04. janúar, 2007
Eins og væntanlega allir vita, þá er liðum nú frjálst að kaupa og selja leikmenn á ný. Þrátt fyrir að ekki sé búist við að miklar breytingar verði gerðar á leikmannahópi Liverpool, þá virðist Rick Parry hafa í nógu að snúast þessa dagana. Hann er búinn að sitja sveittur við samningaborðið gagnvart yfirtöku á félaginu, og er það nú það langt komið að hægt er að snúa sér enn betur að leikmannaviðskiptum. Lucas Neill er ekki nýtt nafn sem poppar upp í þeim efnum og ég held að engum ætti að koma á óvart þótt hann yrði orðinn liðsmaður Liverpool FC innan skamms. Þetta er fyrst og fremst spurning hvernig um semst um kaupin á honum.
Blackburn hafa ennþá áhuga á að fá Steven Warnock í staðinn og er það möguleiki sem Rafa er frekar til í að skoða núna heldur en hann var í ágúst. Svo gæti farið að skipt yrði á þessum leikmönnum á sléttu. Ástæðan fyrir þessu er sú að Riise og Aurelio geta báðir spilað í vinstri bakverði, og svo er einnig kominn ungur strákur frá Argentínu sem menn telja að geti vel fyllt stöðuna ef liðið verður mjög óheppið með meiðsli. Það er því alls ekkert ólíklegt að Steven hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Liverpool og að Lucas Neill klæðist rauðu treyjunni innan tveggja vikna. Lucas er í leikbanni um helgina þegar bikarleikirnir fara fram, og því yrði hann gjaldgengur í þá keppni fyrir Liverpool ef okkur tekst að slá Arsenal út á laugardaginn. Hann yrði einnig gjaldgengur í Meistaradeild Evrópu, þrátt fyrir að hafa spilað með Blackburn í UEFA Cup. Reglunum var nefninlega breytt nýlega og hljóða nú upp á það að lið í Meistaradeildinni mega nota einn leikmann sem hefur spilað í hinni keppninni á sama keppnistímabili. Lucas Neill yrði því gjaldgengur í allar keppnir nema Deildarbikarinn.
Ég viðurkenni það fúslega að Lucas hefur ekki verið einn af mínum uppáhalds knattspyrnumönnum. Ég geymi ennþá í minningunni líkamsárás hans á Jamie Carragher forðum daga. Ég veit þó einnig að þetta er frábær varnarmaður og hefur verið lengi. Hann gjörsamlega sprakk út á HM í sumar og það er ljóst að það er mikil barátta um krafta hans. Það sem sagt verður hart barist og talað er um Barcelona, AC Milan, Newcastle og Tottenham í því sambandi. Barca eru nýlega búnir að missa þá Thuram og Zambrotta í meiðsli og vilja því auka breiddina, hin liðin þrjú hafa verið í mismiklu bulli á tímabilinu, þannig að það er ekki allt í hendi hérna. Það sem hjálpar þó mikið og gleður mitt litla hjarta, er að hann er í flokki með mönnum eins og Pennant og Bellamy að því leiti að þeir hafa verið stuðningsmenn Liverpool verulega lengi. Það finnst mér alltaf stór kostur og gerir mig enn jákvæðari gagnvart þessu öllu saman. Sumir knattspyrnumenn hafa komið fram og sagt ýmislegt á þessa vegu þegar þeir eru að bjóða sig félögum og reyna að ganga í augun á stuðningsmönnum, en þegar kemur að leikmönnum á Englandi, þá hafa þeir verið hreinskilnir í gegnum tíðina með þetta og flestir viðurkennt það strax ef þeir hafa ekki með sanni verið stuðningsmenn liðsins frá barnæsku. Ég er því tilbúinn að horfa framhjá voðaverkinu á sínum tíma og segi því að ef Carra hefur fyrirgefið honum, þá er ég til í að gera það líka ef það má verða til að við fáum klassa mann til að berjast um stöðuna við Finnan.
Annað nafn sem orðað hefur verið við okkur undanfarið er Javier Mascherano. Sá hefur verið á mála hjá West Ham á tímabilinu og vakti það mikla athygli þegar hann fór þangað ásamt Carlos Tevez undir lok ágúst. Þeir sem fylgdust með Argentínu á HM í sumar geta væntanlega vottað um að þessi strákur er feykilega góður knattspyrnumaður. Hann hefur þó engan veginn fengið tækifæri hjá West Ham á tímabilinu og hefur gengið ákaflega erfiðlega að koma sér fyrir hjá þeim. Af hverju ætti hann þá að gera það neitt frekar hjá okkur? Það er akkúrat ekkert sem bendir til þess, en það er heldur ekkert sem segir að hann geti það ekki. Félög eru misjöfn eins og þau eru mörg. Knattspyrnumaður getur átt erfitt uppdráttar hjá einu liði en blómstrað hjá því næsta. Þetta er bara svo einstaklingsbundið. Við höfum mý mörg dæmi um þetta og það innan sama lands. Staðreyndin er sú að þetta er afar góður knattspyrnumaður og áhættan með að taka hann er nánast engin. Talað er um lánssamning fram á vorið og svo kauprétt á honum í kjölfarið. Því ekki? Hafa menn ekki verið að býsnast yfir því að þurfa að nota Bolo Zenden? Ef Javier kemur, þá myndi ég telja að það væri fyrst og fremst Bolo sem þyrfti að hafa áhyggjur. Ég er allavega til í að taka áhættuna fram á vorið. Ef hann nær að sýna sitt rétta andlit, þá frábært. Ef ekki, þá er honum einfaldlega skilað, simple as that. Koma hans byggist þó á því að málið fari rétta leið í gegnum FIFA, en það ættu engin vandræði að vera með það, þar sem hann spilaði bara með West Ham á tímabilinu. Ef ég skil þetta allt rétt, þá kláraðist tímabilið í Suður Ameríku þann 31. desember.
Það er því morgunljóst af þessu að dæma, þá er ekki verið að fara að ausa miklu af fjármunum út úr félaginu í janúar og er ég bara nokkuð sáttur við það. Ég vil bíða með slíkt fram á sumar. Ef tekst að bæta þessum mönnum við liðið og þeir geti bætt það á einhvern hátt, þá er það stór plús. Ef ekki, þá var áhættan ekki stór. Menn geta hreinlega ekki búist við einhverjum kraftaverkakaupum í janúar. Ef þessir tveir koma, þá tel ég okkur vera komnir með eina mestu breiddina í leikmannahópi af öllum liðum Úrvalsdeildarinnar, því þessir menn eru engir meðalmenn, þetta eru klassa spilarar. Spurningin er bara, hversu fljótt og hvort þeir ná að aðlagast liðinu í tíma til að setja mark sitt á þetta tímabil.