beach
« Dagurinn í dag | Aðalsíða | 10 atriði sem HM sýndi fram á »

09. júlí, 2006
Ítalía Heimsmeistari!

italy-worldchamps.jpg

Í upphitunum helgarinnar talaði ég um að þessi leikur væri að öðrum ólöstuðum leikur áratugarins. Þótt ég efist um að nokkur knattspyrnuleikur á þessum áratug muni nokkurn tíma takast að vera betri, skemmtilegri og dramatískari en leikur Liverpool og AC Milan í Meistaradeildinni fyrir rúmu ári, þá er þetta sennilega eini leikurinn sem er klárlega stærri en úrslit Meistaradeildarinnar. Og það kom á daginn að þessi leikur olli ekki vonbrigðum.

Leikurinn fór vel af stað og eftir sex mínútna leik fengu Frakkar vítaspyrnu eftir að Marco Materazzi hafði brotið á Florent Malouda innan teigs. Það var erfitt að sjá snertinguna í sjónvarpinu en að mínu mati var samt klárt að Materazzi braut á Malouda; hann stöðvaði hlaupaleið hans og vítið fannst mér augljóst strax áður en ég sá það endursýnt. Úr vítinu skoraði svo Zinedine Zidane með einhverri ótrúlegustu spyrnu sem ég hef séð um ævina. Hann sendi Gianluigi Buffon í vitlaust horn og vippaði helvítis knettinum upp í slána og þaðan niður á grasið … rétt fyrir innan marklínuna. Markið gott og gilt, og ég sagði við sessunauta mína að þetta væri eitthvert ótrúlegasta mark sem sést hefur á HM. Stend við þau orð og mig grunaði jafnvel að þetta víti yrði ekki toppað hvað varðar ótrúlegheitin. Ég átti eftir að hafa rangt fyrir mér.

Á nítjándu mínútu tók Andrea Pirlo frábæra hornspyrnu sem datt niður í miðjan teig Frakka. Þar reis Marco Materazzi manna hæst, át Patrick Vieira upp til agna í skallaeinvígi og jafnaði metin fyrir Ítali. Staðan því orðin 1-1 eftir tuttugu mínútur og strax ljóst að hér væri klassískur leikur á ferð. Næstu 70 mínúturnar kom ekkert mark en leikurinn bauð upp á hina bestu skemmtun; í fyrri hálfleik skiptust liðin á að sækja enda á milli og hefðu bæði getað komist yfir fyrir hlé, en í síðari hálfleik var eins og botninn dytti úr leik Ítala sem hurfu sífellt aftar á vellinum. Það var um þetta leyti sem það sem margir áttu von á að myndi gerast fór að gerast; Zinedine Zidane fór að sýna sig meira og meira í spili Frakka og undir lok leiksins var hann orðinn svo gjörsamlega allsráðandi á vellinum að maður beið eftir því hvenær Frakkar skoruðu sigurmarkið, ekki hvort. Ítalir héldu þó út og leikurinn fór í framlengingu.

Í fyrri hálfleik framlengingar var mikið um baráttu og miðjumoð en Frakkar sköpuðu sér þó hættulegri færi. Það besta kom undir lok hálfleiksins, þegar Willy Sagnol gaf frábæra fyrirgjöf frá hægri á óvaldaðan Zidane sem átti fastan og flottan skalla að markinu. Þeir eru ekki margir markverðirnir sem hefðu varið þennan bolta en til allrar ólukku fyrir Zidane var Buffon í marki Ítala starfinu vaxinn og blakaði boltanum yfir. Zidane öskraði af pirringi, maður sá það á honum að hann vissi að þarna hafði farið kjörið tækifæri fyrir hann að tryggja sinn sess meðal knattspyrnuguðanna. Það kom á daginn að þetta átti eftir að verða það síðasta jákvæða sem við sáum til Zidane á hans langa og gifturíka ferli.

