beach
« Liðið gegn Blackburn | Aðalsíða | Gerrard meiddur »

14. október, 2006
L'pool 1 - Blackburn 1

mccarthy_reina.jpg

Ég hélt að Liverpool-liðið gæti varla spilað verr og verið andlausara en það gerði gegn Bolton fyrir tveimur vikum síðan, en þeir afsönnuðu það í dag þegar þeir gerðu grútlélegt 1-1 jafntefli við Blackburn á Anfield. Þrátt fyrir að hafa náð að jafna í dag var leikur liðsins einfaldlega ekki upp á marga fiska.

Rafa Benítez gerði óvenju fáar breytingar frá því í síðasta leik, tvær talsins og þær komu báðar til vegna meiðsla; Dirk Kuyt og Momo Sissoko eru frá og því komu Peter Crouch og Fabio Aurelio inn í liðið í þeirra stað. Liðið í heild sinni var sem hér segir:

Reina

Finnan - Carragher - Hyypiä - Riise

Pennant - Gerrard - Alonso - Aurelio

Crouch - Bellamy

Bekkur: Dudek, Palletta, Zenden, García, Gonzalez.

Um fyrri hálfleikinn er nánast ekkert hægt að segja. Leikurinn var jafn í upphafi og hvorugt liðið virtist geta tekið boltann niður og spilað að viti, en þegar leið á náðu Blackburn-menn þó frekar að athafna sig og þeir komust yfir á sautjándu mínútu með góðu marki. Bentley sendi boltann hátt fyrir úr djúpri stöðu á hægri kantinum, boltinn datt niður í teig okkar manna þar sem þeir Carragher og Finnan leyfðu honum bara að fljóta yfir á fjærstöngina. Pepe Reina ætlaði út í úthlaupið en hætti við og því fór enginn í boltann nema Benny McCarthy sem var óvaldaður á fjærstöng og skaut í tómt markið. Makalaust klúður hjá vörn okkar og markverði og það sást klárlega í þessari sókn hvað er að há liðinu þessa dagana: skortur á sjálfstrausti.

Þess utan gerðist fátt markvert í fyrri hálfleik. Riise átti eitt gott skot sem Friedel varði og í kjölfarið bjargaði varnarmaður Blackburn á línu frá Crouch, en að öðru leyti gerði liðið lítið af viti í fyrri hálfleik og var verðskuldað marki undir í hléi.

Seinni hálfleikurinn byrjaði svipað og sá fyrri, bæði lið virtust í hlutlausum gír og ekkert gekk hjá okkar mönnum að setja saman sóknir. Það skánaði aðeins þegar leið á hálfleikinn og þegar tæplega hálftími var eftir fengum við hornspyrnu úti við hægri kantinn fyrir framan The Kop. Fabio Aurelio sendi góðan bolta fyrir sem datt niður á fjærstöng þar sem Craig Bellamy var óvaldaður og skallaði í netið. Vörn Blackburn-manna hafði verið feykigóð í þessum leik en klikkaði í þetta eina sinn og það var nóg til að Bellamy næði að skora gegn sínum gömlu félögum og bjarga stigi fyrir okkur.

Eftir þetta kom svona fimm mínútna kafli þar sem Liverpool-liðið sótti af auknum krafti og maður hélt að þeir myndu sennilega innbyrða sigur en svo bara dó sá sóknarþungi út og leikurinn fjaraði út í hálfgerðu kæruleysi. Okkar menn voru að reyna en það var bara ekkert að ganga upp og jafnvel einföldustu hlutir virkuðu ofurerfiðir í þessum leik. Á endanum lauk leiknum með 1-1 jafntefli og það verður að segjast að það voru sanngjörn úrslit í dag.

Nú, eftir þennan leik erum við í tíunda sæti með ellefu stig eftir átta leiki. manchester united eru á toppnum með nítján stig en Chelsea eiga leik seinna í dag og geta náð þeim að stigum, á meðan Arsenal eru í fjórða sætinu með fjórtán stig en eiga leik til góða. Þannig að við erum sennilega átta stigum á eftir manchester united og Chelsea og sex stigum á eftir Arsenal, eftir aðeins átta umferðir.

