Flokkaskipt greinasafn: Opin Umræða

Opinn þráður – Karius, slúður og Lijnders

Á yfirborðinu er ansi rólegt hjá okkar mönnum þessa dagana en við fengum auðvitað óvænta sprengju í síðustu viku þegar félagið tilkynnti kaupin á Fabinho frá Monaco.

Rétt til að renna yfir það helsta í slúðrinu þá er lítið að frétta af Nabil Fekir. Viðræður á milli liðana ganga hægt og spurning hvort takist að klára kaupin fyrir HM en Frakkland heldur til Rússlands á fimmtudaginn svo tíminn er orðinn ansi naumur.

Roberto Firmino og Dejan Lovren leiddu saman hesta sína á Anfield um helgina þegar Brasilía og Króatía léku æfingaleik fyrir HM. Leiknum lauk með 2-0 sigri Brasilíu og Roberto Firmino kom inn á sem varamaður og að sjálfsögðu skoraði hann í blálok leiksins með góðu marki fyrir framan Kop stúkuna.

Slúðrið frá brasilískum miðlum segir að Liverpool hafi nýtt tækifærið og rætt við fylgdarlið markvarðarins Alisson sem er sagður vera ofarlega á forgangslista Liverpool í sumarglugganum. Real Madrid hefur líka áhuga á Alisson og er sagt að valið standi á milli Liverpool og Real Madrid. Bæði lið heilli en á ólíkan hátt. Sjáum hvað setur, líkt og með Fekir þá er tíminn til að klára kaupin fyrir HM að verða ansi naumur.

Í kvöld var Liverpool óvænt orðað við 22ja ára nígerískan kantmann frá Gent í Belgíu. Hann heiti Moses Simon… nei, notum fullt nafn. Hann heitir Moses Daddy-Ajala Simon. Alltaf kaupa mann sem heitir Daddy!

Þekki nú ekkert til þessa Simon en hann er hraður og leikinn kantmaður og er einn þeirra sem Liverpool er að fylgjast með og mun jafnvel reyna að fá í sumar. Hann er talinn kosta tíu milljónir punda og á ár eftir af samningi sínum við belgíska liðið. Sjáum hvað setur en eftir að hafa heyrt Leon Bailey, Pulisic, Ousmane Dembele, Malcom og Wilfried Zaha oraða við Liverpool í kantstöðurnar þá er þetta ákveðin „skellur“ ef þetta yrði sá sem félagið kaupir. Meira um það ef af þessu verður.

Hann hefur verið í nígeríska landsliðshópnum en missir því miður (kannski ekki fyrir okkur Íslendinga) af HM þar sem hann meiddist á mjöðm um daginn og nær ekki að vera klár í tæka tíð. Skellur fyrir strákinn en ef Liverpool kaupir þennan strák þá gætum við séð tvo Nígeríumenn bætast í æfingahópinn í sumar.

Taiwo Awoniyi hefur verið á mála hjá Liverpool síðan 2015 en hefur ekki fengið leikheimild í Englandi síðan þá og verið lánaður til félaga í Hollandi, Þýskalandi og í Belgíu. Hann var síðast á láni hjá Mouscron í Belgíu og gerði vel, var í myndinni fyrir landsliðshópinn fyrir HM en náði ekki í næst síðasta úrtakshópinn. Hann hefur fengið leyfi til að dvelja með Liverpool í Bandaríkjunum þar sem það verður í æfingaferð í sumar og gæti verið með hópnum þar. Hann er talinn skrifa undir nýjan samning og fara á láni til stærra liðs sem spilar í Evrópudeildinni og hefur Anderlecht verið nefnt til sögunnar. Gangi það eftir gæti hann fengið atvinnuleyfi í Englandi og loksins komist til Liverpool.

Liverpool sendi Loris Karius í skoðun til sérfræðina í höfuðmeiðslum á sjúkrahúsi í Boston þar sem kom í ljós að hann hafi hlotið heilahristing eftir samstuð (árás) Sergio Ramos í úrslitum Meistaradeildarinnar. Kannski útskýrir það eitthvað mistök hans í leiknum en kannski ekki, staðreyndin að minnsta kosti sú að hann hlaut heilahristing eftir atvikið.

