07. apríl, 2007
Jæja, Liverpool liðið sýndi í dag að okkar menn geta unnið leiki þrátt fyrir að leika illa. Liverpool vann í dag Reading 2-1 á útivelli þrátt fyrir að hafa leikið skelfilega stóran part leiksins. Rafa stillti liðinu svona upp í byrjun leiks:
Reina
Finnan - Carragher - Hyypia - Arbeloa
Gerrard - Mascherano - Sissoko - Gonzalez
Bellamy - Crouch
Þarna vakti athygli að líkt og í Aston Villa leiknum voru Momo og Javier á miðjunni og Gerrard á kantinum. Það virkaði ekki vel í þeim leik og það má segja að það hafi heldur ekki virkað vel í dag.
Fyrri hálfleikurinn var einfaldlega dapur hjá Liverpool. Reading byjruðu betur og pressuðu vel á Liverpool liðið. Eftir korter var Reading liðið í sókn. Alvaro Arbeloa vann boltann upp við vítateig Liverpool og keyrði upp völlinn. Hann gaf hann svo á Peter Crouch, sem gaf boltann aftur á Arbeloa, sem að var kominn einn innfyrir og kláraði færið sitt frábærlega. 1-0 fyrir Liverpool.
Það sem eftir lifði af fyrri hálfleiknum var Liverpool liðið verulega slappt. Reading skapaði sér svo sem ekki mörg færi, en það gerði Liverpool ekki heldur og ég man ekki eftir skoti frá Liverpool fyrir utan markið. Miðjan var alls ekki að virka og þrátt fyrir að Mascherano væri sterkur, þá gerði Momo ekkert til að sannfæra efasemdamenn um ágæti sitt þegar að Liverpool liðið er með boltann.
Í upphafi seinni hálfleiks fékk Liverpool liðið það sem það átti skilið. Brynjar Björn fékk boltann inní vítateig og skoraði glæsilegt mark úr ólíklegri stöðu. Virkilega vel gert hjá honum.
Eftir þetta byrjuðu Liverpool menn þó að spila betur. Stuttu eftir mark Reading var Bellamy tekinn útaf fyrir Kuyt og nokkru seinna kom svo Pennant inn fyrir Peter Crouch. Við þetta batnaði spilið hjá Liverpool umtalsvert (enda var það ekki merkilegt fyrir). Liðið skapaði sér einhver færi, meðal annars komst Kuyt einn innfyrir en skaut framhjá og svo náði Ívar Ingimarsson að bjarga frábærlega frá Steven Gerrard við markteiginn.
En nokkrum mínútum fyrir leikslok náði svo Liverpool að stela sigrinum. Jermaine Pennant fékk boltann útá hægri kantinum, plataði varnarmann Reading algjörlega og gaf svo himneska sendingu fyrir á Dirk Kuyt, sem skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool í langan tíma.
Maður leiksins: Það var enginn sem stóð sérstaklega uppúr. Ég ætla því þá bara að tilnefna mennina, sem sköpuðu mörkin okkar í dag. Arbeloa er búinn að byrja Liverpool ferilinn verulega vel. Gleymum því ekki að hann er bara 24 ára gamall (þrátt fyrir að hann líti nú út fyrir að vera eldri).
Svo fá varamennirnir Pennant og Kuyt hrós fyrir sigurmarkið. Kuyt hefur verið slappur að undanförnu að mínu mati og varla skapað sér nokkur færi, enda er hann að spila alltof aftarlega á vellinum. Í dag var hann einn frammi og því var hann að spila mjög framarlega. Og það skilaði sér í þrem færum og einu marki.
Og Jermaine Pennant fær líka hrós frá mér. Ég er orðinn afskaplega hrifinn af Pennant sem leikmanni. Undantekningalaust finnst mér sóknarleikur Liverpool lyftast uppá annað plan þegar að hann kemur inná. Ég bjóst við honum í byrjunarliðinu eftir Arsenal frammistöðuna, en þess í stað var hann á bekknum. Að mínu mati þá batnaði sóknarleikurinn í dag þegar að hann kom inná.
En það sem skiptir máli er að Liverpool tók 3 stig í dag á meðan að Arsenal skutu 28 sinnum að marki West Ham án þess að skora og töpuðu því fyrir nágrönnum sínum. Liverpool er því komið 5 stigum fyrir ofan Arsenal (60 á móti 55) og Arsenal á bara einn leik til góða, þannig að þriðja sætið er í okkar höndum.
Gleðilega páska!