beach
« Leikur Áratugarins (Ítalía) | Aðalsíða | Dagurinn í dag »

08. júlí, 2006
Leikur Áratugarins (Frakkland)

“Auðvitað erum við sáttir við mótið hingað til, jafnvel stoltir, en við erum ekki enn búnir að ná markmiði okkar. Við megum ekki dást að okkar eigin afrekum of snemma, til að draumurinn rætist þurfum við að vinna einn leik til viðbótar.”
-Raymond Domenech, landsliðsþjálfari Frakka

zidane_ms.jpg

Þann 13. júní síðastliðinn skrifaði ég um franska landsliðið að þeir væru “ótrúlega bitlausir” og stakk upp á því að S-Kórea og Tógó gerðu þeim greiða og linuðu þjáningar frönsku þjóðarinnar. Þetta skrifaði ég eftir fyrsta leik liðsins, 0-0 jafntefli gegn Sviss, og eftir annað jafntefli, 1-1 gegn Suður-Kóreu, var ég reiðubúinn að veðja hægri handleggnum á það að Frakkar myndu aldrei í helvíti komast lengra en í 16-liða úrslit keppninnar. Bæði af því að ég sá hversu andlaust liðið var, og af því að ég vissi að eftir jafnteflið gegn S-Kóreu voru þeir líklegast að fara að lenda í öðru sæti riðils síns og mæta Spánverjum í 16-liða úrslitum. Og ég var sko viss um að þeir ættu ekki séns í Spánverjana.

Svo gerðist nokkuð skrýtið. Ég sat heima hjá vini mínum og við horfðum á leik Frakka og Spánverja saman. Og fyrsta hálftímann einkenndust samræður okkar af því að leikurinn, þennan fyrsta hálftíma eða svo, virtist staðfesta allt sem við vissum um Frakkana; þeir voru andlausir, of gamlir, bitlausir og á leiðinni heim.

Svo fékk Patrick Vieira boltann; spænska vörnin lék Henry rangstæðan en gott hlaup Frank Ribery innfyrir kom þeim í opna skjöldu og þessi smávaxni vængmaður, sem kallaður er Jókerinn í heimalandi sínu vegna brunasára í andliti, var skyndilega búinn að jafna leikinn og “slá í gegn” á HM, eins og þulurinn orðaði það. En það var ekki jöfnunarmark Frakka sem varð til þess að á mig runnu tvær grímur. Nei, það voru viðbrögð þeirra. Þegar fagnaðarlátunum linnti sá ég, svo ekki varð um villst, hversu ákveðnir þeir voru. Zidane hljóp manna á milli rétt áður en Spánverjar tóku miðju og sendi hverjum manni sérsniðin skilaboð. “Henry, mundu hlaupin þín.” “Vieira, haltu áfram svona.” “Ribery, hlauptu þangað.” Eitthvað í þá áttina, en það var ljóst að heilinn í Zidane var að brenna yfirum á akkúrrat þessu augnabliki.

Nokkrum mínútum síðar var flautað til hálfleiks og á leiðinni til búningsklefanna sá maður Zidane, Gallas, Thuram og Makelele í hrókasamræðum. Kóngurinn lét ekki staðar numið við sóknarleikinn heldur var hann að samstilla sig og varnarmennina fyrir aftan sig líka. Þennan hálfleikinn spurðu ég og félagi minn okkur í fyrsta sinn í þessari keppni: Eru Frakkar að hrökkva í gang?

Svarið var ótrívætt já, og síðan Ribery skaut sér innfyrir vörn Spánverja og skoraði hafa þeir ekki litið um öxl. Ólíkt Ítölum, sem hafa verið massífir alla keppnina, má sjá ákveðinn stíganda hjá Frökkunum. Þeir hafa eftir því sem liðið hefur á mótið þróast úr algjörri meðalmennsku upp í að sýna sitt gamla, góða form:

Sviss: 0-0 jafntefli.
S-Kórea: 1-1 jafntefli.
Tógó: 2-0 sigur.
Spánn: 3-1 sigur.
Brasilía: 1-0 sigur.
Portúgal: 1-0 sigur.

