Flokkaskipt greinasafn: Leikskýrslur

Liverpool í átta liða úrslitin!

Liverpool og Porto gerðu markalaust jafntefli á Anfield sem þýðir að Liverpool siglir áfram í næstu umferð með 5-0 samanlagðan sigur á Porto.

Eins og við mátti búast spilaðist leikurinn þannig að augljóst var að annað liðið hafði fimm marka forystu eftir fyrri leikinn og var hann nokkuð rólegur heilt yfir en Liverpool stjórnaði allri ferðinni og hefðu í raun átt að klára leikinn með sigri.

Klopp gerði þó nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá því í síðasta leik en þeir Chamberlain, Van Dijk, Robertson, Alexander Arnold og Salah byrjuðu ekki í dag en liðið engu að síður nokkuð öflugt.

Karius

Gomez – Matip – Lovren – Moreno

Milner – Henderson – Can

Lallana – Firmino – Mané

Liverpool byrjaði leikinn nákvæmlega á sama hátt og þeir enduðu hann. Þeir pressuðu ákaft á leikmenn Porto, komu þeim úr jafnvægi og unnu af þeim boltann sem þeir héldu svo lengi og reyndu að finna opnanir. Fullkomin stjórn á leiknum og Porto gerðu nær ekkert í þau skipti sem þeir komu yfir á vallarhelming Liverpool.

Maður skynjaði nú alveg að það vantaði ákveðinn takt í sóknarleiknum í kvöld og að menn voru innst inni ekkert í lífsnauðsynlegri þörf á að skora mörk í kvöld. Mane fékk tvö færi í fyrri hálfleik, annað þegar hann hoppar upp í fyrirgjöf Gomez en nær ekki að stýra boltanum á markið og hitt var þegar hann átti kraftmikið skot sem endaði í stönginni. Lovren átti svo fínan skalla sem fór yfir markið og ef ég man rétt þá var þetta það mest marktækasta úr fyrri hálfleiknum.

Klopp skipti óvenju snemma og tók Firmino útaf – sem, líkt og fyrri daginn, var frábær í pressunni fram á við þó hann hafi líkt og aðrir ekki alveg verið í taktinum fram á við. Danny Ings kom inn á í hans stað og var mjög líflegur. Það er gaman að sjá hann aftur á vellinum og hann er í rosalega flottu standi líkamlega þrátt fyrir að hafa misst úr nær rúmlega tvær leiktíðir vegna slæmra meiðsla. Hann átti tvo góða skalla að marki og í annað skiptið þurfti Iker Casillas, í marki Porto, að taka á honum stóra sínum til að blaka boltanum framhjá.

Lovren átti frábæra björgun seinni part leiks þegar hann hoppar fyrir skot af stuttu færi í teignum og bjargaði mjög líklega marki. Salah kom inn á þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum og minnti á að hann er ógeðslega góður en tókst ekki að gera það sem gera þurfti til að klára leikinn.

Ég veit nú ekki hvað skal segja meira um þennan leik nákvæmlega. Viðureignin var unnin í fyrri leiknum og þetta kvöld því aðeins formsatriði að spila þessar 90 mínútur og að tapa ekki 6-0, það var nákvæmlega það sem var gert. Porto fengu engan séns í leiknum og leikmenn Liverpool fengu ágætis æfingaleik til að vonandi brýna hnífa sína fyrir stórleikinn á laugardaginn.

Það er í raun ekki einhver ákveðinn sem stendur upp úr í vali á manni leiksins. Allir þrír á miðjunni voru góðir. Henderson fannst mér virkilega góður, Can var gjörsamlega út um allt og James Milner var flottur – sá er búinn að vera frábær síðustu vikur by the way!