Fyrir leikinn hafði ég íhugað hversu grimm örlög það væru fyrir Zidane að enda mögulega feril sinn á því að tapa í úrslitaleik HM. Ég hugsaði með mér sem svo að það væri varla til ömurlegri endir á ferlinum fyrir þennan mikla kappa. Ég hafði rangt fyrir mér. Eitthvað gerðist utan myndavélar í upphafi síðari hálfleiks framlengingar og maður vissi ekkert hvað var að gerast þegar dómarinn hljóp að Buffon í marki Ítala til að stilla til friðar. Buffon var mjög æstur og Arnar Björnsson talaði eitthvað um David Trezeguet. Loks kom endursýningin, það sem aðal-myndavélin hafði ekki náð og ég held ég tali fyrir hönd okkar allra, knattspyrnuunnenda um allan heim, þegar ég segi að þessi þriggja sekúndna endursýning var sennilega eitt ógeðfelldasta atvik í sögu knattspyrnunnar.

zz-headbutt.jpg

Þarna var það, skýrt eins og sólin: Zinedine Zidane er að hlaupa framhjá Marco Materazzi en snýr skyndilega við, hleypur að þeim ítalska og skallar hann fast í bringuna. Gengur svo í burtu. Kjálkinn á mér í gólfinu, engin orð til að lýsa því sem ég sá. Síðan ég sat á sófa í Bandaríkjunum og horfði á World Trade Center hrynja í beinni útsendingu fyrir fimm árum síðan, þann 11. september, hefur enginn sjónvarpsatburður hneykslað mig jafn mikið, sjokkerað mig jafn svakalega.

Seinni endursýningar sýndu að Materazzi, sem ég hef áður sagt að er einhver ógeðfelldasti og svindlóðasti leikmaður í heiminum í dag, greip um Zidane í vítateig Ítala í hornspyrnu rétt áður. Hann virtist gera meira en halda utan um Zidane, hann virtist klípa í geirvörtu þess franska og láta einhver fúkyrði falla. Svo skokkuðu þeir báðir út úr teig Ítala er sóknin fjaraði út og Materazzi hélt áfram að hrópa svívirðingar í átt að Zidane. Að endanum virðist hann hafa hitt á hina gullnu móðgun, því Zidane sneri sér við og skallaði hann.

Þegar dómarinn var búinn að stilla til friðar og ráðfæra sig við aðstoðardómarann hljóp hann til Zidane og gaf honum rauða spjaldið. Ferlinum lokið. Það var þá sem það virtist daga uppi fyrir Zidane hverjar afleiðingar gjörða sinna eru: hann hafði ekki aðeins hneykslað heiminn og valdið sjálfum sér ótrúlegri skömm á þessari stærstu og glæstustu stund ferils síns (hugsið ykkur bara hvað hann var góður í leiknum) heldur var hann líka búinn að tryggja það að, sama hvernig leikurinn færi, hann yrði samt skúrkur dagsins. Ef Frakkar ynnu leikinn myndi Fabien Barthez hampa titlinum sem fyrirliði, ekki Zidane, og hann yrði vart velkominn í fagnaðarlætin nema þá bara í París daginn eftir. Það sem átti að vera stærsti dagur lífs hans hafði, með nokkrum vel völdum orðum hjá Marco Materazzi og yfirgengilega heimskulegum og ofbeldisfullum viðbrögðum þessa leikreynda kappa breyst í svörtustu martröð. Það síðasta sem við sáum til goðsagnarinnar var er hann grét í örmum Gianluigi Buffon, og svo þegar hann gekk niðurlútur framhjá Heimsmeistarastyttunni og til búningsklefanna.