Sex leikir; tvö jafntefli og svo fjórir sigrar. Markatalan er 8-2. Spánverjar skoruðu úr vítaspyrnu gegn þeim og Ji-Sung Park jafnaði fyrir Kóreu á lokamínútum þess leiks með poti yfir Barthez, sem verður að skrifast á markvörðinn. Og talandi um markvörðinn, þá er erfitt að finna bilbug á franska liðinu varnarlega þessa dagana en ef það er eitthvað sem getur látið undan þá er það Fabien Barthez. Við þekkjum hann allir og höfum séð þetta allt margoft til hans - spyrjið bara Rikka Daða. Hann er mistækur, og þótt honum hafi ekki verið refsað nógu grimmilega í þessari keppni hingað til (hefur átt a.m.k. eitt klúður í hverjum einasta leik) þá er hann að fara að mæta grimmustu framherjum heims; þeim ítölsku, og þeir munu éta upp öll mistök hans og nýta þau betur en Figo og félagar gerðu í undanúrslitunum.

Fyrir framan Barthez er hins vegar feykisterk vörn, sú sterkasta í keppninni á eftir þeirri ítölsku, og rétt eins og hjá Ítölunum er vörnin vernduð af tveimur miðjupaurum í feykistuði - Claude Makelele og Patrick Vieira - og þar fyrir framan eru tveir iðnir og góðir kantmenn, Malouda og Ribery, og svo krúnudjásnið sjálft, Zidane. Fremstur er svo Thierry Henry, sem þrátt fyrir að hafa skorað þrjú mörk í þessari keppni og fiskað eitt víti hefur ekki náð að sýna sínar bestu hliðar, enda er honum ekki eðlislægt að spila sem fremsti maður en hann skilar því hlutverki samt ágætlega sem slíkur.

Vandamál Frakka liggur því ekki í vörninni, og ef Barthez á góðan dag þarf ekki að hafa áhyggjur af honum. Vandamál Frakkanna liggur í því hvernig í ósköpunum þeir ætla að brjóta ítölsku vörnina á bak aftur. Átta mörk í sex leikjum er ekkert sérstök tölfræði fyrir lið sem er komið í úrslit HM, og ætti því ekki að skjóta Ítölunum skelk í bringu. Enn fremur, þá hafa aðeins fjórir Frakkar skorað þessi átta mörk; Henry (3), Zidane (2), Vieira (2) og Ribery (1). Á móti hafa tíu Ítalir skorað ellefu mörk, en Luca Toni er sá eini sem er kominn upp í heil tvö stykki í þeirra herbúðum. Þannig að þótt Ítalir skarti engum einum framherja sem er jafn skæður og Thierry Henry þurfa Frakkar að hafa áhyggjur af töluvert fleiri Ítölum, sóknarlega séð, en öfugt.

Á móti kemur þó að Frakkar hafa ekki aðeins besta framherjann í keppninni (já, ég sagði það!) heldur líka öflugasta miðjumanninn. Langöflugasta. Það þarf eitthvað alvarlega mikið að gerast til að Zinedine Zidane verði ekki valinn leikmaður mótsins, og ef hann vinnur HM á morgun með Frökkum getum við neglt það fast að hann verður valinn leikmaður ársins hjá FIFA líka næstkomandi desember. Þannig er það bara, og ég ætla að leyfa mér að varpa smá sprengju hérna: hvernig sem þessi úrslitaleikur á morgun fer er Zinedine Zidane, með frammistöðu sinni í þessu móti, búinn að tryggja sér sess við hliðina á þeim Pele og Diego Maradona sem þrír bestu knattspyrnumenn allra tíma! Allt frá því að ég man eftir mér hafa menn talað um þá tvo sem guði knattspyrnunnar, klassa ofar en alla aðra, en Zidane hefur að mínu mati sýnt það síðastliðin tólf ár (frá því ég tók fyrst eftir honum hjá Bordeaux; hann skoraði frá miðju í Evrópukeppni félagsliða og ég sá það í íþróttaþætti Ríkissjónvarpsins, gleymi því aldrei) að hann er fyllilega jafnoki þeirra tveggja.

