Flokkaskipt greinasafn: Leikskýrslur

Tottenham 1-2 Liverpool

Mörkin

0-1   Georginio Wijnaldum  39.mín
0-2   Roberto Firmino  54.mín
1-2   Erik Lamela  93.mín

Leikurinn

Varla var búið að blása til leiks á Wembley þegar að Liverpool höfðu komið boltanum í netið. 45 sekúndur voru liðnar og Firmino stýrði fyrirgjöf Milner hárnákvæmt í fjær hornið. En gula flaggið fór á loft og rangstaða var dæmd á Mané sem teygði stóru tá í áttina að boltanum. Hvort að hann hafi náð næfurþunnri stroku eða bara þótt hafa haft áhrif á leikinn úr rangri stöðu skal ósagt látið. Það sem VAR og það sem hefði geta verið voru sitt hvor hluturinn og Liverpool fékk ekki þá draumabyrjun sem Púlarar allra heimshorn höfðu hoppað hæð sína yfir.

Okkar menn héldu áfram að ógna og það var mikil Suðurlandsskjálfti í vörn Lundúna-liðsins sem gerði mýmörg mistök í sendingum og bauð hættunni heim. Eftir þessar öflugu upphafsmínútur róaðist leikurinn niður og heimamenn fóru að ná valdi á boltanum og héldu honum betur innan síns liðs. Liverpool voru þó alltaf hættulegir í skyndisóknum og á 22.mínútu fékk Salah færi vinstra megin í vítateignum en Vorm varði vel. Leikurinn hélt áfram á sömu nótum þar sem Spurs voru bróðurpartinn með boltann en Rauðliðar tilbúnir að refsa ef að tækifæri gafst.

Rúmum 5 mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks fengu Liverpool hornspyrnu sem var send á nærstöngina. Þar var Van Dijk innarlega og truflaði markvörðinn Vorm löglega frá því að komast í boltann sem barst út í teiginn og Wijnaldum samlandi þeirra skallaði öflugan bolta upp undir slánna. Vorm kom reyndar í loftköstum og náði að skófla boltanum út úr markinu en í þetta sinn var dómgæslutæknin með okkur í liði og boltinn réttilega dæmdur fyrir innan línu.

0-1 í hálfleik

Liverpool byrjuðu seinni hálfleik á sama hátt og þann fyrri með því að ógna hraustlega. Fyrst með fyrirgjöf frá Robertson sem féll ofan á slánna og svo í skyndiupphlaupi þar sem Mané átti fast snúningsskot sem var vel varið af Vorm. Mínútu síðar sýndu Spurs þó klærnar og hinn líflegi Lucas Moura skundaði inn í vítateginn og smellti skoti í utanverða stöngina.

En á 54.mínútu átti Liverpool enn eina skyndisóknina og Mané keyrði vinstra megin inn í vítateiginn. Fyrirgjöf ætluð Firmino komst á kómískan hátt í gegnum Vertonghen og Vorm og endaði hjá Brassanum okkar brosmilda sem skóflaði boltanum yfir línuna. 0-2 fyrir Liverpool.

Okkar menn voru komnir með töggl og haldirnar í þessari stöðu og Tottenham virtust með litla trú á endurkomu. Við fengum marga sénsa á góðum upphlaupum og eitt þeirra var á 64.mínútu þegar að Vorm varði öflugt vinstrifótarskot frá Keita. Um miðjan hálfleikinn gerðist óhapp þar sem að Vertongen slæmdi hendinni í augað á meistara Bobby Firmino sem lá eftir og blóð lak frá augnsvæðinu. Skipta þurfti Bobby útaf fyrir Henderson en vonandi er þetta ekki alvarleg meiðsli því að fram að þessum tíma hafði Firmino verið með ferskari mönnum og að nálgast sitt hefðbundna frábæra framlag.

Enn hélt leikurinn áfram í sama fasa. Tottenham meira með boltann en ekki að ná skapa sér teljandi færi en Liverpool beittir í skyndisóknum þó að alltaf virtist vanta smá upp á herslumuninn til að slútta sóknunum. Eitt slíkt færi var á 81.mínútu þegar að Salah dansaði sig í færi en enn varði Hollendingurinn í markinu vel. Lamela fór að færa sig upp á skaftið og ógnaði með skoti við teiginn á 84.mínútu en rétt framhjá. Leikurinn var að fjara út en aftur var Lamela að ógna og í uppbótartíma fékk hann boltann eftir hornspyrnu, tók hann viðstöðulaust og smellti með grasinu framhjá Alisson í markinu. Sem betur fer var stutt eftir og okkar menn kláruðu lokamínúturnar fagmannlega.

