07. desember, 2006
Ramon Rodriguez, yfirmaður knattspyrnumála hjá Sevilla, segir að Daniel Alves fari ekki fet frá félaginu:
“In fact, we will make public his contract extension in the next few hours as we have reached an agreement with him.”
Sko, ég ætla að ræða þrjá hluti hérna. Í fyrsta lagi, þá er nýr samningur hans við Sevilla alls engin trygging fyrir því að hann verði þar til lengri tíma. Sá samningur þýðir einfaldlega að Sevilla eru í sterkari stöðu varðandi það að prútta um söluverð á honum. Lið eins og Liverpool, Chelsea, Real Madríd og Barcelona hafa öll verið orðuð við hann og þau munu þurfa að reiða fram hærri summu en ella fyrir kauða í kjölfar nýs samnings hans, það er allt og sumt.
Jermaine Pennant hefur valdið vonbrigðum hingað til á tímabilinu en eins og hann sýndi gegn Galatasaray á þriðjudag gæti hann enn átt eftir að koma til. Ég vona innilega að hann blómstri á seinni hluta tímabilsins og nái að festa sig í sessi, en á meðan hann heldur áfram að spila undir getu getur maður ekki annað en horft til Alves - sem á hvern stórleikinn á fætur öðrum fyrir Sevilla í vetur - löngunaraugum. Þessi leikmaður er algjör snillingur og ef við þurfum að berjast við lið eins og Chelsea, Barca og Madríd um hann kemur það mér ekki á óvart. En mikið óskaplega vona ég að Rafa landi honum á endanum, þau ykkar sem hafið ekki séð hann spila enn getið trúað mér þegar ég segi að hann gæti orðið einhver albesti kantmaður heimsins á næstu árum, og algjört leiðarljós í okkar liði.
Í þriðja lagi, þá er það mín skoðun að það er ekki séns í helvíti að hann yfirgefi Sevilla í janúar. Ekki fyrir nokkurt lið, ekki fyrir nokkurn pening. Hann vann Evrópukeppni félagsliða með þeim sl. vor og var valinn leikmaður keppninnar - og maður úrslitaleiksins - og nú í vetur stefna menn þar á bæ að því að verja Evróputitil sinn og berjast við Barcelona og Real Madríd um sigur í spænsku Úrvalsdeildinni. Margir fræðimenn eru að veðja á Sevilla um þessar mundir og segja liðið minna á Deportivo La Coruna-liðið sem vann tvo titla um síðustu aldamót, þannig að á meðan hann er í baráttunni um þessa tvo titla með Sevilla er ekki séns að hann vilji fara.
Hins vegar held ég að næsta sumar, ef/þegar liðið hans hefur dregist aftur úr Barca og Real í toppbaráttunni á Spáni (ef það gerist) og hann fer kannski að horfa löngunaraugum á liðin sem eru að berjast í undanúrslitum Meistaradeildarinnar (vonandi verður Liverpool þar á meðal) held ég að hann gæti ákveðið að þetta sé rétta sumarið til að skipta um lið. Þannig að ef Arabarnir frá Dubai eru að kaupa Liverpool og ætla að gera Rafa að öflugri manni á markaðnum held ég að hann muni koma til með að setja allt kapp á að fá Daniel Alves næsta sumar. Hann verður númer eitt á lista hjá Rafa, ef eitthvað er að marka síðustu tvö sumur stjórans, og hann er sko númer eitt á mínum óskalista líka.
Daniel Alves verður kyrr hjá Sevilla … í bili. Horfið á leikina þeirra á Sýn ef þið getið, því þið gætuð verið að horfa á framtíðarkantmann Liverpool í essinu sínu. Næsta sumar gætu stórir hlutir gerst í rauða helming Bítlaborgarinnar.