beach
« Liðið gegn Chelsea: | Aðalsíða | Gerrard: hvar á hann að spila? »

17. september, 2006
Chelsea 1 - L'pool 0
“Þeir eru með einstaklinga sem klára leiki.”
-Willum Þór

Okkar menn fóru á Stamford Bridge í dag og töpuðu 1-0 fyrir ríkjandi Englandsmeisturum Chelsea, og þótt þessi tapleikur svona snemma á tímabilinu þýði alls ekki að titilbaráttan sé þegar töpuð þýðir þetta vissulega það að það verður fáránlega erfitt að ætla að eiga séns í vetur og að miklu betur má ef duga skal. Miklu, miklu betur.

Báðir þjálfarar stilltu upp nokkurn veginn þeim liðum sem menn bjuggust við, þó með örfáum undantekningum. Rafa Benítez stillti liði Liverpool í dag svo upp:

Reina

Finnan - Carragher - Agger - Warnock

Pennant - Alonso - Sissoko - Gerrard

Bellamy - Kuyt

BEKKUR: Dudek, Hyypiä, Aurelio, Zenden, Crouch.

José Mourinho stillti Chelsea-liði dagsins svo upp:

Cech

Boulahrouz - Carvalho - Terry - A. Cole

Essien - Makelele - Ballack - Lampard

Drogba - Schevchenko

BEKKUR: Cudicini, Ferreira, Robben, Kalou, Obi Mikel.


Fyrri hálfleikurinn spilaðist nákvæmlega eins og maður átti von á - þessi lið hafa leikið svo oft á undanförnum tveimur árum að þau eru farin að gjörþekkjast og því eru leikir þessara liða aldrei mjög opnir. Þetta var mjög taktískt, bæði lið lögðu ofurkapp á að loka svæðum andstæðinganna og gefa ekkert færi á sér og reyna svo að nýta alla sénsa til skyndisókna. Liverpool-liðinu gekk öllu betur að halda boltanum og reyndu að beita löngum sendingum í svæði á fljótu mennina, sérstaklega þá Bellamy, Kuyt og Pennant.

Á 15. mínútu kom fyrsta dauðafæri leiksins þegar Alonso sendi boltann innfyrir á Kuyt sem skaut hörkuskoti einn gegn Cech en okkur til mikilla vonbrigða söng boltinn í þverslánni. Þetta var besta færi leiksins og ef Kuyt hefði skorað hefði þetta eflaust spilast öðruvísi en því miður fyrir okkar menn féll þetta ekki okkur í hag.

Eftir þetta gerðist fátt markvert annað en taktískt miðjuspil beggja liða þangað til á 42. mínútu. Þá fékk Didier Drogba háa fyrirgjöf til móts við vítateig Liverpool. Hann var með Jamie Carragher í bakinu og tók boltann á bringuna út úr teignum, enda undir pressu, en svo um leið og boltinn lenti á hálfboganum sneri Drogba upp á líkamann og skaut viðstöðulaust með vinstri fæti þessu þvílíka bylmingsskoti sem söng í markhorninu hjá Liverpool. Óverjandi fyrir Reina og í raun er hálf djöfullegt að hafa tapað fyrir marki sem var engum að kenna, en Drogba á mikið hrós skilið fyrir þetta mark. Okkur Púllurum er sérstaklega illa við hann en honum þykir greinilega gaman að spila gegn Liverpool og þetta mark var einfaldlega í algjörum heimsklassa. Frábært mark.

Í kjölfar marksins fékk Momo Sissoko gult spjald og braut svo aftur í kjölfarið klaufalega af sér á Lampard og Mike Reilly hefði alveg getað rekið hann útaf. En hann kaus að gefa honum tiltal og róa hann niður og maður óttaðist hreinlega þegar liðin gengu til leikhlés að við myndum enda leikmanni færri fljótlega eftir hlé. Annað átti þó eftir að koma á daginn.