Bestu menn Liverpool

Frammistaðan var frekar jöfn heilt yfir hjá okkar mönnum í dag. Milner hljóp manna mest að vanda og Wijnaldum var öflugur með fyrsta mark leiksins. Mané og Salah voru líflegir þó að það vantaði endapunktinn hjá þeim til að skora. Að mínu mati var Firmino maður leiksins og hann virtist vera búinn að hrista af sér slenið frá upphafsleikjum tímabilsins. Skapandi, hlaupandi, pressandi og skoraði. Vonandi verður hann klár í slaginn sem fyrst eftir þessi meiðsli.

Vondur dagur

Enginn okkar mann lendir í þeim flokki í dag enda góð og jöfn liðsframmistaða. Það var helst að Joe Gomez ætti slæmar 10 mínútur þar sem hann gerði tvenn slæm mistök sem hefði getað farið illa en það slapp fyrir horn. Strákurinn hefur verið frábær og var að spila með landsliðinu þannig að honum er fyrirgefið að hafa átt örlítið einbeitingarleysi. Ef einhver átti vondan dag þá var það enski landsliðsfyrirliðinn Harry Kane sem var týndur og tröllum gefinn allan leikinn. Ágústmarkið langþráða gerði í það minnsta ekki mikið fyrir hann í dag og blessunarlega þá var hann í vasanum á varnarmönnum okkar í rúmar 90 mínútur.

Tölfræðin

Okkar menn voru óvenju lítið með boltann í leiknum miðað við meðaltalið en það er vandsagt hvort að það hafi verið taktík eða bara þannig sem leikurinn þróaðist. Í það minnsta virkaði það ágætlega að vera ekki nema 40% með boltann og beita skyndisóknum þegar að tækifæri gafst. Við áttum heil 10 skot á rammann og með betri nýtingu hefði þessi leikur verið markasúpa hjá okkar mönnum.

Umræðan

Við erum á toppnum! Með fullt hús stiga! Ósigraðir! Efstir á Englandi!

Þarf eitthvað að ræða það?

YNWA

Leicester 1 – 2 Liverpool

Mörkin

0-1 Mané (10. mín)
0-2 Firmino (45. mín)
1-2 Ghezzal (63. mín)

Leikurinn

Leikurinn fór fjörlega af stað og strax á 4. mínútu fékk Salah gullið tækifæri til að skora fyrsta markið, fallegur samleikur hans við Firmino gaf af sér skot frá þeim síðarnefnda sem var varið, Salah náði frákastinu en skaut naumlega framhjá. Við þurftum samt ekki að bíða mjög lengi eftir fyrsta markinu því á 10. mínútu átti Robertson gott upphlaup upp vinstri kantinn, komst af harðfylgi framhjá varnarmönnum, átti fasta sendingu inn í teig þar sem Mané var fyrstur til að átta sig og skoraði fram hjá Schmeichel með föstu skoti.

Fyrsta almennilega sókn Leicester kom ekki fyrr en á 23. mínútu og þá varði Alisson vel frá Gray, og skömmu síðar greip hann hornspyrnu afar glæsilega. Gaman að vera komin með markvörð sem hleypur út í teig að hirða fyrirgjafir og gerir það vel! Næstu 20 mínúturnar eða svo voru í eigu Leicester sem voru meira með boltann á meðan okkar menn sátu meira til baka og voru tilbúnir í skyndisóknir, en pressan hjá Leicester kom í veg fyrir að það yrði af neinum slíkum. En undir lok hálfleiksins fékk Liverpool 2 hornspyrnur í röð, það hefði nú alveg verið hægt að dæma víti á varnarmenn Leicester í þeirri fyrri þegar það var haldið í Van Dijk, en það kom ekki að sök þegar Firmino skoraði upp úr seinni hornspyrnunni, þar sem svæðisvörn hinna bláklæddu klikkaði. N.b. þá var þetta stoðsending nr. 80 hjá Milner í deildinni, og hann er þar með kominn í 7. sæti yfir stoðsendingar þar frá upphafi. Staðan 2-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik mætti mun grimmara Leicester lið til leiks, og áttu meira í leiknum. Þeir uppskáru svo afrakstur erfiðis síns á 63. mínútu þegar Van Dijk átti sendingu til baka á Alisson, hann fór í einhverja skógarferð og ætlaði að sóla Maddison úti við endalínu en missti jafnvægið, Maddison gaf inn á teig og þar afgreiddi Ghezzal boltann í netið. Fyrsta markið sem okkar menn fá á sig á leiktíðinni staðreynd. Alveg klárt mál að þarna átti Alisson bara að þruma fram, og hann mun sjálfsagt læra af þessu.

