Ég skil ekki þessa Gerrard-gagnrýni sem sprettur upp eftir hvern tapleik. Eða hvert markalaust jafntefli.
Hann spilaði á kantinum í gær, en það kom því nánast ekkert við að við unnum ekki. Við unnum ekki af því að enginn lék vel, ekki heldur Gerrard. Það er svolítið þægilegt að segja að þegar hann leiki vel sé það af því að hann sé bestur, en þegar hann leiki illa sé það af því að mennirnir í kringum hann séu ekki nógu góðir. Hann lék illa í gær, einn af ellfu sem léku illa, punktur. Hann má alveg fá gagnrýni líka.
Hins vegar tek ég undir það með Einari að vera hans á kantinum er háð því að miðjan sé í lagi. Í gær var hún það ekki. Þegar Alonso er inná er í lagi að setja Gerrard út á vænginn af því að Alonso stjórnar spilinu hvort eð er og er duglegur að spreyja boltum út á Gerrard þar sem hann fær pláss, maður á móti manni, til að skapa eitthvað. Í gær gerðist þetta ekki og hann fékk úr litlu að moða, sem og Aurelio.
Aftur, Gerrard og Aurelio léku illa í gær sem kantmenn. Það er ekki hægt að afsaka annan hvorn þeirra eða báðan, þeir léku bara illa. En ein af ástæðunum fyrir því að þeir léku illa er sú að þeir fengu úr litlu að moða þar sem miðjan var steingeld.
Hvað Momo varðar þá minnir mig að við höfum verið að ræða svipaða tölfræði með Gerrard fyrir tveimur árum, þ.e. að liðið spilaði betur - tölfræðilega séð - án hans en með. Svona tölfræði er kjaftæði. Momo vann Barcelona á Nou Camp nánast einn síns liðs fyrir okkur, án hans hefði sá leikur aldrei unnist. Hann hefur átt feykimarga stórleiki fyrir Liverpool, svo marga að maður gleymir því að hann er bara 22ja ára gamall. Hann þarf enn að bæta sendingagetu sína og ógna marki andstæðinganna meira en það sem hann getur nú þegar getur hann betur en flestir.
Momo er hins vegar, vegna galla sinna sem miðjumaður, og eins vegna kosta sinna, leikmaður sem verður að nota í taktískum skilningi. Peter Crouch er í svipuðum málum, þú bara spilar honum ekki gegn liðum sem munu keyra á okkur upp völlinn því hann ógnar þeim ekkert útá velli. Þú spilar honum gegn liðum sem liggja í vörn gegn okkur, því þá er hann alltaf inní teig þar sem hann er bestur.
Momo er frábær gegn liðum sem eru sterk eða treysta á ákveðna yfirburði á miðjunni - svo sem Barcelona, Chelsea og Arsenal - því hann tekur þá yfirburði frá andstæðingunum. Í gær vorum við hins vegar með yfirburði á miðjunni burtséð frá því hverjir spiluðu. Við hefðum getað byrjað leikinn með Zenden og Danny Guthrie á miðjunni og samt stjórnað leiknum. Þannig að Momo var óþarfur, bæði taktískt og varnarlega séð. Við þurftum, í hans stað, einhvern sem gat "knúið vélina" sóknarlega, og í þeim skilningi eigum við tvo af þeim betri í Evrópu, Gerrard og Alonso. Ég hef ekkert á móti því að sjá Gerrard á kantinum en ef Benítez vildi endilega hvíla Alonso í gær segir það sig sjálft að Gerrard átti að byrja á miðjunni með Mascherano og Pennant úti á kanti. En ef Gerrard átti að vera á kanti varð Alonso að vera inná miðju.
Við erum oft sakaðir um að verja menn í blindni hér. Í þessu kommenti er ég búinn að gagnrýna Gerrard, Momo og liðsval Benítez. Bara svo það komi fram. Ég styð Benítez heilshugar sem stjóra og hryllir við þeirri tilhugsun að við þurfum kannski að leita að nýjum manni í brúna í sumar, því að mínu mati finnast þeir ekki betri í Evrópu í dag. En þótt Benítez sé snillingur er hann ekki óskeikull og hann hefur gert mistök áður. Í gær gerði hann mistök í liðsuppstillingu. Momo og Mascherano geta ekki spilað saman á miðju gegn liði sem liggur í vörn gegn okkur.