Lallana var frekar daufur frannst mér á vængnum og þegar hann og Gomez voru saman á hægri vængnum þá fannst mér við rosalega bitlausir og vanta meiri áræðni. Hann nældi sér í góðar 90 mínútur sem hann þarf til að komast í stand. Mane minnti ágætlega á sig í leiknum og Firmino var fínn en vantaði ögn upp á frammi fannst mér. Moreno átti mjög líflega spretti en vantaði að stilla miðið í fyrirgjöfum og skotum sínum. Ings var líflegur þegar hann kom inn á og Salah líka. Lovren fannst mér mjög flottur þegar á reyndi en fannst Matip ekki eins dominerandi. Veljið einn af þessum þremur sem voru á miðjunni í dag og réttið honum titilinn, mér er sama hvern þið takið þeir ættu það allir skilið.

Já og Emre Can, viltu bara vinsamlegast hætta þessu „play hard to get“ bulli þínu og skrifa undir nýjan samning við Liverpool, takk!

Liverpool er komið í fyrsta skiptið í örugglega – guð má vita hvað mörg ár, ég er ekki einu sinni viss um að það hafi verið búið að finna upp á ljósaperunni þegar það var!

Við fögnum þessu stóra skrefi í rétta átt og sjáum nú á næstu sjö til átta dögum hvaða liðum við getum mætt í næstu umferð en þangað til við komumst að því þá er erfiður útileikur í hádeginu á laugardag þegar Liverpool heimsækir Man Utd í leik sem getur spilað stóra rullu í topp fjögur baráttunni svo það er fínt að leikmenn hafi fengið ágætis hvíld í kvöld.

Liverpool 4-1 West Ham

Eftir afslappandi 10 daga þá mætti Liverpool aftur til leiks á Anfield gegn Austur-Lundúnaliðinu West Ham með góðkunningjana David Moyes og Patrice Evra meðal mótherjanna. Í boði var að komast í 2.sætið og halda áfram góðu leikformi síðustu leikja. Úr varð hinn líflegasti laugardagsleikur og hin besta skemmtun eins og Klopp og Rauði herinn er orðinn alþekktur fyrir innan Englands sem utan.

Mörkin

1-0  Emre Can 29.mín
2-0  Mohamed Salah 51.mín
3-0  Roberto Firmino 57.mín
3-1  Michail Antonio 59.mín
4-1  Sadio Mané 77.mín

Leikurinn

Frá fyrstu mínútu var ljóst að Liverpool mættu einbeittir til leiks og þeir blésu strax til sóknar með stangarskoti frá Mo Salah á 3.mínútu. Leikurinn var alger eign rauðliða og eftir 10 mínútur höfðum við verið 81% með boltann. Því miður skiluðu yfirburðirnir ekki marki og því alltaf hætta á að fá skyndisókn í bakið. Í fyrstu sóknartilburðum West Ham eftir 15 mínútna leik þá keyrði Arnautovic í átt að vítateig hægra megin og vippaði listavel í átt að marki en Loris Karius varði stórglæsilega með fingurgómunum í þverslánna. Þjóðverjinn hefur verið að sýna sitt rétta andlit í síðustu leikjum og þetta var flott áframhald á fantagóðu formi á milli stanganna.

Eftir það hægðist á leiknum en Liverpool voru áfram meira með boltann gegn þéttskipaðri vörn gestanna. Eftir tæplega hálftíma leik tók Mo Salah hornspyrnu og Emre Can vann skallaeinvígið við Evra og stangaði boltann í netið. Þetta var 100 mark liðsins á tímabilinu og enn erum við í febrúar sem undirstrikar hversu bráðskemmtilegt sóknarlið þetta er. Eftir markið jókst tempóið og sóknarþunginn að nýju þar sem Liverpool freistaði þess að láta kné fylgja kviði. Salah fékk hættulegt skallafæri á fjær stöng eftir flotta fyrirgjöf Robertson og önnur hálffæri voru ekki nýtt þannig að tíminn fjaraði út í fyrri hálfleik.

1-0 fyrir Liverpool í hálfleik

Okkar menn héldu áfram þar sem frá var horfið og sóttu stíft strax í byrjun seinni hálfleiks. Uppskeran lét ekki bíða lengi eftir sér og Oxlade-Chamberlain tók góðan sóló-sprett sem endaði með sendingu inn fyrir á Mo Salah. Egyptinn hárfagri þakkaði pent fyrir þjónustuna og kláraði með laglegu skoti í gegnum klof varnarmannsins og út við stöng. Þetta var hans 23. mark á tímabilinu sem jafnar Harry Kane á toppi markahæstu manna úrvalsdeildarinnar. Magnaður árangur á hans fyrsta tímabili á Anfield og heimamenn komnir í 2-0.

