08. júlí, 2006
“Auðvitað erum við sáttir við mótið hingað til, jafnvel stoltir, en við erum ekki enn búnir að ná markmiði okkar. Við megum ekki dást að okkar eigin afrekum of snemma, til að draumurinn rætist þurfum við að vinna einn leik til viðbótar.”
-Raymond Domenech, landsliðsþjálfari Frakka

Þann 13. júní síðastliðinn skrifaði ég um franska landsliðið að þeir væru “ótrúlega bitlausir” og stakk upp á því að S-Kórea og Tógó gerðu þeim greiða og linuðu þjáningar frönsku þjóðarinnar. Þetta skrifaði ég eftir fyrsta leik liðsins, 0-0 jafntefli gegn Sviss, og eftir annað jafntefli, 1-1 gegn Suður-Kóreu, var ég reiðubúinn að veðja hægri handleggnum á það að Frakkar myndu aldrei í helvíti komast lengra en í 16-liða úrslit keppninnar. Bæði af því að ég sá hversu andlaust liðið var, og af því að ég vissi að eftir jafnteflið gegn S-Kóreu voru þeir líklegast að fara að lenda í öðru sæti riðils síns og mæta Spánverjum í 16-liða úrslitum. Og ég var sko viss um að þeir ættu ekki séns í Spánverjana.
Svo gerðist nokkuð skrýtið. Ég sat heima hjá vini mínum og við horfðum á leik Frakka og Spánverja saman. Og fyrsta hálftímann einkenndust samræður okkar af því að leikurinn, þennan fyrsta hálftíma eða svo, virtist staðfesta allt sem við vissum um Frakkana; þeir voru andlausir, of gamlir, bitlausir og á leiðinni heim.
Svo fékk Patrick Vieira boltann; spænska vörnin lék Henry rangstæðan en gott hlaup Frank Ribery innfyrir kom þeim í opna skjöldu og þessi smávaxni vængmaður, sem kallaður er Jókerinn í heimalandi sínu vegna brunasára í andliti, var skyndilega búinn að jafna leikinn og “slá í gegn” á HM, eins og þulurinn orðaði það. En það var ekki jöfnunarmark Frakka sem varð til þess að á mig runnu tvær grímur. Nei, það voru viðbrögð þeirra. Þegar fagnaðarlátunum linnti sá ég, svo ekki varð um villst, hversu ákveðnir þeir voru. Zidane hljóp manna á milli rétt áður en Spánverjar tóku miðju og sendi hverjum manni sérsniðin skilaboð. “Henry, mundu hlaupin þín.” “Vieira, haltu áfram svona.” “Ribery, hlauptu þangað.” Eitthvað í þá áttina, en það var ljóst að heilinn í Zidane var að brenna yfirum á akkúrrat þessu augnabliki.
Nokkrum mínútum síðar var flautað til hálfleiks og á leiðinni til búningsklefanna sá maður Zidane, Gallas, Thuram og Makelele í hrókasamræðum. Kóngurinn lét ekki staðar numið við sóknarleikinn heldur var hann að samstilla sig og varnarmennina fyrir aftan sig líka. Þennan hálfleikinn spurðu ég og félagi minn okkur í fyrsta sinn í þessari keppni: Eru Frakkar að hrökkva í gang?
Svarið var ótrívætt já, og síðan Ribery skaut sér innfyrir vörn Spánverja og skoraði hafa þeir ekki litið um öxl. Ólíkt Ítölum, sem hafa verið massífir alla keppnina, má sjá ákveðinn stíganda hjá Frökkunum. Þeir hafa eftir því sem liðið hefur á mótið þróast úr algjörri meðalmennsku upp í að sýna sitt gamla, góða form:
Sviss: 0-0 jafntefli.
S-Kórea: 1-1 jafntefli.
Tógó: 2-0 sigur.
Spánn: 3-1 sigur.
Brasilía: 1-0 sigur.
Portúgal: 1-0 sigur.
Sex leikir; tvö jafntefli og svo fjórir sigrar. Markatalan er 8-2. Spánverjar skoruðu úr vítaspyrnu gegn þeim og Ji-Sung Park jafnaði fyrir Kóreu á lokamínútum þess leiks með poti yfir Barthez, sem verður að skrifast á markvörðinn. Og talandi um markvörðinn, þá er erfitt að finna bilbug á franska liðinu varnarlega þessa dagana en ef það er eitthvað sem getur látið undan þá er það Fabien Barthez. Við þekkjum hann allir og höfum séð þetta allt margoft til hans - spyrjið bara Rikka Daða. Hann er mistækur, og þótt honum hafi ekki verið refsað nógu grimmilega í þessari keppni hingað til (hefur átt a.m.k. eitt klúður í hverjum einasta leik) þá er hann að fara að mæta grimmustu framherjum heims; þeim ítölsku, og þeir munu éta upp öll mistök hans og nýta þau betur en Figo og félagar gerðu í undanúrslitunum.
Fyrir framan Barthez er hins vegar feykisterk vörn, sú sterkasta í keppninni á eftir þeirri ítölsku, og rétt eins og hjá Ítölunum er vörnin vernduð af tveimur miðjupaurum í feykistuði - Claude Makelele og Patrick Vieira - og þar fyrir framan eru tveir iðnir og góðir kantmenn, Malouda og Ribery, og svo krúnudjásnið sjálft, Zidane. Fremstur er svo Thierry Henry, sem þrátt fyrir að hafa skorað þrjú mörk í þessari keppni og fiskað eitt víti hefur ekki náð að sýna sínar bestu hliðar, enda er honum ekki eðlislægt að spila sem fremsti maður en hann skilar því hlutverki samt ágætlega sem slíkur.
