Flokkaskipt greinasafn: Opin Umræða

Tilboði í Keita hafnað, enn von engu að síður.

Fréttir í gær og dag segja að tilboði Liverpool (£57m) hafi verið hafnað af Leipzig. Ekkert sem kemur á óvart þar en þetta er engu að síður fyrsta formlega boð Liverpool í kappann sem kannski gefur til kynna að eitthvað er að gerast í þessu máli. Það er ólíklegt að Liverpool leggi inn tilboð upp úr þurru án þess að hafa rætt við Leipzig áður.

Hinn klettharði Ralf Ragnick sem er yfirmaður knattspyrnumála hjá Leipzig heldur því auðvitað áfram fram að hann sé ekki til sölu sama hvert boðið er enda væri það afleikur að segja eitthvað annað útávið. Hann er með góða hönd í þessum póker en fréttir í dag herma engu að síður að hann sé ekki einráður hjá Leipzig og að félagið gæti verið tilbúið að selja hann fyrir rétta upphæð.

Melissa Reddy er blaðamaður hjá Goal.com en telst ágætlega trúverðug þegar kemur að fréttum tengdum Liverpool (svona svipað og Barrett, Joyce, Bascombe og Pearce eru eða hafa verið). Hún setti þessa frétt í loftið í morgun. Áréttum auðvitað að þetta er ekkert gospel þó þetta komi frá vel tengdum blaðamannai, engu að síður nokkuð ljóst að Liverpool lagði inn tilboð.

Aðalatriði í þessu er samt hugur Keita sjálfs, ef hann vill fara og Liverpool er tilbúið að greiða „það sem þarf“ til að fá hann er líklegra en ekki að liðin komist að samkomulagi. Spurning líka hvað Leipzig er tilbúið að ganga langt í að halda ósáttum leikmanni innan liðsins og hvaða áhrif það hefur á aðra leikmenn þegar kemur að því að semja við Leipzig. Þetta er auðvitað dans sem öll lið glíma við og bæði Keita og Liverpool þurfa auðvitað að virða að Keita skrifaði sæll og glaður undir samning hjá Leipzig sem stendur ennþá. Þeir ráða þessu á meðan.

Tilboðið sem talað er um núna er sagt vera nokkura daga gamalt sem kannski sýnir best hvað blaðamenn vita lítið um það sem er að gerast bak við tjöldin.

Það er 14.júlí í dag, Klopp sagði í þessari viku að hann væri ekki stressaður yfir stöðu mála og við ættum því alls ekki að vera það heldur, ekki í bili a.m.k.

Tilboð í Lucas
Takist Liverpool að kaupa Keita er ljóst að einhver fer í staðin og líklega liggur beinast við að sá leikmaður verði Lucas Leiva og rétt í þessu voru fréttir að berast af tilboði Lazio í kappann.


Þetta væri flott fyrir Lucas, hann á nóg eftir fari hann í einhverja af stóru deildunum á meginlandinu.

Liverpool er nú þegar betra
Annars er ágætt líka að hafa í huga grein Paul Tomkins frá því í gær þar sem hann benti á að Liverpool væri nú þegar mun sterkara en undir lok síðasta tímabils.

Wigan í kvöld
Annars er æfingaleikur í kvöld, hinn leikurinn sem Liverpool tekur nálægt heimaslóðum á upphafsstigum undirbúningstímabilsins. Salah, Lallana og Coutinho gætu komið við sögu þar.

Opinn þráður – slúður

Landsleikjahelgi að baki og því gætum við farið að fá aðeins meiri hreyfingu á leikmannmarkaðnum í þessari viku og næstu þó glugginn sé vissulega ekki formlega opinn. Flest lið vilja klára sín stærstu leikmannakaup áður en undirbúningstímabilið hefst í byrjun júlí.

Það hefur svosem ekki mikið nýtt verið að frétta út herbúðum Liverpool. Félaginu tókst á einstakan hátt að klúðra Van Dijk kaupunum (í bili). PSG lenti í svipuðu þegar þeir keyptu Silva en í þeirra afsökunarbeiðni var ekki talað um að áhugi á leikmanninum væri ekki lengur til staðar og þeir kláruðu kaupin á honum stuttu síðar. Líklega veltur þetta mikið á leikmanninum. Ef hann vill sannarlega fara til Liverpool umfram önnur lið sem eru á eftir honum (og tilbúinn að borga uppsett verð) endar hann líklega hjá Liverpool.

Orðrómur um Salah er öllu háværari og líklega verður hann næsti leikmaður sem við sjáum halla sér upp að einhverju á Melwood. Vonum það a.m.k.

Solanke var valinn besti leikmaður á HM U20 ára, slíkir leikmenn, hvað þá enskir kosta vanalega öllu meira en 3m. Klopp og félagar vita alveg hvað þeir eru að gera hvað þessi kaup varðar og vonandi voru þessi kaup á honum ekkert annað en rán um hábjartan dag.