Liverpool voru komnir á bragðið og héldu sóknarþunganum áfram með skoti Oxlade-Chamberlain í hliðarnetið eftir góða sóknaruppbyggingu. Skömmu áður en klukkutími var liðinn sendi Emre Can góða sendingu inn fyrir vörnina og Firmino lék laglega á Adrian í úthlaupinu og skoraði með hefðbundnu no-look -skoti sem Brasílíumaðurinn er orðinn þekktur fyrir. Staðan orðin vænleg og nóg eftir af leiknum til að halda áfram að raða mörkum inn á dapra mótherjana.

Eða það voru í það minnsta eðlilegar væntingar heimamanna en Moyes skipti Michail Antonio inná í kjölfar marksins og tveimur mínútum síðar hafði hann heldur betur launað stjóra sínum innáskiptinguna. West Ham unnu boltann á miðjunni og sending upp hægra megin kom Antonio í vænlega stöðu sem hann gernýtti með góðu skoti með grasinu og út við stöng. 3-1 og nóg eftir af leiknum.

Við þetta kom tímabundinn kraftur í gestina og smávægileg skjálftavirkni í varnarvinnuna hjá rauðliðum. En Liverpool fundu taktinn fljótt aftur og settu að nýju í sóknargírinn. Á 70.mínútu þá átti Oxlade-Chamberlain ógnandi sprett sem hann lauk með sendingu inn fyrir vörnina á Sadio Mané sem var einn á móti markmanni en Senegalinn skaut í stöngina og út. Yfirburðirnir héldu áfram og eftir að Robertson hafði keyrt upp að endamörkum þá lagði hann boltann út í teig á Mané sem slúttaði skemmtilega í stöngin og inn í þetta skiptið.

Eftir þetta fóru báðir stjórar í trakteringar við mannaskiptingar og augljóslega komnir með hugann við næsta leik enda úrslitin ljós í þessu einvígi. 4-1 varð því niðurstaðan og flottur skyldusigur hjá okkar mönnum í bráðskemmtilegu sóknarfjöri og markasúpu.

Bestu menn Liverpool

Liðsheildin var frábær í leiknum og allir skiluðu sínum hlutverkum með sóma. Markið sem við fengum á okkur var óheppilegt en það er léttvægt umkvörtunarefni miðað við hina almennt flottu frammistöðu liðsins í öruggum markasigri. Sóknartríóið skilaði sínu með mörkum á hvern snilling. Oxlade-Chamberlain átti stórfínan leik á miðjunni og Robertson var mjög ógnandi niður vænginn og báðir luku leik með stoðsendingu á kjaft. Minn maður leiksins er Emre Can en Þjóðverjinn var keisaralegur á miðjunni og skoraði upphafsmarkið ásamt því að leggja upp mark með góðri stoðsendingu. Það væri sorglegt ef við næðum ekki samningum við Can því að hans vægi er sífellt að aukast með stabílum og stórgóðum frammistöðum. Bitte unterschreiben Sie den Vertrag Herr Kaiser! Bitte schön!

Vondur dagur

Enginn Púlari átti vondan dag og því þarf að leita til mótherjanna í leit að slíku. David Moyes bætti 16. leiknum í safnið yfir leiki á Anfield þar sem honum hefur ekki tekist að sigra en slíkt hefur honum aldrei auðnast og megi það safn stækka endalaust áfram. Þá var heppilegt að Patrice Evra hefði fengið sinn fyrsta leik fyrir West Ham því að það gaf áhorfendum kjörið tilefni til að dusta rykið af Suarez-söngvum og gaf leikmönnum eflaust væna gulrót að leggja slíkan pörupilt að velli. Vondur dagur hjá báðum sem er mikið gleðiefni fyrir okkur.

