Flokkaskipt greinasafn: Leikskýrslur

Liverpool – Burnley 1-1

0-1 Scott Arfield 27. mín

1-1 Mohamed Salah 30. mín

 

Leikurinn

 

Groundhog day er ágætis lýsing á þessum leik. Mér fannst ég vera staddur á síðasta tímabili og fátt hefur breyst. Við dómineruðum leikinn allan tímann, lekum óþolandi klaufamarki og getum ekki opnað þessi lið sem leggja rútunni. Hafiði heyrt þetta áður?  Á 27. mínútu eftir að við höfðum legið á Burnley skora þeir mark sem súmmerar algjörlega umræðuna um vörnina síðustu mánuði. Matip er á leið uppí boltann þegar Klavan ákveður að gera slíkt hið sama. Boltinn dettur fyrir Arfield sem þakkaði kærlega gjöfina og skoraði auðveldlega. Klavan gerði þetta svo aftur í síðari hálfleik og fékk að heyra það frá áhorfendum og liðsfélögum. Þremur mínútum síðar átti Can góða sendingu á Salah sem kláraði vel. Það sem eftir lifði leiks áttum við fjölda færa en ákvarðanatakan fremst á vellinum oftast fyrirsjáanleg ásamt því að Pope markvörður þeirra breyttist í Manuel Neuer. Burnley hefðu svo hæglega getað stolið sigrinum í lokin þegar Ben Mee fékk tvo fría skalla og okkar mönnum enn fyrirmunað að dekka í föstum leikatriðum. Einhverjir vildu sjá dómarann dæma víti eftir að Salah féll við í teignum undir lok leiks en ég veit hreinlega ekki með það. Fannst það vera á það gráu svæði að við hefðum ekki sætt okkur við það hefði það verið öfugt.

 

Bestu menn Liverpool

Á bara mjög erfitt með að útlista bestu menn eftir svona leik. Gef þó Salah þann titil sem var ógnandi og duglegur í fyrri hálfleik ásamt því að skora mjög gott mark.  Liverpool liðið í heild var að spila ágætlega og mér fannst ekkert vanta uppá dugnað en menn verða að fara að finna lausnina á að brjóta svona lið niður.

 

Vondur dagur

Færanýtingin og pirrandi ákvarðanatökur fremst á vellinum finnst mér standa uppúr.  Sóknarmenn Liverpool fengu ótal færi til að klára þennan leik en ekkert gekk upp. Mistök Klavan í markinu og svo aftur í síðari hálfleik eru náttúrlega óboðleg.  Klavan er ekki nógu góður leikmaður, það sjá allir og samherjar hans voru orðnir vel pirraðir á honum undir lokin þegar hann enn og aftur talar ekki og fer uppí skallabolta sem verða að hættulegum hornum og hættulegustu færum Burnley í leiknum.  Bakverðirnir okkar áttu ekki góðan dag. Trent átti reyndar gott skot sem Pope varði.

 

Umræðan

Umræðuefnið eftir leik hlýtur að vera hvernig okkur er fyrirmunað að knésetja þessi minni lið sem spila 8-1-1 og beita skyndisóknum. Það er búið að fara svo oft yfir þetta að það er hrikalega pirrandi að það virðist ekkert hafa breyst í þeim efnum frá síðasta tímabili. Við munum ekki gera neinar rósir með þessum varnarleik og enn og aftur spyr ég mig hvort Virgil Van Diijk var virkilega eini miðvörðurinn í heiminum sem gat bætt leik okkar.  Sama má segja um stöðu alvöru djúps miðjumanns sem við þurfum virkilega á að halda. Ég hef óbilandi trú á Klopp en varnarleikur virðist  vera hans akkilesarhæll.  Þetta er ekki svartnætti, Liverpool spiluðu ágætlega og mótið er rétt að hefjast. Nú þarf alvöru vinnu á æfingasvæðinu.

Næst eigum við Leicester úti í deildarbikar og þar má búast við að við fáum að sjá gjörbreytt lið og ungu strákarnir fái góðan spilatíma.  Þangað til. Slökum aðeins á.

YNWA!!

