Flokkaskipt greinasafn: Leikskýrslur

Liverpool – Spartak Moscow 7-0

0-1 Coutinho (víti) 4′
0-2 Coutinho 15′
0-3  Firmino 19′
4-0  Mané 47′
5-0  Coutinho 50′
6-0  Mané 75′
7-0  Salah 86′

Leikurinn

Jahérna! Þvílíkur leikur!

Leikurinn byrjaði í raun með látum og má segja að við höfum klárað hann (eða þú veist, tryggt jafnteflið þar sem þetta er Liverpool) á fyrstu 20 mínútunum og hefðum getað verið í 5-0 eftir hálftíma.

Liverpool fékk vítaspyrnu á fjórðu mínútu þegar Dzhikiya braut afskaplega klaufalega á Salah sem fékk sendinguna talsvert bakvið sig og var lítið að fara gera. Persónulega fannst mér þetta frekar „soft“ víti en ekki kvarta ég. Inn á vellinum voru Firmino og Salah, sem báðir klikkuðu á síðustu vítum, en upp steig fyrirliði dagsins og kláraði örugglega, Coutinho 1-0.

Gestirnir virkuðu alveg sprækir á mann í þessum fyrri hálfleik, sérstaklega þó fram á við. En eftir frábæra spilamennsku þá tvöfaldaði Liverpool°forystu sína. Liverpool sundurspilaði þá vörn Spartak og Firmino sendi óeigingjarnt út í teig á Coutinho sem bætti við sínu öðru marki, 2-0. Firmino bætti svo við þriðja markinu eftir að sending frá Mané hafði farið í varnarmann Spartak, 3-0.

Moreno meiddist því miður á ökla undir lok fyrri hálfleiks og Milner kom inn í hans stað. Verður væntanlega ekki með um helgina sem er mikill missir. Þrátt fyrir hræðilegar 15 mínútur gegn Sevilla þá verður ekki tekið af honum að fyrir utan það hefur hann verið mjög öflugur.

Liverpool byrjaði síðari hálfleik eins og þann fyrri. Milner átti frábæra fyrirgjöf á Mané á 47 mínútu sem tók boltann viðstöðulaust og hamraði í netið, 4-0!

Aðeins þremur mínútum síðar bætti Coutinho við marki (skráð sem hans mark fyrst um sinn a.m.k.) og þar með þrenna hjá fyrirliðanum. Milner var aftur með stoðsendinguna eftir gott samspil við Firmino (auðvitað), sendi boltann inn á miðjan teiginn þar sem Coutinho kom með hlaupið, tók boltann með sér og skaut í varnarmann og í nærhornið, 5-0!

Mané bætti við sjötta markinu eftir að Senegalinn vann boltann, sendi á Salah sem kom boltanum áfram á Sturridge. Sturridge átti frekar slaka sendingu inn á teig fyrir aftan Mané sem náði þó til boltans og kláraði vel, 6-0.

Salah vildi ekki vera útundan og bætti við sjöunda markinu. Fékk boltann í miðjum teignum, setti tvo varnarmenn á rassinn og skoraði örugglega upp í vinkilinn, 7-0, ótrúlegar tölur!

Bestu menn Liverpool

Hvar á að byrja eftir svona veislu? Coutinho er auðvitað klárlega maður leiksins. Fyrirliði í dag, var mikið í spilinu og skoraði þrennu. Þar fyrir utan var Mané með tvennu og alltaf ógnandi, Firmino var frábær (er okkur svo gríðarlega mikilvægur), Milner með tvær stoðsendingar og Salah með eitt mark og alltaf hættulegur. Meira og minna allt liðið átti frábæran leik.

Umræðan

Liverpool er komið í 16 liða úrslit og ég held að það séu nokkur lið þarna úti sem vilja forðast það að mæta okkur.

Þessi sókn! Það eru forréttindi að horfa á þetta lið spila fótbolta þegar það er í þessum gír. Nú er liðið búið að spila þrjá leiki á einni viku, vinna þá alla og með markatöluna 15-1!

Mér er alveg sama hvað fólk segir um þetta Spartak lið (sem er fínt lið), það að vinna 7-0 í CL er ótrúlega öflugt. Ef það væri auðvelt þá væri það væntanlega gert oftar, ekki satt? Liverpool tapaði ekki leik í riðlakeppninni og skoraði 23 mörk sem er rétt tæp 4 mörk að meðaltali í leik. Það er ótrúleg tölfræði!

