20. desember, 2006
Það er ekkert smá magn af leikjum framundan. Ég tók svipaðar pælingar þann 10. október s.l. og verð ég seint talinn sannspár maður (allavega í það skiptið). Ég hreinlega vildi ekki á nokkurn hátt hugsa fram á veginn með því hugarfari að við yrðum jafn hræðilegir á útivöllum og raunin varð á. Ég spáði fyrir um rétta stigatölu úr 6 leikjum, en 4 fóru á annan veg. Ég er þrjóskur maður með eindæmum og læt því þetta akkúrat ekkert stoppa mig í að gera slíkan pistil á ný og reyna að athuga hvort ég grísa betur á þetta núna. Auðvitað veit enginn hvernig þetta kemur til með að fara, en spár og spekúlasjónir eru jú stór hluti af boltanum og gerir þetta bara enn skemmtilegra. Tökum næstu 10 leiki fyrir (bæði deildarleiki og einnig bikar/Arsenal leiki):
23.des Watford heima (EPL)
Algjör skyldusigur og við ættum hreinlega að fara fram á að laga markahlutfall okkar enn nú meira í leiðinni.
3. Stig
26.des. Blackburn úti (EPL)
Öllu erfiðari leikur, en ef við höldum uppteknum hætti og menn taka áfram það sjálfstraust sem nú þegar er komið í liðið, þá eigum við að taka 3. Stig úr leiknum. Blackburn komu og héngu á jafntefli á Anfield, en ég vil hreinlega ekki taka það í mál að við hefnum ekki fyrir það á Ewood Park, sem er jafn steindauður og gamli Library var.
30.des. Tottenham úti (EPL)
Líklega erfiðast að spá fyrir um þennan leik af þessum 10 sem framundan eru. Tottenham eru gjörsamlega óútreiknanlegir. Þeir geta spilað fanta vel einn daginn, en verið eins og algjörir amatörar þann næsta. Þeir eru þó yfirleitt öflugir heim að sækja, og það verður að viðurkennast að White Hart Lane hefur ekki alltaf reynst okkur góður. Ætla að spá því að við náum jafntefli í þessum leik.
1. Stig
1.jan. Bolton heima (EPL)
Sigur, sigur, sigur. Leiðinlegasta lið deildarinnar í heimsókn og við hreinlega verðum að vinna þá. Anfield er Anfield og Bolton er Bolton. Þetta verður bara klárað, svo einfalt er það. Mér er alveg sama hvað Big (mouth) Sam segir, þeir eru hundleiðinlegir og hlakka ég alltaf til þegar dómarinn flautar til leiksloka þegar ég þarf að horfa á þá spila. Svo voru menn svekktir yfir því að Sammy boy hafi ekki fengið landsliðsþjálfarastöðuna? Hvað átti hann að gera með hana? Ekki fær hann útbrunna harðjaxla sem hafa spilað fyrir önnur landslið, til að spila fyrir England. Nei, sem betur fer (fyrir hönd enskra félaga okkar) var frekar farið í næst lélegasta kostinn.
3. Stig takk
6.jan. Arsenal heima (FA Cup)
Arsenal mun stilla upp sínum kanónum í þessum leik og hvíla síðan í þeim næsta. Þeir hafa átt eitt sameiginlegt með okkar liði, og það er að vera oft á tíðum ósannfærandi á útivöllum. Fékk góða tilfinningu fyrir þessum drætti um leið og ég sá að spilað yrði á Anfield og það hefur ekkert fengið mig til að breyta því. Hef því fulla trú á að við ryðjum þeim úr vegi.
Sigur
9.jan. Arsenal heima (CC Cup)
Já, nei. Gerði engin C/P mistök hérna. Við verðum búnir að sjá ansi mikið af þessu Arsenal liði eftir þetta tímabil. Ef spá mín gengur ekki eftir í FA leiknum, og jafntefli yrði, þá myndi enn einn leikurinn bætast við og það þann 16 janúar ef mig minnir rétt. Við eigum einnig möguleika á að mæta þeim í næstu umferð Meistaradeildarinnar, ef bæði lið komast þar áfram. En ég hef nú svo sem ekki áhyggjur af því, enda mætum við Chelsea þar ef bæði lið komast áfram. En nóg um það. Við vinnum þennan CC Cup leik örugglega. Wenger mun stilla upp undir 10 ára liði Arsenal í leiknum, enda nýbúnir að leggja mikla orku í að tapa fyrir okkur í FA bikarnum.
Sigur
13.jan. Watford úti (EPL)
Watford á ekkert heima í þessari deild og við munum sýna þeim það í þessum leik. Örugg þrjú stig þrátt fyrir skotgrafarhernað.
3. Stig.
20.jan. Chelsea heima (EPL)
Mikið lifandis skelfing langar mig að segja þrjú stig hérna. Ég bara er ekki nógu viss um að það hafist. Okkar menn verða reyndar komnir á skuggalegt skrið á þessum tímapunkti, þannig að allt getur gerst. Þessi leikur gæti orðið lykilleikur um að koma okkur aftur inn í eitthvað sem gæti nálgast það að vera titilbarátta. Ég er þó hræddur um að þær vonir minnki til muna með jafntefli í þessum leik.
1. Stig
30.jan West Ham úti (EPL)
West Ham sýndu það gegn manchester united
um daginn að þeir geta varist. Ég er þó á því að þeir hafi verið heppnir í þeim leik og var sigur þeirra á tæpasta vaði. Held að með eðlilegum leik eigum við alveg að hafa þetta lið og ef menn hafa í huga Cardiff frá síðasta vori, þá koma menn ekki með neitt vanmat inn á völlinn.
3. Stig
3.feb. Everton heima (EPL)
.
.
.
.
3.Stig
Það hefur nú oft komið mínum spádómum í koll að ég hreinlega spái ekki Liverpool tapi og það verður þá bara að hafa það að ég hafi ekki rétt fyrir mér. Ég er þó alveg á því að þessi spá sé ekkert alltof óraunsæ. Við erum alveg með getuna í að fara á gott skrið, enda erum við svo sannarlega búnir að vera á því síðan við gerðum í brók gegn Arsenal á útivelli forðum daga. Ég neita að gefast upp, ég er ennþá á því að ef við náum að snúa leik okkar gegn Chelsea í sigur, þá sé ekki svo fjarlægur draumur að blanda sér eitthvað í baráttuna um titilinn. En N.B. þá er ég ekki að segja að við tökum titilinn, heldur að BLANDA sér í baráttuna. Ég veit að þetta er fjarlægur draumur í dag. En ég hvet menn samt að taka tillit til innbyrðisleikja, hversu marga slíka liðin eiga á heimavelli og hversu marga á útivelli. Hversu mörg stig geta tapast í þeim leikjum. Það er aldrei of seint og maður hreinlega vill ekki missa vonina á þessum tímapunkti.