28. september, 2006
Það bárust góðar fréttir frá Liverpool nú fyrir stundu. Ein af stærstu hindrununum er varðar byggingu nýs leikvangs var rutt úr vegi. Búið er að samþykkja 9 milljón punda styrk í þetta risavaxna verkefni, sem er að endurbyggja svæðið í kringum Anfield. Þetta þýðir það að Liverpool FC hefur náð að sýna fram á fjármögnun á leikvanginum, eitthvað sem sumir efuðust um að næðist. Þessar 9 milljónir punda fara þó alls ekki í byggingu á sjálfum leikvanginum, heldur bara í svæðið í kring. Í það verkefni var áður búið að úthluta 15,6 milljónum punda og er því heildarupphæðin komin í 24,6 milljónir punda í formi framlaga frá Northwest Regional Development Agency (8,9 m), Liverpool FC (5,0 m) og Liverpool City Council (1,7 m).
Þetta er því mikið og stórt skref í þá átt að geta hafist handa við framkvæmdir á fyrri hluta ársins 2007. Stefnt er að því að þessi 60.000 manna leikvangur verði tekinn í notkun haustið 2009. Rick Parry var að vonum hæst ánægður með að ákvörðun hafi fengist í málið:
“The Committee’s decision is very good news for the people of North Liverpool,” said Parry.
“It’s another significant step forward in our plans for the building of a new stadium, which we have always seen as a catalyst for the regeneration of the whole area.”
Áður hafði svo verið staðfest leiga á landsvæðinu undir leikvanginn til 999 ára.
Ég verð að segja fyrir mitt leiti að maður á eftir að sakna gamla góða Anfield. Það verður þó að viðurkennast að hann er kominn til ára sinna og það er nauðsynlegt fyrir félag af þessari stærðargráðu að ná að stækka við sig og taka skref inn í framtíðina. Menn átta sig ekki á einu í þessu sambandi og hafa oft verið að básúna um það að við ættum að byggja enn stærri völl. Þó að fjölgunin sé “aðeins” 15.000 sæti, þá verður tekjuaukningin mun meiri. Arsenal hafa sýnt það og sannað með byggingu á sínum velli. Það sem mun margfaldast á nýjum velli er aðstaða og salir fyrir fyrirtæki sem eru mjög hátt borgandi. Fjárhagslega er búið að reikna þetta fram og aftur og það er á tæru að þetta skref mun gera Liverpool FC mun samkeppnishæfara en áður.