Liverpool er annars á virkilega góðum stað. Nú er bara að halda þessu áfram. Það er hellingur af leikjum framundan.

Næsta verkefni

Það er RISA leikur framundan. Nágrannaslagur á Anfield og Kop.is á vellinum! Þrjú stig þar takk!

Brighton – Liverpool 1-5

0-1 Emre Can 30′
0-2 Firmino 31′
0-3  Firmino 48′
1-3  Murray (víti) 51′
1-4  Coutinho 86′
1-5  Dunk (sjálfsmark) 89′

Leikurinn

Leikurinn fór afskaplega rólega af stað. Brighton var með alla sína leikmenn á eigin vallarhelmingi og Liverpool átti erfitt með að finna opnanir. Firmino fékk fínt skallafæri eftir eina hornspyrnu og Brighton fékk ágætis færi stuttu síðar.

Þetta breyttist allt á 30 mínútu þegar góð hornspyrna Coutinho rataði beint á höfuðið á Can sem stakk sér á milli tveggja varnarmanna Brighton og stangaði boltann í markið, 0-1! Brighton tók miðju, Liverpool vann boltann og var komið í 0-2 innan við mínútu síðar þegar Salah, Coutinho og Firmino komust í hraðaupphlaup. Firmino skyldi boltann frábærlega eftir fyrir Salah sem bar boltann upp, sendi til vinstri á Coutinho sem sendi frábæran bolta fyrir á Firmino sem kláraði færið örugglega á nærstöng, tvö mörk á einni mínútu eftir rólegan hálftíma þar á undan.

Síðari hálfleikur byrjaði svo heldur betur fjörlega. Heimamenn fengu dauðafæri eftir að Murray skaut óvaldaður af markteig eftir góða fyrirgjöf en Mignolet varði frábærlega. Liverpool sótti hratt í kjölfarið og Salah kom boltanum innfyrir á Firmino sem skoraði örugglega, 0-3!

Á 51 mínútu fengu heimamenn hornspyrnu eftir misskilning á milli Can og Mignolet. Henderson lagði höndina á bak leikmanns Brighton og fékk dæmda á sig afar „soft“ vítaspyrnu.  Murray steig upp og skoraði örugglega, 1-3. Þetta var vissulega mjög klaufalegt hjá Henderson en var að mínu mati aldrei víti. Við getum samt lítið kvartað svo sem eftir að hafa sloppið í vikunni gegn Stoke.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta. Liverpool var að vinna boltann nokkrum sinnum ofarlega á vellinum og skapa talsverða hættu. Murray fékk einnig gott færi til að minnka muninn en skot hans fór naumlega framhjá. Ég viðurkenni það að ég var farinn að öskra á skiptingu þarna á 70 mínútu, ekki síst í ljósi þess hve sterkur bekkurinn var.

Coutinho átti svo síðasta orðið. Vann aukaspurnu rétt fyrir utan teig, tók hana sjálfa og setti boltann undir vegginn og í bláhornið, 1-4 og stigin þrjú í höfn. Þremur mínútum síðar átti hann annan sprett, skaut á markið en Dunk, varnarmaður Brighton, skallaði boltann í eigið mark. Sá ekki hvort að skotið hjá Coutinho var á leiðinni á markið en markið er a.m.k. skráð sem sjálfsmark fyrst um sinn.

Bestu menn Liverpool

Firmino var að mínu mati okkar langbesti maður. Skoraði tvö mörk og var mjög öflugur í pressunni eins og svo oft áður. Coutinho átti einnig mjög góðan dag með mark og þrjár stoðsendingar (ef fimmta markið verður skráð sem sjálfsmark). Salah skoraði ekki, aldrei eins og vant, en kom við sögu í tveimur mörkum, átti stoðsendingu í þriðja markinu og var viðloðinn annað markið einnig.

Umræðan

Ég var smá stressaður þegar ég sá liðið. Miklar breytingar á milli leikja og varnarlínan ekki beint traustvekjandi á pappír. Það verður að hrósa liðinu og Klopp fyrir þessa viku. Búinn að ná að hvíla lykilmenn, glíma við meiðsli og veikindi en samt sækja sex stig á tvo erfiða útivelli og skora í þeim átta mörk.

Tottenham heldur lægð sinni áfram og tapaði stigum í dag, Burnley tapaði gegn Leicester og Liverpool því komið í fjórða sætið, þremur stigum frá Chelsea og Man Utd, og heldur því a.m.k. þar til að leikur Arsenal og Man Utd klárast.

