12. júlí, 2006

Og þannig endaði sú saga. Fyrir tveimur árum skrifaði Djibril Cissé undir samning við Liverpool og varð þá dýrasti leikmaður í sögu félagsins, kom á 14 milljónir punda. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að það séu bara tvö ár síðan hann kom, því svo mikið hefur gengið á á svo stuttum tíma. Hann var rétt byrjaður á sínu fyrsta tímabili þegar hann fótbrotnaði gegn Blackburn, eins og við munum öll, en kom þó sterkur til baka vorið 2005 og náði að vera í liðinu sem vann Meistaradeildina. Sl. haust virtust honum svo allir vegir vera færir, en fljótlega á síðasta tímabili varð ljóst að hann var ekki sá leikmaður sem Rafa Benítez var að leita að til að leiða framlínuna sína.
Og því fór sem fór; Rafa gerði Djib það ljóst í vor að leiðir myndu skiljast, en það varð þó ekki eins einfalt og virtist í fyrstu. Viku fyrir HM fótbrotnaði Djib aftur, nú á hinni löppinni, og gerði vonir Liverpool-manna um að fá fé fyrir hann í sumar að engu. Á endanum samdi hann þó í dag við Marseille frá Frakklandi, liðið sem hann studdi sjálfur sem drengur, og verður hjá þeim á láni í vetur með möguleikanum á kaupum fyrir um 8 milljónir punda næsta sumar. Rafael Benítez talar held ég fyrir hönd okkar allra í dag þegar hann segir að þetta sé góður kostur fyrir Djibril:
“He has had two bad injuries and it will suit him better to play in France. He’s a nice boy and a good player but my idea was to look for a different kind of striker. We wish him well in France when he’s back to full fitness.”
Og þannig er nú það. Þótt það sé vissulega rétt að þetta sé hið besta mál fyrir alla aðila, þá er erfitt að vissu leyti að horfa á eftir Cissé. Ég upplifði hann allavega persónulega sem talsverð vonbrigði hjá Liverpool, þar sem ég hafði fylgst lengi með honum áður en hann kom til liðsins vitandi að hann væri á óskalista Gérard Houllier, og var gríðarlega spenntur þegar hann loks kom. Þetta átti að vera gulldrengurinn, okkar Thierry Henry eða David Trézeguet. Það átti þó ekki fyrir honum að liggja að festa sig í sessi hjá Liverpool, því miður.
Ég óska Djibril Cissé góðs gengis hjá Marseille. Þið sjáið það á svipnum á honum fyrir ofan að honum líður vel með þessi félagaskipti - rétt eins og Craig Bellamy, þá er Djib núna kominn “heim,” til liðsins sem er honum kærast og hefur alltaf verið. Ég mun sennilega fylgjast áfram með Djib og vona að hann rústi frönsku deildinni með Marseille á næsta tímabili, en um leið er ég mjög bjartsýnn fyrir hönd Liverpool nú þegar þessum kafla í sögu liðsins er lokið. Rafa hefur þegar fengið góðan mann í hans stað í formi Bellamy, sem er ekki síður fljótur en sá franski og öllu leiknari með knöttinn ef eitthvað er. Þannig að við getum sagt að þetta sé góður dagur fyrir alla aðila, þótt maður horfi á eftir þessum litríka knattspyrnumanni með eilitlum trega.
Au révoir Djibril, mérci beacoup!