Tölfræðin

Markið hjá Salah var hans 20.mark með vinstri fæti og með því bætti hann met í Úrvalsdeildinni sem var sett af hinum guðlega Robbie Fowler tímabilið 1994-1995. Þetta er ekki í fyrsta skipti í vetur sem Salah bætir met hjá Fowler, Liverpool eða Úrvalsdeildinni og það undirstrikar í hversu mögnuðu formi hann hefur verið.

Hægt er að skoða ítarlega tölfræði úr leiknum á WhoScored.

Umræðan

Það verður eintóm hamingja í herbúðum Rauða hersins og þeir eru í ógnvænlegu formi að toppa á hárréttum tíma. Róteringar Klopp fyrr í vetur eru klárlega að margborga sig og nú þarf bara að halda dampi. Við erum komnir í 2. sætið og helstu mótherjar okkar í sætunum beint fyrir neðan mætast á morgun þannig að áhugavert verður að fylgjast með niðurstöðunni úr þeim leik. Næsti leikur Liverpool er á Anfield gegn Newcastle United og Rafa Benitez eftir viku en sá spænski skipulagssnillingur hefur aldrei tapað fyrir Liverpool sem stjóri annars liðs og því reynir mikið á að endurskrifa söguna.

En gleðjumst kæru rauðliðuðu félagar meðan gleði er í boði og fögnum frábæru Liverpool-liði sem gerir fótbolta að listrænni skemmtun. Njótið!

You Never Walk Alone!

FC Porto 0-5 Liverpool

Það var norður-enskt slagveður í Porto í kvöld og fótbolti spilaður í kunnuglegum rigningarsudda. Liverpool veðraði storminn og tók meistaraslaginn í gini drekans á  Estádio do Dragão.

Mörkin

0-1   Sadio Mané 25.mín
0-2   Mohamed Salah 29.mín
0-3   Sadio Mané 53.mín
0-4   Roberto Firmino 69.mín
0-5   Sadio Mané 85.mín

Leikurinn

Leikurinn byrjaði rólega sem hentaði Liverpool ágætlega enda á erfiðum útivelli á Estádio do Dragão. Porto fengu fyrsta færi leiksins þegar að óákveðinn varnarleikur Liverpool hleypti Otavio í skotfæri sem Lovren gerði vel í að komast fyrir og boltinn fór yfir markið. Fátt markvert gerðist næsta korterið með nokkrum hálffærum og leikurinn var í þægilegu jafnvægi.

Á 25.mínútu kastaði markvörður Porto boltanum fram á völlinn og sú sending var étinn upp af hungruðum Lovren á miðjunni og Wijnaldum göslaðist áfram í kröftugu hlaupi sem endaði með sendingu á Mané í skotfæri. Senegalinn lét vaða með æfingabolta á José Sá í markinu sem sá ekki til sólar og missti skotið undir handarkrikann. 0-1 Liverpool og komnir með gullmark á útivelli.

Einungis fjórum mínútum síðar átti James Milner flottan sprett og hann lauk honum með fallegu innanfótarskoti sem small í stönginni hjá Porto. Frákastið féll til Salah sem tók enn eitt egypska-Messi-mómentið með því að halda boltanum á lofti með rist og kolli áður en hann slúttaði í opið markið.  Þetta róaði taugar okkar manna sem höfðu þó verið vel stemmdir það sem af var leik. Fyrri hálfleikur fjaraði þægilega út og það var frekar að Liverpool myndi bæta við heldur en að fá á sig mark miðað við gang leiksins.

0-2 fyrir Liverpool

Porto hefði þurft að gera alvöru áhlaup strax í upphafi seinni hálfleiks en það virtist sem að staða leiksins og varnarveggur Liverpool soguðu alla mótstöðu úr þeim. Góð staða varð frábær á 53.mínútu þegar að Salah geystist upp í skyndisókn og lagði upp færi fyrir Firmino. Skotið var varið frá þeim brasilíska en boltinn féll þægilega fyrir Mané sem kláraði færið auðveldlega í netið. Einvígið við það að verða búið en samt var nóg eftir í þessum leik.