Það fer svo væntanlega að koma að því að menn fari að ræða slaka frammistöðu fyrirliðans ef hann heldur þessari spilamennsku áfram. Á meðan við erum að vinna og það nokkuð örugglega þá bíður sú umræða betri tíma.

Annars bara jákvætt. Virkilega góð vika og Liverpool nú náð í 16 stig af 18 mögulegum í síðustu 6 deildarleikjum eftir tapið gegn Tottenham!

Næsta verkefni

Það er RISA vika framundan. Hreinn úrslitaleikur á Anfield gegn Spartak Moskva á miðvikudag. Nokkrum dögum síðar skellir Kop.is sér á Anfield og taka á móti Everton!

Sevilla – Liverpool 3-3

Setjum inn leikskýrslu sem Eiríkur Már setti inn á facebook í gær úr því að kop.is er komin aftur í eðlilegt horf. Það verður svo podcast hjá okkur í kvöld.


Hvað er hægt að segja um svona leik? Leikur tveggja hálfleika þar sem okkar menn sýndu allar sínar bestu hliðar og skora 3 mörk en klúðra síðari hálfleik algjörlega og fá á sig 3 mörk.

Mörkin:
2′ Firmino 0-1
22′ Mané 0-2
30′ Firmino 0-3
45′ Banega 1-3
54′ Mercado 2-3
90+3′ Pizzaro 3-3

Leikurinn
Liverpool byrjuðu leikinn af miklum krafti og strax á annarri mínútu fengum við hornspyrnu sem Coutinho tók. Hann setti hann aðeins útí teiginn þar sem Wijnaldum flikkaði honum á óvaldaðan Firmino sem skoraði 0-1. Á 19. mínútu voru Henderson og Wijnaldum að dútla með knöttinn á miðjunni, tapa honum, Gomez selur sig dýrt og þeir fá dauðafæri sem Karius ver meistaralega. Strax á 20. mínútu fá þeir annað dauðafæri en klikka. Leikurinn var svo hraður þarna að það var erfitt að fylgjast almennilega með. á 21. Mínútu vann Henderson boltann á miðjunni, stakk honum innfyrir á Firmino sem komst í dauðafæri en markvörður þeirra Rico varði glæsilega í horn. Úr horninu skoruðu Liverpool nánast nákvæmlega eins mark, Coutinho með sendingu á sama stað og áður en nú var það Firmino sem flikkaði honum á óvaldaðan Mané sem henti sér fram og sneiddi boltann glæsilega með höfði sínu í fjærhornið. Á 30. mínútu fékk Mané langa sendingu uppí vinstra hornið, setti í fjórða gír og var kominn einn gegn Rico sem aftur varði vel en boltinn hrökk beint fyrir framan Firmino sem átti ekki í vandræðum með að leggja hann í autt markið 0-3!! Fyrri hálfleikur róaðist mikið eftir þetta utan dauðafæris hjá Salah á 40. mínútu en aftur varði Rico glæsilega.

Síðari hálfleikur var algjör andstæða og verulega svekkjandi. Moreno sem hefur verið mjög góður átti verstu 15 mínútur sem ég hef séð í síðari hálfleik. Á 51. Mínútu braut hann klaufalega af sér við vítateigshornið og gaf aukaspyrnu, dekkar illa Ben Yedder í spyrnunni sem skallaði vel framhjá Karius 1-3. á 59. Mínútu átti Coutinho skrýtna sendingu aftur á Moreno sem náði ekki að hemja boltann og missti hann frá sér inní teig og brýtur af sér. Virkilega soft víti en þetta var snerting og Moreno gat engum kennt um nema sjálfum sér. Ben Yedder fór á punktinn 2-3. á 63. Mínútu kom tvöföld skipting, Can og Milner inn fyrir Moreno og Coutinho og leikurinn róaðist töluvert og betra jafnvægi komst á leik Liverpool. Salah átti fyrsta færi Liverpool í síðari hálfleik á 71. mínútu, á 78. Mín áttum við hratt upphlaup sem rann útí sandinn og Mané fékk dauðafæri á 81. mínútu en skaut framhjá.

Fjórum mínútum var bætt við leikinn og að sjálfssögðu jöfnuðu Sevilla á 93. mínútu og það eftir hornspyrnu. Klavan skallaði boltann útí teiginn, beint í lappirnar á óvölduðum Pizzaro sem þakkaði fyrir sig 3-3.

