Einn inn, þrír út?
Liverpool FC kynntu í dag nýjan leikmann. Brasilíska markvörðinn Diego Cavalieri, sem er 25 ára gamall og kemur frá Palmeiras í Brasilíu. Ég veit ekki mikið um kauða, en það er alveg öruggt að útsendarar Liverpool FC vita meira um kappann og hafa fylgst með honum í talsverðan tíma. Kaupverðið er ekki uppgefið, en er talið vera um 2 milljónir punda.
Danny Guthrie er svo á útleið, en Newcastle hefur náð samkomulagi við Liverpool um kaupverðið á honum. Hann var allt síðasta tímabil á láni hjá Bolton, en nú virðist hann vera alfarinn frá félaginu. Það er alveg ljóst mál að það væri mjög erfitt fyrir hann að brjóta sér leið inn í liðið hjá okkur, þar sem fyrir eru menn eins og Mascherano, Alonso (ef hann fer ekki), Barry (þegar hann kemur), Gerrard og Lucas. Ekki er búið að gefa það upp hvað kaupverðið sé, en talið er að það sé í kringum 4 milljónir punda.
Scott Carson er svo annar sem er pottþétt á útleið og að þessu sinni verður það líklega varanlegt. Hann er ekki tilbúinn til að berjast um sætið við Pepe og eru tvö úrvalsdeildarfélög í viðræðum við Liverpool um að kaupa kappann. Við keyptum hann á heil 750 þúsund pund, en nú þegar erum við búnir að taka inn tæpar 4 milljónir í cash á að lána hann út síðustu 2 tímabil. Talið er að annað liðið sem sé að reyna að krækja í hann sé Middlesbrough. Kaupverð er talið vera í kringum 7 milljónir punda.
Þriðji maðurinn sem er á útleið er Charles Itandje. Galatasaray eru búnir að semja um kaupverðið upp á 2 milljónir punda og eru umboðsmenn hans nú í viðræðum við félagið. Þessir þrír dílar ættu því að koma með nokkra aura til að halda áfram að pressa inn aðra leikmenn sem styrkja hópinn hjá okkur.
Ég segi algjörlega fyrir mitt leiti að ef bæði Barry og Robbie Keane koma, þá er ég bara nokkuð sáttur við sumarið. Ef við næðum að bæta einum alvöru kantmanni við það (lesist David Silva) þá yrði ég í skýjunum með sumarið, ekkert flóknara en það. Það er þó ennþá langt í land með Keane (og hvað þá Silva, ef hann er á annað borð möguleiki).