Flokkaskipt greinasafn: Leikskýrslur

Man City – Liverpool 1-1 (leikskýrsla)

0-1 Milner 50. mín.
1-1 Aguero 68. mín.

BESTU LEIKMENN LIVERPOOL

First things first. Þetta var frábær skemmtun í dag. Virkilega opinn og fjörugur leikur þar sem bæði lið hefðu eflaust getað skorað 4-5 mörk án þess að mikið hefði verið hægt að segja. Heilt á litið, þó að Lallana klúðrið svíði ennþá, þá held ég að úrslitin hafi verið sanngjörn.

Continue reading

Liverpool 2 – Burnley 1 (leikskýrsla)

0-1 Barnes á 7.mínútu
1-1 Wijnaldum á 45.mínútu
2-1 Can á 61.mínútu

Ótrúlega mikilvægt að draga þessi þrjú stig út úr pokanum í dag. Fullt af mótlæti en bros í lokin.

Bestu leikmenn Liverpool

Ætla að fá að tala bara um fyrri hálfleikinn síðar því hann var afar slakur og í raun afskaplega erfitt að taka upp ljósa punkta. Í síðari hálfleik er hins vegar hægt að finna hrós. Emre Can steig vel upp, auk þess að skora sigurmarkið var hann grimmur varnarlega og fór að flytja boltann vel milli svæða.

Ragnar Klavan átti tvær alvöru reddingar og fær gott hrós auk félaga hans í vörninni Matip sem var yfirvegaður og skallaði marga hættuna burt, svo var Mignolet gallalaus og greip vel inní leikinn. Hefur í raun átt afskaplega langt gott tímabil í frammistöðum. Þessir fjórir voru lyklar að því að við sigruðum þennan leik.

Vondur dagur

Fyrri hálfleikurinn var hrein hörmung og hrein hending næstum að staðan var jöfn að loknum fyrstu 45. Þá var ekkert tempó í gangi, við áttum ekki skot að marki fyrr en eftir 38 mínútur og maður var að verða virkilega niðurdreginn bara þegar Wijnaldum fékk óvænt færi og kláraði vel. Enginn sem stóð uppúr.

Seinni hálfleikurinn var allt annað en það voru þó tveir leikmenn sem voru að mínu mati alveg utan takts allan tímann. Sá fyrri var Brassinn okkar, Coutinho var úti á væng og sást ekki í fyrri og svo færður meira inn á miðju en eftir kortér af seinni ákvað Klopp að kippa honum út. Svei mér ég held að hann hljóti enn að vera að vinna sig upp í leikform, hann hefur verið algerlega neistalaus í ansi mörgum leikjum að undanförnu sem er mjög vont.

Hinn er Divorck Origi sem fékk nú sénsinn. Utan við stoðsendinguna var hann ekki með því miður og að lokum fór svo að Klopp kippti honum líka út og lét Mané hlaupa uppi á topp. Origi var linur í þessum leik, varnarmenn Burnley átu hann í hvert sinn sem langur bolti kom upp, hann lét teyma sig út á kanta þar sem hann tapaði iðulega boltanum og hann var alltof langt frá sínum manni í pressunni. Betur má ef duga skal kæri Divorck.

Umræða eftir leik

* LOKSINS unnum við leik gegn „litlu“ liði eftir að hafa lent undir. Klopp var enda miklu glaðari í viðtalinu eftir hann þennan en um síðustu helgi eftir Arsenal sigurinn. Til að ná árangri þarftu að vinna „ljóta“ sigra og þessi var svo sannarlega einn slíkur.

* Skiptingar Klopp voru allt aðrar en við höfum áður séð. Woodburn kom inná og var greinilega skipað að búa til vídd á völlinn sem hann gerði vel, allt annað en þegar Coutinho leitaði inn. Svo þegar Origi var alveg búinn að tapa baráttunni uppi á topp ákvað Klopp að henda refnum Lucas inn til að verja svæðið enn betur framan við hafsentana og freista þess að Mané fengi að komast á bakvið vörnina. Við höfum oft skammast yfir skiptingum Klopp en þær virkuðu í dag.