Nú, eftir þetta atvik var eins og sjokkið drægi allan kraft úr báðum liðum. Franskir áhorfendur á vellinum púuðu það sem eftir lifði leiks, og ég skil þá vel því þeir höfðu ekki endursýningarnar sem við heima í stofu höfðum, og ég vorkenni þeim sárlega að eiga eftir að fara heim til sín og, ofan í öll sárindin að hafa tapað þessum leik, sjá síðan hvernig hetjan þeirra sveik frönsku þjóðina með hegðun sinni.

Eins stórkostlegur leikmaður og Zidane er, og eins viðbjóðslegur og Materazzi er og hefur alltaf verið sem leikmaður, þá þykir mér nánast ómögulegt að vorkenna þeim franska. Tíu mínútur eftir af framlengingu í úrslitaleik fokking Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu, síðustu tíu mínútur þíns glæsta ferils og það eina sem þú þarft að gera er að bregðast ekki við móðgunum Ítalans á ofbeldisfullan hátt. Það er það eina sem þú þarft að gera; þú getur mætt heim til Materazzi strax á morgun með nokkra vini og kylfur og jafnað málin, en láttu það bara bíða í TÍU FOKKING MÍNÚTUR! Þið eruð með yfirburði á vellinum og hafið þetta allt í hendi ykkur. Og þú gast það ekki. Ég veit vel að Zinedine Zidane les þessa síðu ekki en ég ætla samt að segja þetta: SKAMMASTU ÞÍN!

Og Marco Materazzi má skammast sín líka. Helvítis viðbjóður að horfa á þennan leikmann, leik eftir leik alltaf með sömu ruddataktana. Maður getur rétt ímyndað sér hvað í ósköpunum hann sagði sem fékk Zidane til að fórna öllu sem hann hafði unnið svo hörðum höndum að síðasta mánuðinn, en ég satt best að segja veit ekki hvað í ósköpunum hann hefur getað sagt. Það hlýtur að hafa verið eitthvað magnað, eitthvað ofboðslega móðgandi, og þótt það afsaki gjörðir Zidane engan veginn þá á Materazzi mikla skömm í þessu máli líka.

Nú, að endingu fór þessi leikur í vítaspyrnukeppni og þar voru framkvæmdar níu spyrnur. Ítalir skoruðu úr sínum fimm en Frakkinn David Trézeguet sendi Gianluigi Buffon í rangt horn og skaut knettinum svo upp í markslána og niður á marklínuna. Einn sentimetri til og hann hefði skorað líka. Það er alltaf harður veruleiki að þurfa að tapa í vítaspyrnukeppni, en í kvöld var vart hægt að tapa með minni mun, og það í sjálfum úrslitaleik Heimsmeistarakeppninnar.

Þannig að á endanum eru Ítalir heimsmeistarar, og ég óska þeim innilega til hamingju. Þeir voru þegar allt kemur til alls vel að þessu komnir, höfðu verið jafnbesta liðið allt frá byrjun móts og sýndu bæði frábæra knattspyrnu og hetjulega baráttu í þessum leik. Þeir héldu höfði og Marcello Lippi höndlaði þetta taktískt séð frábærlega. Þeir eru verðugir sigurvegarar í þessari keppni!

.: Kristján Atli uppfærði kl. 21:15 | 1409 Orð | Flokkur: HM 2006
Ummæli (23)

Þetta var rosalegur leikur - ekkert minna. Frábærir leikkaflar sáust og mér fannst yfir það heila Ítalir betri í fyrri hálfleik, en Frakkar í seinni hálfleik og framlengingu. Ég hugsaði til Istanbul þegar maður sá framlenginguna, þar sem ég man hvað okkar menn voru þreyttir og Steven Gerrard sagði bara eftir leikinn: We were running on empty ... og að þeir væru hálfpartinn að bíða eftir vítaspyrnunum. Þannig virkaði ítalska liðið á mig.

Frábær mörk (flottasta víti ever :-) ) - en menn munu deila hvort þetta hafi verið sanngjörn úrslit eða ekki. Yfir það heila finnst mér samt Ítalir vel að þessu komnir og eiga þetta skilið.