Liverpool gáfu engin grið og héldu áfram vinnusamri pressu og stálvilja til að gjörsamlega dauðrota drekann á hans heimavelli. Önnur skyndisókn á 69.mínútu gaf Milner hafsjó af plássi á vinstri vængnum og sá enski lagði boltann snyrtilega út í teiginn á Firmino sem slúttaði frábærlega í gegnum varnarklof og í netið.

Gjörsigraður leikur og Klopp nýtti tækifærið til að hvíla menn með þremur innáskiptingum og gaf Danny Ings sinn fyrsta Meistaradeildaleik á ferlinum. Ings launaði greiðann með stoðsendingu á Mané sem tók við boltanum fyrir utan teig, keyrði upp í átt að vítateignum og hamraði boltann í netið til að fullkomna sína þrennu á mögnuðu kvöldið Porto. Kop.is-liðar á vellinum eru eflaust ennþá að fagna á vellinum í þessum töluðu orðum enda ekki á hverjum degi sem Liverpool vinnur 0-5 útisigur gegn öflugu evrópsku liði í Meistaradeildinni.

Bestu menn Liverpool

Vörnin og markvarslan var svo gott sem fullkomin með mjög örugga frammistöðu þar sem allir leikmenn leystu fagmannlega allar tilraunir Porto til markskorunar. Wijnaldum og Milner voru kröftugir á miðjunni og báðir með stoðsendingar, en fyrirliðinn Henderson var engu síðri í sínum leik í djúpri miðjustöðu. Salah og Firmino voru mjög flottir með sín mörk og frábærir í skyndisóknum og alltaf hættulegir með sinni sköpun. En auðvitað er enginn annar en þrennu-hetjan Sadio Mané maður leiksins í kvöld. Fremstur meðal jafningja með sín mörk í frábærri liðsframmistöðu.

Vondur dagur

Augljóslega átti enginn hjá Liverpool vondan dag á kvöldi sem þessu, en það er helst að morgundagurinn verði í þynnra lagi fyrir Kopverja og íslenska Púlara í Porto-borg sem munu vafalítið fagna fræknum fimm-marka sigri langt fram á nótt. Endurminningarnar munu þó ylja þeim snögglega um hjartarætur og auðvelda lífið í fyrramálið.

Tölfræðin

Karius hélt hreinu í 8. skipti í 16 leikjum á þessum vetri og er með ansi vígalegt vinningshlutfall. Hann er að vaxa hratt í sínu hlutverki og megi það það halda áfram sem lengst þannig að fáum þann toppmarkmann sem okkur dreymir um að hafa í rammanum.

Umræðan

Púlarar verða í sjöunda himni með stöðu mála og munu núna taka sér 10 daga leikhlé vegna ónefndra bikarkeppni sem engu máli skiptir. Við erum komnir áfram í CL og erum ósigraðir í appelsínugula yfirstrikunar-varabúningnum (7-9-13). Einnig er sú sögulega staðreynd á sveimi að síðustu skiptin sem Liverpool vann útisigra í Portúgal að þá urðu þeir Evrópumeistarar árin 1978 og 1984 (aftur 7-9-13).

Eins og meistari Sigkarli myndi orða það: Það er nú þannig!

YNWA

Liverpool – Tottenham 2-2

1-0 Salah 3
1-1  Wanyama 80′
1-1 Kane klúðrar víti 85′
2-1 Salah 92′
2-2 Kane (víti) 94′

Leikurinn

Leikurinn byrjaði heldur betur fjörlega, eftir barning á vallarhelmingi Tottenham átti Dier sendingu til baka, Salah stakk Sanchez af og skoraði af öryggi einn gegn Iloris, 1-0 eftir rétt tæpar 3 mínútur!

Liverpool komst aftur í hættulegt færi stuttu síðar þegar Sanchez átti misheppnaða hreinsun í Mané, rann og sá síðarnefndi komst einn upp kanntinn en fyrirgjöf hans var hreinsuð í horn, hefði mátt gera betur þarna.

