Það er dagurinn eftir þennan magnaða úrslitaleik og maður er rétt að koma sér í gírinn fyrir félagsliðaknattspyrnu á nýjan leik. Það var sannarlega ömurlegt að vakna í morgun og sjá að það eru nánast engar fréttir af leikmannamálum að hafa. Ágúst nálgast og enn eru Pennant/Alves/Trabelsi/Joaquin/Sabrosa hvergi í sjónmáli. Endar þetta sumar eins og það síðasta?
En allavega, HM í knattspyrnu lauk í gær og hún kemur ekki aftur fyrr en eftir fjögur ár. Svona rétt til að binda endahnútinn á þessa keppni hef ég tekið saman smá lista. Þetta eru þau tíu atriði sem við lærðum um knattspyrnu yfir þessari Heimsmeistarakeppni:
Leikaraskapur er orðinn faraldur í heimsknattspyrnunni. Já, faraldur. Sú staðreynd að í þessari keppni hafi fallið afgerandi flest gul og rauð spjöld í sögu HM, en samt hafi nánast ekkert verið um alvarleg meiðsli eða eftirminnileg slagsmál, segir alla söguna. Franz Beckenbauer er meðal þeirra sem hefur kallað á málþing meðal leikmanna, þjálfara og dómara til að reyna að stemma stigu við þessu vandamáli og ég tek undir það. Einnig tel ég að þessi Heimsmeistarakeppni hafi sýnt okkur fram á það, svo ekki verður um villst, að við verðum að taka tvennt upp í knattspyrnunni: notkun fimmta dómarans, sem situr uppi í stúku og horfir á endursýningar og talar svo beint við dómarann á vellinum, og refsingar fyrir leikaraskap eftir leiki. Ef menn bæta við dómara á vellinum mun það engu breyta, bara fjölga spjöldunum því nú eru tvær flautur sem hægt er að blása í, en með því að nýta sér tæknina á þennan hátt erum við að segja við leikmenn að það þýðir ekki að svindla. Myndavélin nær ykkur alltaf og því er ekki lengur hægt að fiska leikmann útaf öðruvísi en að dómarinn uppí stúku sjái það og stöðvi, og þú fáir svo leikbann sjálfur eftirá fyrir leikaraskap.
Dómgæslan í þessari keppni var farsi. Ekki nóg með það að við höfum séð spjaldaglöðustu dómara frá upphafi í þessari keppni, heldur sáum við líka hinar öfgarnar í leikjum eins og Frakkland - Portúgal og Ítalía - Þýskaland. Eins og það ætti allt í einu að hætta að gefa spjöld í undanúrslitum, af því að þá gætu menn misst af úrslitaleik HM. Það þarf að vera samræmi í dómgæslu, en fyrst og fremst held ég að dómarar ættu að fletta upp orðinu samræmi í orðabók og skoða hvað það þýðir.
Þessi tveggja-gulu-spjalda regla er úrelt. Sepp Blatter talaði sjálfur um það í miðri útsláttarkeppni að það þyrfti að breyta þessu í þrjú gul spjöld, og láta það gilda alla keppnina; ekki tvö gul spjöld í riðlum og svo aftur tvö gul spjöld í útslættinum. Þetta eru í mesta lagi sjö leikir ef þitt lið fer alla leið; ef þú færð þrjú gul spjöld í sex fyrstu leikjunum missirðu af þeim sjöunda. Það hljómar töluvert sanngjarnara í mínum eyrum.
4-5-1 er nýjasta tískan í heimsboltanum. Af síðustu átta liðunum í keppninni spiluðu bara Þjóðverjar með tvo framherja; hjá hinum liðunum voru þeir Crespo, Schevchenko, Pauleta, Rooney, Toni, Henry og Ronaldo látnir um að bera framlínur sinna liða. Ég meina, meira að segja Brasilíumenn fórnuðu á endanum öðrum framherjanum fyrir miðjumann gegn Frökkum!
Englendingar þurfa að læra af þessari keppni. Þeir verða að átta sig á raunveruleikanum: þeir eru með gott lið sem gæti hæglega hafa unnið HM í ár, og gæti unnið næstu stórmót, en þangað til þeir breyta ekki umgjörðinni um liðið verður það aldrei að veruleika. Þá á ég við eftirfarandi: (1) öll umfjöllun í landinu er til skammar, gula pressan gerir allt sem hún getur til að rífa liðið niður og ætlar svo að slást í hópinn þegar vel gengur, eins og þeir hafi stutt leikmennina allan tímann. (2) allir þessir svokölluðu “sérfræðingar” sem eru að skipta sér af þessu eru ekki að hjálpa neitt til. Ég hef séð Alan Hansen hringsnúast mörgum sinnum í kringum þetta mót, með eða á móti, og á endanum gerðu þeir ekkert nema auka á ringulreið ensku þjóðarinnar. (3) hver svo sem er að þjálfa þetta lið þarf að átta sig á tvennu; fyrst þarf að finna þá leikaðferð sem hentar og koma auga á þann leikmann eða leikmenn sem eru mikilvægastir fyrir spilamennsku Englendinga. Í þessu tilfelli væru það Terry, Gerrard og Rooney eftir miðju vallarins. Í kringum þá þarf svo að byggja lið … sem þýðir að ef Lampard getur ekki spilað við hlið Gerrard þarf hann bara að fara út á vænginn eða á bekkinn. Erfiðir valkostir, en svona er þetta bara. Og til að Rooney geti notið sín þarf hann að fá annan framherja með sér öllum stundum! Þetta er ekki svo flókið, er það?