Sumir myndu kannski vilja benda á Franz Beckenbauer og/eða Johan Cruyff í þessum efnum, en ég segi á móti að Cruyff vann ekkert í líkingu við það sem Zidane hefur afrekað sem leikmaður og Beckenbauer, þrátt fyrir að hafa unnið HM, var ekki sami listamaðurinn með knöttinn og Zidane. Hvernig sem fer á morgun þá held ég að menn geti farið að venjast því að tala um þrjá guði knattspyrnunnar. Kannski tyllir Ronaldinho sér endanlega á stall með þessum þremur á næstu árum; sem Barcelona-maður vona ég það allavega, en það er ekki hægt að neita því að ég hef rétt fyrir mér varðandi manninn sem kallaður er Zizou í heimalandi sínu.

Sem sagt, stærsti leikur áratugarins fer fram í Berlín á morgun og þar mætast tvö lið sem eru að upplifa ákveðin vatnaskil í knattspyrnusögu sinna þjóða. Hvort sem Frakkar vinna eða tapa er ljóst að lið þeirra mun hljóta endurnýjun lífdaga strax í haust, þegar gamla meistarasveitin með Zidane í broddi fylkingar lætur af störfum og nýir menn fá það verkefni að byggja upp lið, væntanlega í kringum Thierry Henry. Ef Ítalir vinna HM á morgun gætu margir leikmanna þeirra lent í þeirri skrýtnu stöðu að vera heimsmeistarar í knattspyrnu, en spilandi í næstefstu deild heimalands síns, eða jafnvel þriðju efstu. Á föstudaginn kemur verður dæmt í spillingarmálinu á Ítalíu og ef Ítalir vinna HM á morgun gæti sá dagur orðið mjög blendinn fyrir leikmenn landsliðsins.

Hvað sem verður er ljóst að dagurinn verður rosalegur. Totti, Del Piero, jafnvel Cannavaro hætta með landsliði Ítala eftir þennan leik og allt liðið er að leika til heiðurs vini sínum, Gianluca Pessotto sem er á spítala eftir sjálfsmorðstilraun. Heima fyrir er ítalska þjóðin, í miðju hneyksli, að verða ástfangin af hinni fallegu íþrótt upp á nýjan leik, á gamla mátann. Gegnt þeim eru fyrrverandi heims- og Evrópumeistarar Frakka, margir af snjöllustu leikmönnum síðustu ára með knattspyrnuguðinn Zinedine Zidane í fararbroddi.

Þetta verður magnað. Ég get ekki beðið, og mér dettur ekki í hug að spá fyrir um úrslit leiksins. AÐEINS EINN DAGUR TIL STEFNU!

.: Kristján Atli uppfærði kl. 09:20 | 1395 Orð | Flokkur: HM 2006
Ummæli (20)

Flott skrif en ég er meira sammála skrifunum um lið Ítalanna. Zidane er að mínum dómi einn af allra bestu knattspyrnumönnum heims frá upphafi, en það er eitt sem ég verð sjálfur að taka með í reikninginn, að ég get ekki dæmt sjálfur nema það sem ég hef séð, og reynt að reikna með það sem fjölmiðlar og aðrir hafa sýnt frá gömlu hetjunum. Ég hef séð stuttar glefsur úr leikjum með Pele, en ég man ekki einu sinni eftir að hafa séð Beckenbauer. Maradona er hiklaust í hópi þessara manna, og mér dettur í hug að nefna líka Eusébio. Svo rakst ég á netinu á einhvern lista yfr 100 bestu núlifandi knattspyrnumennina (FIFA birti - árið 2004 sýnist mér) og þar eru t.d. Pele, Gordon Banks, Ronaldo brasilíski, Bobby Charlton, Dino Zoff, Johan Cruyff og George Best. Minn uppáhaldsleikmaður í dag er Ronaldinho og þrátt fyrir að eiga slakt mót núna þá finnst mér hann enn bestur yfir það heila síðustu árin.

