Flokkaskipt greinasafn: Saga

SIR Kenny Dalglish

Þær ánægjulegu fréttir bárust í gær að breska krúnan hefði tekið ákvörðun um að aðla King Kenny Dalglish og verður það staðfest nú á næstu vikum þegar drottningin kallar hann til sín, dúkkar sverði á axlir og staðfestir riddaratign hans.

Við gerum okkur held ég ekki grein fyrir því hversu stórt er litið á þessa orðu. Með virðingu fyrir okkar Fálkaorðu þá erum við færri um þá hitu og henni fylgir ekki sú tign í hjörtum fólks og er í Bretlandi. Dalglish-nafnið er nú komið í breska annála sem ná langt út fyrir íþróttakreðsuna og verður þar löngu eftir að við höfum hætt að skrifa inn á síðuna.

Dalglish sjálfur er hógværðin uppmáluð að venju og bendir á aðra íþróttamenn og stjórnendur sem hefðu verið a.m.k. jafn verðir þessa titils en um leið greinum við auðvitað þann heiður sem hann upplifir að fá titilinn.

Ég held að enginn núlifandi vera sé meiri táknmynd Liverpool FC en King Kenny Dalglish. Hann fékk það stóra hlutverk að fylgja í skó Kevin Keegan og það segir eiginlega allt bara að ári síðar voru bara allir búnir að gleyma þeim geggjaða hrokkinhærða framherja og frá fyrsta degi varð KD7 elskaður í Liverpool. Við sem munum eftir frammistöðum hans getum ornað okkur við gríðarmargar minningar um sigrana hans, mín sterkasta var FA Cup úrslitaleikurinn 1986 þegar hann fór fyrir liðinu sínu sem framkvæmdastjóri og tryggði einu „The double“ í sögu félagsins. En vá hvað margar aðrar eru til.

Sem stjóri bjó hann til lið sem var þess tíma langskemmtilegasta „pass-and-move“ lið í Evrópu en vegna bannsins á ensk lið náðu þeir ekki nema í heimatitla. Dagurinn sem hann hætti var dimmur en sá þegar hann kom til baka bjartur. Ég grenjaði báða dagana, af ólíkum ástæðum.

Fyrir utan fótboltann hefur karlinn heldur betur tekið til sín í samfélagsmálum. Dagarnir í kringum Hillsboroughslysið voru heldur betur prófraun fyrir félagið okkar og þar fór King Kenny fremstur í flokki, fór á allar jarðarfarir sem hann mögulega gat ásamt magnaðri eiginkonu sinni Marinu og kom fram fyrir hönd félagsins þaðan frá á ótal stöðum þegar farið var yfir málið.

Hann er fæddur sigurvegari, náði árangri með Blackburn Rovers og Celtic í stjórastólnum og síðasti bikar sem settur hefur verið í geymslu kom undir hans stjórn, deildarbikarinn 2012. Þrátt fyrir að hann hafi ekki fengið að halda áfram með liðið og röng ráðning hafi komið í hans kjölfar þá sáu FSG til þess að hann yrði áfram á stalli klúbbsins okkar og á liðnu leiktímabili var nafn hans sett á næststærstu stúkuna á Anfield, sem var virðingarvottur við hæfi.

Ég mun ekkert fella tár þegar orðin „Arise Sir Kenny Dalglish“ verða sett í loftið en það er virkilega ánægjulegt að King Kenny sé settur á þann stall sem honum ber, á meðal breska aðalsins. Þar eiga Kóngar heima!!!

Á sama tíma eftir 4 ár

Núna nýlega birtist þessi mynd á Reddit. Hún sýnir hópinn eins og hann leit út fyrir tímabilið 2013-2014. Það sem er athyglisvert er að af öllum þessum hópi manna þá eru aðeins fjórir leikmenn eftir: Henderson, Sturridge, Mignolet og Flanagan. Aðrir eru hættir, hafa verið seldir, nú eða reknir. Og ef við skoðum þessa fjóra sem eftir standa, þá er Sturridge mögulega á leiðinni til Ítalíu, sama gæti átt við um Mignolet, Flanagan líklega á leið í grjótið, og í raun bara Henderson sem gæti mögulega átt einhverja framtíð hjá klúbbnum. Þetta eru því allsvakaleg umskipti á ekki lengri tíma.