Brasilíumenn eru bestu knattspyrnumenn í heiminum. Að því leyti eru þeir ennþá algjörlega meistarar. En þar sem þeir voru ekki best skipulagðir, með bestu taktíkina, með besta þjálfarann, með lið í meistaraformi og með leikmenn sem voru reiðubúnir að deyja fyrir málstaðinn komust þeir ekki lengra í þessari keppni. Og var það fyllilega verðskuldað. Svona eftir á að hyggja er algjör synd og skömm að þeir skuli ekki hafa áttað sig á öllum vandamálunum sem blöstu við þeim fyrir mótið; en þeim til varnar, þá áttuðum við hin okkur engan veginn á þeim heldur. Maður blindaðist af stjörnufans og hæfileikanægð Brassanna og hreinlega trúði ekki að þeir gætu tapað. Annað kom á daginn, og Brassarnir verða að mæta skipulagðari til leiks næst.
Ég held að Afríkuþjóðunum hafi ekki gengið jafn illa á HM í núna sextán ár. Og næsta HM verður haldin í Suður-Afríku. Og menn segja að það sé bara tímaspursmál hvenær afrísk þjóð vinnur HM. Gott og vel, en þeir verða þá að girða sig í brók, því betur má ef duga skal. Einhverra hluta vegna heillast ég jafnan af afrísku liðunum og vill að þeim gangi vel, en í ár var frekar lítið um dýrðir frá þeirri heimsálfu.
Zinedine Zidane vann gullknöttinn fram yfir Fabio Cannavaro, og sannaði þar með endanlega hina ódauðlegu reglu knattspyrnunnar: sá sem getur tekið skæri er alltaf betri knattspyrnumaður en sá sem er fullkominn tæklari. Zidane var frábær í þessari keppni, þótt hann færi hægt af stað og endaði hroðalega, en Cannavaro var algjörlega stórkostlegur frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Hann átti að vinna knöttinn, rétt eins og Jamie Carragher átti að vera valinn mikilvægasti leikmaður Meistaradeildarinnar fyrir rúmu ári síðan, en ekki Steven Gerrard.
Mótlæti er eitthvert besta veganesti sem lið geta haft með sér í svona mót. Hafi leikið einhver vafi á því áður þá er varla hægt að rífast um það núna. Ég meina, sjáið bara fyrir ykkur liðsmenn annarar- og þriðju-deildarliða Ítalíu færa HM-styttuna heim að sjúkrarúmi Gianluca Pessotto …
Eins og Marco Materazzi sannaði í gær, þá komast menn upp með að segja nánast hvað sem er ef dómarinn heyrir það ekki. Fjórði dómarinn gat ekki mögulega heyrt það sem Marco Materazzi sagði, en hann sá viðbrögð Zidane og því fór sem fór. Ef við hefðum verið með hljóðnema á staðnum er engin spurning að dómari leiksins hefði lyft tveimur rauðum spjöldum í stað eins. Ég veit ekki hver lausnin á þessu er; ættum við að láta alla leikmenn bera hljóðnema, svipað og leikmenn bandarískra ruðningsliða, svo að fimmti dómarinn sem ég stakk upp á að sitji uppí stúku og horfi á endursýningar geti líka hlustað á það hvað mönnum fór á milli og ráðlagt refsingar við hæfi? Ég veit það ekki, það yrði langsótt, en þótt svívirðingar, móðganir og almennt ljótt orðbragð séu hluti af leiknum verður einhvern veginn að stemma stigu við. Ég veit ekki hvað Materazzi sagði til að fá Zidane til að tapa sér svona, en við getum verið viss um að hvað sem það var átti það ekkert skylt við fótbolta eða Fair Play.
Og þar með er HM í ár lokið fyrir mér. Hvernig væri nú að kíkja út, er ekki sumar … ?
Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".
Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote
Við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.
Strumpurinn: Ég reyndar styð upptöku aukaskiptingar e ...[Skoða] Vargurinn: Þetta var betri útskýring...
þa ...[Skoða] Kristján Atli: Vargur, þú virðist hafa misskilið mig. V ...[Skoða] Vargurinn: Flott grein en vill samt sem áður koma e ...[Skoða] player: Ég verð nú bara að segja að mér finnst Z ...[Skoða] Páló: Pétur! Hverjir eru þessir margir? Chelse ...[Skoða] Pétur: Þetta kallar maður nú litaðar skoðanir. ...[Skoða] Kristján Atli: Jújú, enda sagði ég að þetta væri langsó ...[Skoða] Einar Örn: Hljóðnemar í NFL eru til þess aðallega a ...[Skoða] Krizzi: Fínir punktar hjá þér Kristján. Ég er þé ...[Skoða]