Vandamál Frakka liggur því ekki í vörninni, og ef Barthez á góðan dag þarf ekki að hafa áhyggjur af honum. Vandamál Frakkanna liggur í því hvernig í ósköpunum þeir ætla að brjóta ítölsku vörnina á bak aftur. Átta mörk í sex leikjum er ekkert sérstök tölfræði fyrir lið sem er komið í úrslit HM, og ætti því ekki að skjóta Ítölunum skelk í bringu. Enn fremur, þá hafa aðeins fjórir Frakkar skorað þessi átta mörk; Henry (3), Zidane (2), Vieira (2) og Ribery (1). Á móti hafa tíu Ítalir skorað ellefu mörk, en Luca Toni er sá eini sem er kominn upp í heil tvö stykki í þeirra herbúðum. Þannig að þótt Ítalir skarti engum einum framherja sem er jafn skæður og Thierry Henry þurfa Frakkar að hafa áhyggjur af töluvert fleiri Ítölum, sóknarlega séð, en öfugt.
Á móti kemur þó að Frakkar hafa ekki aðeins besta framherjann í keppninni (já, ég sagði það!) heldur líka öflugasta miðjumanninn. Langöflugasta. Það þarf eitthvað alvarlega mikið að gerast til að Zinedine Zidane verði ekki valinn leikmaður mótsins, og ef hann vinnur HM á morgun með Frökkum getum við neglt það fast að hann verður valinn leikmaður ársins hjá FIFA líka næstkomandi desember. Þannig er það bara, og ég ætla að leyfa mér að varpa smá sprengju hérna: hvernig sem þessi úrslitaleikur á morgun fer er Zinedine Zidane, með frammistöðu sinni í þessu móti, búinn að tryggja sér sess við hliðina á þeim Pele og Diego Maradona sem þrír bestu knattspyrnumenn allra tíma! Allt frá því að ég man eftir mér hafa menn talað um þá tvo sem guði knattspyrnunnar, klassa ofar en alla aðra, en Zidane hefur að mínu mati sýnt það síðastliðin tólf ár (frá því ég tók fyrst eftir honum hjá Bordeaux; hann skoraði frá miðju í Evrópukeppni félagsliða og ég sá það í íþróttaþætti Ríkissjónvarpsins, gleymi því aldrei) að hann er fyllilega jafnoki þeirra tveggja.
Sumir myndu kannski vilja benda á Franz Beckenbauer og/eða Johan Cruyff í þessum efnum, en ég segi á móti að Cruyff vann ekkert í líkingu við það sem Zidane hefur afrekað sem leikmaður og Beckenbauer, þrátt fyrir að hafa unnið HM, var ekki sami listamaðurinn með knöttinn og Zidane. Hvernig sem fer á morgun þá held ég að menn geti farið að venjast því að tala um þrjá guði knattspyrnunnar. Kannski tyllir Ronaldinho sér endanlega á stall með þessum þremur á næstu árum; sem Barcelona-maður vona ég það allavega, en það er ekki hægt að neita því að ég hef rétt fyrir mér varðandi manninn sem kallaður er Zizou í heimalandi sínu.
Sem sagt, stærsti leikur áratugarins fer fram í Berlín á morgun og þar mætast tvö lið sem eru að upplifa ákveðin vatnaskil í knattspyrnusögu sinna þjóða. Hvort sem Frakkar vinna eða tapa er ljóst að lið þeirra mun hljóta endurnýjun lífdaga strax í haust, þegar gamla meistarasveitin með Zidane í broddi fylkingar lætur af störfum og nýir menn fá það verkefni að byggja upp lið, væntanlega í kringum Thierry Henry. Ef Ítalir vinna HM á morgun gætu margir leikmanna þeirra lent í þeirri skrýtnu stöðu að vera heimsmeistarar í knattspyrnu, en spilandi í næstefstu deild heimalands síns, eða jafnvel þriðju efstu. Á föstudaginn kemur verður dæmt í spillingarmálinu á Ítalíu og ef Ítalir vinna HM á morgun gæti sá dagur orðið mjög blendinn fyrir leikmenn landsliðsins.
Hvað sem verður er ljóst að dagurinn verður rosalegur. Totti, Del Piero, jafnvel Cannavaro hætta með landsliði Ítala eftir þennan leik og allt liðið er að leika til heiðurs vini sínum, Gianluca Pessotto sem er á spítala eftir sjálfsmorðstilraun. Heima fyrir er ítalska þjóðin, í miðju hneyksli, að verða ástfangin af hinni fallegu íþrótt upp á nýjan leik, á gamla mátann. Gegnt þeim eru fyrrverandi heims- og Evrópumeistarar Frakka, margir af snjöllustu leikmönnum síðustu ára með knattspyrnuguðinn Zinedine Zidane í fararbroddi.
Þetta verður magnað. Ég get ekki beðið, og mér dettur ekki í hug að spá fyrir um úrslit leiksins. AÐEINS EINN DAGUR TIL STEFNU!