Þá spyr maður sig: hvernig verður staðan eftir 4 ár? Undirritaður ákvað því að spyrja lesendur /r/LiverpoolFC hvaða leikmenn þeir teldu að yrðu enn í liðinu eftir 4 ár, þ.e. í janúar árið 2022. 16 svöruðu með afgerandi hætti, og að meðaltali voru um 8.6 leikmenn nefndir í hverju svari. Það er semsagt reiknað með að heldur fleiri verði enn til staðar eftir 4 ár heldur en eru núna fjórum árum eftir 2013/2014 tímabilið ágæta. Mögulega skýrist það af því að fólk telji líklegra að nú séum við með stjóra sem verði e.t.v. enn við stjórnvölinn eftir þennan tíma, eða hugsanlega að fólk telji meðalaldurinn vera þannig að leikmenn séu komnir til að vera. Ein skýring gæti líka verið sú að fólk telji að leikmannakaupin síðustu árin hafi e.t.v. verið gáfulegri heldur en árin þar á undan.

En hverjir gætu svo þessir 9 leikmenn verið? Þessir fengu a.m.k. flest atkvæði:

 1. Virgil van Dijk – 15 stig
  Já flestir telja að við séum komin með framtíðarleikmann með nýjustu kaupunum. Þarf kannski ekki að koma á óvart.
 2. Trent Alexander-Arnold – 14 stig
  Fólk virðist hafa litla trú á því að Scouserinn okkar sé að fara neitt annað.
 3. Alex Oxlade-Chamberlain – 14 stig
  Fólk hefur trú á því að Chambo muni reynast okkur vel, því tæpast væri hann enn á staðnum annars eftir 4 ár? Ég held að síðustu vikur hafi sýnt okkur að hann hefur allt til að bera til að vera a.m.k. næstu 4 ár hjá klúbbnum.
 4. Joe Gomez – 13 stig
  Fólk virðist líta svo á að vörnin okkar sé komin til að vera, og þrátt fyrir að Joe okkar hafi verið ögn mistækur eru líkur á að hann muni læra með tímanum og verða bæði öflugur og mikilvægur í vörninni.
 5. Bobby Firmino – 11 stig
  Hver veit, kannski verður gerður við hann samningur til lífstíðar? Margir virðast a.m.k. vera á því að þessi litríki (*hóst* gul spjöld fyrir fagnaðarlæti *hóst*) framherji okkar verði hér áfram. Sumir tala jafnvel um hann sem mögulegan fyrirliða.
 6. Andy Robertson – 9 stig
  Skotinn með stállungun er búinn að vera að vinna sig inn í hjörtu Liverpool stuðningsmanna á síðustu vikum, og margir vilja sjá hann hér til langframa. Segir ekki sagan líka að Liverpool vinni aðeins titil með Skota innanborðs?
 7. Joel Matip – 7 stig
  Eins og áður sagði virðist fólk líta svo á að vörnin okkar sé orðin bara ágætlega mönnuð, og telja að Matip verði áfram innanborðs næstu 4 ár.
 8. Naby Keita – 7 stig
  Keita er vissulega ekki opinberlega orðinn Liverpool leikmaður, en það voru engu að síður margir sem nefndu hann.
 9. Ben Woodburn – 7 stig
  Þó svo að prinsinn af Wales hafi fá tækifæri fengið í vetur, þá megum við ekki gleyma að hann er aðeins 18 ára (verður 19 á árinu), og verður því aðeins 22ja ára í janúar 2022.

Næstu menn inn voru Mané með 6 stig, Clyne og Winjaldum með 4, Karius, Moreno og Solanke með 3 og aðrir minna. Áhugavert fannst mér hve fáir reiknuðu með að Salah yrði hér eftir 4 ár. Þá voru leikmenn eins og Mignolet, Lovren, Milner, Can, Sturridge, Ward, Flanagan og Markovic ekki nefndir á nafn.