Þetta var hörku skemmtilegur fyrri hálfleikur. Liverpool pressaði Tottenham í að gera mistök og átti alveg helling af hættulegum sóknum en það vantaði alltaf upp á þessa lokasendingu eða skot. Ég var sjálfur a.m.k. nokkuð svekktur með að vera ekki búnir að nýta þetta og auka við forystuna í hálfleik. Verðskuldað 1-0 án þess að Tottenham hafi ógnað af einhverju ráði en Liverpool hefði vel getað verið búnir að tvöfalda forystu sína.

Continue reading

Huddersfield 0-3 Liverpool

26.mín 1-0 Emre Can
45.mín 2-0 Roberto Firmino
78.mín 3-0 Mo Salah

Liverpool vann afar, afar, afar mikilvægan og þarfan sigur á Huddersfield í kvöld og var það klárlega eitthvað sem allir stuðningsmenn, leikmenn, þjálfarar, ræstitæknar, kokkar… félagsins þurftu á að halda eftir tvo ömurlega tapleiki í röð gegn Swansea og WBA.

Leikurinn fannst mér byrja svona frekar stirt og leit ekkert rosalega vel út en ekki leið að löngu þar til Liverpool tók öll völdin á vellinum. Karius átti ágæta vörslu þegar Huddersfield komst í fínt færi en skot sóknarmannsins rataði nokkurn vegin beint á Karius sem varði fínt – ekki oft sem maður sér eitthvað svona falla með Liverpool!

Liverpool jók pressuna á Huddersfield í kjölfarið og braut loks ísinn þegar Emre Can átti fast skot fyrir utan teig sem straukst aðeins við varnarmann Huddersfield en endaði í markinu. Gott mark hjá Can og afar mikilvægt fyrir Liverpool.

Rétt fyrir hálfleik datt boltinn einhvern veginn fyrir Firmino sem slapp í gegn og hljóp meðfram endalínunni vinstra meginn og tókst að lauma boltanum á nærstöngina og skoraði laglegt mark og kom Liverpool í mjög góða stöðu þegar flautað var til hálfleiks. Frábært mark hjá Firmino sem var að skora sitt nítjánda mark á leiktíðinni, það ellefta í deildinni. Svakalegt stökk hjá honum í markaskorun í vetur sem er bara frábært.

Seinni hálfleikur byrjaði svipað og sá fyrri endaði. Sadio Mane átti skalla eftir flotta fyrirgjöf Can en skallinn sem var af löngu færi endaði nokkuð beint á markvörð Huddersfield. Milner átti fínt skot nokkru seinna en aftur nokkuð beint á markvörðinn sem sló boltann yfir markið.

Emre Can og Sadio Mane léku sama leikinn aftur þegar Can lyfti boltanum inn á Mane sem skallaði af löngu færi og náði meiri kraft í skallann en boltinn fór framhjá. Salah slapp svo framhjá markverði Huddersfield en var á miklum hraða úr þröngu færi og skot hans fór í hliðarnetið.

Liverpool fékk vítaspyrnu þegar Emre Can var keyrður niður á 76.mínútu sem Salah tók og skoraði af miklu öryggi og skoraði sitt 26.mark í vetur. Eftir það lét Liverpool leikinn nokkurn veginn bara fjara út og vann sannfærandi og góðan 3-0 sigur.

Þessi sigur var afar kærkominn eftir tvo ömurlega tapleiki gegn tveimur neðstu liðum deildarinnar. Þetta var klárlega skyldusigur en líkt og sást í síðustu tveimur leikjum þá geta þessir leikir verið erfiðir ef menn eru ekki með fótinn á bensíngjöfinni og hausinn í lagi.

Heilt yfir spilaðist þessi leikur nákvæmlega eins og hann ætti að hafa spilast. Karius hafði lítið að gera í markinu en tók þennan eina bolta sem hann þurfti að hafa áhyggjur af – það er ekki sjálfgefið hjá Liverpool. Vörnin var þétt og góð með þá Matip og Lovren í miðvörðunum. Sturluð staðreynd en Joel Matip átti víst 161 sendingu í þessum leik sem er það mesta sem leikmaður Liverpool hefur átt í Úrvalsdeildinni frá því farið var að skrá niður slíka tölfræði!