* Hvers vegna náum við ekki að keyra eins yfir þessi lið og þegar stóru liðin mæta? Þrátt fyrir að hafa unnið í dag var þetta ólíkt síðustu helgi, um stund voru Burnley um 60% með boltann og við virtumst eiga erfitt með að ná almennilegum tökum.

* Við náðum að landa þessum sigri þó að Firmino, Lovren og Hendo væru í burtu…og svo bættist Coutinho við í þann hóp. Þegar maður horfði yfir liðið síðustu 10 mínúturnar þá var maður pínu stressaður, en baráttan var til staðar sem skiptir öllu máli þegar uppá vantar í gæðum.

Næstu verkefni

Þá er stór leikur framundan. Það var alger skylda að vinna þennan því næst förum við á Etihad Stadium. Mikið vona ég að það verði nú eitthvað komið inn af „Lasarusunum“ okkar því þeirra verður þörf í þeim stórleik. Sigur þar myndi veita okkur töluvert frumkvæði í baráttuna um Meistaradeildarsætið.

Liverpool 3-1 Arsenal [Skýrsla]

1-0 Firmino 9.mín
2-0 Mane 39.mín
2-1 Welbeck 56.mín
3-1 Wijnaldum 91.mín

Nótt fylgir degi, vatn er blautt og Liverpool spilar mjög vel og nær úrslitum úr stóru leikjunum. Hver hefði getað giskað á það að við töpum illa gegn Leicester og rústum Arsenal svo nokkrum dögum seinna?! Næsti leikur er Burnley og svo Manchester City, hvað ætli gerist þá?!

Bestu Leikmenn Liverpool

Allir. Má ég segja það?

Mignolet átti fínan leik en náði ekki að halda hreinu. Kannski hefði hann átt að gera betur í markinu, kannski ekki. Mér er nokkurn veginn alveg sama. Varði frábærlega frá Giroud og stóð sig heilt yfir vel.

Vörnin var góð og náði að loka á mest alla ógn Arsenal í leiknum. Matip og Klavan voru góðir og Clyne og Milner gerðu mjög vel. Hef séð vörnina í stærra hlutverki og hafa meira að gera en þeir gerðu vel þegar á reyndi.

Miðjan var frábær. Ég á það til að fá stundum hálsríg vegna Emre Can og óstöðugleikanum í hans leik, ég er bara nokkuð fínn í hálsinum í dag enda var sá þýski mjög góður sem dýpsti af þremur miðjumönnum Liverpool í dag. Fyrir framan hann var Wijnaldum enn og aftur mjög góður og Lallana alveg hreint frábær. Þeir spiluðu hratt, hart og boltinn gekk mjög vel þeirra á milli. Þáttur Lallana í marki Wijnaldum var virkilega flottur.

Coutinho er farinn að minna aftur á sig eins og hann var fyrir meiðslin og átti marga frábæra spretti og komst í nokkur góð færi. Roberto Firmino átti sinn lang besta leik í langan tíma og skoraði og lagði upp – sem og Mane sem var á tíma að leika sér að því að niðurlægja varnarmenn Arsenal.

Liðs framtakið í vörn og sókn var frábært, þetta var klár sigur liðsheildar að mínu mati og kannski erfitt að pikka einhvern einn út en ég myndi líklega velja einn af Wijnaldum, Lallana, Firmino eða Mane. Veljið einhvern úr þessum hópi, það er ekki til vitlaust svar þarna.

Origi átti mjög góða innkomu, lét finna fyrir sér í baráttunni. Hann átti skalla í stöngina og frábæra fyrirgjöf í marki Wijnaldum. Takk fyrir og komdu með meira af þessu Origi. Hann hefur óneitanlega mikla hæfileika og líkamlega burði til að vera frábær og þarf bara að gera eitthvað svona oftar.

Vondur dagur

Við fengum á okkur óþarfa mark – sem var frábærlega gert hjá Alexis Sanchez í undirbúningnum og Welbeck sem kláraði vel, þeir mega eiga það – og það er líklega það neikvæðasta við þetta. Þeir fóru illa með vörn Liverpool í þetta skiptið en náðu ekki að nýta sér augnablikið og Liverpool fór að ná aftur tökum á leiknum.