Bestu leikmenn Liverpool:
Firmino og Mané voru frábærir í fyrri hálfleik og Karius varði nokkrum sinnum mjög vel, síðari hálfleikur var svo bara hreinlega dapur en ég verð að gefa manninum með 2 mörkin og eina stoðsendingu þetta. Firmino.

Slæmur dagur: Moreno var virkilega dapur fyrsta korterið í síðari hálfleik, Gomez seldi sig nokkrum sinnum miðjan var ekki að tengja í síðari hálfleik. Vörnin og föstu leikatriðin eru svo að sjálfssögðu framhaldssagan endalausa.

Tölfræðin: Klopp hafði fyrir þennan leik aldrei unnið leik á Spáni og það breyttist ekki. Firmino er kominn með 5 mörk í CL í jafnmörgum leikjum. Við sitjum enn í efsta sæti riðilsins með 9 stig og dugar jafntefli á Anfield gegn Sparta Moscow í síðasta leik þann 6. des. Það þýðir enga værukærð þar því enn er möguleiki á að klúðra þessu niður.

Næsta verkefni: Chelsea á Anfield næsta laugardag í gríðarlega mikilvægum leik. Vonandi koma menn vel undan þessum leik og gíra sig upp í það verkefni.
YNWA!!!

West Ham 1 – 4 Liverpool

Mörkin

0-1 Salah (21. mínúta)
0-2 Matip (24. mínúta)
1-2 Lanzini (55. mínúta)
1-3 Oxlade-Chamberlain (56. mínúta)
1-4 Salah (75. mínúta)

Leikurinn

Liverpool mættu á London Stadium og unnu sannfærandi 1-4 sigur. Ég verð að byrja á því að segja að ég vorkenni West Ham örlítið. Bilic með fallöxina hangandi yfir sér, liðið verður að leika vel til að hann haldi starfinu, eru með megnið af varnarlínunni á sjúkralistanum, og svo spila þeir í raun ágætlega fyrstu mínúturnar en eru að mörgu leyti óheppnir. Dómgæslan var þeim ekki alltaf í vil, t.d. þegar Matip felldi Chicarito rétt fyrir utan teig en ekkert var dæmt. Eins fengu þeir færi sem fór í stöngina og út.

Nú og svo til að bæta gráu ofan á svart þá voru þeir að mæta Liverpool liði sem virðist vera að finna fjölina sína, og refsaði fyrir einföld mistök eftir hornspyrnu West Ham á 21. mínútu. Í raun minnti þetta mark um margt á markið sem Salah skoraði á móti Arsenal fyrr í haust. Þarna kom í ljós að þrátt fyrir að vera nýstiginn upp úr meiðslum hefur Mané ekki misst neinn hraða. Þeir tveir kláruðu þetta mjög vel. Og það voru ekki liðnar 3 mínútur þegar Matip hafði bætt við öðru marki, aftur eftir fast leikatriði en núna eftir horn okkar manna sem Salah tók.

Í seinni hálfleik fengu Hamrarnir smá vonarglætu, þegar Lanzini skoraði eftir klaufalegan varnarleik hjá Gomez. En Adam var ekki lengi í paradís því okkar menn brunuðu í sókn, Firmino fann Oxlade-Chamberlain sem átti gott skot, Hart varði en boltinn barst aftur til AOC sem gerði engin mistök. Þetta var í raun gríðarlega mikilvægt mark, því það drap niður alla von hjá andstæðingunum.

Þegar 75 mínútur voru liðnar var maður farinn að óskapast út í Klopp fyrir að vera ekki löngu búinn að taka Mané út af, manninn sem átti bara að geta spilað í 25 mínútur. En sem betur fer beið Klopp með það, því það síðasta sem Mané gerði var að eiga gott hlaup upp völlinn, lét t.d. ekki stoppa sig að vera felldur heldur stóð upp og hélt áfram, og gaf svo á Salah sem gerði engin mistök og tryggði sigurinn endanlega.

Síðustu mínúturnar voru svo bara einstefna, West Ham voru búnir að gefast upp, en okkar menn bættu ekki við fleiri mörkum þrátt fyrir fjölda tækifæra.