Þarna eru þó nokkur nöfn sem geta hæglega gert tilkall til að vera á sama lista og Zizou og einhverjir gera tilkall til að vera betri. Ég hins vegar treysti mér ekki til þess að dæma það sjálfur 100% Þar af leiðandi segi ég bara að Zidane er einn af þeim allra bestu frá upphafi. Ég get ekki sagt að hann beri höfuð og herðar yfir keppinauta sína svo mikið að hann geti verið í topp 3 frá upphafi núna.

Og fyrir utan það, að ég er hreinlega á því að Cannavaro sé maður mótsins. Hann hefur spilað alla leikina eins og hetja, er allt í öllu í sterkustu vörninni (come on, Ítalir hafa skorað 12 mörk, og eitt í sitt eigið mark - ekki enn hefur mótherjum tekist að finna möskvana þeirra) og sýnt þvílíka leiðtoga-hæfileika að ég dáist að honum. Mér finnst auðvitað Zizou skemmtilegri leikmaður síðustu árin, þar sem ég hef fylgst meira með honum, en í þessu móti hefur Cannavaro hreinlega bara ekki gert neinar vitleysur!

Zidane hefur spilað 5 leiki og 3 af þeim hafa verið afburðaleikir hjá honum. Mér fyndist það ekki rétt að kalla hann mann mótsins, en ef maður mótsins kemur úr sigurliðinu (var það ekki annars Kahn fyrir fjórum árum, úr silfurliði Þjóðverja?) þá myndi sigur Frakka væntanlega auka líkurnar á því.

En mér þætti gaman að sjá hvort fólk hér er sammála eða ekki - fyrir mér er það augljóst: maður mótsins er Cannavaro.

Ég held mig við fyrri spá: 3-1 fyrir Ítali.

Doddi sendi inn - 08.07.06 11:43 - (Ummæli #5)

Það að segja Zidane betri en Keisarann Franz Beckenbauer er eitt það vitlausasta sem ég veit um. Hvernig rökstyð ég það? Árangur til dæmis, Kristján Atli, er það sem setur Keisarann ofar Zidane svo bara eitt sé nefnt.

Þú talar um að örfáir leikmenn spila ‘libero’ í dag. Af hverju ætli það sé? Ég segi að það sé útaf því að það ræður enginn við að spila þessa stöðu eins og Keisarinn sjálfur gerði.

Saga hans er ótrúleg. Kemur til Bayern München 14 ára gamall þegar Bayern var ekki einu sinni í efstu deild. Þegar Búndeslígan var stofnuð 1963 var Bayern ekki meðal þáttökuliða! Beckenbauer byrjar að spila með Bayern 1964-65 og fer liðið það ár upp í Búndeslígunna. Þá segja eflaust einhverjir ‘Beckenbauer spilaði örugglega ekki stórt hlutverk með liðinu!’. Það gæti ekki verið verið fjærri sannleikanum. Innan árs var hann valinn í þýska landsliðið. Með tilkomu Keisarans í Bayern upphófst gríðarleg sigurganga liðsins þar sem liðið varð meðal annars það stærsta í Evrópu en segja má að hann hafi átt hvað mestan þátt í að koma Bayern þangað sem það komst.

Beckenbauer byrjaði að spila á vinstri kanti hjá Bayern en menn sáu strax hve gríðarlegur leikskilningur hans var og hann færður inn á miðjuna.

Fyrsti leikur hans með landsliðinu var útileikur gegn Svíþjóð í undankeppni HM 1966. Í þeim leik þótti Keisarinn sýna gríðarlega yfirvegun á vellinum og ótrúlegan þroska þegar Þýskaland vann Svíþjóð 2-1. 21 árs gamall fór hann á sína fyrstu lokakeppni með HM. Þar spilaði hann á miðjunni og fór alla leið í úrslitaleikinn með Þýskalandi en liðið tapaði þar í úrslitaleik gegn Englandi í framlengingu.

