02. desember, 2006
Jæja góður sigur á Wigan og okkar menn komnir upp í þriðja sætið, ásamt fleiri liðum.
Það hefur loðað við okkar menn í vetur að skapa sér fullt, fullt, fullt af færum en aldrei klárað þau…. það var ekki það sem gerðist í þessum leik, til að mynda áttum við þrjú skot á markið í fyrri hálfleik, en skoruðum samt fjögur mörk í honum!
Rafa byrjaði leikinn svona:
Reina
Finnan - Hyypiä - Carragher - Agger
Luis Garcia - Gerrard - Alonso - Riise
Bellamy - Kuyt
Bekkurinn: Dudek, Fowler, Pennant, Paletta, Guthrie.
Craig Bellamy byrjaði leikinn, Peter Crouch missti sæti sitt í byrjunarliðinu frá leiknum gegn Portsmouth. Crouchy var ekki einu sinni á bekknum í dag, ég hef ekkert séð neitt um það hvort hann sé meiddur eða ekki. Bellamy var eins og allir vita í réttarhöldum í síðustu viku og hefur misst af tveimur leikjum vegna þeirra, og því kom það ekki neinum á óvart að hann skyldi mæta grimmur til leiks. Einar fær samt kúdós fyrir að minnast á það og segja að hann myndi skora í upphituninni sinni
Það tók Bellamy ekki nema tæpar sjö mínútur að koma okkur yfir. Riise sendi langan bolta upp kantinn, varnarmaður Wigan skallaði boltann yfir á Bellamy sem sýndi hraða sinn, var miklu, miklu, miklu fljótari en Mark Jackson, tók boltann með sér, stakk varnarmanninn af og kláraði færið sitt frábærlega gegn Chris Kirkland þegar hann setti boltann yfir markmanninn stæðilega.
Bellamy sýndi bara í þessum leik hversu hraður hann er og hversu hættulegt það getur verið að vera með svona mann í liðinu. Hann minnti mig óneitanlega á Michael Owen, til dæmis markið sem Owen skoraði gegn United þegar hann setti boltann yfir markmanninn og svo seinna markið hans í hálfleiknum þar sem yfirvegunin var í fyrirrúmi.
Eftir markið fóru Wigan að komst betur og betur inn í leikinn. Þeir voru að spila vel á milli sín en mér fannst þeir fá alltof mikinn tíma inni á miðjunni með boltann. Þeir voru þó kannski ekki að skapa sér nein færi, ekki frekar en okkar menn þar til dró til tíðinda um miðjan hálfleikinn.
Garcia reynda að lyfta boltanum yfir varnarmann sem skallaði hann út, boltinn datt fyrir Gerrard sem sendi í fyrsta aftur innfyrir þar sem Bellamy komst einn gegn Kirkland og kláraði færið aftur mjög vel, undir markmanninn. 25. mínútur, 2-0 og Bellamy með bæði mörkin! Þetta var fyrsta markið okkar á útivelli í 569 mínútur, eða 9 klukkustundir og 29. mínútur, fyrir þá sem voru að telja.
Skömmu síðar fengu leikmenn Wigan tvö sannkölluð dauðafæri, fyrst varði Reina frábærlega skalla úr vítateignum og úr frákastinu skaut Lee McCulloch langt, langt yfir, einn gegn Reina. Ég hugsaði strax að þetta yrði ekki dagur Wigan-manna, og að sjálfsögðu hlakkaði bara í mér.
Það nákvæmlega sama gerðist svo þrem mínútum síðar! Sending kom inn að vítateig okkar manna, Agger skallaði hann aftur fyrir sig á Heskey sem komst einn gegn Reina sem varði mjög vel en maðurinn sem ég óttaðist hvað mest fyrir leikinn, Henri Camara, náði frákastinu en skot hans fór yfir. Viðvörunabjöllurnar glumdu um varamannabekk Liverpool en þá kláruðu okkar menn leikinn með hreint út sagt stórkostlegu marki.
Reina sendi boltann stutt á Gerrard, fyrirliðinn sendi boltann út á vinstri kant á Garcia og tók sprettinn fram, Spánverjinn sendi svo aftur á Gerrard sem tók vel við boltanum um miðjan vallarhelming Wigan, hann sendi boltann svo á bakvið varnarmann Wigan á Bellamy sem var í fínu færi en í stað þess að freista þrennunnar sendi hann á Kuyt sem var einn á fjærstönginni og hann renndi boltanum í netið. Svona á að spila fótbolta!!
Ég átti ekki orð, 3-0, allt að gerast… þá kom jú, 4-0! Við fengum horn, ég bölvaði aðeins þegar Gerrard tók það stutt á Finnan og fékk boltann svo til baka, sendi fyrir þar sem Garcia kom á nær en hitti ekki boltann. Knötturinn fór þess í stað í McCulloch og í netið. Staðan því 4-0 í hálfleik og eins og áður sagði, áttum við aðeins þrjú skot á mark Wigan í hálfleiknum en þeir eitt.
Auðvitað vissi maður fyrirfram að seinni hálfleikurinn yrði aldrei jafn tíðindamikill. Riise átti ágætis skot eftir sína sókn og Pennant kom svo inn fyrir Garcia. Paletta fékk síðan tækifæri og Sami Hyypia vék fyrir honum. Ég hefði óneitanlega viljað sjá Fowler inn fljótlega í seinni hálfleik líka, hvíla Kuyt bara, en það er gaman fyrir Danny Guthrie að vera að brjóta sér leið inn í aðalliðið, hann kom inn fyrir fyrirliðann sjálfann. Mér sýndist hann vera hundfúll að vera tekinn af velli, enda á hann að vera það.
Seinni hálfleikurinn lallaðist áfram, okkar menn búnir að vinna leikinn og voru ekkert að stressa sig á hlutunum. Mesta hættan var í skyndisóknum okkar sem voru þónokkrar en Kirkland þurfti reyndar aldrei að taka á honum stóra sínum, ekki frekar en Reina.
Mér fannst við samt alltaf vera með yfirhöndina og Wigan gerðu fáar atlögur að marki okkar. Það besta fékk Emile Heskey þegar hann skaut í stöngina þegar Reina var eiginlega ekki í markinu, boltinn fór þaðan í Cotterill og útaf. Þetta lá bara ekki fyrir heimamönnum í dag, sem betur fer!
Það hefði verið gaman að bæta við einu marki undir lokin, það gerðist þó ekki og leikurinn endaði með 4-0 sigri okkar manna.
Maður leiksins: Craig Bellamy. Hann hefur átt erfiða viku en átti frábæran leik í dag. Hann skoraði tvö góð mörk, barðist eins og ljón allan leikinn og var til stöðugra vandræða fyrir vörn Wigan.
Það sem mér fannst hvað skemmtilegast að sjá var leikgleðin, sem var algjörlega í fyrirrúmi. Lítil trikk, skemmtilegar sendingar, mikil samvinna og svo framvegis. Frábært, og megi þetta halda áfram! Vonandi er liðið okkar nú búið að kveðja þennan útivalladraug sem vakað hefur yfir okkur að undanförnu……
Næsti leikur er svo gegn Galatasaray á þriðjudaginn þar sem margir leikmenn munu fá tækifæri til að sýna Rafa hvað í sér býr og öðlast smá reynslu í Evrópuleikjum. Rafa ætlar að gera margar breytingar og það verður gaman að sjá aftur leik á vellinum þar sem við unnum Meistaradeildina, eftirminnilega fyrir einu og hálfu ári síðan
YNWA.