Klopp hristi aðeins upp í hópnum, setti Keita inn fyrir Henderson, og Shaqiri fyrir Salah. Í lokin kom svo Matip inn fyrir TAA. Pressan hélt áfram, og það var ekki laust við að það færu um mann ónot þegar Leicester fengu hornspyrnu þegar mínúta var eftir af 5 mínútna uppbótartíma, og Schmeichel kom fram í sóknina. En úr henni varð ekkert, leikurinn fjaraði út og 3 stig í hús.

Bestu/verstu menn

Stundum spilar allt liðið vel, og það væri hægt að velja hvaða leikmann liðsins sem er sem mann leiksins. Því var ekki að heilsa í dag. Alisson lék reyndar vel langstærstan hluta leiksins, en þessi mistök hans hefðu vel getað kostað 2 stig. Sóknin skoraði vissulega 2 mörk, en þar fyrir utan voru skytturnar þrjár alls ekki að finna sig, sérstaklega ekki Salah sem var tekinn út af í seinni hálfleik. Ætli slagsmálin við knattspyrnusamband Egypta séu farin að há honum? Vonum ekki. Hvorki Winjaldum né Henderson voru að sýna neinn stjörnuleik, og Van Dijk hefur oft spilað betur, fékk m.a. gult spjald fyrir klaufalega tæklingu upp við vítateig. TAA var alls ekki slæmur en hefur oft spilað betur. Í mínum huga stendur valið á milli Robertson, sem var síhlaupandi og átti stoðsendingu, Milner sem einnig átti stoðsendingu og var líka sífellt á ferð, og svo að lokum Joe Gomez sem átti mjög góðan leik í vörninni, átti blokkeringu sem kom í veg fyrir mark í síðari hálfleik, og hlýtur því nafnbótina í þetta skiptið. Mistök Alisson eru svo það sem verður mest talað um væntanlega, en það má líka alveg tala um Van Dijk sem getur spilað svo miiiiikið betur.

Næstu skref

Nú tekur við landsleikjahlé, og nú þarf bara að leggjast á bæn og vona að okkar menn komi heilir á höldnu þaðan. Við heimsækjum svo Tottenham á Wembley eftir 2 vikur. Þá væri nú alveg rosalega gaman að liðið verði almennilega hrokkið í gang, því þrátt fyrir að vera með fullt hús stiga eftir 4 umferðir, og aðeins eitt mark fengið á sig, þá vitum við að það býr svo mikið meira í þessu liði.

Liverpool – Brighton 1-0

1-0 Salah ’22

Leikurinn

Liverpool tók á móti Brighton á Anfield í seinniparts leiknum á þessum ágæta laugardegi.

Leikurinn fór frekar rólega af stað og talsvert var um slakar sendingar hjá okkar mönnum. Salah átti fína sendingu inn á Mané á miðjum teignum á 4 minútu en skotið fór rétt framhjá. 4 Mínútum síðar átti Robertson frábæra sendingu á Firmino en skalli hans af markteig var frábærlega varinn.

Á 13 mínútu skallaði Dijk boltann á Keita sem kom hlaupandi á vörnina en var brotið á honum rétt fyrir utan teig. TAA steig upp en föst aukaspyrna hans hafnaði í þverslánni.