 

 

 

 

Liverpool 2 – Sevilla 2

0-1 Ben Yedder 5.mín
1-1 Firmino 21.mín
2-1 Salah 37.mín
2-2 Correa 72.mín

Leikurinn

Tveir hálfleikir. Sá fyrri mjög góður, gáfum reyndar mark en það gerum við oft en eftir það geggjaður sóknarleikur, tvö mörk sem áttu að verða þrjú en vítið sem við klúðruðum á 42.mínútu reyndist dýrkeypt. Ég pirraði mig mjög á aðhlaupi og framkvæmd spyrnunnar hjá Firmino. Í hálfleik virtist allt vera í góðu.

Seinni hálfleikurinn var einfaldlega slakur. Allt önnur orka, Sevilla færðu varnarlínuna sína og djúpa miðjumanninn aftar og skyndilega áttum við engin svör sóknarlega. Þeir jafna eftir barnalegan varnarleik okkar upp úr innkasti og svo voru það þeir sem hefðu getað stolið sigri þegar þeir sluppu einir í gegn í uppbótartíma en brenndu af algeru dauðafæri. Við vorum ráðvilltir og lélegir síðustu 20 mínúturnar og innkoma Coutinho breytti engu.

1 stig niðurstaðan á Anfield. Ekki gott.

Bestu menn Liverpool

Fyrri hálfleikurinn var góður. Mér fannst frábært að sjá Moreno sóknarlega og Salah var á flottum stað. Salah hélt höfði allan leikinn og mér fannst Wijnaldum koma vel út allan leikinn en ansi margir í okkar liði áttu mjög erfitt að halda orkunni allan leikinn.

Vondur dagur

Ég sagði á laugardag að þessi leikur segði svolítið til um veturinn. Eftir stóran skell kemur í ljós hvað í þig er spunnið. Í kvöld var varnarleikurinn a.m.k. jafn lélegur á köflum og gegn City. Fyrra markið þá eru Can og Gomez með lina vörn og Lovren hittir ekki rútínubolta. Seinna markið er innkast, Gomez gleymir sér, Can og Hendo eru gripnir við „ball-watching“ og svæðið milli hafsentanna til að vinna í var svakalegt. Ömurlegur varnarleikur. Meira síðar. Gomez lét svo reka sig útaf í blálokin. Hann átti arfaslakan dag elsku karlinn.

Umræðan

Það þarf ekkert að bíða eftir umræðuefninu.

Lið sem verst svona nær engum árangri. Punktur. Ég veit ekki hvað mér finnst um markmannsskiptin því við kennum ekki Karius um þessi mörk. Varnarlína skipuð Gomez, Lovren, Matip og Moreno féll á þessu prófi ásamt þeirri varnarvinnu sem á að fara fram á miðsvæðinu en sást ekki í kvöld.

Klopp hefur að sjálfsögðu völdin hjá Liverpool og hans verkefni fram í janúar verður að vinna úr þessum hóp einhvern varnarleik. Ég held að við verðum að sætta okkur við það að vera enn á ný skítstressuð í hvert sinn sem lið fer í sókn gegn okkur. Bakverðirnir okkar gefa mikil svæði fyrir aftan sig og bilin milli hafsentanna annars vegar og svo á milli varnar- og miðjulínu eru hreinlega sláandi. Menn ákváðu að kaupa ekki hafsent eða djúpan miðjumann.

Eftir tvo síðustu leiki er ég skíthræddur um að það hafi verið rosaleg mistök því okkar frábæri blitzkrieg-sóknarleikur er að týnast í harakiri-varnarleik.

Næst er Burnley á Anfield.

Það er SKYLDUSIGUR!!!

Liverpool 4-2 Hoffenheim

Það var markaveisla á Anfield í kvöld þegar Liverpool liðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Hoffenheim mætti vitandi að þeir þyrftu að sækja, en það var ekki að sjá því Liverpool átti fyrstu mínútur leiksins fyrir utan eitt dauðafæri hjá Gnabry sem bæði var rangstæður og hitti ekki á markið. Það sem fylgdi líktist frekar handboltaleik en fótbolta þar sem bæði lið áttu erfitt með að verjast.