Pepijn Lijnders hefur aftur tekið við stöðu í þjálfarateymi Klopp fyrir komandi leiktíð. Lijnders þekkir nú mjög vel til Klopp og Liverpool enda búinn að vera í félaginu í einhver 4-5 ár núna og verið stór partur í þjálfarateyminu hjá Klopp síðan hann tók við. Hann er mikils metinn þjálfari bæði hjá Liverpool og í bransanum en hann yfirgaf klúbbinn fyrr á leiktíðinni og tók við starfi í hollensku 1.deildinni. Lið hans rétt missti af sæti í efstu deild og var hann látinn fara. Klopp var ekki lengi að bjóða honum að koma aftur heim til Liverpool en ekki er enn búið að gefa upp hvert hlutverk hans verður. Buvac fór í „frí“ undir lok leiktíðar og óvíst er með framhaldið hjá honum hjá félaginu, nákvæmt hlutverk Lijnders gæti orðið skýrara þegar ljóst verður hvort Buvac snýr aftur eða ekki.

Þetta er svona það allra helsta sem hefur verið að frétta síðustu daga, vonandi fáum við einhverjar stórar og jákvæðar fréttir af klúbbnum á næstu dögum. Annars er þetta opinn þráður og þið megið ræða það sem þið viljið (innan siðsamlegra marka!!) hérna.

Kudos á klúbbinn

Árshátíð Liverpool klúbbsins fór fram um síðustu helgi og vil ég fyrir hönd félaga minna á Kop.is þakka kærlega fyrir helgina. Þeir stuðningsmenn Liverpool sem aldrei hafa mætt á árshátíð klúbbsins átta sig eiginlega alveg pottþétt ekki á því hversu vegleg þessi hátíð er. Flest erum við orðin vön því að heyra árlega að eitthvað risanafn úr sögu félagsins verði heiðursgestur og tökum því nánast sem sjálfsögðum hlut.

Það þarf ekki annað en að skoða önnur félög hér á landi sem mörg halda einnig úti öflugum stuðningsmannaklúbbum til að átta sig betur á hvurslags starf klúbburinn hér hefur verið að vinna undanfarna áratugi.

Jamie Carragher var auðvitað heiðursgestur að þessu sinni og mættu um 300 manns á Grand Hótel. Hann tók frábært Q&A í um klukkutíma, svo gott að það hélst sæmilega þögn í salnum á meðan sem er að ég held einstakt eftir 22:00 á svona samkomu hér á landi.

Eyþór Ingi mætti einnig, reyndar sem Kristján Jóhannsson stórsöngvari og fór fullkomlega á kostum. Þetta er grínisti sem getur sungið mikið frekar en öfugt. Stórvinur okkar Hreimur Örn sá svo um tónlistina ásamt Rúnari Eff og sjálfum Bigga Nielsen. Villi Naglbítur gerði einnig stórvel í að stjórna samkomunni.

Ferðafélagar Carragher sem koma að styrktarstjóðnum hans (Carra23) voru svo með lottó og eins uppboð á ýmsum Liverpool tengdnum varningi, pabbi hans þar fremstur í flokki en þar er á ferðinni enn meiri meistari en Jamie. Mummi hjá LFCHistory var t.a.m. að senda montsnap af áritaða Xabi Alnoso bolnum sínum, bölvaður.

Kvöldið endaði svo á að hótelið bað okkur vinsamlega um að hætta að syngja Allez Allez Allez svona hátt í lobbý-inu.

Stórvel heppnað og alls ekki eitthvað sem við ættum að taka sem sjálfgefnu. Eins var gaman fyrir okkur sem höldum úti þessari síðu að hitta á fjöldan allan af lesendum síðunnar sem og ferðafélögum okkar til Liverpool undanfarin ár.

Frábær upphitun fyrir næstu helgi. Takk fyrir okkur.


Formaður Liverpool klúbbsins Bragi Brynjarsson (sá mikli meistari) tilkynnti á hátíðinni að hann ætlar að láta af embætti á næsta aðalfundi og er vert að þakka Braga fyrir frábært starf undanfarin ár, furðulegt að hugsa sér klúbbinn án hans.


Aðeins til að árétta að lokum, þó að því sé stundum ruglað saman þá tengist Kop.is Liverpoolklúbbnum á Íslandi ekki með neinum formlegum hætti. Steini er sá eini af okkur sem hefur starfað fyrir klúbbinn. Hinsvegar er góður kunningsskapur og við höldum auðvitað öll með sama liðinu.