Á 22 mínútu kom eins mikið Liverpool mark og það gerist. Stutt aukaspyrna hjá Brighton á þeirra vallarhelmingi. Sending á Bissouma sem var étinn af Milner, boltinn fór til Mané sem sendi á Firmino, Firmino á Salah sem skaut í fyrsta stöngin inn. 1-0 í raun upp úr engu nema frábærri pressu hjá Milner og flottum einnar snertinga bolta í kjölfarið.

Það gerðist í raun lítið það sem eftir lifði hálfleiks, var í raun bara ein stór sókn Liverpool stærsta hluta hálfleiksins þar sem að Brighton átti örfáar sóknir inn á milli án þess að valda Liverpool einhverjum teljandi vandræðum. Við sköpuðum á móti ekki mikið heldur en yfirburðirnir voru samt sem áður miklir þrátt fyrir að vera ekki að spila neitt frábærlega. Brighton var með 10 menn á bakvið boltann stórann part hálfleiksins og gerði okkur erfitt fyrir. Verðskuldað 1-0 í hálfleik þar sem að Milner og Gini stóðu uppúr að mínu mati á miðjunni en Mané og Firmino hafa spilað betur.

Continue reading

Crystal Palace 0 Liverpool 2

0-1 Milner ’45 (víti)
0-2 Mané ’90

Leikurinn

Liverpool mætti á Selhurst Park og mætti sterku liði Crystal Palace sem hafa oft reynst okkur erfiðir. Leikurinn byrjaði frekar hægur, Liverpool hélt boltanum en lítið átti sér stað. Liðið lét reyna á þétta vörn Crystal Palace en þeir héldu ágætlega með alla menn á eigin vallarhelmingi þegar Liverpool sótti og miðjan mjög nálægt varnarmönnum. Á 22. mínútu sendi Alison boltan út á Keita sem rétt fyrir utan vinstra hornið á eigin vítateig snéri þar léttilega á leikmann Palace og kom með frábæra sendingu yfir allan völlinn á Salah sem komst einn inn fyrir en snerting hans aðeins og föst þegar hann reyndi að vippa yfir Hennessey í annari stertingu og setti boltan vel yfir.  Tveimur mínútum sienna kom besta færi Palace þegar Townsend var með boltan á hægri kantinum snéri inn á völlinn fann smá svæði og átti frábært skot sem small í þverslánni og maður fékk vel í magan eftir að Liverpool hafði stýrt leiknum fram að þessu. Stuttu síðar komst Liverpool í sókn þar sem Firmino skildi boltan eftir fyrir Salah sem skaut en boltinn í varnarmann en boltinn barst til Keita en skot hans var varið af markmanni Palace.

Eftir hálftíma leik var útlit fyrir að Zaha myndi sleppa einn inn fyrir en Joe Gomez átti frábæra tækingu og náði að bjarga málunum, en hann átti flottan leik í dag. Rétt áður en flautað var til hálfleiks átti Trent sendingu inn á teiginn á Salah sem var með Sakho í bakinu og var Sakho alltof ákveðinn í að stoppa Salah en hann hélt í hann og nartaði nokkrum sinnum í lappirnar á honum þar til ekki var hægt annað en að flauta og Liverpool fékk vítaspyrnu. Einhverjir talað um að þetta hafi verið soft víti og það má vel vera en þetta var  Sakho eins og við þekkjum hans best missti hausinn og hélt áfram að sparka í lappirnar á Salah og ég sá ekki að dómarinn hefði annan kost en að flauta. Það var svo James Milner sem steig á punktinn og skoraði örugglega úr vítinu.

Í seinni hálfleik byrjuðu Palace betur en rétt eftir að leikurinn var flautaður á komust þeir í góða fyrirgjafastöðu en boltinn fór í gegnum allan pakkan á Robertson sem stökk af stað í skyndisókn kom svo með fyrirgjöf yfir á Salah en fyrsta snertingin sveik Salah sem náði þó að halda boltanum inná kom honum á Keita sem skaut rétt framhjá. Eftir 53 mínútur átti Zaha geggjað hlaup einn á móti fjórum sem endaði á því að Trent braut klaufalega af sér rétt fyrir utan teiginn. Milivojevic tók spyrnuna setti hann út fyrir vegginn en Alison varði vel í markinu. Palace hélt áfram að stýra ferðinni í seinni hálfleiknum en það fór að jafnast eftir að Henderson kom inn fyrir Milner. Milner spilaði mjög vel í leiknum en með innkomu Henderson fór liðið aftur að taka sér tíma á boltanum eins og það hafði gert í fyrri hálfleik.

