27. september, 2006
Við tókum á móti Galatasary á Anfield í kvöld í mjög fjörugum leik þar sem 5 mörk litu dagsins ljós. Leikur var mjög skemmtilegur á að horfa þótt maður hafi oft orðið æði pirraður á varnarleik okkar og stressaður síðustu 10 mínútur leiksins. En byrjum á byrjuninni eða byrjunarliði okkar í kvöld:
Reina
Finnan - Carragher- Agger - Aurelio
Pennant - Alonso -Gerrard - Garcia
Crouch - Kuyt
Bekkurinn: Dudek, Gonzalez, Bellamy, Sissoko, Riise, Zenden og Hyypia.
Leikurinn fór fjörlega af stað og eftir 15 mín. var Liverpool komið í 2-0 með mörkum frá Crouch og Garcia. Bæði mörkin komu eftir gott kantspil og góðar fyrirgjafir. Ég hélt á þessari stundu að við myndum einfaldlega rústa Galatasary í þar sem þeir virtust heillum horfnir en reyndin varð önnur. Galatasary náði að jafna sig á þessari byrjun og komstu betur inní leikinn. Við hefðum hæglega getað skorað fleiri í fyrri hálfleik en einnig Gala hefðu einnig getað sett eitt eða tvö. Við fórum inní búningsherbergin með 2-0 forystu í hálfleik.
Eric Gerets virðist hafa lesið vel yfir sínum mönnum sem og hann gerði mikilvægar breytingar þegar hann setti Hasan Sas og Umit Karan inná. Gestirnir komust strax í færi og lá mark hjá þeim í loftinu þegar Pennant stal boltanum vel af varnarmanni Gala og gaf fyrir markið. Þar var Peter Crouch sem tók boltann á lofti og klippti hann snyrtilega í netið (a la Van Basten), FRÁBÆRT MARK! Þetta gerðist á 52. mín leiksins og hélt ég jafnvel að Gala myndi kasta hvíta handklæðinu inná og gefast upp. En nei þeir fengu aukakraft og á 6 mín. kafla náðu þeir að setja tvö góð skalla mörk á okkur (frá Umit Karan) þar sem Aurelio var gjörsamlega út að aka varnarlega, 3-2 og 25 mín. eftir af leiknum. Leikurinn var áfram opinn og við gátum vel sett fleiri mörk en einnig Gala og þeir hefðu hæglega getað stolið stigi undir lok leiksins. Sissoko, Gonzalez og Bellamy komu inná á þessum 25 mín. en létu ekki mikið af sér kveða en klárt að Sissoko kom inná til að verja forystuna.
Þetta var þrælskemmtilegur leikur á að horfa og mikið um færi en mér fannst við ótrúlega opnir tilbaka og Gala náði að opna vörnina alltof oft á auðveldan hátt og fannst mér Aurelio í vinstri bakverðinum slakur varnarlega en sterkur sóknarlega. Hann verður að halda sér innan leikkerfisins og ef t.d. Riise hefði verið þarna þá er ég vissum að Gala hefðu fengið færri færi.
Crouch átti góða innkomu inní liðið og skoraði 2 góð mörk. Garcia heldur uppteknum hætti að vera hættulegur og átti prýðisgóðan leik. Varnarlega vorum við tæpir og þá títtnefndur Aurelio oft út á þekju. Miðjan er góð en tæp varnarlega þegar Sissoko er ekki að verja vörnina. Sóknarlega erum við öflugir og Crouch og Kuyt virðast ná vel saman. Við unnum þennan leik og skilst mér að þetta sér fyrsti sigur okkar í 5 leikjum í röð í meistaradeildinni, s.s. 3 stig en margt sem þarf að athuga fyrir næsta leik.
Maður leiksins: Peter Crouch. Skoraði tvö góð mörk, sérstaklega það síðara og sýndi klárlega í kvöld að hann er betri framherji en Bellamy og hlýtur hann að byrja inná í komandi leikjum.