Umræða eftir leik

 • Af hverju í ósköpunum getur þetta Liverpool lið rokkað á milli þess að vera áttunda undur veraldar og pakkað saman betri liðum deildarinnar en tapað stigum gegn botnliðunum?
 • Ég hef engar áhyggjur af liðinu í þessum leikjum og uppstillingin fannst mér sú rétta. Þetta lið er fullkomið í þessi verkefni en maður setur spurningar við það hvort það þurfi ekki að breyta aðeins til í næsta leik gegn liði í botnbaráttu.
 • Lucas á ekki að byrja leik í miðverði hér eftir ef tveir af Klavan, Lovren og Matip eru heilir.
 • Roberto Firmino minnir okkur á að hann er frábær sóknarmaður. Hann var stórkostlegur í kvöld og við viljum sjá meira af þessu ekki satt?
 • Sadio Mane er bestu kaup sem Liverpool hefur gert frá því að við keyptum Suarez fyrir nokkrum árum. Höfum síðan átt nokkur góð kaup síðan en Mane er game changer. Hann er sóknarmaður sem er að fara að detta í sín bestu ár. Hann er fáranlega fljótur, spilar snjallt og er frábær slúttari. 35 milljónir punda – þeim sem tókst að sannfæra Southampton um að selja okkur hann á þann pening á skilið að fá eitt, ef ekki tvö, high five.

Næstu verkefni

Næsti leikur er heimaleikur gegn Burnley og eins hallærislegt og það kann að hljóma þá er það bara blákaldur sannleikurinn að það er ákveðin prófraun fyrir liðið. Þetta eru leikirnir sem valda okkur vandræðum og sama hvað Liverpool reynir þá tekst þeim ekki að detta úr þessum Meistaradeildarsætispakka. Það væri fínt að geta haldið dampi og klárað Burnley um næstu helgi áður en við mætum Manchester City 19.mars og Everton í byrjun apríl eftir landsleikjahlé og Tenerife ferð leikmanna Liverpool.

Liverpool v Arsenal [dagbók]

Búið!! YES!!!

91.mín: Nei annars… 3-1!!! Frábær skyndisókn Liverpool sem Lallana býr til og kemur með frábæra sendingu á Origi sem gefur boltann inn í teig á Wijnaldum sem skorar og gerir út um leikinn! Hann er svo góður í þessari stöðu!

90.mín: Þrjár mínútur í uppbótartíma. Lucas er að koma inn á. Plís haldið þetta út!

82.mín: Origi minnir á sig og á fínan skalla sem syngur í stönginni!

79.mín: Divock Origi kemur inn fyrir Coutinho. Brassinn verið mjög góður í dag og virðist loksins að finna taktinn aftur.

76.mín: Emre Can er sjárþjáður og heldur um aftanvert hnéð á sér og veltist um grasið. Lítur ekki vel út. Hann á gulu spjaldi virtist brjóta á Walcott og var kannski smá heppinn að fá ekki seinna gula spjaldið sitt. Í stað fær Granit Xhaka gult fyrir að tuða yfir því að Can hafi ekki fengið – fín skipti það!

75.mín: Coutinho með mjög góða aukaspyrnu sem ratar á kollinn á Matip í góðri stöðu en hann nær ekki nógu góðum skalla.

67.mín: Emre Can nælir sér í gult spjald þegar hann stökk á Sanchez til að stöðva hraða sókn Arsenal. Þeir héldu boltanum og hægði ekkert á sókninni. Þar af leiðandi afar óþarft spjald á Can.

56.mín: 2-1. Danny Welbeck minnkar muninn fyrir Arsenal með góðri afgreiðslu yfir Mignolet í markinu. Arsenal komið sterkari út í seinni hálfleikinn og nú skiptir miklu máli fyrir Liverpool að bregðast rétt við þessu.

47.mín: Arsenal í dauðafæri en Mignolet ver frábærlega skalla Giroud af stuttu færi.

Hálfleikur: Frábær frammistaða Liverpool í hálfleiknum og mjög verðskulduð forysta. Ég held að spilamennskan hefur oft kannski verið betri þannig séð en baráttan, pressan og „tilgangurinn“ í sóknarleiknum hefur verið til fyrirmyndar og skipulagið í vörninni gott. Sem sagt í stuttu máli; allt sem var ekki raunin síðasta mánudag!

44.mín: Coutinho í dauðafæri en nær ekki nógu góðri snertingu og boltinn í fangið á Cech af stuttu færi.

