03. ágúst, 2006
Í dag gengu Deportivo La Coruna frá kaupum á Antonio Barragan, hinum unga hægri bakverði Liverpool, aðeins ári eftir að hann kom til okkar frá Sevilla. Kaupverðið ku vera um 1,7m punda, sem er ágætis díll fyrir svo ungan og óreyndan leikmann. Ástæðan fyrir sölunni á honum er víst sú að hann þjáðist af mikilli heimþrá, átti erfitt með sig á Englandi, og fékk því að fara. Hluti af samningnum er samt sá að ef hann vill spreyta sig aftur undir stjórn Benítez og Liverpool vilja fá hann aftur er klásúla í kaupsamningnum um að Liverpool geta keypt hann aftur fyrir sama verð og þeir seldu hann á.
Það bendir allt til þess að Rafa Benítez sé að verða kominn með endanlegan hóp sinn fyrir komandi vetur, og ef við skoðum þau kaup og sölur sem hafa gengið í garð síðan við unnum West Ham í FA bikarnum í maímánuði kemur ýmislegt athyglisvert í ljós:
FARNIR: Fernando Morientes, Bruno Cheyrou, Dietmar Hamann, Djibril Cissé og nokkrir ungir leikmenn.
KOMNIR: Craig Bellamy, Jermaine Pennant, Gabriel Paletta, Mark Gonzalez, Fabio Aurelio.
Sem sagt, hvað aðalliðið varðar eru þeir Morientes, Cissé og Hamann farnir og þeir Bellamy, Pennant, Gonzalez, Aurelio og jafnvel Paletta komnir inn sem geta farið beint í keppni um stöður í liðinu. Það eru ágætis skipti fyrir mér.
Það hefur oft verið sagt að fyrsta tímabil Rafa hafi verið tímabil breytinga, annað tímabilið hafi verið tímabil framfara og því sé það þriðja tímabilið þar sem við eigum að fara að sjá stjórann bera ávöxt erfiðis síns. Ef við lítum á kaupin í sumar geta held ég flestir tekið undir að það ætti að vera raunhæf krafa að í vetur fari liðið að gera sína fyrstu alvöru atlögu að sigri í deildinni.
Ef við förum yfir vallarsvæðin held ég að niðurstaðan sé mjög góð. Við erum vel staddir með markverði, með Reina, Dudek, Carson og Martin innan okkar raða, og þurfum ekkert að hafa áhyggjur af því nema þá ef einhver þeirra fari, sem er ekki í spilunum að svo stöddu. Varnarlega erum við líka vel staddir, þar sem við höfum nú úr fjórum góðum miðvörðum að velja og mikla breidd í vinstri bakverði. Reyndar er Steve Finnan hálf einmana í stöðu hægri bakvarðar en þó getur Jamie Carragher kóverað þá stöðu í einhverjum harðindum. Svo má ekki gleyma Jan Kromkamp, sem þrátt fyrir þrálátan orðróm í allt sumar gæti orðið kyrr hjá Liverpool eftir allt saman.
Á miðjunni erum við hvað sterkastir fyrir. Þeir Gerrard, Alonso, Sissoko og Zenden skipa að mínu mati bestu miðju ensku Úrvalsdeildarinnar í ár og þótt víðar væri leitað, á meðan þeir Kewell, Gonzalez, Aurelio, Riise og Zenden munu eflaust allir spila leiki úti á vinstri kanti. Með tilkomu Jermaine Pennant erum við loksins komnir með sérfræðing í hægri kantstöðuna, en auk hans geta þeir Finnan, Kromkamp, Gerrard, García og jafnvel Bellamy og Pongolle allir leyst þá stöðu í harðindum. Þannig að við ættum ekki að verða uppiskroppa með valkosti í vetur.
Frammi höfum við svo Peter Crouch, Craig Bellamy og Robbie Fowler. Þeir munu allir spila stórt hlutverk í vetur, þó hver á sinn hátt, og svo er spurning hvort Pongolle verður eitthvað þarna inni líka. Ef það er einhver staða sem við viljum bæta við leikmanni í er það framherjastaðan, og við gætum ennþá séð Dirk Kuyt koma og bæta enn á samkeppnina í fremstu fylkingu, en þó má ekki gleyma því að þeir Luis García og Harry Kewell geta báðir spilað sem framherjar, auk þess sem Rafa notar oft aðeins einn framherja og fimm miðjumenn. Þannig að við erum vel settir með breidd í framherjastöðunni, hvort sem Kuyt kemur til okkar eða ekki.
Hvort gæði hópsins hafi batnað í sumar eða ekki verður bara að koma í ljós. Morientes og Cissé fóru frá liðinu án þess að hafa náð fyllilega að sanna sig í rauðu treyjunni, á meðan Hamann var orðinn gamall og búinn að missa stöðu sína í liðinu til Alonso og Sissoko. Í þeirra stað koma Pennant, Aurelio og Gonzalez til að auka breiddina á miðsvæðinu og/eða vængjunum og svo Paletta til að auka breiddina í vörninni. Mesta breytingin á sér þó stað í framlínunni, þar sem Morientes og Cissé víkja fyrir Bellamy. Það er ljóst að það er til mikils ætlast af þeim velska og við vonum að hann nái að sanna sig í rauðu treyjunni með þeim hætti sem við ætluðumst til af Cissé og Morientes.
Einnig er vert að geta þess að með tilkomu Pennant og Bellamy í sumar, og Fowler í janúarmánuði, er Rafa virkilega búinn að fjölga breskum leikmönnum í aðalliði sínu frá því að hann tók við af Gérard Houllier. Sumarið 2004 kvöddum við Emile Heskey og svo byrjaði Rafa á því að selja Danny Murphy og Michael Owen til að fjármagna kaupin á Xabi Alonso og Luis García. Þá panikkuðu sumir og sökuðu hann um að ætla að breyta liðinu í spænskt lið en aðrir vörðu gjörðir hans og sögðu eðlilegt að hann keypti spænska leikmenn til að byrja með, því hann þekkti spænska markaðinn betur.
Nú, tveimur árum síðar, hafa þeir sem vörðu hann upphaflega (ég þar á meðal) fengið uppreisn æru því Rafa hefur keypt úr öllum áttum í sumar (Suður-Ameríku, Spáni, Englandi) en fyrir vikið eru heilir níu leikmenn í aðalliðinu okkar núna sem eru breskir að uppruna: Scott Carson, Stephen Warnock, Steve Finnan, Jamie Carragher, Steven Gerrard, Craig Bellamy, Jermaine Pennant, Robbie Fowler, Peter Crouch. Ef við teljum Harry Kewell með, sem hefur búið meirihluta ævi sinnar í Englandi og spilað í Úrvalsdeildinni í rúman áratug, eru þetta orðnir nógu margir leikmenn til að mynda heilt knattspyrnulið!
Þessi hópur sem við erum með núna er góð blanda að ýmsu leyti. Reynsla og æska í jöfnum skömmtum, enskir og útlendir til jafns, en allir eiga þeir það sameiginlegt að vera leikmenn Rafa Benítez, að vera þarna af því að hann ætlar þeim hlutverk í sínu liði. Og eins og Rafa ætla þeir sér allir stóra hluti í vetur.
Sex dagar í fyrsta alvöruleik tímabilsins gegn Maccabi Haifa, og tíu dagar í leikinn um Samfélagsskjöldinn gegn Chelsea. Ég hlakka mjög mikið til.