Porto: Evrópumeistarar 2004

carlosalberto.jpg Porto frá Portúgal urðu í kvöld annað liðið í sögu Evrópukeppnanna í knattspyrnu til að vinna í tveimur mismunandi Evrópukeppnum tvö ár í röð. Hitt liðið? Jú, Liverpool, sem unnu í UEFA keppninni 1976 og svo Evrópukeppni meistaraliða árið eftir, 1977.

Vissulega einstakt afrek, og ef litið er á feril José Mourinho þjálfara Porto þá hefur hann núna unnið tvær þrennur í röð. Í fyrra rústaði Porto deildinni í heimalandinu, vann bikarinn portúgalska auðveldlega og sigruðu loks Celtic frá Glasgow í úrslitum UEFA keppninnar. Þrennan. Í ár eru þeir þegar búnir að sigra í deildinni (aðeins einn tapaður leikur í vetur), komnir með bikarinn annað árið í röð og voru svo í kvöld að kóróna þetta með stórglæsilegum 3-0 sigri á Mónakó í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Þetta eru sex titlar á tveimur tímabilum. Sex titlar á þrettán mánuðum. Houllier vann sex titla á sex árum með Liverpool (og þar af í raun aðeins fjórir alvörutitlar, ef við eigum að tala í hreinskilni). Ef það að ráða Mourinho er ekki skref upp á við á eftir Houllier þá veit ég ekki hvaða þjálfari getur talist vera skref upp á við! Og ef við förum út í taktíska umræðu, þá tel ég ljóst á leiknum í kvöld að Mourinho er taktískur snillingur.

Vissulega geta Mónakó-menn huggað sig við nokkur “hvað ef”. Dæmi: hvað ef Ludovic Giuly hefði spilað allan leikinn? Dæmi: hvað ef einn af þremur röngum rangstöðudómum hefði ekki verið dæmdur? Dæmi: hvað ef þeir hefðu spilað eins og menn í kvöld?

En staðreyndin er samt sú að þú spilar aldrei betur en andstæðingurinn leyfir. Þetta veit hvaða þjálfari sem er og Mourinho nýtti sér allar sínar brellur í kvöld.

Byrjum á Rothem, vinstri kantmanni Mónakó og vafalítið þeirra hættulegasta manni. Mourinho tvímennti á hann frá byrjun og er þetta eflaust hans slakasti leikur í Meistaradeildinni í allan vetur. Hann var hakkaður, tekinn, stöðvaður og átti aldrei séns.

Það sama gildir um Morientes. Hann þrífst á því að fá stungubolta í svæðin frá miðjumönnum sínum … en þar sem Porto-menn pressuðu Mónakó allan leikinn og neyddu þá til að senda langa bolta á Morientes (og klipptu þar með út miðjuna hjá Mónakó) þá var lítið sem Spánverjinn knái gat gert sér til viðreisnar. Hann átti einfaldlega aldrei séns.

Loks er það Porto-liðið. Í raun má segja að við höfum séð tvö Porto-lið í þessum leik, og þau voru bæði súper-góð. Fyrra liðið var það sem spilaði fyrri hálfleikinn og byrjun seinni hálfleiks. Þetta lið pressaði Mónakó-menn alveg niður að eigin vítateig og gjörsamlega stjórnaði hverri einustu stöðu á vellinum. Þeir unnu miðjuna, þeir unnu kantana og þeir pressuðu smáríkið alveg streitulaust!

Seinna liðið var síðan það sem birtist þegar Mónakó-menn ákváðu að reyna að pressa og fá jöfnunarmark. Í stöðunni 1-0 fyrir Porto ákvað Mourinho að taka Carlos Alberto útaf og setja Rússann Alenitchev inná í staðinn á vinstri vænginn. Þegar þetta gerðist hafði Hörður Magnússon þulur á Sýn það á orði að nú ætluðu Porto-menn sér að stilla í vörn. Þvert á móti, þá voru tvær ástæður fyrir þessari skiptingu og hvorug þeirra kom varnarleik nokkuð við.

Sú fyrri var sú að Carlos Alberto, aðeins 19 ára gamall, var með gult spjald á bakinu og Mourinho vildi augljóslega ekki taka sénsinn á að missa strákinn útaf með annað klaufalegt spjald (hann fékk það fyrra fyrir að fara úr að ofan er hann skoraði fyrsta markið). Hann ákvað að taka ekki sénsinn á að lenda einum manni færri.