Atvikið með Zidane setti hræðilega ljótan blett á leikinn en mér fannst leikmenn samt prúðir og klára leikinn vel, meira að segja hef ég tekið Henry af svarta listanum sem ég setti hann á fyrir skömmu síðan :-) vegna þess að mér fannst hann virkilega sýna hversu prúður og góður leikmaður hann er, bæði í leiknum og eftir leik. Ljótasti bletturinn fellur auðvitað á Zidane sem með ótrúlegri fávisku og stundarbrjálæði skallar Materazzi. Ég skil nú ekki þennan ógeðs-stimpil sem Materazzi fær hjá Kristjáni, en ég viðurkenni það að ég hef ekki fylgst með honum í ítölsku deildinni. Á þessu heimsmeistaramóti get ég ekki séð að hann hafi verið helvítis viðbjóður og svindlóður!! Auðvitað á hann sína sök í þessu atviki en hann var ekkert meira hrópandi heldur en Zidane. Í endursýningu virðast þeir báðir vera að hreyta óyrðum í hvorn annan, en eitthvað fær Zidane til að snappa (sem gæti blandast pirringi við að brenna af skallanum? - veit ekki). Zidane fær þó ekki bann, þar sem hann er hættur knattspyrnuiðkun, er það? En ef einhver rannsókn fer í gang og kemur í ljós hvað Materazzi sagði, þá á hann auðvitað að fá sína sekt líka.

Viðbrögð Zidane setja svartan blett á glæsilega sögu hans sem fótboltamanns og fyrirmynd. En til lengri tíma litið mun hans auðvitað alltaf vera minnst sem knattspyrnuhetju. Maradona átti sína svörtu bletti líka, er það ekki? Ég vona svo innilega að Zidane skammist sín, og ég hika ekki við að segja það, að þótt hann hafi verið frábær í dag, þá virkaði hann ekki sem betri leikmaður á mig en t.d. Cannavaro. Ég fer ekki ofan af því en ég tel Cannavaro vera hiklaust mann mótsins.

Það er ekkert sem segir að Zidane hafi eyðilagt leikinn fyrir Frakka. Það var ekkert öruggt að Frakkar hefðu skorað þó hann hefði verið inn á, eða öruggt að hann hefði skorað úr sinni spyrnu. En fyrst og fremst hefur hann eyðilagt mikið fyrir sjálfum sér, og hann mun án efa lækka stórlega í áliti margra fyrir þetta stundarbrjálæði.

Mér finnst alltaf sorglegt að sjá mót sem þetta enda í vítaspyrnukeppni, en mér fannst samt mótið skemmtilegt! Frábær HM-mánuður er liðinn. Til hamingju Ítalir: þið áttuð þetta skilið!

Doddi sendi inn - 09.07.06 22:33 - (Ummæli #5)

http://www.palmar.leti.is/efni/2006/07/09/22:06:07/ þessi segist vita hvað gerðist... :-) :-)

Biggi sendi inn - 09.07.06 22:38 - (Ummæli #6)