Og næsti leikur er á Old Trafford, gegn manchester united og það er ljóst að ef við töpum þeim leik getum við kvatt titilbaráttuna í ár. Jafntefli er algjört lágmark á Old Trafford, og það er vissulega djöfullegt að þurfa að gera slíkar kröfur á þessum erfiða útivelli en liðið er einfaldlega búið að mála sig út í horn með slæmri byrjun á deildarkeppninni. Ég hef ekki hugmynd um það hvers vegna liðið er ekki að ná að spila betur en þetta, þarf að melta það aðeins betur en sjálfsagt hafið þið lesendurnir ykkar að segja um gengi liðsins. Hlakka til að lesa það í ummælunum.

Maður leiksins: Xabi Alonso, sá eini sem spilaði eitthvað nálægt sinni bestu getu í dag. Og fyrir þá sem eru að telja, þá er þetta annar heimaleikur liðsins í röð sem Gerrard og Alonso spila saman á miðjunni, og Gerrard gat nákvæmlega ekkert

Næsti leikur: Bordeaux í Meistaradeildinni í miðri viku.

.: Kristján Atli uppfærði kl. 15:54 | 714 Orð | Flokkur: Leikskýrslur
Ummæli (36)

Arsenal er þekkt fyrir hratt spil, fáar snertingar og gífurlegan hraða.

Man Utd hefur aukið hraðann mikið á þessu tímabili og önnur lið (nema Arsenal) eiga í vandræðum með að eiga við slíkt.

Chelsea eru gífurlega massívir, sterka einstaklinga í öllum stöðum sem vinna mörg návígi og gera liðinu kleift að halda uppi hárri pressu og halda boltanum afar vel.

Liverpool ? Hvað er einkenni þessa liðs? Fullt af frambærilegum fótboltamönnum en þetta er lið sem hefur ekki enn fundið sitt identity. Spila þeir hratt? Halda þeir uppi hárri pressu? Skapa þeir mikil vandræði fyrir andstæðingana? Nei, nei og nei.

Þetta er lið sem akkúrat þessa stundina reiðir sig á einstaklingsframtök og happ og glapp. Skot af 30 metra færi, langar sendingar og tilviljunarkendar fyrirgjafir eru ekki áskrift að meistaraliði, sama hversu einstaklingarnir eru góðir. Lið án stefnu gerir ekki mikið.

Þetta er þáttur Benitez. Það er hans að koma inn sínum stefnum og áhersluþáttum inn í leik liðsins. Undirbúningstímabilið er tíminn til þess - sjáið bara muninn á Man Utd á þessu tímabili. Þeir bættu ekki miklu við hópinn en það er greinilegt hvað hefur verið æft fyrir tímabilið - spila hratt, spila hratt og spila hratt. Hvað hefur Liverpool bætt við sig?

Leikur Liverpool á áreiðanlega eftir að batna rétt eins og á síðasta tímabili en það verður um seinan. Dejavú.

Makkarinn sendi inn - 14.10.06 16:52 - (
Ummæli #5)

einsi, rólegur það var laugardagskvöld í gær. Mönnum er fyrirgefið að hafa ekki setið yfir tölvuskjánum. :-)

Gonzalez er mjög efnilegur og góður og ég hef séð nóg til hans í byrjun tímabils til að hafa trú á honum, en hann á samt enn aðeins í land með að gera tilkall til þess að spila alla leiki með okkur. Hann þarf t.d. greinilega að aðlagast enskri knattspyrnu og hörkunni þar í landi betur en t.d. Fabio Aurelio, sem virðist henta betur í þess háttar bolta, og hann þarf að skila bolta betur frá sér - við höfum ekki enn séð hann spæna upp kantinn, framhjá bakverði og gefa góða fyrirgjöf eins og við höfum t.d. séð Pennant gera.