1966 og 1967 vann Bayern Vestur-Þýska bikarinn og Cup-Winners Cup síðara árið með sigri á Rangers (Þá var Keisarinn einungis 22 ára). Keisarinn var þá þegar orðinn fyrirliði Bayern enda gríðarlegur leiðtogi sem aðrir fóru eftir. Um 1968-69 fór Keisarinn að þróa áðurnefnda stöðu, nefnda ‘libero’, sem ég vil meina að menn hafi ekki hæfileika að spila í dag. Hann spilaði þessa stöðu hjá Bayern en Helmut Schoen þorði ekki að nota það hjá Þýskalandi fyrr en á EM 1972. Bayern vann Þýsku deildina 1969.

Á HM 1970 datt Þýskaland út í undanúrslitum gegn Ítalíu 4-3. Það sem er hins vegar merkilegt við þann leik er að Beckenbauer spilaði hann þegar hann var úr axlarlið, já ÚR AXLARLIÐ, með “axlaról” einhverja. Já hann hætti sko ekki þó að öxlin væri ekki í lið, ÓNEI – hann hélt áfram því hann ætlaði að sigra HM með sinni þjóð. Það dugði bara því miður ekki til. Sér maður svona í dag?

1971 varð hann fyrirliði Þýskaland og fékk loksins að spila sem ‘libero’ með Þýskalandi á EM 72. Það skilaði sér með því að Þýskaland urðu Evrópumeistarar og var Keisarinn kosinn knattspyrnumaður Evrópu það ár.

Á sínu þriðja HM (1972) var hápunktur ferils Keisarans þegar hann vann bikarinn stóra á eigin heimavelli eftir sigur á Hollendingum sem margir töldu ósigrandi á þeim tíma.

Hjá Bayern var nær linnulaus sigurganga. Liðið vann deildina 1972, 1973 og 1974. Þá varð liðið Evrópumeistari (Champions League í dag) ÞRJÚ ár í RÖÐ (74, 75 og 76). Liðið var svo sannarlega það langbesta í Evrópu.

Á EM 1976 fór Þýskaland alla leið í úrslitaleikinn en tapaði Þýskaland í vítaspyrnukeppni gegn Tékkóslóvakíu.

Keiarinn fór frá Bayern til Bandaríkjanna 1977 að spila með New York Cosmos þar sem hann vann þrjá meistaratitla. Hann kom svo aftur til Þýskaland 1980 og varð Þýskalandsmeistari 1982 (á sínu öðru ári) með Hamburg.

Eftir að Keisarinn hætti að leika gerðist hann þjálfari um stund og tók við Þýskalandi 1986 en undir hans stjórn spilaði liðið gríðarvel. 1986 tapar það í úrslitaleiknum gegn Argentínu 3-2 eftir að hafa lent 2-0 undir en jafnað ævintýrlega. Fjórum árum síðar þjálfaði hann sameinað lið Þýskalands sem vann HM í Ítalíu. Keisarinn varð eini maðurinn í sögunni sem hafði bæði unnið HM sem leikmaður og þjálfari.

Í dag er Keisarinn aðalmaðurinn hjá Bayern München þar sem hann ræður því sem hann vill ráða ásamt Karl-Heinz Rummenigge og Uli Hoeneß. Það er svo gaman að skjóta því inn að Beckenbauer gerði Bayern að meisturum sem þjálfari 1994.

Blindur maður sér að Keisarinn afrekaði meiru en Zidane (og reyndar meiru en aðrir menn í knattspyrnsögunni). Það sem einkenndi hann var það hve gríðarlegur sigurvegari hann var og var árangurinn eftir því. Hann var leiðtogi sem að samherjar virtu og fóru eftir. Keisarinn var gríðarlegur harðjaxl sem lét hluti eins og að vera úr axlarlið ekki aftra sig frá því að spila fótboltaleiki – hann gerði það sem hann gat fyrir sína þjóð hvernig sem heilsa hans var. Að lokum þá er Franz Beckenbauer maðurinn sem á hve mestan þátt í því að koma Bayern á meðal þeirra bestu í Evrópu og vera leiðandi lið í Evrópu um nokkurra ára skeið – þarna er ég ekki að tala heldur árangurinn.