Á 75 mínútu átti Firmino lúmska sendingu á Salah sem kom honum einum í gegn á miðjum vallarhelmingi Palace en Wan-Bissaka náði að halda aðeins í við hann og endaði á að taka hann niður rétt fyrir utan vítateigin og uppskar rautt spjald. Í uppbótatíma fékk maður þessa gömlu slæmu tilfinningu að við gætum verið að klúðra leiknum þegar Lallana braut á Ward úti við hornfánan á 92. mínútu og Palace raðaði turnunum sínum inn á teig. Sá ótti vvar ekki nauðsynlegur því boltanum var hreinsað á Salah sem kom honum yfir á Mané sem slap í gegn. Það var brotið á honum inn í teignum meðan hann sólaði markmanninn en hann stóð það af sér og tryggði 2-0 sigur.

Bestu menn Liverpool

Þetta er kannski frekar erfitt í dag. Þetta er ekki leikur sem við vinum venjulega því liðið fór í raun aldrei upp úr öðrum gír enginn frábær en allir fínir. Mané og Salah sköpuðu gríðarlega mikil vandræði í vörn Palace manna sem áttu erfitt að eiga við þá. Gomez og Van Dijk voru mjög flottir í vörninni það var ekki oft sem reyndi virkilega á þá en þeir leystu það vel. Alison átti tvær til þrjár fínar markvörslur sem er svo mikilvægt í svona leik en ég hugsa að ég myndi setja mann leiksins á Naby Keita en hann leit aftur mjög vel út á miðjunni og var sífellt að leita að hættulegum sendingum ásamt því að vera mættur í hlaup til að vera sífellt til vandræða.

Slæmur dagur

Eins og ég sagði áðan þá fór liðið í raun aldrei upp úr öðrum gír enginn frábær en enginn slakur en Roberto Firmino átti hljóðlátan dag ef eitthvað er hann var fínn í pressunni og kom boltanum nokkrum sinnum vel á Salah en sást lítið í sóknarleiknum.

Umræðan

  • Liverpool er eina liðið í ensku úrvalsdeildinni sem hefur ekki fengið mark á sig – hver hefði trúað því á síðustu árum?
  • Liðið missteig sig ekki á erfiðum útivelli og heldur pressu á City
  • Leikurinn var frekar daufur og oftar en ekki hefðum við fengið jöfnunarmark í andlitið undir lokin en liðið er að vaxa og verður áhugavert að sjá hversu langt þetta lið getur farið

Hvað næst?

Næst spilar liðið gegn Brighton á Anfield í síðdegisleik á laugardaginn. Brighton litu illa út í fyrstu umferð gegn Watford en voru flottir í gær þegar þeir unnu Manchester United 3-2 samt skyldu sigur ef liðið ætlar sér toppbaráttunni í ár!

 

Liverpool 4-0 West Ham

Liverpool byrjar leiktíðina á því að rústa West Ham 4-0 á Anfield með mjög dóminerandi frammistöðu og gefur vonandi tóninn á það hvað koma skal.

Mörkin:
1-0 Mo Salah 19.mín
2-0 Sadio Mane 45+1.mín
3-0 Sadio Mane 53.mín
4-0 Daniel Sturridge 88.mín

Gangur leiks:
Frá því að flautað var til leiks og þar til hann var flautaður af var Liverpool með öll völd á vellinum. Liðið hélt boltanum vel og byrjaði strax að leita eftir glufum á vörn West Ham. Maður sá nokkuð fljótt hvað gæti stefnt í og Liverpool lágu á West Ham sem gekk brösulega að koma sér upp völlinn.

Það var á 19.mínútu sem Mo Salah opnaði markareikninginn á leiktíðinni. Naby Keita átti gott hlaup frá miðjunni þar sem hann lagði hann á Robertson á vinstri vængnum og Skotinn kom með frábæra sendingu fyrir markið þar sem Salah skoraði af stuttu færi.

