09. júlí, 2006

Í upphitunum helgarinnar talaði ég um að þessi leikur væri að öðrum ólöstuðum leikur áratugarins. Þótt ég efist um að nokkur knattspyrnuleikur á þessum áratug muni nokkurn tíma takast að vera betri, skemmtilegri og dramatískari en leikur Liverpool og AC Milan í Meistaradeildinni fyrir rúmu ári, þá er þetta sennilega eini leikurinn sem er klárlega stærri en úrslit Meistaradeildarinnar. Og það kom á daginn að þessi leikur olli ekki vonbrigðum.
Leikurinn fór vel af stað og eftir sex mínútna leik fengu Frakkar vítaspyrnu eftir að Marco Materazzi hafði brotið á Florent Malouda innan teigs. Það var erfitt að sjá snertinguna í sjónvarpinu en að mínu mati var samt klárt að Materazzi braut á Malouda; hann stöðvaði hlaupaleið hans og vítið fannst mér augljóst strax áður en ég sá það endursýnt. Úr vítinu skoraði svo Zinedine Zidane með einhverri ótrúlegustu spyrnu sem ég hef séð um ævina. Hann sendi Gianluigi Buffon í vitlaust horn og
vippaði helvítis knettinum upp í slána og þaðan niður á grasið … rétt fyrir innan marklínuna. Markið gott og gilt, og ég sagði við sessunauta mína að þetta væri eitthvert ótrúlegasta mark sem sést hefur á HM. Stend við þau orð og mig grunaði jafnvel að þetta víti yrði ekki toppað hvað varðar ótrúlegheitin. Ég átti eftir að hafa rangt fyrir mér.
Á nítjándu mínútu tók Andrea Pirlo frábæra hornspyrnu sem datt niður í miðjan teig Frakka. Þar reis Marco Materazzi manna hæst, át Patrick Vieira upp til agna í skallaeinvígi og jafnaði metin fyrir Ítali. Staðan því orðin 1-1 eftir tuttugu mínútur og strax ljóst að hér væri klassískur leikur á ferð. Næstu 70 mínúturnar kom ekkert mark en leikurinn bauð upp á hina bestu skemmtun; í fyrri hálfleik skiptust liðin á að sækja enda á milli og hefðu bæði getað komist yfir fyrir hlé, en í síðari hálfleik var eins og botninn dytti úr leik Ítala sem hurfu sífellt aftar á vellinum. Það var um þetta leyti sem það sem margir áttu von á að myndi gerast fór að gerast; Zinedine Zidane fór að sýna sig meira og meira í spili Frakka og undir lok leiksins var hann orðinn svo gjörsamlega allsráðandi á vellinum að maður beið eftir því
hvenær Frakkar skoruðu sigurmarkið, ekki
hvort. Ítalir héldu þó út og leikurinn fór í framlengingu.
Í fyrri hálfleik framlengingar var mikið um baráttu og miðjumoð en Frakkar sköpuðu sér þó hættulegri færi. Það besta kom undir lok hálfleiksins, þegar Willy Sagnol gaf frábæra fyrirgjöf frá hægri á óvaldaðan Zidane sem átti fastan og flottan skalla að markinu. Þeir eru ekki margir markverðirnir sem hefðu varið þennan bolta en til allrar ólukku fyrir Zidane var Buffon í marki Ítala starfinu vaxinn og blakaði boltanum yfir. Zidane öskraði af pirringi, maður sá það á honum að hann
vissi að þarna hafði farið kjörið tækifæri fyrir hann að tryggja sinn sess meðal knattspyrnuguðanna. Það kom á daginn að þetta átti eftir að verða það síðasta jákvæða sem við sáum til Zidane á hans langa og gifturíka ferli.
Fyrir leikinn hafði ég íhugað hversu grimm örlög það væru fyrir Zidane að enda mögulega feril sinn á því að tapa í úrslitaleik HM. Ég hugsaði með mér sem svo að það væri varla til ömurlegri endir á ferlinum fyrir þennan mikla kappa. Ég hafði rangt fyrir mér. Eitthvað gerðist utan myndavélar í upphafi síðari hálfleiks framlengingar og maður vissi ekkert hvað var að gerast þegar dómarinn hljóp að Buffon í marki Ítala til að stilla til friðar. Buffon var mjög æstur og Arnar Björnsson talaði eitthvað um David Trezeguet. Loks kom endursýningin, það sem aðal-myndavélin hafði ekki náð og ég held ég tali fyrir hönd okkar allra, knattspyrnuunnenda um allan heim, þegar ég segi að þessi þriggja sekúndna endursýning var sennilega eitt ógeðfelldasta atvik í sögu knattspyrnunnar.

Þarna var það, skýrt eins og sólin: Zinedine Zidane er að hlaupa framhjá Marco Materazzi en snýr skyndilega við, hleypur að þeim ítalska og skallar hann fast í bringuna. Gengur svo í burtu. Kjálkinn á mér í gólfinu, engin orð til að lýsa því sem ég sá. Síðan ég sat á sófa í Bandaríkjunum og horfði á World Trade Center hrynja í beinni útsendingu fyrir fimm árum síðan, þann 11. september, hefur enginn sjónvarpsatburður hneykslað mig jafn mikið, sjokkerað mig jafn svakalega.