Síðari hálfleikur var vart byrjaður þegar Michael Ballack var rekinn útaf með beint rautt spjald. Momo Sissoko vann af honum boltann á heiðarlegan hátt en eitthvað virtist Ballack pirrast yfir því, því hann skaust á fætur og stökk á Sissoko og steig harkalega ofan á lærið á þeim síðarnefnda. Reilly var vel staðsettur og gaf Ballack beint rautt fyrir þetta fólskubrot.

Við tóku fjörutíu mínútur þar sem okkar menn voru einum fleiri og í sókn nær allan tímann. Rafa setti þá Aurelio, Zenden og Crouch inná fyrir Warnock, Sissoko og Bellamy til að reyna að bæta sóknarleikinn en allt kom fyrir ekki.

Á 65. mínútu fékk Steven Gerrard dauðafæri, aleinn inni í teig Chelsea-manna en hann skaut beint á Cech. Nokkrum mínútum síðar gerðist umdeilt atvik þar sem Aurelio gaf fyrir og Gerrard féll í teignum eftir viðskipti við Frank Lampard. Mike Reilly dæmdi ekkert og mér fannst erfitt að sjá á endursýningum hvort þetta var brot eða ekki þannig að ég læt það vera. Kannski vorum við rændir, kannski ekki, ég get ekki dæmt um það. En í kjölfarið á þessu broti fékk Craig Bellamy boltann óvaldaður í teignum og skaut föstu skoti en aftur fór boltinn beint á Cech sem varði.

Á 75. mínútu gaf Pennant háan bolta fyrir á Peter Crouch sem skallaði hann niður fyrir fætur Kuyt, sem var enn og aftur óvaldaður í teignum en hann hitti boltann illa og skóflaði honum yfir þegar það virtist auðveldara að hitta á rammann.

Á 92. mínútu kom svo síðasta færi leiksins þegar Crouch fékk gott skallafæri óvaldaður í teig Chelsea-manna við markteig … en skallinn hans var máttlaus og fór beint í hendur Petr Cech og þar með var sigur þeirra bláklæddu innsiglaður.

Þetta tap er náttúrulega alveg ferlegt. Við spilum betur en þeir ef eitthvað er í jöfnum fyrri hálfleik en erum samt marki undir. Kuyt skýtur í þverslánna úr dauðafæri, Drogba skorar glæsimark upp úr engu. Í síðari hálfleik lenda þeir í því að missa mann útaf og einfaldlega þétta vörnina sína og halda markinu hreinu, á meðan við fáum hvert dauðafærið á fætur öðrum en skjótum alltaf beint á markvörðinn.

Og þar liggur munurinn á þessum liðum í hnotskurn. Við erum með leikmannahóp sem jafnast alveg á við hóp Chelsea-manna, við erum með jafn sterka vörn, miðju og sókn á pappírnum og þeir en munurinn er einfaldlega sá að í þessum leikjum við stórliðin í deildinni höfum við einfaldlega ekki það sem þarf til að innbyrða sigur. Því virðist vera öfugt farið í bikar- og Evrópukeppnunum, einhverra hluta vegna, en í deildinni vantar okkur þetta bit í sóknina sem þarf til að sigra stórleikina. Í dag höfðum við öll tækifæri á að skora allavega eitt mark og ná því í að minnsta kosti jafntefli, það eina sem vantaði var það að menn skytu boltanum í markið en ekki aftur, og aftur, og aftur, og aftur beint í hendurnar á Petr Cech.

Eins og Willum Þór sagði í lýsingu sinni á SkjáSport - og hafði aldrei þessu vant mikið til síns máls - þá eru Chelsea einfaldlega með leikmenn sem klára leiki. Við getum haft þá skoðun sem við viljum á Didier Drogba sem knattspyrnumanni en hann er þó leikmaður sem klárar sín færi í stórleikjunum. Arsenal, manchester united og Liverpool eru öll til vitnis um það. Hvað gera Peter Crouch, Dirk Kuyt og Craig Bellamy? Skjóta beint á markvörð andstæðinganna.