Það sem ég sé há liðinu einna mest í dag er skortur á sjálfstrausti. Ef liðið hefði byrjað tímabilið á sigri á Anfield gegn Maccabi Haifa og svo sigri gegn Sheffield United hefði sjálfstraustið verið í botni og engin leið að segja hversu hátt liðið væri búið að klifra núna, en þess í stað fóru þessir leikir í jafntefli og svo töpuðum við illa fyrir Everton og Chelsea, sem sló úr okkur tennurnar. Þannig að menn eru að reyna að berja í sig sjálfstraust aftur og á meðan það gerist er erfitt að spila gæðabolta.

Ég hef ennþá trú á því að þetta lið sé nógu sterkt til að berjast í toppnum - ég hef hvorki misst trúna á Rafa né leikmönnum hans, og mér þykja þeir Bellamy, Pennant, Aurelio, Gonzalez og Palletta ennþá nógu góðir til að spila fyrir Liverpool í toppbaráttu. Vandamálið er bara það að á meðan liðið ekki hefur sjálfstraust til að spila af fullri getu munum við ekki sjá það taka þeim framförum sem það þarf og detta í "gírinn" eins og þeir gerðu í fyrra. Þetta kemur með tímanum en tíminn bara vinnur á móti okkur í þessu því með hverjum leiknum færumst við fjær toppbaráttunni.

Hver veit? Kannski vinnum við United óvænt á Old Trafford eftir viku og það þrykkir tímabilinu í "gírinn" ... og kannski töpum við illa þar og þurfum að þola aðra tvo mánuði af hörmunum áður en liðið loksins jafnar sig og fer að reyna að bjarga því sem bjargað verður? Það er ómögulegt að segja og þetta eru hvoru tveggja raunhæfir möguleikar, ég vona bara að raunin verði eitthvað líkari þeim fyrri.

YNWA. :-)

Kristján Atli sendi inn - 15.10.06 09:02 - (Ummæli #16)

Nú langar mig að setja spurningamerki við Benitez. (Tek þó fram að ég er ekki að fara halda því fram að hann eigi að fara segja af sér!!)

Er það tilviljun að liðið hefur undanfarin þrjú tímabil tapað baráttunni um enska titilinn strax í byrjun tímabilsins.

Tímabilið 2004/5 Leikir Sigur Jafntefli Tap Stig Fullt hús 11 5 2 4 17 (33) Tímabilið 2005/6 Leikir Sigur Jafntefli Tap Stig Fullt hús 9 3 4 2 13 (27)

Tímabilið 2006/7 Leikir Sigur Jafntefli Tap Stig Fullt hús 8 3 2 3 11 (24)

Það er nokkuð ljóst að lið sem er orðið næstum 10 stigum á eftir toppliðinu þegar tveir til þrír mánuðir eru liðnir af móti á ekki mikla möguleika á að vinna titla. Tala ekki um þegar tilvonandi meistarar eru að tapa 3-4 leikjum yfir allt tímabilið.

Það er mín skoðun eftir slæma byrjun þrjú tímabil í röð að eitthvað er stórlega að undirbúningstímabilinu hjá liðinu. Undirbúningstímabilið núna gaf svo sem ekki góð fyrirheit þegar liðið var að láta smálið í Sviss og Þýskalandi rassskella sig í æfingaleikjum.

Menn virðast einfaldlega koma þreyttir, þungir og án nokkurs sjálfstraust til leiks á hverju tímabili. Ég man undanfarnar leiktíðir átti liðið í mesta basli með að halda boltanum innan liðsins og liðið var að skapa sér fá færi. Þrátt fyrir nokkra sigra þá einkenndist leikur liðsins af ströggli og sigrarnir voru ekki sannfærandi.

Það var ekki fyrr en í nóvember bæði tímabilin undan að liðið fór að vinna leiki og jafnvel útileiki, eitthvað sem liðið hefur átt í stöku basli með undir stjórn Benitez.