Rólegur nafni, ég sagði í gær að tíminn myndi leiða í ljós að Zidane kæmist aldrei á sama stall og Maradona og er því ekki að nota þessa heimsku hans í kvöld til að sanna eitt né neitt. Þér finnst hann jafnast á við Maradona og það er fínt hjá þér, dálítið barnalegt en samt fínt. Ég hélt bara að við værum að tala um hvernig sagan myndi dæma hann en ekki hvað einstaka mönnum fyndist um hann. Það var jú það sem Kristján var að tala um í upphafi, að honum fyndist tími til kominn að hleypa Zidane á sama stall og Maradona og Pelé sögulega séð, að hingað til hefði verið nánast gefið að 99% þeirra sem tala og skrifa um knattspyrnu teldu að Maradona og Pelé væru bestir en nú væri kominn tími til að breyta þeirri útbreiddu skoðun. Það var sú skoðun sem ég var ósammála í upphafi og er enn. Það er rétt hjá þér að það er fullsnemmt að segja til um það núna, að kvöldi síðasta leiks hans, hvernig sagan muni dæma hann - enda var ég ekki að segja að sagan væri búin að dæma hann - en eftir leikinn í kvöld finnst mér ólíklegt að þeir séu margir eftir sem deila þeirri skoðun þinni að Zidane eigi eftir að verða minnst á sama hátt og Maradona. Það getur svosem allt gerst en mér finnst það afskaplega ólíklegt. Af þeim sem eru að spila núna myndi ég tippa Ronaldinho ef ég ætti að spá um hver væri líklegastur að komast á sama stall og Maradona, en hann er samt ekki nálægt honum. Líklegast þykir mér að sá leikmaður muni ekki koma fram á næstu árum eða áratugum. Maradona hafði Náðargáfuna með stóru N-i. Skör ofar en allir aðrir að mínu mati, og því verður ekki neitað að flestir eru mér sammála.

Gummi sendi inn - 09.07.06 23:52 - (
Ummæli #13)

Það sem gerði það að verkum að ég man eftir þessum leik er "when ZZ blew over the top". Þessi leikur sem og keppnin í heild sinni verður mér ekki minnistæð nema fyrir þær sakir hversu mikið úr böndunum fótboltinn er kominn. Leikaraskapurinn, röflið yfir dómurunum (sem voru vægast sagt mjöööööög daprir margir hverjir en einn og einn ljós punktur leit dagsins ljós).

Það næsta skref sem gera þarf varðandi þennan blessaða fótbolta er að fá FIFA, UEFA (og hvað þetta allt heitir) til að átta sig á hversu fótboltinn hefur vaxið hratt undanfarin 10 árin. Sem dæmi um ofvöxt og framfarir er hægt að taka sem dæmi spjaldagleði margra dómara sem oft er mótmælt eftirá (t.d. rússinn sem gaf 16 gul og 3 rauð í sama leiknum á HM). Ég vil minna menn á að það eru líka leikmenn sem eyðileggja leiki með fáránlegri hegðun (Zidane, Rooney sem dæmi)rétt eins og dómarar geta skemmt leiki með rugl dómgæslu. Það er hægt að koma í veg fyrir þetta með hjálp tækninnar sem og grænu ljósi frá knattspyrnuyfirvöldum að gefa beint rautt spjald fyrir leikaraskap inn á vellinum. Það gæti orðið dálítið blóðugt til að byrja með að reka leikmenn útaf fyrir leikaraskap en eftir örfáa leiki taka menn sönsum (Ronaldo? Portúgalskir leikmenn?) nema menn séu bara þeim mun heimskari (Ronaldo..aftur?) . En það verður gaman að heyra það frá ZZ hvað Materazzi virkilega sagði til að pirra hann svona. Hversu lágt sem að Materazzi lagðist að þá á leikmaður eins og ZZ ekki að hegða sér svona né nokkur annar maður. Það mætti segja að síðasta vígi heiðarleikans hafi hrunið um sjálft sig með gjörðum ZZ því heiðarlegri knattspyrnumann var vart hægt að finna á knattspyrnuvöllum heimsins.

eikifr sendi inn - 10.07.06 10:14 - (
Ummæli #17)

Það sem mér finnst eiginlega fyndnast núna í dag, er að lesa ummæli stuðningsmanna um allan heim um ZZ og "atvikið". Allir eru sammála um að hegðun hans var mjög slæm en margir sjá sér ástæðu til þess að afsaka manninn. Það skil ég ekki. Hvað svo sem MM sagði þá breytir það því ekki að þessi reynslumikli fótboltamaður sem á 10 mínútur eftir að ferlinum setur arfleið sína sem fótbolta manns í algjört uppnám og ekki síst skilur hann eftir stórt skarð í heimsmeistaradraumum Frakka. Þetta er ** á heimsmælikvarða og ekkert annað.