Eins er ennþá lifandi orðrómurinn um Ox-Chamberlain hjá Arsenal en ég veit ekki hversu áreiðanlegt það er. Líklegra er að umboðsmaðurinn hans sé að pumpa upp næsta samning hjá umbjóðanda sínum enda hann í mjög sterkri stöðu.

Ennþá er ekkert að frétta af nýjum samningi við Emra Can sem hefur verið orðaður við Juventus undanfarið. Fáránlegt að klára hans mál ekki mikið fyrr en þetta.

Eflaust er margt meira í slúðurpakkanum tengt Liverpool eins og Savic og Keita frá Lazio eða Keita frá Leipzig en vanalega tekur því ekki að spá í þessu fyrr en Liverpool blaðamennirnir eru farnir að fjalla um þetta af einhverri alvöru.

Já og svo er auðvitað þetta slúður, Paddy greinir það 100%

Opinn þráður – leikmannakaup

Podcast á dagskrá í kvöld en opinn þráður fram að því.

Markaðurinn er auðvitað ekki opinn ennþá og flestir ef ekki allir leikmenn farnir í frí eftir langt tímabil. Það er eiginlega bara eitt lið sem er að klára kaup á leikmönnum fyrir þessi mánaðarmót og Dan Kennett var með áhugaverðar vangaveltur um það afhverju það gæti verið.

Á móti myndi maður ætla að Liverpool sé ágætlega statt eftir þetta tímabil hvað FFP varðar og með svigrúm til að bæta við leikmanni enda engu eytt í leikmenn á síðasta tímabili.

Liverpool hafa klárað sín innkaup nokkuð snemma undir stjórn FSG og miðað við orð Klopp um að leikmannakaup væru að miklu leiti frágengin myndi maður ætla að ansi margt gerist í júní (áður en undirbúningstímabilið hefst). Líklega eru flest liðin að hugsa þetta þannig.

Mín spá, við kaupum fæsta af þeim sem helst hafa verið orðaðir við Liverpool en eftir síðasta glugga treysti ég Liverpool mun betur en oftast áður til að bæta liðið. Klárlega betur en sumarið 2014 þegar liðið veiktist umtalsvert fyrir tímabil í Meistaradeild.

Michael Edwards var lykilmaður síðasta sumar og virkar betur á mann sem æðsti maður hvað þetta varðar í samanburði við Ian Ayre. Eins er Klopp með þá Buvac og Krawietz mun meira sannfærandi en Rodgers og Pascoe. Sé núverandi teymi ekki klúðra glugganum svo fullkomlega að hann endi á vali á panic kaupum á Balotelli eða öldruðum Eto´o.

Lovren, Gerrard, nýr búningur

Gleðilegan föstudag. Afsakið veðrið.

Það eru nokkrar áhugaverðar fréttir úr herbúðum okkar manna í þessari leikjalausu viku. Í morgun var það staðfest að Dejan Lovren hefur skrifað undir nýjan langtímasamning við félagið. Hann er 27 ára og hefur leikið fyrir Liverpool í þrjú ár. Það eru ekki allir sammála um ágæti Lovren en þessi samningur þýðir væntanlega að Klopp er með hann í sínum áætlunum og hann verður þarna áfram a.m.k. næsta vetur.

Þá kynnti félagið nýjan heimabúning fyrir leiktíðina 2017/18. Lovren er einmitt í henni á myndinni hér að ofan. Hvað finnst ykkur? Ég persónulega hugsa að ég fari í fyrsta skipti í nokkur ár út í búð og kaupi mér þessa. Ótrúlega flott treyja, bæði nýtískuleg og minnir á treyjurnar frá gullöldinni okkar fyrir þrjátíu árum.

Þá er Steven George Gerrard orðinn stjóri U-18 liðs Liverpool. Neil Critchley, sem stýrt hefur liðinu, tekur við U23-liðinu í staðinn þannig að hann er klárlega að fá stöðuhækkun til að koma Gerrard fyrir.

Ég held að það sjái allir í hvað stefni: ef stjórastarfið reynist eiga vel við Gerrard verður hann orðinn U23-stjóri áður en langt um líður og þá er nokkuð borðliggjandi að hann verði næsti knattspyrnustjóri Liverpool FC þá og þegar að Klopp hverfur af vettvangi, sem verður vonandi ekki alveg á næstunni. En það er ljóst í hvað stefnir með Stevie G.

Eitthvað fleira? Orðið er laust. Góða helgi.