Þetta tímabil er langt því frá að vera búið, en við erum núna átta stigum á eftir Chelsea og manchester united - sem eru að spila við Arsenal í þessum töluðum orðum - og eigum leik til góða. Þetta verður feykilega erfitt en það er ljóst að ef menn eru að gera sér einhverjar vonir um að berjast um titilinn erum við komnir í þá stöðu að við hreinlega verðum að vinna meira og minna alla deildarleiki okkar næstu 2-3 mánuðina. ALLA! Við getum ekki tapað fleiri stigum og því síður megum við við fleiri tapleikjum fyrir áramót ef við ætlum okkur að vera með í þessari baráttu.

MAÐUR LEIKSINS: Liðið lék ekki illa en það lék heldur ekkert frábærlega vel. Mér fannst Pennant skila sínu á vængnum þrátt fyrir að hafa verið eilítið mistækur en enn og aftur fannst mér Daniel Agger bera af í annars þéttu og vel skipulögðu varnarteymi okkar manna. Hefði ekki verið fyrir töframark Drogba hefðum við getað fagnað algjörri lokun á hann og Schevchenko í dag, en þetta er í annað sinn í röð sem Agger hreinlega pakkar Andryi Schevchenko saman. Það er ekki lítið afrek.

Næsti leikur: Newcastle í deildinni á miðvikudag og svo Tottenham á laugardag. Báðir þessir leikir eru á heimavelli og það er ljóst að ef við eigum ekki að afskrifa titilinn strax í septemberlok (rétt eins og í fyrra) einfaldlega verðum við að hirða sex stig úr þessum leikjum. Ekkert annað dugir!

.: Kristján Atli uppfærði kl. 14:23 | 1295 Orð | Flokkur: Leikskýrslur
Ummæli (29)

Chelsea áttu ekki sigurinn skilið út af því að markið hjá Drogba var flott. Þeir skoruðu mark en við ekki, af þeim sökum áttu þeir sigurinn skilið. Hví að draga Crouch inn í þetta eiki? Þú sást ekki leikinn, og svona þér að segja, þá spilaði Crouch ekki langan tíma inni á vellinum. Það voru menn eins og Gerrard sem klikkuðu og gerðu það að verkum að við náðum ekki stigi eða stigum. Fengu dauðafæri sem ekki voru nýtt, simple as that. Við vorum að spila með Bellamy og Kuyt frammi og þeir skoruðu ekki. Hvernig menn fá þetta út með Drogba er ofar mínum skilningi. Hann hefur sett nokkur mörk núna, en miðað við markaskorun hans undanfarin tímabil með Chelsea, þá sé ég nú ekki að hann hefði veitt okkur neitt extra miðað við sem við höfum fyrir. Það hafa nú menn hjá okkur skorað glæsimörk, en þau telja eins og "ljótu" mörkin.

Persónulega finnst mér ekkert að uppstillingu Rafa, allt í góðu þar og það sem klikkaði var að nýta helv... færin. Meira að segja áður en Ballack var rekinn útaf, þá vorum við betri aðilinn, vorum að skapa okkur fleiri og betri færi. En það þarf að nýta þessi færi, og ekki gerir Rafa það.