Afrek sem leikmaður (með félagsliðum):

1974, 1975 1976: European Champions Cup winner 1967: European Cup Winners Cup winner 1969, 1972, 1973, 1974, 1982: German Championship winner 1966, 1967, 1969: 1971 German Cup winner 1977, 1978, 1980: US Championship winner

Árangur sem leikmaður (með landsliði):

1974: FIFA World Cup ™ winner 1966: FIFA World Cup ™ runner-up 1970: FIFA World Cup ™ third place 1972: European Championships winner 1976: European Championships runner-up

Stefán sendi inn - 08.07.06 12:15 - (
Ummæli #8)

Stefán - ókei, ég virðist hafa hitt á mikinn aðdáanda Beckenbauer hérna. :-) Þakka þér fyrir sögukennsluna en hún var í rauninni óþörf. Vissulega er ferill Keisarans glæstur en ef árangur væri það eina sem við dæmdum leikmenn eftir væru Beckenbauer, Maldini og Liverpool-maðurinn Phil Neal þrír bestu knattspyrnumenn allra tíma. Og Maradona kæmist ekki á lista yfir 250 bestu knattspyrnumenn sögunnar.

Eins og Einar Örn sagði, þá er erfitt að dæma menn frá mismunandi tímum. Beckenbauer tilheyrði öðrum tíma og þótt maður geti sagt með fullri vissu að ef hann væri spilandi í dag myndi hann aldrei geta unnið alla þessa titla með Bayern núna, þá rýrir það afrek hans ekki á neinn hátt. Ferill hans er stórkostlegur. Enn fremur, þá var ég sjálfur varnarmaður í mína tíð og hef því oft verið talsmaður þess að varnar- og miðjumenn njóti sannmælis, en oft eru það bara "lúxus-leikmennirnir" svokölluðu, töframennirnir með boltann og markaskorararnir, sem fá alla athyglina. Eins og söngvarar í rokksveit. En svona er þetta bara, og við erum að tala um töframennina hér. Beckenbauer, þrátt fyrir sinn frábæra leikskilning og ótrúlega feril, var ekki einn slíkur.

Dæmi: Steven Gerrard verður alltaf talinn betri leikmaður en Xabi Alonso, einfaldlega af því að hann skorar mörk í öllum regnbogans litum á meðan Alonso heldur sig meira til baka og stjórnar spilinu. Sanngjarnt? Nei, en svona er þetta bara. Annar þeirra er meiri "töframaður" og því þarf ekkert að ræða þetta.

Sama gildir um aðra knattspyrnumenn. Eins og Einar Örn sagði þá er munurinn á t.d. hafnabolta og knattspyrnu sá að við getum ekki treyst eingöngu á tölfræðina þegar kemur að knattspyrnu. Við verðum að treysta á það sem við, sem áhorfendur, upplifum. Tilfinningar spila stórt hlutverk þegar við horfum á knattspyrnu; þú getur hrifist af leikmanni sem skilaði engu í leik.

Ég sá ekki Beckenbauer spila á sínum tíma, enda ekki fæddur fyrr en 1980. Sama gildir því um margar hetjur á borð við Eusebio, Cruyff, Best, Pele og fleiri. Maradona man ég eftir frá Napolí-dögunum en hef svo auðvitað fræðst mikið um hans afrek eftir að hann hætti að spila. Sama gildir um Pele, og það er marktækt að hver einasti fjölmiðlungur í heiminum sem fjallar um kanttspyrnu - líka þeir þýsku - tala um það sem þekkta staðreynd að Pele og Maradona voru bestir. Ekki Beckenbauer, þótt frábær hafi verið, hann er þeim aðeins síðri að mati ALLRA íþróttafréttaritara sem ég hef lesið/séð/heyrt. Ég skora á þig að benda mér á eina grein sem heldur öðru fram.

