22. ágúst, 2006
Eitthvað er það við þetta Liverpool lið og leiki í Evrópu. Stundum held ég að leikmennirnir séu hreinlega bara skepnur, sem elski að vita til þess að aðdáendur liðsins þjáist heima hjá sér, á vellinum og á börum um allan heim.
Allavegana, virðist það gerast á hverju ári að undankeppni Meistaradeildarinnar reynist Liverpool gríðarlega erfið. Liðið virðist alltaf haltra inní sjálfa riðlakeppnina. Árið í ár var engin undantekning.
En allavegana, Liverpool gerðu í kvöld jafntefli við Macabi Haifa og það var nóg til að tryggja liðinu sess í Meistaradeildinni.
Rafa stillti liðinu svona upp í byrjun.
Reina
Finnan - Hyypiä - Agger - Warnock
Pennant - Alonso - Sissoko - Gonzalez
Crouch - Luis García
Í fyrri hálfleik héldu svo varnarmenn Liverpool áfram að meiðast því Stephen Warnock þurfti að fara af velli og Fabio Aurelio kom inná.
Leikurinn byrjaði hægt, en smám saman byrjaði Liverpool að setja mark sitt á leikinn og Luis Garcia hefði getað skorað þrennu í fyrri hálfleik, en markvörður Haifa varði frá honum öll skiptin. Xabi Alonso átti svo nokkur góð skot á markið.
Haifa menn skoruðu svo mark, en það var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.
Í seinni hálfleik hélt Liverpool áfram að sækja. En liðið varð fyrir áfalli þegar að Momo Sissoko fór meiddur af velli og Gerrard kom inná. Það var svo loksins Peter Crouch, sem náði að skora eftir frábæran undirbúning frá Jermaine Pennant. Fínt mark og gríðarlegur léttir fyrir Liverpool menn.
En til að gera hlutina aðeins flóknari, þá skoruðu Haifa menn virkielga flott mark. Þeir spóluðu sig í gegnum vörnina og Colautti skoraði fallegt mark. Eftir þetta átti Haifa menn nokkrar hættulegar sóknir og varði Reina m.a. glæsilega, en Liverpool menn héldu þetta út.
Maður leiksins: Það er svo sem ekki auðvelt að velja þetta. Gonzalez var ágætur á kantinum og ógnaði vel. Vörnin var ágæt, en var þó á stundum óörugg. Ætli ég velji ekki bara Xabi Alonso, því hann var sterkur - sérstaklega í fyrri hálfleik og hann varðist vel í þeim seinni.
En allavegana, núna eru Liverpool menn komnir í Meistaradeildina og við getum þá hlakkað til miðvikudagskvölda í vetur. Liðið er með í keppni þeirra bestu, þar sem það á heima. Það er það sem skiptir máli í kvöld.