Seinni endursýningar sýndu að Materazzi, sem ég hef áður sagt að er einhver ógeðfelldasti og svindlóðasti leikmaður í heiminum í dag, greip um Zidane í vítateig Ítala í hornspyrnu rétt áður. Hann virtist gera meira en halda utan um Zidane, hann virtist klípa í geirvörtu þess franska og láta einhver fúkyrði falla. Svo skokkuðu þeir báðir út úr teig Ítala er sóknin fjaraði út og Materazzi hélt áfram að hrópa svívirðingar í átt að Zidane. Að endanum virðist hann hafa hitt á hina gullnu móðgun, því Zidane sneri sér við og skallaði hann.
Þegar dómarinn var búinn að stilla til friðar og ráðfæra sig við aðstoðardómarann hljóp hann til Zidane og gaf honum rauða spjaldið. Ferlinum lokið. Það var þá sem það virtist daga uppi fyrir Zidane hverjar afleiðingar gjörða sinna eru: hann hafði ekki aðeins hneykslað heiminn og valdið sjálfum sér ótrúlegri skömm á þessari stærstu og glæstustu stund ferils síns (hugsið ykkur bara hvað hann var góður í leiknum) heldur var hann líka búinn að tryggja það að, sama hvernig leikurinn færi, hann yrði samt skúrkur dagsins. Ef Frakkar ynnu leikinn myndi Fabien Barthez hampa titlinum sem fyrirliði, ekki Zidane, og hann yrði vart velkominn í fagnaðarlætin nema þá bara í París daginn eftir. Það sem átti að vera stærsti dagur lífs hans hafði, með nokkrum vel völdum orðum hjá Marco Materazzi og yfirgengilega heimskulegum og ofbeldisfullum viðbrögðum þessa leikreynda kappa breyst í svörtustu martröð. Það síðasta sem við sáum til goðsagnarinnar var er hann grét í örmum Gianluigi Buffon, og svo þegar hann gekk niðurlútur framhjá Heimsmeistarastyttunni og til búningsklefanna.
Nú, eftir þetta atvik var eins og sjokkið drægi allan kraft úr báðum liðum. Franskir áhorfendur á vellinum púuðu það sem eftir lifði leiks, og ég skil þá vel því þeir höfðu ekki endursýningarnar sem við heima í stofu höfðum, og ég vorkenni þeim sárlega að eiga eftir að fara heim til sín og, ofan í öll sárindin að hafa tapað þessum leik, sjá síðan hvernig hetjan þeirra sveik frönsku þjóðina með hegðun sinni.
Eins stórkostlegur leikmaður og Zidane er, og eins viðbjóðslegur og Materazzi er og hefur alltaf verið sem leikmaður, þá þykir mér nánast ómögulegt að vorkenna þeim franska. Tíu mínútur eftir af framlengingu í úrslitaleik fokking Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu, síðustu tíu mínútur þíns glæsta ferils og það eina sem þú þarft að gera er að bregðast ekki við móðgunum Ítalans á ofbeldisfullan hátt. Það er það eina sem þú þarft að gera; þú getur mætt heim til Materazzi strax á morgun með nokkra vini og kylfur og jafnað málin, en láttu það bara bíða í TÍU FOKKING MÍNÚTUR! Þið eruð með yfirburði á vellinum og hafið þetta allt í hendi ykkur. Og þú gast það ekki. Ég veit vel að Zinedine Zidane les þessa síðu ekki en ég ætla samt að segja þetta: SKAMMASTU ÞÍN!
Og Marco Materazzi má skammast sín líka. Helvítis viðbjóður að horfa á þennan leikmann, leik eftir leik alltaf með sömu ruddataktana. Maður getur rétt ímyndað sér hvað í ósköpunum hann sagði sem fékk Zidane til að fórna öllu sem hann hafði unnið svo hörðum höndum að síðasta mánuðinn, en ég satt best að segja veit ekki hvað í ósköpunum hann hefur getað sagt. Það hlýtur að hafa verið eitthvað magnað, eitthvað ofboðslega móðgandi, og þótt það afsaki gjörðir Zidane engan veginn þá á Materazzi mikla skömm í þessu máli líka.
Nú, að endingu fór þessi leikur í vítaspyrnukeppni og þar voru framkvæmdar níu spyrnur. Ítalir skoruðu úr sínum fimm en Frakkinn David Trézeguet sendi Gianluigi Buffon í rangt horn og skaut knettinum svo upp í markslána og niður á marklínuna. Einn sentimetri til og hann hefði skorað líka. Það er alltaf harður veruleiki að þurfa að tapa í vítaspyrnukeppni, en í kvöld var vart hægt að tapa með minni mun, og það í sjálfum úrslitaleik Heimsmeistarakeppninnar.
Þannig að á endanum eru Ítalir heimsmeistarar, og ég óska þeim innilega til hamingju. Þeir voru þegar allt kemur til alls vel að þessu komnir, höfðu verið jafnbesta liðið allt frá byrjun móts og sýndu bæði frábæra knattspyrnu og hetjulega baráttu í þessum leik. Þeir héldu höfði og Marcello Lippi höndlaði þetta taktískt séð frábærlega. Þeir eru verðugir sigurvegarar í þessari keppni!