Lengsta landsleikjahlé sögunnar? (opinn)

Einhvern veginn finnst manni alltaf þessi landsleikjahlé alltof löng þegar skemmtiefni eins og LFC á í hlut þetta árið.

Maður er bara búinn að gleyma vangasvipnum á Klopp, ótrúlegum hraða Salah, yfirvegun Van Dijk og þreytusvip hjá honum „Millie“ okkar (finnst það alltaf jafn kjánalegt í viðtölum við Klopp þegar gælunafnið Millie er tengt við liðið okkar, finnst það meira svona ein á áttræðisaldri í suðurríkjum Bandaríkjanna).

Við eigum marga landsliðsmenn sem hafa þeyst um heiminn og að loknum fyrri leiknum eru enn að mestu góðar fréttir af líkamsástandi ferðalanganna okkar. Þó virðist ljóst að Gomez verður út a.m.k. á móti Palace en bæði Lovren og Can eru á Melwood með þeim leikmönnum sem eru í landsleikjafríi og góðar vonir um þá báða í baráttuna um Selhurst Park.

Flestar deildir liggja niðri svo að meira að segja lánsmennirnir okkar hafa líka verið í pásu. Harry Wilson hélt þó upp á fríið með því að leika landsleiki með Wales og skora sitt fyrsta landsliðsmark í 6-0 sigri á Kína. Strákurinn sá hefur heldur betur slegið í gegn á láni hjá Hull City og notaði tækifærið í viðtölum og talaði um draum sinn um að spila fyrir Liverpool í kjölfar landsliðsmarksins. Wilson hefur verið frábær í vetur í leikjum U23ja ára liðsins okkar, þeirra langbesti maður og er saknað sárt þar. Hann varð strax mikilvægur hlekkur í leik Hull og hefur verið stór þáttur í mjög bættu gengi hjá því liði.

Það er vissulega stórt skref fyrir Wilson að stíga inn í sóknarlínu LFC, við vitum öll hverjir eru þar fyrir og eru ekki líklegir til að gefa sætið sitt eftir. Wilson hefur hins vegar einmitt þá eiginleika sem að fullkomnaðir eru af draumatríóinu Salah, Firmino og Mané. Hann er mjög fljótur og býr yfir mikilli tækni, með magnaðan vinstri fót sem hefur skilað mörkum úr föstum leikatriðum hægri vinstri. Hann er líka gríðarlega duglegur í pressunni, nokkuð sem Klopp mun örugglega horfa til líka. Ef að hann heldur áfram á sömu braut fram í maí er ég alveg á því að hann fái meiri tækifæri til að sanna sig í alrauða búningnum og mig langar mikið til að hann „meiki’ða“ á Anfield. Sakna þess að hafa ekki welskan sóknarmann í liðinu okkar!

Einmitt talandi um að sakna…og þá Wilson. U23ja liðið okkar átti frábærri velgengni að fagna fram í janúar, voru þá langefstir í deildinni sinni og bæði í bikar- og Evrópukeppninni. Í janúar voru nokkrir leikmenn sendir til annarra liða. Auk Wilson fór fyrirliðinn Corey Whelan til Yeovil, Matty Virtue til Notts County (er kominn til baka núna) og Ovie Ejaria til Sunderland…og svo Flanagan og Grujic líka en þeir tóku þátt í nokkrum leikjum í vetur. Skemmst frá því að segja þá hefur botninn dottið úr. Af síðustu leikjum hafa þeir unnið 1 en tapað 7. Komnir niður í 4.sæti í deildinni sinni og fallnir út úr öllum bikarkeppnum. Það er pínu svekk fyrir svona nörda eins og mig. Það var frábært að horfa á þetta lið tæta lið í sig lengst af tímabilinu en skarðið sem var höggvið í janúar var bara of stórt.

Jurgen Klopp hefur verið óspar að kalla unga leikmenn upp úr liðinu til að æfa með aðalliðinu. Áherslur hans voru á sínum tíma svolítið þær að halda leikmönnum í Liverpool frekar en að lána en það virðist þó vera komin sú lína að á ákveðnum tímapunkti vilji hann að leikmenn fari í „meistaraflokksumhverfi“. Ejaria og Wilson settir til stórra klúbba á neðri deildar mælikvarða með það fyrir augum að sjá hvort þeir eru tilbúnir að fara inn í aðalliðshóp og Whelan (sem var fyrirliði U23ja) látinn finna bragðið í D-deildinni. Það að fórna titlum í U23 auðvitað svosem minniháttar atriði ef horft er í stóra samhengið.

