26. október, 2006
Undanfarið, í kjölfar vonbrigða í Úrvalsdeildinni, hefur tal um að Steven Gerrard sé óánægður hjá Liverpool og/eða ósáttur við Rafael Benítez flogið fjöllum hærra í enskum fjölmiðlum (og víðar). Eftir tapið um síðustu helgi hefur þetta tal náð hámarki.
Við hér á Liverpool Blogginu höfum ekki minnst einu orði á þetta umtal. Við ræddum þetta ekkert okkar á milli, ekki í eitt einasta skipti, heldur komumst hver fyrir sig að þeirri niðurstöðu að það væri ekki orðum eyðandi í svona ruglviðbrögð við nokkrum tapleikjum.
Eins og venjulega þegar þetta slúður fer í gang (ca. einu sinni á sumrin og einu sinni á veturna) þá sér fyrirliðinn sig knúinn til að stöðva þetta rugl. Eins og venjulega hefur Steven Gerrard lýst því yfir að hann sé ekki á förum. Þið getið lesið greinina í heild sinni en hann segir í hnotskurn þetta:
Þegar þú ert ungur leikmaður viltu spila þína bestu stöðu en þú vilt fyrst og fremst fá séns með aðalliðinu. Ég er núna 26 ára, staðan skiptir ekki máli heldur liðið.
Rafa veit að mér finnst best að spila á miðjunni en að ég hef ekkert á móti því að spila annars staðar. Hann er stjórinn, hann ræður þessu og það stendur. Þegar gagnrýnendurnir eða ég erum farnir að stjórna liðinu getum við stillt þessu upp eins og við viljum, en Rafa ræður og það er í góðu lagi mín vegna.
Rafa segir að goggunarröðin innan félagsins sé eftirfarandi: liðið, félagið, stuðningsmennirnir, leikmennirnir. Ég er sammála þessari goggunarröð.
Á síðasta tímabili enduðum við í þriðja sæti í deildinni með 82 stig og unnum FA bikarinn. Ég spilaði á hægri kantinum í um 75% leikja það tímabil. ÞAÐ KVARTAÐI ENGINN ÞÁ …
Ég er ekki að spila nógu vel. Ekki bara liðið, heldur ég. Og það er ekki Rafa að kenna fyrir að spila mér vitlaust, heldur því að kenna að ég er ekki að spila nógu vel. Punktur.
Þetta er í fyrsta sinn undir stjórn Rafa sem ég á slæma leikjahrinu. Ég lenti nokkrum sinnum í þessu undir stjórn Gérard Houllier og náði mér alltaf á endanum á strik. Það gerist vonandi núna líka.
Sumir halda að ég geti farið út á völlinn í hverjum einasta leik og verið yfirburðamaður, allt í öllu og skorað mörk af 30 metra færi. Það er bara ómögulegt að gera það í hverjum einasta leik.
Góða formið er rétt handan við hornið. Ég finn það nálgast.
Steven Gerrard hefur talað. Næst síðasta punktinn ætti að þrykkja inn í höfuðkúpuna á sumum aðdáendum sem virðast gera ómögulegar kröfur til hans, og þið hinir eigið að taka eftir því hversu oft hann segir að þetta sé á sína ábyrgð en ekki Rafa.
Ég spái því að fyrirliðinn verði þruuuuuumandi óður á laugardaginn. Hvort það nægir til að hann eigi stórleik veit ég ekki, en ég lofa ykkur því að hann mun deyja við að reyna frekar en að hengja bara haus …