Molar á mánudegi

Í upphafi svona mánudags skulum við fyrst af öllu skoða stöðutöfluna í einu keppninni sem skiptir máli (eða, þið vitið, þeirri einu sem Liverpool er enn þátttakandi í fram á vorið):

tafla_130217

Þessi sigur um helgina var einfaldlega það stór að í stað þess að sitja í 6. sæti og með öll liðin fyrir ofan okkur eru okkar menn í 4. sæti og eiga enn eftir að fá Arsenal í heimsókn (og heimsækja City). Það sem er samt í raun áhugaverðast við töfluna er formið á Liverpool. Loksins kom eitt grænt ‘W’ á þá töflu í deildinni, en liðið hafði í alvöru ekki unnið deildarleik síðan gegn City á gamlárs.

Þetta er galopin tafla. Liverpool getur lent í 2. sæti í vor, Liverpool getur líka lent í 6. sæti. Game on.


Af leikmannamálum er lítið að frétta. Eftir tíðindalausan janúarmánuð hafa helst verið fréttir af því að leikmenn eins og Adam Lallana og Dejan Lovren séu við það að fá nýja samninga. Sennilega sýnir það okkur að Jürgen Klopp sé að meta hópinn sinn, verðlauna þá sem hann vill halda í lykilhlutverkum og sía hina í burtu. Ég sé t.d. Alberto Moreno, Daniel Sturridge eða Kevin Stewart ekki eiga mikla framtíð þegar þeir eru varla að fá mínútu með liðinu undanfarið og það er ekkert eftir nema deildin fram á vorið. Ég yrði hissa ef við sjáum Sturridge nokkurn tímann byrja leik aftur hjá Liverpool, satt best að segja.

Jordan Henderson fyrirliði vann vinnuna sína fyrir viku og kallaði leikmennina saman á Melwood í smá naflaskoðun. Það virðist hafa breytt miklu meðal leikmanna, ef eitthvað er að marka frammistöður þeirra allra gegn Tottenham þar sem mér fannst eiginlega ekki einn einasti leikmaður í byrjunarliði vera að spila undir 8 í einkunn.

Annars eru í dag tvær vikur í næsta leik gegn Leicester og eins og við mátti búast ætlar Klopp að nýta tímann til að hressa enn betur upp á móralinn. Liðið heldur í dag til La Manga á Spáni í fjórar nætur þannig að þið megið búast við Instagram-myndum frá Alberto Moreno úr sundlauginni og svona. Vonandi hristir þetta mannskapinn enn betur saman, eftir að Tottenham-sigurinn gaf tóninn. Það væri gaman að sjá haust-Liverpool verða að vor-Liverpool líka, svo að við getum gleymt vetrar-Liverpool sem fyrst.


Aðeins að lokum um eigendurna. Mikið hefur mætt á FSG frá lokun janúargluggans, og þökk sé genginu frá áramótum hefur sú umræða orðið háværari að þeir séu slæmir fyrir félagið og svo framvegis. Mér finnst vert að minna á hvernig þeir reka félagið í dag og að það er að mínu mati varla hægt að gera það betur. Þetta eru skynsamir eigendur sem eru að ná því mesta út úr félaginu, bæði fyrir okkur og fyrir sig.

Í haust skrifaði ég pistil í fyrsta landsleikjahléi þar sem ég talaði um raunhæfar væntingar, sagði að við ættum að njóta þess að horfa á gott lið sem væri sennilega ekki nógu sterkt til að fara alla leið og vinna titilinn. Ég fékk bágt fyrir að lesa stöðuna svona í haust, meira að segja frá nokkrum pennum Kop.is á samfélagsmiðlum, en það sem ég sagði þar hefur nánast allt gengið eftir. Liverpool er stórskemmtilegt lið í baráttu um Meistaradeildarsæti, en ekki nógu gott til að vinna titilinn.

Allavega, í ummælum fyrir þann pistil setti ég svo inn myndband sem mér fannst lýsa vel hvernig FSG hafa unnið fyrir félagið frá innkomu og mig langar að deila því aftur hér:

Hitt er svo önnur umræða að þótt ég sé á því að FSG hafi unnið hlutina skynsamlega og eins vel og hægt er innan þess ramma sem LFC býður upp á held ég að við getum nánast sagt að þeir séu að sanna að þú einfaldlega nærð ekki árangri í ensku Úrvalsdeildinni án þess að eignast sykurpabba eða tvo. Eitt Meistaradeildarsæti, vonandi tvö, og einn titill úr fjórum úrslitaleikjum, á sjö árum er ekki ásættanlegur árangur fyrir Liverpool en ég held í alvöru að FSG geri ekkert mikið betur án þess að selja félagið áfram til eigenda sem eru reiðubúnir að loka Excel-skjölunum og finna leiðir til að geta sturtað peningum í leikmannakaup. Að öðrum kosti sé ég lítið annað í stöðunni en að við höldum í raunsæjar væntingar. Ef Klopp nær Meistaradeildarsæti með liðið í vor getum við verið sátt við árangur vetrarins.

Þetta er opinn þráður, orðið er laust í ummælum.

YNWA