39.mín: 2-0! Sadio Mane skorar eftir flottan undirbúning frá Firmino. Þetta er Liverpool sem mætti Tottenham en ekki Leicester, það fer ekki á milli mála!

33.mín: Coquelin fær gult spjald fyrir að rífa aftan í Lallana. Liverpool er að pressa Arsenal í kaf þessa stundina og stjórna leiknum, það virðist vera að fara aðeins í taugarnar á Arsenal.

27.mín: Fín sókn frá Liverpool en skot Coutinho fyrir utan teig fer nokkuð beint á Cech í marki Arsenal. Liverpool fékk í kjölfarið hornspyrnu sem ekkert varð úr – shocker!

23.mín: Firmino sleppur einn í gegn eftir góða sendingu Mane en var því miður rangstæður.

9.mín: 1-0! Roberto Firmino kemur boltanum í netið eftir mjög flottan undirbúning Lallana, Coutinho og Mane. Frábær byrjun hjá okkar mönnum í dag!


(Kristján Atli):

Jæja, næsti stórleikur er runninn upp og byrjunarliðin eru komin.

Lið Liverpool:

Mignolet

Clyne – Matip – Klavan – Milner

Wijnaldum – Can – Lallana

Mané – Firmino – Coutinho

Bekkur: Karius, Lovren, Lucas, Moreno, Trent A-A, Woodburn, Origi.

Ég verð að viðurkenna ákveðin vonbrigði hér. Klopp breytir bara engu úr sínu sterkasta byrjunarliði ótilneyddur. Hvaða skilaboð sendir það t.d. Origi eða Moreno að geta ekki fengið séns eftir frammistöður sumra síðustu vikur? Ég hefði viljað sjá Moreno inn og Milner á miðjuna í stað Can, Origi inn fyrir Firmino og jafnvel pláss einhvers staðar fyrir Trent Alexander-Arnold. En það er bara ég.

Lið Arsenal er einnig óvænt, Mesut Özil missir af vegna veikinda og Alexis Sanchez er á bekk:

Cech

Bellerin – Mustafi – Koscielny – Monreal

Ox-Chamberlin – Cocquelin – Xhaka – Iwobi

Giroud – Welbeck

Bekkur: Ospina, Gabriel, Gibbs, Ramsey, Lucas Perez, Walcott, Sanchez.

Mér sýnist þetta vera 4-4-2 hjá þeim með Welbeck í vinnunni í kringum mann sem heldur bolta frammi. Welbeck og Giroud eru einnig báðir hættulegir í teignum, sem er ekki tilviljun í dag held ég.

Þetta verður hörkuleikur. Koma svo!

YNWA

Leicester 3 – Liverpool 1 (leikskýrsla)

1-0 Vardy á 28.mínútu
2-0 Drinkwater á 39.mínútu
3-0 Vardy á 60.mínútu
3-1 Coutinho á 67.mínútu

BESTU LEIKMENN LIVERPOOL

Það er einn sem ekki þarf að skammast sín fyrir frammistöðu kvöldsins, Simon Mignolet bar af í arfalélegu Liverpool-liði, hefðum tapað mun stærra ef hann hefði ekki haldið okkur á floti.

VONDUR DAGUR

Allir útileikmenn sem tóku þátt í þessum leik, þeir tíu sem hófu hann og þeir tveir sem komu inná þegar eitthvað var eftir. Coutinho gat eitthvað í 5 mínútur en frammistaða annarra var sjokkerandi vond. Can sýndi endanlega að hann ræður ekki við að spila á miðju, Lucas vinur minn á aldrei að fá að spila hafsent aftur og Firmino svaraði pistil Óla Hauks. Við vinnum í dag ekki leiki með hann sem framherja – hvað þá mót. Hrein ömurð.

UMRÆÐA EFTIR LEIK

 • Hversu mikill óstöðugleiki er mögulegur í einu knattspyrnuliði. Liverpool FC er að svara því. Í toppsætum 1.janúar með öllu að keppa. Tveimur almanaksmánuðum síðar höfum við náð okkur í 6 stig í 7 leikjum í deild. Það er árangur liðs sem fellur eftir tímabil. Þetta er kannski ekki rannsóknarspurning því það er orðið svo augljóst að við eigum ekkert plan B. Að því næst.

