28. janúar, 2007
Jæja, það hefur verið lítið um uppfærslur hérna á síðunni. Svo sem hefur lítið gerst, enda FA Cup helgi og Liverpool eru ekki með í þeirri keppni. Þó er leikur gegn West Ham á þriðjudaginn, sem gæti verið verulega spennandi.
En allavegana, svona þegar ég var að leita að einhverju efni þá rakst ég á þessa ágætu grein, sem fjallar um það hvað eigi að gera þegar að Momo Sissoko kemur aftur eftir meiðsli.
Það er alveg ljóst að í einhverjum leikjum mun Momo koma inn sem mikilvægur hlekkur, til að mynda gegn Barcelona á Camp Nou. En í deildinni hefur gengið afar vel að undanförnu með Gerrard og Alonso á miðjunni og Pennant / Garcia á kantinum. Það er því vafasamt að fara að breyta þeirri stöðu með því að færa Gerrard á kantinn. Hugsanlega mun Rafa nýta Momo í að einfaldlega hvíla annaðhvort Gerrard eða Xabi í einhverjum leikjum. Það gæti reynst mjög gagnlegt sérstaklega ef að Liverpool vinnur Barca því það er ljóst að Gerrard getur ekki leikið hvern einasta leik einsog hann hefur gert hingað til.
En allavegana, Momo kemur væntanlega aftur 3. febrúar á móti Everton. Og það er ljóst að hann mun skapa Rafa ákveðin vandamál. En það eru allavegana góð vandamál.