Hvað í ósköpunum er í gangi hjá El-Hadji Diouf?

5682_0.jpgÉg hef svo sem engar haldbærar upplýsingar, en mig grunar að það sé eitthvað verulega mikið að gerast í kringum El-Hadji Diouf. Meðferð Liverpool manna á honum á þessu tímabili hefur einfaldlega verið einum of skrítin.

Í fyrsta lagi er honum ekki úthlutað númeri. Jafnvel þótt að liðið búist við að selja hann, þá er það afskaplega skrítið að taka númerið af honum án þess að láta hann fá nýtt (Kewell fékk númerið hans Smicers í fyrra en Smicer fékk strax nýtt númer). Ef liðið væri að selja hann, þá hefði liðið verið í betri samningstöðu með því að láta svo líta út, sem að það væri ekki æst í að láta Diouf frá sér. Það að láta hann ekki fá neitt númer gefur hins vegar í skyn að það sé búið að ákveða að selja hann og liðið, sem vill kaupa, freistast til að lækka tilboðið vegna þess að kaupliðið telur að Liverpool sé desperate í að selja leikmanninn.

Aðrir leikmenn, sem eru annaðhvort farnir frá liðinu, eða sterklega orðaðir við önnur lið, voru *allir með númer*. Þar með taldir Markus Babbel, Salif Diao og Gregory Vignal.


Þetta númeramál var nógu furðulegt, en núna er Liverpool liðið farið til Bandaríkjanna og Benitez hefur valið [23 manna hóp](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N145442040723-1629.htm). Í hópnum eru t.d. Diao, Whitbread (hann er reyndar Kani) og Warnock. En **enginn Diouf**.

Ég get mögulega séð 2 skýringar fyrir þessu (ef Diouf væri meiddur, þá hefði það verið tilkynnt).

1. **Liverpool er búið að taka tilboði í Diouf, sem þarf að klára á næstu dögum**. Þess vegna þurfi Diouf að verða eftir til að ræða við sitt nýja lið. Það er samt margt, sem mælir á móti því. Í fyrsta lagi ef Liverpool hefði tekið tilboði, þá hefðu þeir tilkynnt það og gefið Diouf opinberlega leyfi til að tala við annað lið. Ekkert slíkt hefur komið fram. Einnig er túrinn um Bandaríkin aðeins 10 dagar, þannig að það hefði varla breytt svo miklu fyrir Diouf að fara með.

2. **Diouf hefur gert eitthvað, sem við vitum ekki um**. Ég er eiginlega farinn að hallast að því. Við munum flest eftir því að þegar Diouf og Diao komu of seint frá Senegal, þá var Houllier alveg brjálaður og setti þá útúr liðinu. Diao var hvort eð er aldrei í liðinu, en Diouf var fastamaður í Liverpool liðinu fyrir Afríku Keppnina.

Gat Houllier virkilega verið svona brjálaður útí Diouf að hann myndi setja hann úr liðinu hálft keppnistímabil, bara vegna þess að hann kom 3 dögum of seint til æfinga? Ég held að Diouf hafi ekki einu sinni verið á bekknum síðustu mánuðina. Við munum öll hversu hroðalegt ástandið á Liverpool var, en þrátt fyrir það, datt Houllier aldrei í hug að kalla Diouf inní liðið til að nýta (óumdeilanlega, en tilviljanakenndu) sóknarhæfileika hans.

Hefði Diouf ekki bara getað beðist afsökunar á þessu, sagt að sér hefði langað að hitta fjölskylduna í Dakar og sæst við Houllier?

Samsæriskenningin mín er sú að Diouf hafi gert eitthvað svakalegt, sem hafi ollið því að Houllier hafi sett hann útúr liðinu og sem Rick Parry hafi svo sagt Benitez frá, sem veldur því hvernig farið er með Diouf núna. Að eitthvað hafi gerst utan vallar, sem var nógu slæmt til að gera alla hjá liðinu brjálaða.

Það, sem styður kannski einna helst þessa kenningu mína er sú staðreynd að Benitez sagði að hann myndi gefa **öllum** leikmönnunum tækifæri til að sýna sig. Hann hefur gefið Biscan og Diao tækifæri, þrátt fyrir að flestir séu sammála um að þeir hafi ekki brot af knattspyrnuhæfileikum Diouf. Af hverju var Diouf ekki einu sinni á bekknum á móti Wrexham. **Af hverju er Benitez búinn að afskrifa hann strax?** Diouf hefur m.a.s. sagt í viððtölum að hann vilji [berjast fyrir sætinu sínu hjá Liverpool](http://www.kop.is/gamalt/2004/07/08/19.32.41/).

