12. september, 2006
Þá er komið að fyrsta leik í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á þessu tímabili. Ég verð að viðurkenna það að þessi leikur getur ekki komið of snemma. Óbragðið í munninum á manni eftir vonbrigði ársins sl. laugardag, verður að hreinsa og það strax. Ég var meira að segja að hugsa um að skrifa 35.000 orða upphitun, bara til að koma leikskýrslunni hans Einars af forsíðunni (mjög góð skýrsla, en vond minning). En maður reynir bara að gleyma þessum hörmungum sem fyrst og hvað er betra en að gera það í Meistaradeildinni? Ekki misskilja mig, þetta er langt frá því að vera auðveldur leikur. Það er aldrei létt að spila á útivelli í Meistaradeildinni og þetta verður sko ekkert “Walk in the Park”. Þetta er fyrst og fremst tækifæri á að girða sig í brók og rífa sig upp á rasshárunum. Nú þurfa menn að mæta brjálaðir til leiks, því þeir þurfa sko að sanna sig okkar menn. Ef þeir ætla að láta taka sig alvarlega sem topp klassa lið, þá verður að vera mikil breyting á leik liðsins.
Ég vil fá sigur á morgun. Ekki það að jafntefli á útivelli í þessari keppni eru fín úrslit. Sigur í leiknum getur bara einfaldlega þýtt svo mikið fyrir næstu leiki. Ná smá sjálfstrausti í liðið (ekki það að þessir kallar ættu nú að hafa trú á getu sinni). Því segi ég að það er algjörlega lykilatriði að ná að sigra í leiknum. Liðinu hefur í gegnum tíðina gengið ágætlega á útivelli í Evrópukeppnum. Komi menn af afli inn í þennann leik, þá er allt hægt. Við erum í afar erfiðu prógrammi þessa dagana, þrír útileikir í röð og nú þegar sá fyrsti tapaður. Það er enginn slaki fyrir fleiri mistökum. Leiðréttum þetta strax á morgun, laga varnarleikinn og sækja hratt þegar boltinn vinnst.
Þá að liðinu. Ég er alveg 100% viss um það að Dirk nokkur Kuyt muni byrja sinn fyrsta leik fyrir Liverpool. Hann er kominn í sitt heimaland, skoraði á þessum velli í síðustu viku fyrir landslið sitt og hefur almennt verið að setja hann gegn PSV. Það er því aðallega spurning um hver komi til með að spila með honum frammi, þ.e.a.s. ef Rafa ákveður að setja 2 framherja í byrjunarliðið. Það er eftir sem áður afar erfitt að spá fyrir um byrjunarliðið. Mun Rafa tefla fram Bolo Zenden? Hann er Hollendingur líka og spilaði lengi með PSV. Hann er eflaust alveg áfjáður í að sanna sig á heimaslóðum á ný, enda ekki spilað þar gegn sínum fyrri félögum síðan hann hélt í víking fyrir 9 árum síðan. Ég hef lúmskan grun um að hann byrji líka inná. Við munum svo væntanlega sjá Jan Kromkamp spila gegn okkur í fyrsta skipti, en ég kem nú ekki til með að missa neinn svefn yfir því.
Það hefur mikið verið slúðrað um Bellamy síðustu dagana. Samsæriskenningar fóru að streyma um allt og fór þar fremst í flokki versta slúðursíða Internetsins, sem vill kenna sig við Liverpool og kjaftagang tengdan The Kop. Vil síður nefna hana á nafn hérna og því sleppi ég því. Þessar sögusagnir hafa svo verið bornar tilbaka af mönnum sem treystandi er þegar kemur að upplýsingum úr herbúðum liðsins. Með öðrum orðum, algjört kjaftæði að Bellamy hafi sinnast við Rafa eða aðra leikmenn. Þvert á móti, þá er hann almennt mjög vinsæll innan liðsins. Ég reikna með honum frammi með Kuyt.
Þótt Carra hafi gert afdrifarík mistök í síðasta leik, þá fannst mér Hyypia vera úti á túni í sínum staðsetningum. Ég ber þá von í brjósti að Agger komi aftur inn í liðið fyrir hann og spili við hlið Carra. Annars er meiðslalistinn ekkert svakalegur lengur, Riise og Kewell þeir einu sem ég veit af. Ég spái því liðinu svona:
Reina
Finnan-Carragher-Agger-Aurelio
Gerrard-Sissoko-Zenden-Garcia
Kuyt-Bellamy
Bekkurinn: Dudek, Hyypia, Pennant, Gonzalez, Alonso, Crouch og Fowler
Sigur, sigur, sigur. Kannski er ég í draumaheimi, en ég held að menn taki sér tak og klári þetta. Ég ætla að spá 2-1 útisigri og að það verði Kuyt og Gerrard sem sjái um markaskorun okkar.