Einhver grínistinn nefndi Griezmann, og Klavan var einusinni nefndur á nafn, og þá sem sá sem hefði tekið við Klopp sem knattspyrnustjóri liðsins. OK mögulega var ekki full alvara að baki öllum svörunum.

Hér er að sjálfsögðu aðeins um framtíðarpælingar að ræða, og tíminn einn mun leiða í ljós hve stór hluti hópsins verður enn til staðar eftir 4 ár. Persónulega telur greinarhöfundur að það muni skipta miklu hvort Klopp haldi áfram með hópinn, eða hvort það verði skipt um knattspyrnustjóra á miðri leið (sem vonandi gerist ekki!)

Að lokum væri gaman að sjá hvað lesendur kop.is halda í þessum efnum. Hvaða leikmenn sjáið þið fyrir ykkur í liðinu í janúar árið 2022? Setjið endilega ykkar pælingar í athugasemdir. Við skoðum svo niðurstöðuna að fjórum árum liðnum.

Hversu mikið spilar „byrjunarliðið“?

Fjarvistir lykilmanna geta hæglega skorið úr um leiki, það segir sig sjálft. Auðvitað skipta fjarvistir lykilmanna misjafnlega miklu máli, það er sem dæmi allajafna ekki jafn stórt högg að missa vinstri bakvörð og það er að missa helsta markaskorara liðsins. Allar fjarvistir hafa engu að síður áhrif á þá keðju sem liðsheildin er og því meiri sem þær eru því meira kemur það væntanlega niður á leik liðsins.

Öll lið í nútíma fótbolta samanstanda af 25-30 manna leikmannahópum sem hjálpar liðunum við að takast á við fjarvistir lykilmanna en hjá flestum liðum er nokkuð auðvelt að sjá hvaða 11-16 eru lykilmenn.

Samkeppnin á Englandi hefur aukist verulega undanfarin ár og mun fleiri af hinum svokölluðu minni liðum hafa núorðið bolmagn til að vera miklu betur samkeppnishæf og njóta oft góðs af því að missa sjaldnar lykilmenn í meiðsli þökk sé mun minna leikjaálags. Leicester sýndi á síðasta tímabili að bókstaflega allt er mögulegt, sérstaklega ef liðið sleppur nánast alveg við meiðsli.

Toppbaráttan á Englandi er svo jöfn um þessar mundir að aðeins tvö stig skilja að efsta sætið og sjötta sætið ef allar þrjátíu umferðir ársins 2016 eru lagaðar saman. Þegar staðan er svona jöfn er ljóst að hvert einasta atriði sem eykur líkur á sigri skiptir máli.

Einn mælikvarði er að skoða mínútufjöldan sem lykilmenn toppliðanna spiluðu yfir heilt tímabil. Þetta svarar ekki öllum spurningum en kannski opnar á vinkil sem við höfum ekki mikið skoðað í tölum. Það að horfa á spilaðar mínútur tekur ekki mið af heilsu leikmanna meðan þeir spiluðu, okkar menn voru sem dæmi oft að spila 2-3 leiki á viku á síðasta tímabili. Eins er ekki tekið mið af meiðslum eins og þeim sem Henderson var að glíma við en spilaði oft þrátt fyrir að vera meiddur. Þessi mælikvarði er ekki nærri því fullkominn frekar en aðrir mælikvarðar í fótbolta en spilaðar mínútur gefa okkur engu að síður ágæta hugmynd um hvað liðin voru að glíma við.

Hvað spilaði „besta byrjunarliðið“ mikinn hluta af tímabilinu?

Hvernig var besta byrjunarlið Liverpool á síðasta tímabili í samanburði við liðin sjö sem enduðu fyrir ofan og hvernig er núverandi tímabil í samanburði við undanfarin ár hjá okkar mönnum. Þetta langaði mig að skoða betur og til þess að gera það setti ég upp besta byrjunarlið hvers liðs út frá blöndu af mínútum spiluðum, augljósu mikilvægi leikmanns og huglægu mati. Sem dæmi tel ég Sturridge klárlega með sem byrjunarliðsmann hjá Liverpool þó hann hafi spilað mjög lítið. Sama á við um leikmenn í öðrum liðum sem væru klárlega (að ég held) byrjunarliðsmenn væru þeir heilir, Vincent Kompany sem dæmi flokka ég sem byrjunarliðsmann hjá Man City.

