09. apríl, 2007
Einhverra hluta vegna fór þessi frétt framhjá okkur um helgina, en Rafa tjáði sig um Peter Crouch í viðtali við Sunday Mirror og staðfesti þar að hann muni ekki selja Crouch í sumar. Rafa sagði orðrétt um málið:
“I am really pleased with Peter Crouch and I am not selling him.
All players have moments when they suddenly realise what they have to be doing and how to achieve things in their game and this has happened with Peter.”
Lesist: Rafa er ánægður með Crouch og ætlar ekki að selja hann. Þannig að sú umræða er hér með dauð og grafin.
En hvað þá með aðra framherja hjá liðinu? Ef Crouch verður pottþétt áfram og við getum gefið okkur að Kuyt verði pottþétt áfram líka, hvað þá um Bellamy og Fowler? Að mínu mati mun Fowler nær örugglega ekki nýjan samning og fer því frá liðinu í sumar, þannig að stóra spurningin er með Craig Bellamy.
Fyrir um einu og hálfu ári síðan lék liðið á útivelli gegn Man City í deildinni. Í þeim leik var Djibril Cissé skelfilega lélegur og fór svo að hann var á endanum tekinn útaf eftir 50 mínútna leik. Ég man hvað hann var óánægður með að vera skipt útaf í þeim leik, en ég man líka að ég hugsaði með mér þegar ég horfði á þetta að þetta væri allt að því skýr skilaboð um framtíð hans hjá liðinu.
Á laugardaginn gerðist hið sama hjá Bellamy. Sókn liðsins var frekar slöpp en Crouch var þó búinn að leggja upp mark fyrir Arbeloa. Bellamy var hins vegar búinn að gera lítið annað en hlaupa um og pirra sig á boltum sem náðu ekki til hans. Þannig að þegar Rafa tók hann útaf á 49. mínútu, og hann var í kjölfarið sýnilega ósáttur við ákvörðun stjórans, datt mér það sama í hug og með Cissé fyrir átján mánuðum, að hér væri komin skýr vísbending um að Bellamy verði fórnað í sumar.
Voronin er á leiðinni til Liverpool og ef Crouch og Kuyt verða áfram er bara raunhæft eitt pláss laust fyrir framherja á næsta tímabili. Og það virðist almennt viðurkennd staðreynd að Rafa ætlar að nota nýju, stóru peningapyngjuna sína til að versla sér framherja sem getur talist í heimsklassa og því er ljóst að það verður eitthvað undan að láta. Eins og staðan er í dag bendir flest til að Fowler fari út fyrir Voronin, og að Bellamy verði svo seldur til að rýma fyrir nýrri stjörnu.
Hvað finnst mönnum? Er tími Bellamy á þrotum eftir aðeins eitt tímabil, eða ætlar Rafa að hafa fimm landsliðsframherja á sínum bókum í haust?