Bestu menn liðsins

Hér er erfitt að taka einhvern út. Liðið lék einfaldlega mjög vel sem lið, pressaði vel og þetta var klárlega sigur liðsheildarinnar. Salah á nú líklega helst skilið að fá nafnbótina maður leiksins, enda skoraði hann tvö mörk. Mané gæti líka alveg fengið titilinn, enda átti hann báðar stoðsendingarnar á Salah. Oxlade-Chamberlain kemur líka vel til greina, markið sem hann skoraði var e.t.v. mikilvægasta markið í leiknum, enda vitum við hvernig stressið nær stundum tökum á okkar mönnum þegar andstæðingarnir ná að minnka muninn. Hann virtist líka njóta sín vel í sínu hlutverki á miðjunni, ógnaði vel fram á við, og það er vissulega jákvætt að fá ógn frá miðjunni. Kannski er þarna að koma í ljós hvaða leikmann Klopp var raunverulega að kaupa, en ég er engu að síður á því að hann eigi að fá allt tímabilið til að sanna sig.

Þá var Milner kraftmikill þegar hann kom inn á, Can átti góða spretti, og vörnin var að standa sig vel allan leikinn. Winjaldum var kannski ekki sá mest áberandi, en er þessi vinnuhestur sem alltaf skilar sínu.

Vondur dagur

Erfitt að taka einhvern fyrir hér. Jú, Gomez hefði líklega átt að gera betur í markinu. Mignolet fór svo í eina skógarferð undir lok fyrri hálfleiks sem hefði vel getað endað með ósköpum. Annars reyndi ekki svo mjög á hann, og reyndar var hann mjög duglegur að fara út úr teignum. Þá fannst mér að Firmino hefði klárlega átt að setja eitt mark þegar hann komst einn í gegn. En svo má ekki heldur gleyma því að hann átti líka t.d. stoðsendinguna á Ox í þriðja markinu, og var sípressandi allan leikinn. Semsagt, ekki fullkominn leikur hjá þessum, en alls ekki slæmur hjá neinum.

Umræðan eftir leik

Eigum við eitthvað að ræða kaupin á Salah? Hann hefur nú skorað 7 mörk í deildinni, sem er jafn mikið og Agüero, Lukaku og Sterling hafa skorað, reyndar er það bara Harry Kane sem hefur skorað meira, eða 8 mörk. Samtals er Salah búinn að skora 15 mörk á tímabilinu í öllum keppnum. Að vera með Salah, Mané og Firmino er auðvitað bara pjúra lúxus, og þó einn þeirra finni ekki fjölina sína þá gerir það ekki svo mikið til á meðan hinir gera það. Það er akkúrat það sem við erum að upplifa núna þegar Firmino er ekki að skora mjög mikið. Liðið er núna búið að vinna 3 síðustu leiki með 3 mörkum, þrátt fyrir að hafa spilað heldur meira varnarsinnað, a.m.k. hvað bakverðina varðar. Það má að vissu leyti færa rök fyrir því að Moreno fái að fara fram á meðan Gomez er meira til baka, sem þýðir að kannski er liðið að spila oft með 3 í öftustu línu, samt ekki eins og Chelsea voru að gera í fyrra.

Liðið er núna í 4. – 7. sæti, jafnt Chelsea, Arsenal og Burnley. Þau tvö fyrsttöldu eiga reyndar leik á morgun, en það vill til að þetta eru stórleikir: Chelsea mætir United á Stamford Bridge, og Arsenal heimsækir City á Etihad. Það munu því a.m.k. tvö af þessum liðum tapa stigum á morgun.

Nú tekur auðvitað við landsleikjahlé, megum við plís biðja um að enginn meiðist í hléinu? Næsti leikur er svo ekki fyrr en 18. nóvember, þegar Southampton mæta á Anfield. Það væri rosalega gott að vera kominn með Lallana, Coutinho og Henderson í hópinn aftur þá, en liðið sýndi engu að síður í kvöld að þó þessara leikmanna njóti ekki við, þá er liðið vel fært um að vinna leiki án þeirra. Það er þó klárt mál að við viljum frekar hafa þá með frekar en ekki. Southampton voru óþægur ljár í þúfu Klopp og félaga á síðasta tímabili, og það verður gaman að sjá hvernig uppleggið verður á móti van Dijk og félögum eftir hálfan mánuð.

Liverpool 3 – 0 Maribor

Liverpool mætti Maribor í annað skiptið á hálfum mánuði og eftir 7 marka slátrun í Slóveníu voru gestirnir mættir á Anfield til að bjarga stoltinu.

Leikurinn

Upplegg gestanna bar þess brennimerki að þeir ætluðu að forðast eldinn í lengstu lög og öryggið var sett á oddinn frá upphafi. Lágu aftarlega með lítið sem ekkert andrými á milli varnar- og miðjulínu. Lái þeim hver sem vill og ekkert óeðlilegt við slíka nálgun á sögufrægum stað þar sem mörg frægari lið hafa fengið flengingar.