Gomez var þéttur til baka í hægri bakverðinum en gerði lítið fram á við á meðan að Robertson var virkilega öflugur fram á við og var mikið í boltanum. Flottur strákur þar á ferð sem ég held að sé að eigna sér þessa stöðu þessa dagana.

Milner var líflegur á miðjunni og átti nokkrar góðar rispur. Henderson byrjaði leikinn eftir meiðsli og var virkilega flottur, hann var út um allt og stýrði þessu vel. Frábært að fá hann aftur inn í myndina. Emre Can stal hins vegar senunni og var klárlega maður leiksins. Hann skoraði gott mark, hefði getað lagt upp tvö og vann víti. Frábær leikur hjá honum og elsku Emre minn, viltu vinsamlegast hætta að daðra við önnur lið og skrifa bara undir þennan blessaða samning við Liverpool.

Salah var líflegur og skoraði sitt 26.mark á leiktíðinni og það nítjánda í deildinni. Þvílík kaup sem hann hefur verið. Var ánægður með að sjá að hann vildi fá að fara á punktinn og skemmtilegt að sjá að boltinn var varla farinn yfir línuna þegar hann snýr sér í átt að Milner og þakkar honum fyrir að hafa gefið honum spyrnuna. Hann er enn að skora mörk sem er frábært.

Sadio Mane var líflegur og reyndi og reyndi og reyndi en líkt og fyrri daginn þá er touch-ið hjá honum bara eitthvað off og hann virðist oft vera að ofhugsa hvern einasta hlut sem hann reynir of mikið. Komst í tvær góðar stöður sem voru nokkurn veginn nákvæmlega eins en skallar hans rötuðu ekki í netið. Hann á helling inni og mikið hlakka ég til þess að hann finni aftur taktinn.

Roberto Firmino var flottur og var góður í tengingunni á milli miðju og sóknar. Hann skoraði stórglæsilegt mark sem minnti ansi mikið á mark sem Luis Suarez skoraði hér um árið. Firmino er algjör töffari, hann er afar furðulegur leikmaður en mikið anskoti er hann góður og ekki skemmir fyrir að hann sé farinn að skora meira en hann hefur verið að gera til þessa. Frábær nía og lykillinn í sóknarleik Liverpool.

Sem stendur er Liverpool með átta stiga forskot á Arsenal sem tapaði í kvöld gegn Swansea og með fimm stiga forskot á Tottenham sem mætir Man Utd annað kvöld en það síðarnefnda er þremur stigum meira en Liverpool. Úrslitin í þeim leik munu því líklega hagnast Liverpool eitthvað sama hvernig fer og það er fínt.

Á morgun er deadline day og ég reiknaði nú með að verða alveg kraft pirraður eftir leikinn og nota þessa skýrslu til þess að blása út og tala um það hvað mér finnst það ógeðslega, viðbjóðslega, fáranlega heimskulegt að selja Coutinho á miðri leiktíð án þess að kaupa í staðinn og sitja á peningnum og leggja allan árangur sem gæti náðst á leiktíðinni að veði – en ég læt það bíða. Ég er sáttur með sigurinn og leikinn, ég er jákvæður og sé fyrir mér að geta náð smá hvíld í kvöld svo ég geti leyft mér að vera ógeðslega pirraður á Twitter á morgun þegar öll liðin í kringum okkur opinbera einhver kaup á meðan við sitjum og gerum ekki neitt.

Um næstu helgi mætum við Tottenham á Anfield og ef úrslitin falla á þann veg þá gætum við verið átta stigum ríkari en þeir þegar sá leikur klárast en sjáum hvað setur. Það er nóg að spá í fram að því.

Klopp kom með smá cliffhanger eftir leik svo fylgist með Kop.is á deadline day á morgun! :)

Þetta quote hans þýðir að ég mun ekki komast hjá því að refresha Twitter eins og brjálæðingur á morgun. Takk kærlega fyrir þetta Klopp!