Þannig að ég vinn með þekktar stærðir, sem ungur maður sem sá þessar hetjur flestar aldrei spila. Ég verð því að miða mig við Pele og Maradona, og álykta að ástæðan fyrir því að þeir séu þarna sé tvíþætt:

  1. Þeir voru töframenn með boltann, gátu gert hluti sem fæstir aðrir gátu gert og nýtt það sér og liðum sínum til góðs.
  2. Þeir náðu árangri á knattspyrnuvellinum.

Þessar tvær ástæður eiga vel við marga aðra, svo sem um fimmtíu aðra Brassa og Argentínumenn. En í Evrópu höfum við aldrei sannarlega eignast leikmann sem var bæði; Best, Cruyff og Eusebio voru töframenn en unnu ekki stærstu titlana, á meðan t.d. Beckenbauer og Maldini hafa unnið flest allt sem hægt er að vinna en voru ekki sömu töframenn með boltann og hinir fyrrnefndu.

Zidane er bæði. Í fyrsta sinn í Evrópuboltanum, að því er ég best veit, sjáum við leikmann sem hefur í rúm tíu ár gert hluti við knöttinn sem fáir aðrir í heiminum geta leikið eftir. Hann hefur gert þessa hluti bæði sér og liði sínu til framdráttar (ekki bara tilgangslaus skæri úti á velli heldur hlutir sem skila jafnan árangri og ríða baggamuninn, svo sem tvennan gegn Brasilíu '98 eða stórleikurinn gegn Ítalíu í úrslitum EM 2000). Hann hefur náð árangri sem leiðtogi og skærasta stjarna síns félagsliðs og landsliðs í heilan áratug, og þótt hann hafi ekki unnið jafn marga titla og Beckenbauer gerði (aftur, merki um breytta tíma) þá hefur hann samt unnið þá alla.

Þannig að jafnvel þótt þú hafir komið með þennan annars frábæra pistil um feril Keisarans (alltaf gaman að lesa svona) þá sannar það engu að síður ekki þitt mál. Mín skoðun stendur; Maradona og Pele eru þekktustu nöfn knattspyrnunnar og jafnan nefndir sem tveir bestu leikmenn hennar, en nú tel ég okkur óhætt að setja Zidane þeim við hlið.

Kristján Atli sendi inn - 08.07.06 16:52 - (Ummæli #14)

Kristján: Einar sagði ekki að munurinn á hafnabolta og knattspyrnu væri sá að við getum ekki treyst eingöngu á tölfræðina þegar kemur að knattspyrnu. Hann talaði um að þessi tölfræði væri til í hafnaboltanum. Það er enginn vandi að vera með tölfræði í fótboltanum líka (skoruð mörk, sendingar, titlar o.s.frv.), en sú tölfræði er ekki til - líkt og í hafnaboltanum. Það er sem sagt ekki verið að treysta á tölfræðina bara í hafnaboltanum!

Eins og ég sagði áður, þá treysti ég mér ekki til að setja Zizou á sama stall og Pele og Maradona. Þetta er vissulega þín skoðun og ég virði hana mjög (gæti orðið sammála þér eftir einhvern tíma :-) ). En þrátt fyrir að fyrsta svar Stefáns hafi verið í harðorðara laginu, þá þurfti hann ekkert að sanna sitt mál frekar en þú. Erum við ekki að tala um mismunandi skoðanir?

Það sem gerir líka þennan samanburð svo erfiðan, er það að jafnvel þótt menn segi að Beckenbauer hefði aldrei náð þessum árangri ef hann væri að spila í dag, þá vitum við það ekki fyrir víst! Beckenbauer gæti auðveldlega hafa aðlagast knattspyrnunni - við bara vitum það ekki. Svo getum við alveg farið aftur og spurt: Hefði Zizou verið jafngóður ef hann hefði verið að spila fótbolta 1950-1970?