Hvert lið er með 25-30 menn á skrá og það er ekki til neitt ellefu manna byrjunarlið sem spilar saman 38 leiki (Leicester fór reyndar ansi nálægt því). Því er ljóst að ekki er hægt að stilla þessu upp þannig að allir séu sammála. Ég er búinn að liggja töluvert yfir þessu og útskýri hvert lið betur neðar í færslunni.

Svona kemur minn samanburður út þegar borið er saman bestu byrjunarlið efstu liðanna á síðasta tímabili.

2015-16-samantekt
Hér má sjá hvernig hverju liði var stillt upp

Continue reading

Spion Kop

Knattspyrnuaðdáendur um allan heim hafa heyrt um Kop-stúkuna á Anfield Road, líklega sögufrægustu stúku knattspyrnuheimsins þar sem harðasti kjarni stuðningsmanna Liverpool er samankomin á heimaleikjum. Kop-stúkan er gríðarlega stór partur af sögu félagsins og er hún líklega litlu minna þekkt heldur en völlurinn sjálfur. Kop-stúkan er í fullu fjöri enn í dag en saga hennar er þó meira en aldargömul og sagan á bak við nafnið er ennþá eldri og engu minna merkileg. Mörg okkar þekkja þessa sögu ágætlega, bæði hvaðan nafnið er komið og eins hvers vegna stúkan er svona stór partur af sögu félagsins.

Spion Kop-nafnið var komið og orðið partur af Anfield Road áður en búið var að byggja þar stúku og reyndar eru fjölmargir vellir á Bretlandseyjum með stúku sem ber sama nafn og hafa jafnvel gert í meira en heila öld. Það var ekki einu sinni á Anfield Road sem Spion Kop var fyrst notað til að nefna stúku á knattspyrnuleikvangi. Þar hins vegar hefur Spion Kop orðið stór og órjúfanlegur partur af knattspyrnusögunni og þá auðvitað sérstaklega sögu Liverpool FC.

Áður hef ég farið yfir tengingu Liverpool við lagið You’ll Never Walk Alone og eins skoðaði ég ítarlega tengingu Liverpool við knattspyrnuleikvangana Heysel og Hillsborough. Spion Kop hlýtur að vera næst í röðinni og hef ég verið með það í maganum í nokkurn tíma að skoða einnig sögu stúkunnar sem er ennþá órjúfanlegri partur af sögu félagsins. Við erum jú að halda úti vefsíðunni Kop.is. Sagan á bak við Spion Kop er mun viðameiri, merkilegri og flóknari en mig óraði fyrir í upphafi.

Spion Kop

Spion Kop er eins og kunnugt er fjall í Suður-Afríku sem komst í sögubækur er margir breskir hermenn féllu þar í frægum bardaga í Suður-Afríkustríðinu, betur þekkt sem Seinna-Búastríðið sem háð var á árunum 1899-1902. Margir þeirra hermanna sem féllu á Spion Kop voru frá Lancashire og er nafnið tileinkað minningu þeirra, Liverpool var á þessum tíma partur af Lancashire-sýslu (um aldamótin 1900) og margir af þeim sem féllu voru því þaðan. Mikið dýpra er oftast ekki farið ofan í tengingu stúkunnar við fjallið en mig langaði til að kafa aðeins dýpra og skilja betur afhverju þetta 1460m háa fjall í Suður-Afríku var svo nærri hjarta almennings í Bretlandi í upphafi síðustu aldar, svo nærri að fjölmargar stúkur voru nefndar eftir þessu tiltölulega ómerkilega fjalli. Hverjir voru Búar sem Bretar voru í stríði við og af hverju áttu þessar þjóðir yfir höfuð í stríði?

Til að skilja söguna á bak við Búastríðið þarf að þekkja sögu þessa landsvæðis sem í dag kallast Suður-Afríka, það er ekkert nýtilkomið að pólitík á þessu svæði sé snúin.
Continue reading