03. apríl, 2007
Höddi Magg á Sýn kom glottandi inní stúdío eftir leikinn í kvöld og sagði við þá sem voru þar fyrir: “Ef það er eitthvað lið að spila betur í Meistaradeildinni en Liverpool, þá bara bjalliði í mig.”
Liverpool fóru í kvöld til Hollands og tóku þar hollensku meistarana í kennslustund í fótbolta. Þvílíka yfirburði man ég ekki eftir að hafa séð í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar lengi. PSV átti aldrei sjens og fyrir utan fyrstu 10 mínúturnar var bara eitt lið á vellinum.
En allavegana, byrjum á byrjuninni. Rafa stillti þessu svona upp:
Reina
Finnan - Carragher - Agger - Aurelio
Gerrard - Alonso - Mascherano - Riise
Kuyt - Crouch
Semsagt, Aurelio í bakverðinum, Mascherano og Alonso á miðjunni líkt og gegn Arsenal og svo Kuyt og Crouch frammi.
Fyrstu mínúturnar þá var nokkuð jafnræði með liðunum en Liverpool þó sterkara liðið. Eftir korter átti Jamie Carragher góðan skalla eftir horn, sem að Gomes varði á ótrúlegan hátt. Stuttu síðar þá var Carra nálægt því að skora sjálfsmark og má í raun segja að það hafi verið besta færi PSV í leiknum.
Það var svo á 27 mínútu sem Liverpool komust yfir. Finnan gaf á Mascherano á miðjum vellinum, benti uppí hornið og fékk boltann frá Mascherano þar - gaf svo frábæra sendingu á Steven Gerrard, sem skallaði boltann örugglega í markið.
Fram að markinu höfðu PSV menn legið í vörn og ekki sett neina pressu á Liverpool. Það breyttist aðeins við markið og leikmenn PSV sóttu aðeins meira, en þó án mikils árangurs. Aðallega vegna þess að allar sendingar stoppuðu á miðjunni þar sem að Xabi Alonso og Javier Mascherano stjórnuðu öllu!
Í seinni hálfleik var þetta svo enn ójafnara, vörnin hjá PSV var í molum og bara spurning hversu fljótt Liverpool myndu bæta við marki. Það gerðist nánast strax því eftir mistök í vörninni hjá PSV fékk John Arne Riise boltann á lofti og þrumaði honum glæsilega uppí samskeytin. Algjörlega frábært mark.
Eftir þetta hélt einstefnan áfram og um korteri seinna skoraði Peter Crouch svo virkilega gott skallamark eftir frábæra stoðsendingu frá Steve Finnan. Það sem eftir lifði leiks virtust PSV menn algjörlega hafa gefið upp alla von og Liverpool menn kláruðu leikinn á hálfum hraða. Það eina, sem skemmdi fyrir var að Fabio Aurelio meiddist. Dirk Kuyt var meira að segja svo öruggur með sig að hann ákvað að ná sér í gult spjald, svo hann verður í banni í seinni leiknum, en hann var auðvitað farinn að hugsa strax til undanúrslitanna.
Maður leiksins: Það lék nánast allt Liverpool liðið ágætlega í kvöld. Það var samt alltaf einsog liðið ætti fullt inni. Í vörninni var það Steve Finnan sem stóð uppúr með sínar tvær stoðsendingar, en Reina, Carra og Agger höfðu nákvæmlega EKKERT að gera. Ástæðan fyrir því hversu lítið þeir höfðu að gera var að Liverpool rústaði hreinlega miðjubaráttunni. Frammi skoraði Crouch gott mark, og kantmennirnir báðir skoruðu fyrir okkur í kvöld, þrátt fyrir að Riise hafi nú ekki gert mikið meira en það af viti.
En maður leiksins er að mínu mati Javier Mascherano. Hann hefur verið að vaxa með hverjum Liverpool leiknum og í kvöld var ekki erfitt að skilja af hverju Rafa vildi fá þennan strák til liðsins. Hann vann boltann ótal sinnum af PSV mönnum og skilaði honum (ég leyfi mér að fullyrða alltaf) til samherja. Hann var kannski ekki mest áberandi leikmaðurinn á vellinum, en hann vann sitt hlutverk fullkomlega. Hann og Xabi Alonso hafa verið frábærir í síðustu leikjum.
En semsagt, 3-0 sigur á útivelli og seinni leikurinn hlýtur því að vera nánast formsatriði. Liverpool tapar einfaldlega ekki niður 3-0 forystu á Anfield. Við getum því verið ansi bjartsýn á að við fáum að sjá Liverpool spila gegn annaðhvort Chelsea eða Valencia í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.
Frábært mál.