31. október, 2006
Jæja, okkar menn unnu frekar auðveldan 3-0 sigur á Bordeaux í kvöld á Anfield í fjórðu umferð Meistaradeildarinnar og tryggðu sér fyrir vikið þátttöku í 16-liða úrslitunum eftir áramótin. PSV unnu heimasigur á Galatasaray í kvöld og því eru þeir einnig öruggir áfram og aðeins eftir að útkljá hvort þessara liða sigrar í riðlinum.
Eftir að hafa breytt byrjunarliði sínu í níutíu og níu leikjum í röð (ég var staddur á Anfield 5. febrúar 2005, þegar Rafa stillti síðast upp óbreyttu byrjunarliði) gerði hann nákvæmlega engar breytingar á liði sínu frá því í leiknum við Aston Villa. Liðið í kvöld var það nákvæmlega sama:
Reina
Finnan - Carragher - Hyypiä - Riise
Gerrard - Alonso - Sissoko - Luis García
Kuyt - Crouch
Bekkur: Dudek, Agger, Warnock, Aurelio, Pennant, Zenden, Fowler.
Leikurinn fór frekar rólega af stað og okkar mönnum virtist ekkert liggja á að skora. Bordeaux-menn seldu sig grimmt og börðust vel en eftir því sem mínútunum fjölgaði styrktist staða okkar manna á vellinum og eftir um fimmtán mínútna leik voru Alonso og félagar á miðjunni algjörlega farnir að stjórna leiknum.
Fyrsta markið kom svo á 23. mínútu. Dirk Kuyt fékk boltann úti við hægra horn vítateigs Bordeaux og lék inn í teiginn. Þaðan lagði hann boltann út á Steven Gerrard sem sendi háa fyrirgjöf á fjærstöngina, ætlaða Peter Crouch. Crouch gerði sig líklega til að skalla hann en hefur svo greinilega heyrt kallað fyrir aftan sig því hann beygði sig og boltinn sveif til móts við Luis García sem mætti honum viðstöðulaust og skaut óverjandi í fjærhornið. 1-0 fyrir okkar mönnum eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var fátt um fína drætti. Kuyt og Gerrard voru einna mest ógnandi í liði okkar manna en það átti svo sem enginn stórleik, né voru menn slappir. Manni fannst þetta bara vera lið í hlutlausa gírnum.
Nú, Bordeaux-menn mættu tvíefldir til leiks eftir hlé og hefðu getað jafnað en Reina varði langskot þeirra mjög vel. Eftir að hafa verið hálfsofandi í svona tíu mínútur við upphaf seinni hálfleiks gerðu okkar menn það sama og í fyrri hálfleik og tóku aftur smám saman öll völd á vellinum. Á 65. mínútu dró svo til tíðinda. Momo Sissoko, sem var á gulu spjaldi úr fyrri hálfleiknum, fór í tæklingu og náði boltanum en steig um leið á tærnar á Bordeaux-leikmanni sem lagðist eins og hann væri með kóleru. Allt ætlaði um koll að keyra á vellinum, þeir frönsku voru mjög æstir og það fór svo að einn þeirra gekk upp að Johnny Riise og skallaði hann. Riise var blóðugur á eftir og dómarinn, Markus Merk frá Þýskalandi, gerði hárrétt í að vísa leikmanninum útaf.
Einum færri var leikurinn eiginlega búinn fyrir Bordeaux-menn. Steven Gerrard komst tvisvar inn fyrir en skaut hátt yfir og langt framhjá áður en Zenden, sem kom inná fyrir Alonso um miðjan hálfleik, sendi hann innfyrir þriðja sinni. Í það skiptið klikkaði fyrirliðinn okkar ekki og skoraði sitt fyrsta, langþráða mark á leiktíðinni. Honum var augsýnilega létt við að ná að brjóta múrinn.
Nokkrum mínútum síðar gerði varnarmaður Bordeaux svo mistök þegar hann hitti ekki boltann og Luis García hljóp innfyrir og kláraði örugglega. Staðan 3-0 fyrir okkar menn og leikurinn búinn.
Rafa tók Crouch og García útaf í kjölfarið fyrir Fowler og Pennant og undir lokin reyndu þeir Kuyt og Pennant ákaft að búa til mark fyrir Fowler en gamla goðið var ekki á skotskónum í dag. Þá var Sissoko einnig nálægt því að skora en markvörður Bordeaux varði langskot hans vel og lokatölur því 3-0.
Maður leiksins: Það átti kannski enginn neinn stórleik í dag en liðið var þétt og stóð fyrir sínu. Þetta er í þriðja sinn í fjórum leikjum í Meistaradeildinni í vetur sem liðið heldur hreinu en hinum megin á vellinum stóð García sig vel með tvennu. Ég ætla hins vegar að gefa STEVEN GERRARD heiðurinn í kvöld. Hann var mótorinn í sóknarleik liðsins og bjó til flest allt markvert fyrir liðið í kövld. Fyrsta mark leiksins kom eftir hans stoðsendingu og hann tryggði sigurinn svo með öðru markinu sjálfur. Hann er loksins kominn á blað og það er eitthvað sem segir manni að næsta lið sem mætir okkur sé í frekar vondum málum.