Liverpool Blogg :: Kristján Atli Ragnarsson
Ég heiti Kristján Atli Ragnarsson og er 26 ára gamall. Ég bý í Hafnarfirðinum.
Segja má að ég hafi nánast fæðst í Liverpool-treyju, þar sem ég ólst upp innan um eintóma Liverpool-aðdáendur. Ég hef einfaldlega haldið með Liverpool frá því að ég man eftir mér, og sennilega enn lengur en það! Pabbi gantast oft með að fyrstu orðin sem ég sagði hafi ekki verið 'mamma' eða 'pabbi' eða 'kex' ... heldur 'Ian Rush'! Þannig að mér er þetta bara í blóð borið.
Við Einar Örn eigum það sameiginlegt að lífshamingja okkar stjórnast að verulegu leyti af gengi Liverpool í boltanum. Ef liðið er t.d. nýbúið að tapa leik þá er hægt að treysta á það að ég er ekki í skapi til að gera neinum greiða. Þeir sem þekkja mig vita hvenær er best að ræða við mig og hvenær er best að láta mig í friði. Þar að auki virðist forvitni mín gagnvart liðinu vera óþrjótandi, ég fer a.m.k. 20 sinnum á dag á netið og les allar fréttir sem berast, já og slúðrið líka. Þá virðist ég hafa þann einstaka hæfileika að enda allar samræður á Liverpool-spjalli, einhverra hluta vegna virðist liðið mitt alltaf berast í tal. Það er örugglega ekki mér að kenna.....
Ég á mér svo sem enga uppáhalds leikmenn og hef aldrei haft - hef þá trú að ef maður verður of háður einhverjum leikmanni geti það skemmt fyrir ástinni á liðinu ef viðkomandi leikmaður fer eða hættir. Gott dæmi um þetta er þegar Fowler-aðdáendur þurftu að sjá á bak hetjunni sinni. Þó eru alltaf ákveðnir einstaklingar sem lifa í minningunni ... í gegnum tíðina myndi ég segja að John Barnes, Kenny Dalglish, Jason McAteer, Steven Gerrard og Gary McAllister eftirminnilegustu Liverpool-leikmenn sem ég man eftir. Barnes og Dalglish tilheyrðu gullaldarliði Liverpool, McAteer var kannski ekki besti leikmaðurinn í sögu klúbbsins en ég veit ekki um neinn sem barðist jafn mikið fyrir liðið og hann. Þá minnir McAllister mig alltaf á góðar stundir - nafn hans er ævinlega tengt þrennutímabilinu. Og Steven Gerrard er, að mínu mati, besti miðjumaður í heiminum í dag! (að því gefnu að Ronaldinho sé sóknarmaður... of course...)
Ég er mikill íþróttaáhugamaður en þó tekur knattspyrnan um 90% af þeim áhuga. Auk Liverpool FC fylgist ég reglulega með Barcelona á Spáni, AC Milan á Ítalíu og FH á Íslandi. Þessi fjögur lið eru uppáhalds-liðin mín og horfi ég á alla leiki með þeim sem ég kemst yfir. Auk knattspyrnunnar get ég í raun horft á flestallar íþróttir (nema hestaíþróttir) og reyni að spila eins mikið og ég get. Ég reyni að spila eins mikið golf og ég get á sumrin, þótt það sé nú ekkert of mikið ... og svo veit ég fátt skemmtilegra en að fara niðr'á skólavöll og hamast í nokkra klukkutíma í fótbolta eða körfubolta ... og þá helst í rigningu!
Ég æfði fótbolta í rúman áratug. Byrjaði sex ára gamall með Keflavík, þar sem ég bjó á þeim árum í Njarðvík. Fluttist svo átta ára gamall til Hafnarfjarðar og æfði þar með FH allt þar til ég var átján ára. Þá hætti ég en hef reynt að stunda eins mikla lausamennskuknattspyrnu og ég get síðan. Þá æfði ég einnig handbolta með FH, á 10-16 ára aldri, og hef enn mjög gaman af handbolta.
Það mætti segja að aðalstarf mitt sé að horfa á fótboltaleiki og fylgjast með öllu sem snertir Liverpool ... en þess utan þá er ég útskrifaður úr Verzló (2001) og er sem stendur í námi í bókmenntafræði í Háskóla Íslands. Þá starfa ég með skóla hjá Fiskmarkaði Suðurnesja, Hafnarfirði ... með eintómum Man.Utd-aðdáendum!
Þá stefni ég á að hefja feril sem rithöfundur sem fyrst og er fyrsta skáldsagan mín, enn sem komið er, í vinnslu. Ég hóf að vinna hana fyrir rúmu ári síðan og hefur í raun komið á óvart hversu langan tíma það tekur að fullvinna hana. En það eru gæðin sem skipta máli. Þess ber að geta að knattspyrnunnar er hvergi getið í þessari sögu.
Ég hef bloggað í fjögur ár núna, á ýmsum miðlum en þó alltaf í gegnum vefsíðuna mína, KristjanAtli.com. Þar hefur oft verið kvartað yfir því að ég skrifi of mikið um Liverpool og fótboltann og ætti því að gleðja marga að sjá að ég hef fært öll mín Liverpool-skrif yfir á þessa síðu.
Ef þú vilt koma einhverju á framfæri við mig, endilega sendu mér tölvupóst.
Kontakt upplýsingar...
Tölvupóstur: kristjanatli@gmail.com
MSN Messenger: jupiterfrost@hotmail.com
|
|
|