 • Ég er enn með mancrush fyrir Jurgen Klopp og hef fulla trú á honum. Hins vegar hafa nú minni spámenn séð við honum. Paul Clement hjá Swansea, Sousa hjá Hull og nú Craig Shakespeare munu ekki koma sínu liði í Meistaradeild. En þeir hafa nú með stuttu millibili fundið út okkar leikplan og hann virðist engin svör kunna. Chelsea, City og Spurs komu ofarlega á okkur og spiluðu fótbolta. Til að vinna Klopp-lið Liverpool þarftu að þrýsta liðinu okkar út á vængi og leyfa okkur að krossa inn í box, sparka langt og klára sóknir. Þetta ræður liðið hans ekki við og hann kann engin ráð. Hann var öskrandi á hliðarlínunni vissulega en undirbúningur hans teymis fyrir þennan leik fær fullkomna falleinkunn og það er virkilega sláandi að hann virðist ekki læra af mistökum.

 • Hver það er sem tekur ákvarðanir um leikmannakaup fyrir þetta tímabil skal slá sig utanundir. Fast! Vissulega sóttum við Mané og Matip en svo bættum við við okkur varnarmanni sem ekki er treyst og markmann á varamannabekkinn, auk efnilegs miðjumanns sem hefur alls ekki sannfært alla. Bekkurinn okkar í kvöld var einfaldlega sjokkerandi og það að setja Moreno og Origi inn sem fyrstu valkosti til að breyta svona leik fær mann til að langa til að kasta upp. Það er algerlega orðið ljóst að í þetta lið okkar vantar a.m.k. afburða hafsent, afburða miðjumann og afburða striker til að klára heilt tímabil. Vanmat á leiktímabilinu í Englandi virðist algert, þetta eru bara alls ekki lengur einhver slys…

 • Þreyta er ekki lengur afsökun takk krakkar. Við vorum a.m.k. jafn lélegir núna eftir þetta 16 daga frí og þegar við spiluðum fleiri leiki. Öll þvælan um það að detta út úr bikarkeppnum og spila ekki í EL. Takið hana og troðið þar sem sólin ekki skín. Þessu liði vantar fleiri gæðaleikmenn og frammistöður undanfarið voru ekki vegna þreytu.

 • Liðið okkar er ekki hugað. Leicester tóku völdin með tæklingu eftir 25 sekúndur og héldu þeim í 60 mínútur. Alveg sama hvert litið var…við fengum ekki eitt gult spjald í þessum leik enda fórum við ekki í tæklingu í þessum leik. Þar fór miðjan fremst í flokki – það er þar sem baráttan byrjar og endar. Hjá okkur byrjaði hún aldrei.

 • Þetta lið spilar ekki í Meistaradeild á næsta ári. Sigurliðið í deildarbikarnum verður í toppsætum og því erum við nú í EL sæti. Það er að mínu mati það hæsta sem við getum horft til á þessu ári sem er orðið mesta vonbrigðatímabilið í mínum kolli bara, utan við mánuðina hjá Hodgson. Það er ekki auðvelt að elska þetta lið…það er hunderfitt.

 • Liverpool FC er heimsþekkt vörumerki þrátt fyrir arfaslaka frammistöðu síðustu ára. Ótrúleg frammistaða „Travelling Kop“ í kvöld bara enn ein sönnun þess. Hversu lengi heldur það þegar enn eitt tímabilið er runnið upp þar sem liðið hrynur fullkomlega undan væntingum okkar og er áfram utan toppsæta ensku deildarinnar?

 • Afsakið dramatíkina og niðurrifið hérna. Veit að það verða margir fúlir út í þessi skrif hérna en ég bara er ekki í neinu Pollýönnuskapi hérna eftir að liðið mitt eyðilagði enn eina tveggja klukkutíma setuna í mínu lífi!!!

NÆSTU VERKEFNI

Arsenal um næstu helgi. Það verða góðir vinir mínir margir á Anfield. Mikið vona ég að þau fái að sjá annað en þennan aumingjaskap sem pirraði mig svona svakalega í dag.

Það hlýtur að koma að því að topplið stúti okkur þó…því það er alveg klárt að við erum í frjálsu falli.