04. ágúst, 2006
Á leiðinni heim frá Players í kvöld íhugaði ég allavega tíu mismunandi leiðir sem ég gæti tekið leikskýrslu þessa leiks og snúið honum upp í grín, gaman, glens og léttleika. Á endanum datt ég þó niður á einu réttu viðbrögðin, en þau eru svo hljóðandi:
Þetta var svekkjandi. En þetta var æfingaleikur. Margir leikmenn léku. Allir léku illa. Ekkert markvert gerðist. Utan fimm aulamistaka sem gáfu mörk. Leikmenn fengu leikæfingu, og nú lýkur gamninu og alvaran tekur við. Fimm dagar í Maccabi Haifa á Anfield, og ég vona að þeir hafi verið að horfa í kvöld. Það er okkur í hag, ef þeir voru að horfa, því þá gætu þeir álpast til að halda að þeir eigi séns í Liverpool FC. Þeir gætu, ef við erum heppnir, haldið að Liverpool-liðið á undirbúningstímabilinu á útivelli gegn Mainz, sé það sama og Liverpool-liðið á Evrópukvöldi á Anfield.
Ég hef aldrei á ævi minni séð Liverpool tapa 5-0 áður. Aldrei. Og það hversu mjög mér er slétt sama um úrslitin segir allt sem segja þarf um það hversu litlu máli þau skiptu. Rafa mun lesa yfir hausamótum, menn munu sofa illa, allt verður vitlaust á Anfield eftir fimm daga.
Ég vona að Maccabi Haifa-menn hafi verið að horfa.
Maður leiksins: Ég … fyrir ótrúlega bjartsýni og gríðargóðan húmor þegar Mainz-menn skoruðu fimmta markið.