Seinni ástæðan – og þetta vita allir sem sáu Porto gera jafntefli við Lyon í Frakklandi í 8-liða úrslitunum – er sú að Alenitchev er frábær hraðaupphlaupsmaður. Þegar boltinn kemur út úr teignum og á að hefja hraða sókn eru fáir menn jafn góðir saman og Deco og Alenitchev. Það tók þá varla nema nokkrar mínútur að sanna þetta, en upphlaup þeirra tveggja endaði með því að Alenitchev lagði boltann út á Deco sem skoraði annað mark Porto af öryggi.

Nokkrum mínútum seinna voru þeir svo komnir í 3-0 og aftur voru það Deco og Alenitchev, ásamt framherjanum Derlei, sem voru arkitektarnir. Í þetta skiptið var það Alenitchev sem rak smiðshöggið á hraðaupphlaup sem var svo snöggt að Mónakó-menn vissu varla hvaðan á sig stóð veðrið!

Meistaradeildin er á enda og Porto frá Portúgal vinna verðskuldaðan sigur í ár. Á leiðinni lögðu þeir m.a. ManU, Lyon frá Frakklandi og Deportivo La Coruna frá Spáni. Geri aðrir betur.

Auðvitað þýðir þessi sigur að Abramovich mætir með milljónirnar sínar inn á teppi hjá Mourinho strax í fyrramálið og reynir allt sem hann getur til að lokka hann til Chelsea. Ef eitthvað vit er í okkar mönnum, þeim Parry og Moores, munu þeir reyna það sama.

Þessi maður er einfaldlega taktískur snillingur – og svo er hann augljóslega frábær man-manager. Hann virðist ná öllu því sem hægt er að ná út úr mannskapnum sem hann hefur úr að moða og samstaðan í liðinu er til eftirbreytni – sjáið bara hvernig varamennirnir og þjálfaraliðið stóðu og læstu öxlum saman á hliðarlínunni undir lokin. Og Mourinho í miðjunni. Þessi maður er frábær þjálfari og ég sé hann algjörlega fyrir mér breyta Liverpool í annað gullaldralið á næstu árum!

Moores og Parry: heyrið þið í mér? Semjið við þennan gaur! Hann veit hvað hann er að gera!

3 Comments

 1. Mourinho segir hér

  “In the next days it will all be clear. I gave a club my word that I wanted to go to them and it will all be clear soon.”

  Hann segir svo að klúbburinn sé á Englandi.

  Á meðan þetta gerist er Parry í tveggja vikna fríi.

  Plííííís, plís, Mourinho, komdu til Liverpool!

 2. Í ár eru þeir þegar búnir að sigra í deildinni (aðeins einn tapaður leikur í vetur), komnir með bikarinn annað árið í röð og voru svo í kvöld að kóróna þetta með stórglæsilegum 3-0 sigri á Mónakó í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

  Reyndar töpuðu þeir fyrir Benfica í bikarnum þetta árið. Ágætur árangur samt að vinna deildina og meistardeildina 😉

  Sabrosa gives Benfica cup success

 3. Ó … ég hélt þeir hefðu unnið bikarinn líka. Eða gerði bara ráð fyrir því, réttar sagt. 😉

  Mourinho er þá víst “bara” miðlungsþjálfari, sem hefur “bara” unnið eina þrennu. Og eina tvennu. Ég vill samt fá hann!!!!!!! :biggrin:

  Skv. þessari frétt hérna þá var ákvörðunin um að reka Houllier tekin 12. maí en seinkað í 12 daga … til að gefa Rick Parry frelsi til að fara á stjóraveiðar án þess að slúðurvélin breska (og önnur félög) vissu af því! Þá er því haldið fram að hann hafi meðal annars talað við Mourinho á þessum 12 dögum (munið, hann flaug til Spánar og það er STUTT yfir landamærin til Porto!).

  Spennandi … verst að við fáum eflaust ekkert nánar að vita um þetta fyrr en Parry kemur aftur úr fríi. Nema Mourinho vilji staðfesta þetta fyrr … ég mun fylgjast grannt með netinu næstu daga, vona bara að Mourinho segi “Liverpool” en ekki “Chelsea”!

  Sumarið so far:
  Heskey farinn – Cissé í staðinn!
  Houllier farinn – Mourinho í staðinn?
  Fullkomið, so far… 🙂

Rosicky, Benitez og Alan Smith

Benitez?