18. apríl, 2007
Okkar menn unnu í kvöld ágætan sigur á Middlesbrough í frekar daufum leik. Á endanum var það besti leikmaður vallarins sem réði úrslitum í 2-0 sigri.
Rafa Benítez gerði nokkrar breytingar á liði sínu í kvöld og gaf m.a. Xabi Alonso og Steve Finnan algjört frí, auk þess sem Dirk Kuyt og Mark Gonzalez voru á bekknum. Liðið í kvöld var sem hér segir:
Reina
Arbeloa - Carragher - Agger - Riise
Pennant - Sissoko - Mascherano - Zenden
Gerrard
Bekkur: Dudek, Hyypiä, Gonzalez, Fowler, Kuyt.
Fyrri hálfleikurinn var leiðinlegur. Liverpool voru með boltann, Boro-menn héngu í vörn en okkar menn náðu ekkert að lyfta leik sínum og þau tvö eða þrjú hálffæri sem fengust féllu til lélegasta skotmanns deildarinnar, Sissoko. Þannig að staðan var markalaus í hálfleik.
Glöggir menn halda kannski að ég hafi gleymt að nefna Peter Crouch í byrjunarliði kvöldsins. Ég gerði það viljandi, því hann var kannski í byrjunarliðinu en engu að síður ekki með í fyrri hálfleiknum. En eins og Einar Örn sagði mér í SMS-i um miðjan seinni hálfleik ákvað Crouch greinilega að skipta sjálfum sér inná í hálfleik og það var allt annað að sjá til hans.
Fyrstu fimm mínútur síðari hálfleiks voru alveg jafn daufar og leiðinlegar og allur fyrri hálfleikurinn og maður óttaðist að þetta stefndi í sömu taumlausu leiðindin og gegn City um helgina. En þá gerði Rafa taktíska breytingu sem breytti öllu. Hann tók Sissoko, sem hafði barist vel og verið ágætur á miðjunni en gjörsamlega vonlaus sóknarlega, útaf á 50. mínútu og setti Dirk Kuyt inn í staðinn. Í leiðinni breytti hann kerfinu úr 4-5-1 í 4-4-2 og færði Gerrard aftar á völlinn, en hann hafði ekki fundið sig fyrir aftan Crouch fram að því.
Rúmu kortéri síðan var staðan orðin 2-0. Fyrst fékk Gerrard boltann á miðjum vallarhelmingi Boro, lék aðeins að teig þeirra og lét svo vaða á fjærhornið. Mark Schwarzer, ágætur markvörður Boro í kvöld, átti ekki séns og boltinn söng í horninu - enn eitt glæsimarkið frá fyrirliðanum.
Fimm mínútum eða svo síðar var svo brotið á Peter Crouch inní teig er hann reyndi að skalla fyrirgjöf Jermaine Pennant, sem var okkar mest ógnandi maður í kvöld. Dómarinn dæmdi réttilega vítaspyrnu og úr henni skoraði Gerrard örugglega. Staðan orðin 2-0, game over Middlesbrough.
Eftir þetta datt leikurinn aftur aðeins niður, enda sigurinn unninn, og þetta fjaraði svona nokkurn veginn út. Okkar menn hefðu þó getað bætt við mörkum en þeir Zenden og Kuyt voru ekki á skotskónum, auk þess sem Mascherano átti góðan skalla í slána. Þannig að leik lauk 2-0 og var sá sigur meira en lítið sanngjarn, þrátt fyrir hálf andlausan leik Liverpool.
Fyrir leikinn hafði Rafa eiginlega varað suma af sínum minni spámönnum að leikirnir sem eftir eru í deildinni myndu vera notaðir til að dæma mannskapinn fyrir sumarið. Það að leikmenn eins og Zenden og Pennant skyldu vera í liðinu kom því ekki á óvart, og það verður að segjast um þá tvo að niðurstöðurnar voru skýrar.
Jermaine Pennant er að mínu mati búinn að sanna það eftir áramót að hann á erindi í hóp Liverpool. Hvort hann verður fastamaður í liðinu eða kantmaður á heimsmælikvarða mun tíminn einn leiða í ljós, en hann er búinn að vera okkar mest ógnandi maður í mörgum leikjum undanfarið og hefur átt margar stoðsendingar. Berið hann saman við landsliðskantmanninn Stewart Downing hjá Boro í kvöld og þá sjáið þið augljóslega hvor þeirra á meira tilkall til sætis í landsliðshópi hins staurblinda Steve McClaren.
Hið sama verður ekki sagt um Bolo Zenden. Við hér á Liverpool Blogginu höfum oft varið hann og gerum enn. Við höfum sagt (réttilega) að hann er mjög góður kostur af fjórða miðjumanni að vera (fimmta, nú þegar Mascherano er kominn) en í leikjum eins og þessum, þar sem menn á borð við Riise og Gonzalez eru heilir til að manna vænginn, á hann ekki að fá að spila. Hann gerði einfaldlega ekki neitt rétt í leiknum, nema kannski það að honum tókst að renna boltanum þrjá metra til hliðar á Gerrard í fyrra markinu.
Ég skil ekki alveg hvers vegna Zenden fékk að spila allan leikinn í kvöld en Gonzalez aðeins tíu mínútur, þegar annar þeirra á sér augljóslega enga framtíð hjá Liverpool eftir vorið en hinn þarf hverja mínútu til að hjálpa sér að aðlagast fyrir framtíðina.
Annars voru menn á heildina góðir. Carra var góður fyrir utan eitt glappaskot í fyrri hálfleik þar sem hann gaf Fabio Rochemback næstum því mark, og Riise og Sissoko börðust vel og unnu mikið af boltum en voru báðir steingeldir fram á við í kvöld. Ég hef ekki áhyggjur af Carra en Riise og Momo veitir sennilega ekki af fríinu sem kemur eftir mánuð.
Annars voru menn eins og Agger, Arbeloa, Mascherano, Kuyt og Crouch (í seinni hálfleik) mjög góðir, auk þess sem Reina var öryggið uppmálað í markinu og “sópaði” vel fyrir aftan vörnina allar stungusendingar og slíkt.
MAÐUR LEIKSINS: Eins og ég hef áður sagt var Jermaine Pennant okkar mest ógnandi leikmaður í kvöld en hann missir af nafnbótinni. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að Steven Gerrard var maður leiksins, enda vann hann leikinn og var í raun það sem skildi liðin að í kvöld. Við vanmetum oft hversu mikilvæg nærvera hans í liðinu er en erum þó minnt á það reglulega og það gerðist í kvöld. Án hans hefði þetta orðið enn eitt steindautt jafnteflið. How hard? Gerr-ard!