Er sammála mönnum hér á undan að greinilegt er að allt sjálfstraust vantar í liðið, en það eru fleiri þættir sem spila þarna inní. Liðið vann góða sigra á Tottenham, West Ham og Galat. en það virðist ekki hafa fært liðinu neitt. Ekkert meir sjálfstraust eða ekkert betri fótbolta. Menn eru greinilega ekki í líkamlegu né andlegu standi þegar þeir mæta til leiks í byrjun tímabils. Þá kemur liðið einfaldlega illa skipulagt í sína fyrstu leiki. Allan rythma vantar í leik liðsins og liðið þarf að leika fram í nóvember til þess að einhver stöðugleiki fer að myndast. Það virðist sem svo að það þurfti alltaf að byggja liðið uppfrá grunni í byrjun hverjar leiktíðar í stað þess að geta byggt ofan á það sem fyrir var.

einare sendi inn - 15.10.06 19:33 - (
Ummæli #20)

Ég bíð spenntur eftir viðbrögðum spjallsins hér við pósti Mr. Dalglish (ummæli 26) því þau eru náttúrlega út úr kú. Benitez hefur gert helling fyrir Liverpool - við höfum unnið bikar á hverju ári síðan hann tók við, og þó svo að ég sé ekki jafnharður í gagnrýni á Houllier eins og margir hérna, þá get ég ekki tekið undir það að "meistari Gerrard Houllier" hafi byggt eitthvað upp og Benitez rifið það niður.

Benitez er ekki hafinn yfir gagnrýni, en ég er sammála því að sjálfstraustið er lykillinn að genginu. Ég sé ekki fram á titlabaráttu í deildinni hjá Liverpool núna, en ég verð manna glaðastur ef það reynist rangt hjá mér. Þetta er pirrandi og auðvitað er löngunin í enskan meistaratitil ótrúlega sterk. En í dag hef ég enga trú á því að "Benitez í burt" sé eitthvað svar.

Og Siggi R ... Rafa er oft ánægður með leikmenn sína og ýmislegt annað. Hann er duglegur að lýsa því yfir í fjölmiðlum. Hvað með Mourinho? Ekki er hann nú mikið skárri en lýsingarorðin sem þú valdir um Benitez, en samt nær hann árangri. Ég held að það búi húmor í liðinu, það er bara einhver fáránleg lægð í mannskapnum sem pirrar mig og fleiri óstjórnlega. Dæmi um húmor: muniði ekki eftir berum rassi S. Gerrard á marklínunni á æfingu hjá Liverpool og Crouch að taka víti? Okei, ársgamalt ... en húmorinn er enn til staðar.

Stöðugleiki og sjálfsöryggi er það sem vantar - því mannskapurinn sem við höfum er frábær. Minnir mig óneitanlega á R.Madrid sem er með frábæran mannskap en spilar á köflum ömurlegan bolta.

Ég held alltaf ótrúlega mikið með Liverpool en það er ekki gaman að tala um fótbolta í dag, nema um Barcelona. Tveir-þrír sigurleikir fengju mann til að kætast aðeins ... það hlýtur að koma að því, en varðandi titlabaráttu - þá er ég hræddur um að það sé orðið of seint.

(mér finnst gaman þegar einhver sýnir að ég hafi rangt fyrir mér ... verður gaman hjá mér í vor??)

Doddi sendi inn - 16.10.06 13:27 - (Ummæli #27)

Málið er einfalt. Aftasta varnarlína Liverpool með markmanninum meðtöldum er einhver sú alslappasta hingað til í deildinni. Kannski lagast það, kannski ekki. Carragher, maðurinn sem allir eru svo skotnir í hefur ekki getað nokkurn skapaðan hlut í haust. Sami Hyypia er alveg búinn. John Arne Riise er og hefur verið meðalmaður. Aurelio virðist litlu skárri. Finnan er sömuleiðis meðalmaður. Agger er sá eini sem eitthvað getur þarna en hann er ekki alltaf með og nú er hann meiddur.

