld var þessi sami maður að setja inn aðra ‘frétt’, sem hann segist vonast eftir að verði staðfest af seinni heimildarmanni sínum í kvöld eða á morgun. Því fannst mér alveg sjálfsagt að setja þessa ‘frétt’ hér inn, þótt hún sé ekki orðin endanlega staðfest, þar sem þessi gaur hefur hitt naglann á höfuðið nokkuð oft undanfarnar tvær-þrjár vikur.

Fréttin hljóðar nokkurn veginn svona: Fernando Morientes er búinn að samþykkja samning við Liverpool og mun koma til liðsins í skiptum fyrir Michael Owen.

Ekki öskra. Þegar í dag er búið að tala um Beckham, Xabi Alonso, Shaun Wright-Phillips og égveitekkihvaðfleira. Þannig að maður er orðinn öllu vanur, þetta hefur verið einhver svakalegasti slúður-dagur sem ég man eftir.

Annað hvort er hið svokallaða ‘silly season’ að slá öll met í ár … eða þá að það er virkilega eitthvað stóóóóórt á leiðinni á næstu dögum. Ég veit það ekki, en það er allavega gaman að vakna á morgnana og hugsa með sér: hvaða fréttir fær maður í dag? Hvernig í ósköpunum er hægt að toppa gærdaginn?!?

Á morgun er að sjálfsögðu leikurinn gegn Grazer AK í Austurríki og munum við Einar fylgjast náið með niðurtalningunni að leiknum, sem og öllum fréttum (og slúðri) um leið og þær berast. En fyrst, þá bara verð ég að reyna að ná að sofa í nokkra klukkutíma. Það tekur á að reyna að hafa yfirsýn yfir allt það sem hefur gengið á í dag.

Góða nótt Liverpool-aðdáendur, og vonum að næstu dagar skýri þessi mál enn frekar. Auðvitað fáum við strax svör annað kvöld, þegar Owen annað hvort spilar fyrir Liverpool í Meistaradeildinni eða ekki. Úff … þetta verður sva ka legt!

Ein athugasemd

  1. Owen fyrir Morientes??

    Það er fokking brandari, nema að Liverpool fái peninga með. Nær væri að fá miðjumann eða kantmann, heldur en framherja, sem hefur átt eitt virkilega gott tímabil.

Spurs hætta við Murphy

MICHAEL OWEN ER AÐ FARA!