24. ágúst, 2006
Jöfn deild í byrjun ...
Þeir sem örvæntu eftir jafnteflið okkar í fyrstu umferð Úrvalsdeildarinnar um helgina geta andað léttar. Liðin sem unnu sína leiki á fyrsta leikdegi töpuðu nærri því öll stigum í gær og í dag. Í gær gerðu West Ham-menn jafntefli við Watford og eiga okkur í næsta leik, á meðan Tottenham unnu sinn leik eftir að hafa tapað á laugardag. Í kvöld töpuðu svo lið eins og Reading, Bolton, Portsmouth og Everton öll stigum eftir að hafa unnið fyrsta leik sinn. Og til að leggja áherslu á það að deildin verði jafnari í byrjun móts í ár þá töpuðu Englandsmeistarar Chelsea óvænt á útivelli gegn Middlesbrough, sem höfðu sjálfir tapað fyrir Reading í fyrstu umferð.
Aðeins manchester united
eru með sex stig eftir tvær fyrstu umferðirnar, en þeir unnu Charlton 3-0 á útivelli í kvöld og virðast byrja þetta vel. En ég hef takmarkaðar áhyggjur af þeim. Fyrir utan rauðu djöflana eru flest liðin fyrir ofan okkur með 3-4 stig eftir tvo leiki, á meðan við, Arsenal, Newcastle og Wigan eigum leik inni vegna þess að tvö þessara liða þurftu að spila í forkeppni Meistaradeildarinnar í gær og í kvöld.
Við eigum leik við West Ham á laugardag á Anfield og ef við vinnum þar erum við með tölfræðilega betri árangur en Chelsea eftir fyrstu tvo leiki okkar í mótinu. Þannig að menn geta kannski andað aðeins léttar yfir þessu öllu saman, þó ekki sé nema fram á laugardag?
Er það ekki?