Ég er ekki hissa á að Benitez vilji fá Lucas Neill, þvílíkur yfirburðamaður hann var í leiknum á laugardaginn. Auk þess er hann töffari :-)

En Liverpool þarf meira en eitt stykki Lucas Neill í vörnina, þeir þurfa miðvörð með Agger og svo sómasamlegan vinstri bakvörð og þá er einhver von hjá klúbbnum.

Staðreyndin er hins vegar sú að eina ferðina enn er Liverpool búið að tapa mótinu strax í upphafi. Komnir 8 stigum á eftir Chelsea og Man.Utd er bara of mikið og Makkarinn segir stórvel frá í sínum skrifum hvers vegna ástandið er svona.

Einnig verð ég að taka undir skrif Sigga R. Benitez er eflaust flottur þjálfari og allt það, en hann er svo leiðinlegur og þurr (í viðtölum nota bene, þekki ekki manninn persónulega), það hlýtur að smita út frá sér. Það eru ekki margir skemmtilegir karakterar í þessu liði sem brosa og hafa einhverja útgeislun, Kuyt dettur mér í hug, hann er flottur.

Brosa menn einsog Carragher og Finnan einhvern tímann? :-)

Nonni sendi inn - 16.10.06 15:52 - (
Ummæli #30)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.








:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar?




Flokkar

Almennt · Auglýsingar · Enska bikarkeppnin · Enski Boltinn · Fjölmiðlar · HM 2006 · HM Félagsliða · Kannanir · Landslið · Leikmannakaup · Leikmenn · Leikskýrslur · Leikvangur · Liðsuppstilling · Liverpool · Meiðsli · Meistaradeild · Myndbönd · Sjónvarp · Slúður · Topp10 · Um síðuna · Upphitun · Vangaveltur · Veðmál · Þjálfaramál ·

Um Síðuna

Um Síðuna

Um höfundana

Aggi

Einar Örn

Hjalti

Kristján Atli

Sigursteinn

Síðustu leikir

·L'pool 1 - Blackburn 1
·Bolton 2 - L'pool 0
·Liverpool - Galatasary 3-2
·Liverpool 3-0 Tottenham
·L'pool 2 - N'castle 0

Síðustu Ummæli

Óli: Að mínu mati er Rafa Benitez eitt það al ...[Skoða]
Siggi R: Það má ekki taka titlana af Rafa en það ...[Skoða]
Stefano: Vel mælt Kiddi, vel mælt! Ég er ekki sá ...[Skoða]
Kiddi: hehe, afar skemmtilegt að sjá hve málefn ...[Skoða]
einsi kaldi: ég held að það sé ekki vörnini að kenna ...[Skoða]
Þröstur: Jesús kristur... Carragher er búinn að e ...[Skoða]
Nonni: Málið er einfalt. Aftasta varnarlína Liv ...[Skoða]
Vargurinn: Phuu :-) ...[Skoða]
Hössi: Rafa er ekki hafinn yfir gagnrýni. Þetta ...[Skoða]
Doddi: Ég bíð spenntur eftir viðbrögðum spjalls ...[Skoða]

Síðustu færslur

· Gerrard meiddur
· L'pool 1 - Blackburn 1
· Liðið gegn Blackburn
· Rafa ber fullt traust til Reina.
· Blackburn á morgun
· Kuyt ekki með um helgina.

Tenglar

Einar :: EOE.is

Kristján Atli.com


NewsNow Liverpool

SKY

Liverpool Echo

BBC

Liverpool (official)

YNWA spjallborð

RAWK spjallborð

Soccernet

The Guardian

Daily Telegraph

Independent

LFC History

Liverpool.is

This Is Anfield

UEFA


Staðan í ensku

Tölfræði í ensku


The Liverpool Way Blog

RAWK blog

Kop Blog




Við notum
Movable Type 3.2

Efni þessarar síðu er birt undir skilmálum frá Creative Commons.

Creative Commons License