Mér fannst Pennant eiga ágætis leik, nema mér fannst hann oft of seinn af stað og vera heldur aftarlega oft á tíðum. Fannst hann einmitt vera full varnarþenkjandi. Það er oft svo stutt á milli hláturs og gráturs. Það er alltaf hægt að segja "ef" og "hvað ef" í boltanum. Skotið hjá Kuyt nokkrum millimetrum neðar og við værum væntanlega allir í skýjunum í dag yfir snilli liðsins. Það gekk þó ekki eftir, og því fór sem fór. Ég stend við það sem ég sagði í upphituninni, þetta Chelsea lið er ekki nándar nærri jafn gott og síðustu tvö árin. Tímabilið er langt því frá að vera búið. Nú þarf bara að girða sig í brók og taka heimaleikina sem framundan eru. Það er ótrúlegt að skoða það að síðan deildin hófst, þá erum við búnir að spila 6 leiki í CL og PL og þar af eru 5 útileikir. Nú er lag að nota heimaleikina til að koma sér á svolítið "rönn" og byrja að þjarma að toppnum. Þetta er svo fljótt að breytast svona í upphafi tímabilsins. Nú reynir á.

Skil ekki að menn fái það út að miðjan sé ekki að fúnkera eins og eiki talar um (samt sá hann ekki leikinn), því mér fannst hún einmitt mjög fín í leiknum. Chelsea pökkuðu inn á miðjuna og mér fannst okkar menn einmitt vinna hana.

Agger fær svo enn eitt prikið í kladdann. Hann er bara að verða sjúklega góður varnarmaður þessi strákur.

SSteinn sendi inn - 18.09.06 09:14 - (
Ummæli #24)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.








:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar?




Flokkar

Almennt · Auglýsingar · Enska bikarkeppnin · Enski Boltinn · Fjölmiðlar · HM 2006 · HM Félagsliða · Kannanir · Landslið · Leikmannakaup · Leikmenn · Leikskýrslur · Leikvangur · Liðsuppstilling · Liverpool · Meiðsli · Meistaradeild · Myndbönd · Sjónvarp · Slúður · Topp10 · Um síðuna · Upphitun · Vangaveltur · Veðmál · Þjálfaramál ·

Um Síðuna

Um Síðuna

Um höfundana

Aggi

Einar Örn

Hjalti

Kristján Atli

Sigursteinn

Síðustu leikir

·L'pool 2 - N'castle 0
·Chelsea 1 - L'pool 0
·PSV 0 - Liverpool 0
·Everon 3 - Liverpool 0
·Liverpool 2 - West Ham 1

Síðustu Ummæli

Danni: Ég var á leiknum og Tiger var í boði She ...[Skoða]
Kristján Atli: Ég held að menn séu að taka ummæli Einar ...[Skoða]
Páló: ég trúi ekki öðru en að hann sé að falla ...[Skoða]
Hagnaðurinn: Það var leiðinlegt að sjá Tigerinn fagna ...[Skoða]
Aggi: Miðjan virkaði vel og það var gaman að s ...[Skoða]
SSteinn: Chelsea áttu ekki sigurinn skilið út af ...[Skoða]
Hraundal: Sammála Bjarka, skil ekki þessa ummræðu ...[Skoða]
eikifr: Ég endurtek að ég sá ekki leikinn en mið ...[Skoða]
Aggi: Þetta var að mörgu leiti fínn leikur hjá ...[Skoða]
Einar Örn: Nei, hann er bjáni fyrir að halda með Ch ...[Skoða]

Síðustu færslur

· L'pool 2 - N'castle 0
· Newcastle á morgun
· Gerrard: hvar á hann að spila?
· Chelsea 1 - L'pool 0
· Liðið gegn Chelsea:
· Chelsea á morgun

Tenglar

Einar :: EOE.is

Kristján Atli.com


NewsNow Liverpool

SKY

Liverpool Echo

BBC

Liverpool (official)

YNWA spjallborð

RAWK spjallborð

Soccernet

The Guardian

Daily Telegraph

Independent

LFC History

Liverpool.is

This Is Anfield

UEFA


Staðan í ensku

Tölfræði í ensku


The Liverpool Way Blog

RAWK blog

Kop Blog




Við notum
Movable Type 3.2

Efni þessarar síðu er birt undir skilmálum frá Creative Commons.

Creative Commons License