Það var hreinlega unaðslegt að horfa á sóknarleik Liverpool og hreinlega ótrúlegt að liðið hafi aðeins skorað fjögur mörk í þessum leik. Sóknarþríeykið small virkilega vel saman og vonandi eigum við eftir að sjá mikið af þessu á Anfield í vetur.

Móment leiksins hjá mér var óeigingirni fyrirliðans eftir klukkutíma leik þegar hann var í upplögðu marktækifæri en lagði boltann á Firmino sem skoraði auðveldlega kom okkur í  4-1. Þá vissi maður 100% að liðið væri komið áfram allt stressið hvarf og maður gat notið eins versta fagns sem ég hef séð í boði Firmino.

Bestu menn Liverpool

Í dag er erfitt að velja, allir stóðu sig vel sóknarlega en margir hefðu mátt gera betur í varnarleiknum Emre Can skoraði tvö mörk og dreyfði spilinu vel á miðsvæðinu og vonandi situr nýr samningur fyrir á borðinu strax í fyrra málið. Roberto Firmino átti einn af sínum bestu leikjum í rauðu treyjunni vann vel fram á við skoraði eitt mark og lagði upp annað. Þegar aðeins 15 mínútur voru liðnar af leiknum bjóst ég við að þurfa að skrifa um slæman dag hjá Wijnaldum sem hafði þá gefið boltan í tvígang auðveldlega frá sér og virtist ekki vera á sínum degi en hann átti stóran part af mörkum tvö og þrjú og vonandi er hann vaknaður í ár. Ég gæti líka talað um Mané, Salah og Henderson sem áttu mjög góðan dag en hinir þrír voru þeir sem heilluðu mig mest í dag en ef menn vilja frekar velja aðra skil ég það mjög, mjög vel.

Vondur dagur

Vont að tala neikvætt eftir svona leik en enn og aftur er varnarleikurinn að klikka. Gnabry hefði getað skorað nokkur í dag og liðið sem heild verður að fara að verjast betur. Í byrjun seinni hálfleiks skánaði þetta, sérstaklega Jordan Henderson sem var farinn að vinna boltan tilbaka framarlega á vellinum nokkrum sinnum en þetta er hlutur sem verður að vera í lagi ef liðið ætlar sér stóra hluti.

Umræðan

Í dag er partý, liðið er komið í riðlakeppnina þar sem það á heima. Á morgun komumst við að því hverjum við verðum með í riðli og þrátt fyrir veikleika varnarlega er ekki annað hægt en að gleðjast yfir þeirri skemmtun sem þetta lið veitti í dag og hefur sýnt að það getur gert reglulega.

Hér eru mörkin úr leiknum ef einhver missti af þeim eða vill horfa á þau aftur, þetta lið er snilld og vonandi er þetta bara brot af því sem koma skal í vetur.

 

Watford 3-3 Liverpool

1-0 – Okaka 8.mín
1-1 – Mane 29.mín
2-1 – Okaka 32.mín
2-2 – Firmino 55.mín
2-3 – Salah 57.mín
3-3 – Britos 94.mín

Bestu leikmenn Liverpool
Eins og svo oft áður sýnir Liverpool hversu mikið liðið líkist Jekyll og Hyde. Ákveðnir þættir í leik liðsins eru nær gallalausir og í algjörum topp klassa en svo er auðvitað annað sem er algjört skrímsli. Hreinn og beinn viðbjóður sem enginn vill sjá.

Fram á við er Liverpool enn gífurlega sterkt. Liðið er frábærlega spilandi, fljótir leikmenn og margir sem geta skorað úr alls konar aðstæðum. Það er ekkert að því og gott að byrja leiktíðina á að skora þrjú mörk og að þrír helstu sóknarmenn liðsins komist á blað.

Firmino heldur áfram að gera sitt í framlínunni, hann er og verður aldrei „pjúra nía“ en hann er stór þáttur í skapandi og léttleikandi sóknarbolta liðsins. Hann skoraði úr mjög öruggri vítaspyrnu og er nú að því virðist aðal vítaskytta liðsins og er nú búinn að skora fjórar mjög öruggar vítaspyrnur frá því í sumar, það er mjög gott. Einnig lagði hann upp mark Salah með góðri vippu, hvort sem það átti að vera skot eða sending veit ég ekki en það allavega virkaði.