Nú skulum við svo ekki á láta sem svo að MM hafi sagt eitthvað svo gríðarlega særandi við ZZ að viðbrögð hans geti talist pínulítið skiljanleg. Eftir því sem ég sá þá hafði ZZ eitthvað að segja við MM á móti. Hefði ZZ haldið áfram að munnhöggvast og MM misst stjórn á sér, skallað ZZ í bringuna og fengið rautt. Væri honum þá sýndur einhver skilningur ? Sæi maður á einhverjum spjallborðum einhverja vera að segja "ZZ hefur sagt eitthvað ófyrirgefanlegt, menn tapa sér ekki bara svona útí loftið" Nei ég held eiginlega ekki.

Við skulum heldur ekki gleyma að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ZZ ákveður að nota hausinn á sér á leikmann í stað bolta.

Þetta atvik var skelfilegt og ZZ á enga samúð skilið, ja ekki þá fyrir neitt annað en sína eigin * og það er alltaf leiðinlegt að þurfa að vorkenna einhverjum útaf því hvað hann er *r...

Julian Dicks hetja sendi inn - 10.07.06 16:26 - (
Ummæli #22)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.








:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar?




Flokkar

Almennt · Auglýsingar · Enska bikarkeppnin · Enski Boltinn · Fjölmiðlar · HM 2006 · HM Félagsliða · Kannanir · Landslið · Leikmannakaup · Leikmenn · Leikskýrslur · Leikvangur · Liverpool · Meiðsli · Meistaradeild · Myndbönd · Sjónvarp · Slúður · Topp10 · Um síðuna · Upphitun · Vangaveltur · Veðmál · Þjálfaramál ·

Um Síðuna

Um Síðuna

Um höfundana

Aggi

Einar Örn

Hjalti

Kristján Atli

Sigursteinn

Síðustu leikir

·Maccabi Haifa 1 - Liverpool 1
·Sheffield United 1-1 Liverpool
·Liverpool - Chelsea 2-1
·Liverpool 2 - Maccabi Haifa 1
·Mainz 5 - L'pool 0

Síðustu Ummæli

Gummi H: Jæja Gummi. Afsakaðu æsinginn í mér og b ...[Skoða]
Julian Dicks hetja: Það sem mér finnst eiginlega fyndnast nú ...[Skoða]
Andri: Já, nokkuð sammála þér Doddi, en ég held ...[Skoða]
Doddi: Ég tók ekki eftir þessari geirvörtuklípu ...[Skoða]
Andri: Doddi, hrottaskapur hanns í leiknum var ...[Skoða]
Doddi: Eins og ég sagði fyrr hérna, þá hef ég e ...[Skoða]
eikifr: Það sem gerði það að verkum að ég man ef ...[Skoða]
Andri: Ég skil Zidane svo vel að hafa gert þett ...[Skoða]
Vargurinn: Ég ætla ekki að fara rífast við einn né ...[Skoða]
Júlli: Zidane er einn af 3 bestu í sögunni ásam ...[Skoða]

Síðustu færslur

· West Ham á morgun
· Lucas Neill á leiðinni?
· Riðill C!
· Jöfn deild í byrjun ...
· Nýr haus
· Sissoko frá í 2 vikur

Tenglar

Einar :: EOE.is

Kristján Atli.com


NewsNow Liverpool

SKY

Liverpool Echo

BBC

Liverpool (official)

YNWA spjallborð

RAWK spjallborð

Soccernet

The Guardian

Daily Telegraph

Independent

LFC History

Liverpool.is

This Is Anfield

UEFA


Staðan í ensku

Tölfræði í ensku


The Liverpool Way Blog

RAWK blog

Kop Blog




Við notum
Movable Type 3.2

Efni þessarar síðu er birt undir skilmálum frá Creative Commons.

Creative Commons License