Ég veit að þetta eru náttúrulega bara pælingar hjá mér, en ég á bara erfitt með að finna annað dæmi um svona skrítna meðferð á leikmanni, hvort sem hann er til sölu eður ei.


Viðbót (Kristján Atli): Ég veit ekki hvort menn tóku eftir því eða ekki, en það vantar annan mann í hópinn sem ég bjóst fastlega við að yrði með: Patrice Luzi. Ég hélt hann væri þriðji markvörður liðsins en Benítez ákvað að taka Dudek, Kirkland og Paul Harrison sem þrjá markverði hópsins. Gæti þetta þýtt að Luzi sé líka á förum frá Liverpool? Eða vill Benítez kannski frekar vinna með ungan og efnilegan heimamann en ungan og efnilegan Frakka? Hmmm … mér fannst þetta allavega skrýtið. Hópurinn lítur allavega svona út:

Markverðir: Jerzy Dudek, Chris Kirkland, Paul Harrison.

Varnarmenn: Steve Finnan, Jamie Carragher, Sami Hyypiä, Stephane Henchoz, Djimi Traoré, John Arne Riise, Stephen Warnock, Zak Whitbread.

Miðjumenn: Steven Gerrard, Dietmar Hamann, Danny Murphy, Salif Diao, Igor Biscan, Anthony Le Tallec, Vladimir Smicer, Harry Kewell.

Framherjar: Michael Owen, Djibril Cissé, Milan Baros, Florent Sinama Pongolle.

Sem sagt, 3 markmenn, 8 varnarmenn, 8 miðjumenn og 4 framherjar. Ég held að við getum fastlega búist við því að þessi 23 manna hópur verði hópurinn sem Benítez notast við í vetur … auk líklega Coloccini í vörnina og kannski einn miðjumann/kantmann í viðbót. Það gerir 25 manna hóp og finnst mér það nokkuð líklegur lokahópur í vetur. Og líka ansi árennilegur hópur, að því gefnu að Benítez geti náð meiru út úr mönnum eins og Diao, Biscan og Traoré heldur en Houllier gat.

Ég hlakka til að sjá hvernig byrjunarliðið verður á mánudaginn gegn Celtic – en þá hefur Benítez í fyrsta sinn alla sína sterkustu menn úr að velja. Það fá örugglega allir að spila í þessum þremur leikjum … en það verður samt fróðlegt. Einnig geri ég ráð fyrir að í lokaleiknum, gegn Roma, munum við sjá byrjunarliðið eins og Benítez hugsar sér að hafa það í fyrsta deildarleik. Þannig að það mun ansi margt skýrast næstu tvær vikurnar.

Þá var mér einnig bent á það í dag að það eru aðeins 12 dagar til stefnu áður en Liverpool þarf að skrá 25-manna hópinn sem þeir ætla að nota í “fyrri hluta” Meistaradeildarinnar, sem er forkeppnin í ágúst og riðlakeppnin í sept.-des. Þeir mega því ekki skrá nýja menn í Meistaradeildina fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót, fyrir 16-liða úrslitin, ef þeir komast svo langt.

Þannig að það er nokkuð ljóst að ef Benítez ætlar að kaupa leikmenn sem hann vill nota í Evrópu í vetur þá verður það að gerast á næstu 11 dögum eða svo. Þannig að ef hann hyggur á frekari kaup (utan Coloccini, væntanlega) þá munum við örugglega heyra af því strax í næstu viku. Spennandi!

2 Comments

  1. Miðað við ummælin á nokkrum vefmiðlanna virðist sem það sé klappað og klárt að Josemi nokkur sé að koma til Liverpool frá Malaga og leiða menn að því líkum að Diouf muni fara á móti til þeirra Malagamanna.

    Menn virðast leiða að því líkum að þetta sé ástæða þess að Diouf var ekki tekinn með í æfingarferðina til Bandaríkjanna.

  2. Jamm, það er athyglisvert að það er ekkert minnst á þetta í tilkynningunni frá Liverpool um Josemi.

    Ég vona innilega að ef að Diouf fari, þá verði hann lánaður, en ekki seldur á einhverju útsöluverði.

    Annars, þá las ég á [Official síðunni](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N145440040724-0848.htm) að Diouf hefði einfaldlega verið skilinn eftir til að æfa á Melwood. Þannig að það er spurning hvort hann sé bara í svona slöppu formi.

Coloccini í viðræðum

Liverpool kaupir spænskan varnarmann