Salah stimplaði sig heldur betur inn og skoraði gott mark ásamt því að fiska vítaspyrnu. Hann komst sömuleiðis í nokkrar ákjósanlegar stöður en hefði alveg mátt skjóta betur í einhverjum þeirra. Hann var mjög flottur og hlakka ég mikið til að sjá hann meira í vetur.

Mane minnti á mikilvægi sitt fyrir liðið og var mjög líflegur og skoraði frábært mark. Þessir þrír sem helstu sóknarmenn liðsins í vetur er ógeðslega spennandi!

Alexander Arnold þótti mér líflegur, sérstaklega fram á við og Moreno líka. Can óx í leikinn og var líflegur í restina.

Vondur dagur
Allt annað en fremsti partur sóknarleiksins.

Vörnin í föstu leikatriðunum var auðvitað algjört djók eins og fyrri daginn og það er klárt mál að enginn treystir sjálfum sér né öðrum í þessum aðstæðum. Það er alveg glatað að horfa upp á þetta leik eftir leik.

Mignolet var slakur, Lovren og Matip hefðu mátt gera betur í ákveðnum atriðum og skiptingar Klopp voru nú ekki alveg til hins betra í dag. Miðvörður Watford meiðist í restina og þarf að spila áfram en þá er tekið út Firmino og Salah sem væru líklega þeir tveir síðustu sem ég myndi nenna að eltast við ef ég væri eitthvað tæpur. Gomez átti ekki góða innkomu fyrir Alexander Arnold.

Miðjan var ekki nógu góð í dag og klárlega vantar ákveðinn faktor í hana þegar Coutinho og Lallana eru ekki með. Wijnaldum, Henderson og Can eru allir mjög góðir en enginn þeirra hefur sömu eiginleika til að snúa og opna leikinn eins og hinir og það sást vel í dag, sérstaklega í fyrra hálfleik.

Vörnin léleg. Sóknin mjög góð þó hún eigi eflaust talsvert inni.

Umræðan eftir leik
Þetta er að mestu sama vörn og var til staðar þegar Rodgers var rekinn. Það er að klárast annar sumargluggi Klopp og það að Mignolet, Clyne, Lovren og Moreno séu líklegir sem fjórir af fimm byrjunarliðsmönnum varnarinnar eftir allan þennan tíma er bara ekki ásættanlegt. Þar á eftir kemur Klavan og með fullri virðingu fyrir honum þá er hann bara ekki nægilega góður og Gomez sem hefur misst af tveimur leiktíðum vegna meiðsla á meðan að Sakho situr á aerobic hjóli og setur inn motivational quotes á Snapchat.

Vörnin er og verður vandamál í vetur verði þetta ekki bætt. Vandamálið er ekki bara það að liðinu vanti einn mann inn og allt er lagað sí svona. Vandamálið er skortur á gæðum, breidd og trausti í vörninni. Við verðum að klára Van Dijk sem gæti nú alveg klárlega hjálpað helling til og elsku Klopp, það var hálf kjánalegt þegar þú hélst að það væri ekki hægt að nefna fimm varnarmenn sem væru betri en þeir sem við eigum nú þegar. Það er heill hellingur af þeim og ef það er ekki hægt að klára Van Dijk þá þarf bara að klára einhvern annan í hans stað.

Það vantar líka klárlega annan á miðjuna sem getur snúið og opnað leiki hvort sem Coutinho verður áfram eða fer. Það er mjög mikilvægt að þessir tveir hlutir verði lagaðir fyrir september, annars gæti tímabilið reynt ansi mikið á þolinmæði okkar stuðningsmanna.

Næstu verkefni
Fyrri leikurinn gegn Hoffenheim í umspili Meistaradeildarinnar er á þriðjudaginn og Crystal Palace um helgina eftir. Liverpool þarf að ná góðum úrslitum í báðum leikjum og rétta úr kútnum.

Já og styrkja leikmannahópinn fyrir komandi leiktíð!