Og taktíkin gekk upp til að byrja með. Liverpool voru margfalt meira með boltann en lítið var um opnanir og því síður markfæri. Eftir akadamískt korter var fátt annað að frétta af norðurensku vígstöðvunum en að Wijnaldum hafði snúið sinn ágæta ökkla og Henderson fyrirliði kom inná í staðinn. Hálffærunum fjölgaði og eftir hálftíma leik átti Firmino skot sem fór af varnarmanni og stefndi í áttina að Samúel. Hinn 39 ára Jasmin Handanovic (frændi Samir hjá Inter) var sem köttur í markinu og varði boltann með loppunum í vinkiltréverkið. Fátt markvert gerðist utan þetta og staðan 0-0 í hálfleik.

Það var sem endurtekið efni væri í gangi frá helginni áður gegn Huddersfield því að Rauðliðar mættu einbeittir til leiks eftir hálfleiksræðu á hochdeutsch. Blessunarlega tókst okkar mönnum að brjóta ísinn snarlega og á 49. mínútu sendi Alexander-Arnold eitraða sendingu sem Mo Salah sneiddi með hælnum í netið. Skemmtilegt mark og vel að því staðið.

Anfield lifnaði við og tempóið í sóknarfærslum jókst að sama skapi. Firmino framkvæmdi brasilískt galdraverk með hælklobba á Rajcevic í vítateignum sem verðlaunaði listamanninn með því að brjóta á honum. Víti! Upp steig hin þindarlausa og þaulvana vítaskytta James Milner sem flestir hefðu veðjað bjórsjóðnum á að myndi klára slík skylduverk en Jasmin frændi var á öðru máli og varði glæsilega í tréverkið öðru sinni í leiknum. Örstuttu síðar varði hinn frækni frændi frá Firmino í góðu færi og kom sér kirfilega á lista markmanna sem eiga leik lífs síns á móti Liverpool.

Til þess að hrella okkar Púlara í tilefni hrekkjavökunnar þá skelltu Maribor sér beint í kjölfarið í hættulega sókn og voru nærri því að skora í sínu fyrsta alvöru færi í leiknum. Á 64. mínútu kláruðum við þó leikinn að mestu þegar að Can og Milner áttu frábært samspil við teiginn og hinn hárfagri Þjóðverji smellti glæsilegri innanfótar snuddu niðri við stöng. Eftir þetta datt leikurinn nokkuð niður með nokkrum innáskiptingum en þó áttu Maribor 1-2 hálffæri og fyrnafast langskot sem Karius varði vel. Á 90. mínútu skellti varamaðurinn Sturridge góðri slettu af glassúr á snúðinn með því að skora í teignum eftir fyrirgjöf Moreno og sitt annað mark í tveimur leikjum.

3-0 fer í sögubækurnar þrátt fyrir eilítið japl og juml og fuður til að byrja með.

Bestu menn Liverpool

Flestir leikmenn fóru ekki mikið upp úr 2. gírnum í kvöld en góðar frammistöður ber að nefna hjá Salah, Firmino, Alexander-Arnold og Moreno sem allir voru líflegir og lögðu sitt af mörkum. Minn maður leiksins er Emre Can sem mér fannst gefa sig allan í leikinn frá upphafi til enda með baráttu, tæklingum og áræðni. Hann uppskar sem hann sáði og skoraði glæsilegt mark sem gerði í raun út um leikinn.

Vondur dagur

Í sjálfu sér enginn sem á skilið blammeringu eftir þennan sigurleik. Helst að það sé bömmer fyrir Milner að klikka á sínu öðru víti í röð og fyrir leikmenn eins og Solanke og Robertson sem hefðu gert sér vonir um að spila einhverjar mínútur í kvöld.

Tölfræðin

Fjórða vítaspyrnan sem fer í súginn í röð á Anfield. Þetta fer að verða dýrt spaug og mín uppástunga að næstu vítaskyttu er minn maður þessa leiks, Emre Can. Held að hann sé með nógu mikið hárgel á sjálfstraustinu til að taka hlutverkið að sér. Og hann er þýskur.

Umræðan

Allt er í rólegheitum í rauðheimum eftir tvo 3-0 skyldusigra í röð og það með Klavan í vörninni í báðum leikjum. Efstir í riðlinum í Meistaradeildinni og allt í rétta átt með að komast áfram. Næst er West Ham í höfuðborginni og það er annar skyldusigur þar sem endurteknar lokatölur væru vel þegnar.