Á meðan að U23ja hefur dalað hefur U18 liðið sem stjórnað er af Stevie G verið að stíga upp. Jafntefli í fyrstu leikjum mótsins í haust eru að kosta ansi mikið þessa stundina eftir að liðið hefur unnið býsna marga leiki frá áramótum. Þegar þetta er skrifað er liðið nýdottið út úr UEFA-unglingadeildinni eftir tap í vítakeppni fyrir Manchester City og úr FA-bikarnum fyrir Arsenal eftir framlengingu. Þeir eru í 2.sæti í deildinni en með örlögin í sínum höndum. Með því að vinna þá leiki sem þeir eiga inni á Man. United og síðan innbyrðis viðureign liðanna í næst síðustu umferð kæmust þeir uppfyrir erkifjendurna og ynnu norðurriðil deildarinnar.

Þetta lið spilar fótbolta í anda Klopp og með Gerrard áherslum, grjótharðir og „direct“ á margan hátt og vel þess virði að stilla inn á leikina þeirra. Þarna eru spennandi nöfn, þekktastur sennilega er Rhian Brewster, framherji sem verið hefur að sniglast í kringum aðalliðið og aðalstjarna U17 hjá Englandi. Hann hefur lítið spilað í vetur vegna meiðsla en sýnir heldur betur hæfileikana í treyjunni. Það eru miðjumenn þarna sem gaman er að horfa til, Norðmaður að nafni Edvard Tagseth kom í haust og hefur stimplað sig inn sem mikill vinnuhestur með góða tækni og Portúgalinn Rafa Camacho hefur verið sá sem mest hefur skapað, spilar allar stöðurnar aftan við senter í 4-2-3-1 og er mikill hausverkur fyrir mótherjana.

Mér finnst þó sá sem mest er spennandi vera Curtis nokkur Jones sem er nýorðinn 17 ára en styrkurinn og krafturinn gefur til kynna mun þroskaðri einstakling. Þessi strákur hefur alla burði til að vera mjög öflugur „box-to-box“ miðjumaður af gamla skólanum. Þessi vinnur tæklingar og skallaeinvígi, sópar upp í vörninni með mikla sendingargetu og skorar reglulega. Frá því í janúar verið fastur maður í U23ja, fengið að æfa töluvert með aðalliðinu og alger lykill að þeim árangri sem U18 eiga möguleika á.

Annars er þráðurinn opinn, við vitum auðvitað af Selhurst Park eftir 4 daga, þar er verðugt verkefni á ferð, hindrun sem verður að yfirstíga fyrir risaverkefnin þar á eftir, double-header við Man.City í CL og svo smá Merseyside derby troðið milli þeirra viðureigna.

Hvenær endar þetta landsleikjahlé eiginlega!?!?!?!?

Opinn þráður – Interlull, meiðsli og Návígi

Þetta er klárlega eitt allra leiðinlegasta landsleikjahlé tímabilsins hvert ár. Töluvert síðan það voru landsleikir síðast, ekkert nema grútleiðinlegir æfingaleikir og þetta er sérstaklega slæmt fyrir okkur núna enda allt að frétta hjá Liverpool á tveimur vígstöðvum.

Þetta er þannig svolítið lognið á undan storminum því að næstu helgi bíður Crystal Palace, svo City, Everton og City áður en við endum þessa törn á Bournemouth. Tveir leikir á viku og allt undir.

Joe Gomez var í byrjunarliði Englendinga í gær en fór meiddur útaf eftir 10 mínútur. Meiddur á ökkla en ekki vitað hversu alvarlega. Hann á nú skilið nokkur meiðslalaus ár blessaður. Emre Can var síðan sendur heim úr Þýska landsliðshópnum, ennþá meiddur í baki eftir síðasta leik.

Annars er ekki mikið að frétta, mælum þó eindregið með þessum þætti hjá Gulla Jóns, tengist Liverpool að hluta til að þessu sinni. Ljóst að við þurfum að fá Rúnar í podcast einhverntíma.