Í kjölfarið átti Trent Alexander-Arnold geggjaða aukaspyrnu sem Fabianski, í marki West Ham, varði stórglæsilega og skömmu síðar lagði Firmino boltann inn á Salah sem var í góðri stöðu en Fabianski mætti vel og lokaði á skotið. Annað mark lág í loftinu og það var í uppbótartíma fyrri hálfleiks sem Sadio Mane skoraði annað mark Liverpool. Fyrirgjöf af vinstri kantinum fór yfir allan pakkann og á Milner sem gerði frábærlega í að koma boltanum fyrir markið og þar náði Mane að teygja sig í boltann. Þriðja árið í röð sem Mane skorar í oppnunarleik liðsins.

West Ham reyndu aðeins að komast í leikinn í upphafi seinni hálfleiks en á 53.mínútu skoraði Sadio Mane annað mark sitt í dag. Roberto Firmino stakk boltanum inn fyrir vörn West Ham en þar voru þeir Salah og Mane báðir rangstæðir en ekkert flaggað og Mane skoraði með fínu skoti.

Liverpool var með öll völd á vellinum áfram og sama hvað West Ham reyndu þá fundu þeir fáar sem engar glufur á vörn Liverpool. Klopp gerði skiptingu þegar Liverpool fékk horn rétt undir lok leiksins og setti Daniel Sturridge inn á. Milner tók hornspyrnuna sem fór beint á varnarmann West Ham sem flikkaði honum aftur fyrir sig og þar mætti Sturridge í sníkjuna á fjærstönginni og kom boltanum yfir marklínuna. Það tók Sturridge 24 sekúndur að skora markið frá því að hann kom inn á og frábært að hann sé kominn á blað og sá hefur verið frískur í sumar.

Bestu menn Liverpool:
Við getum bent á ansi marga sem áttu frábæran leik í dag og í raun átti liðið í heild sinni stórkostlegan leik. Vörnin var gífurlega öflug, Alisson var flottur á bolta en hafði lítið að gera þegar kom að því að verja skot. Sóknin var mjög lífleg og áttu þessir þrír fremstu allir þátt í mörkum í dag og virka beittir. Firmino lagði upp og var heilt yfir nokkuð góður, Salah skoraði og Mane setti tvö. Bakverðirnir voru öflugir og þá alveg sérstaklega Robertson. Sturridge, Hendo og Shaqiri komu líflegir inn af bekknum. Miðjan var þó það sem mér fannst standa einna mest upp úr í dag.

Ég myndi velja einn af þremur miðjumönnum Liverpool í dag sem „mann leiksins“ en ég á erfitt með að velja á milli þeirra. James Milner var frábær og stjórnaði spilinu mjög vel, Gini Wijnaldum er að koma virkilega vel undan sumrinu og var frábær í dag. Hann sat djúpur á miðjunni en var líka mjög duglegur við að koma sér í stöður í kringum vítateiginn og var mjög dóminerandi, eins og maður vill sjá hann. Naby Keita er svo sannarlega biðarinnar virði og var frábær í dag. Átti nokkra frábæra spretti, var öflugur í varnarvinnunni og skapaði ursla fram á við.

Vondur dagur:
Við skoruðum bara fjögur í dag!

Umræðan:
– Liverpool talið það lið sem er einna líklegast til að etja kappi við City í vetur og er þessi frammistaða í dag að fá fólk af þeirri skoðun?
– Öflugasti bekkur Liverpool í langan tíma og nokkrir góðir leikmenn utan hans. Er liðið nógu öflugt í alvöru baráttu í vetur?
– Það getur verið ansi mikilvægt að leikmenn eins og Mane og Sturridge komist á blað í upphafi móts og þá sérstaklega fyrir einhvern eins og Salah sem verður gífurleg pressa á í vetur að skora mörk eftir síðustu leiktíð.
– Milner er ein allra bestu kaup sem Liverpool hafa gert á síðustu árum.
– Það er of langt í næsta leik!!

Hvað gerist næst:
Á mánudaginn í næstu viku mun Liverpool heimsækja Roy Hodgson og lærisveina hans í Crystal Palace og verður þá eflaust undir ákveðinni pressu að taka stigin úr þeim leik þar sem keppinautarnir eiga flest „auðveldar“ viðureignir og reikna má sterklega með að þau taki stig úr þeim. Það þarf Liverpool líka að gera úti gegn Palace vilji liðið blanda sér í alvöru baráttu í deildinni.