Hvernig getur fólk "almennt" talið að heimsmeistaralið Brassa árið 1970 sé sterkasta landslið sögunnar? (það hefur verið talað um þetta, t.d. í einhverjum af þessum útsendingum núna frá HM)

Og það getur vel verið að mestöll athyglin sé á töframönnunum svokölluðu, en það segir heldur ekki neitt ákveðið - athygli þýðir ekki það sama og gæði. Það hefur t.d. enginn ennþá sannað fyrir mér (hvernig er það hægt? :-) ) að Zidane hafi verið betri á þessu móti heldur en Cannavaro.

Kannski þarf að líða einhver tími þar til maður getur séð þróunina og sett Zidane á þennan stall? Kannski á Ronaldinho eftir að verða sá allra besti í sögunni? Ég veit það ekki, en ég veit það að menn eins og Cannavaro á þessu móti, heilla mig jafnmikið og Zidane gerði árið 1998.

Ég hlakka mikið til leiksins á morgun (eða á "eftir", þar sem þessi texti er skrifaður seint um nótt :-) - og nei, ég er ekki búinn að bragða áfengi í kvöld þannig að ég veit hvað ég er að segja...)

Doddi sendi inn - 09.07.06 04:51 - (Ummæli #17)

Þannig að varnarmenn og aftursæknir miðjumenn geta ekki verið taldir með þeim bestu? Þvílík þvæla! Eru það bara attacking midfielders sem geta verið taldir bestir? – þvílíkur málafluttningur.

Bara “töframenn” sem geta verið taldir þeir bestu! Það er ekkert annað.

Árangurinn er ekki það eina sem ég bendi á, alls ekki. Ég bendi meðal annars á það að Bayern hafi verið í næst efstu deild þegar hann kom til þeirra. Í hans tíð unnu þeir svo Meistaradeildina (í dag) 3 ár í röð. Er það kannski ekkert afrek og bara eðlilegur hlutur?

Eins og menn vita er sama Bayern lið meðal þeirra bestu í heiminum í dag. Þar hafa áhrif og bylting Beckenbauer hjá félaginu gríðarlega mikið að segja. Eru það engin áhrif? Engin áhrif á fótboltann í dag?

Hvernig getur þú sagt að hann myndi aldrei vinna þessa titla í dag? Það finnst mér ahugavert. Ert þú kannski alvitur? Það sem hann hafði voru gríðarlegir leiðtogahæfileikar – eitthvað sem er gríðarleg þörf á í dag, hann var persónuleiki og fékk aðra með sér. Hann hafði óaðfinnanlegan leikskilning sem myndi hjálpa honum hvaða áratug sem er í fótboltanum.

Xabi Alonso þykir mér betri og mikilvægari leikmaður en Steven Gerrard – bara svo það sé á hreinu. Má ég ekki hafa þá skoðun þar sem hann er ekki “töframaður”?

Alla vega finnst mér þetta ótrúlegt svar hjá þér. Beckenbauer hafði engin áhrif – þó að hann hafi gert Bayern að besta liði Evrópu úr neðri deildarliði. Bara “töframenn” geta verið taldir þeir bestu og segir svo aftursæknir miðjumenn og varnarmenn geta ekki verið taldir bestir!

Stefán sendi inn - 09.07.06 19:36 - (
Ummæli #20)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.








:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar?




Flokkar

Almennt · Auglýsingar · Enska bikarkeppnin · Enski Boltinn · Fjölmiðlar · HM 2006 · HM Félagsliða · Kannanir · Landslið · Leikmannakaup · Leikmenn · Leikskýrslur · Leikvangur · Liverpool · Meiðsli · Meistaradeild · Myndbönd · Sjónvarp · Slúður · Topp10 · Um síðuna · Upphitun · Vangaveltur · Veðmál · Þjálfaramál ·

Um Síðuna

Um Síðuna

Um höfundana

Aggi

Einar Örn

Hjalti

Kristján Atli

Sigursteinn

Síðustu leikir

·Maccabi Haifa 1 - Liverpool 1
·Sheffield United 1-1 Liverpool
·Liverpool - Chelsea 2-1
·Liverpool 2 - Maccabi Haifa 1
·Mainz 5 - L'pool 0

Síðustu Ummæli

Stefán: Þannig að varnarmenn og aftursæknir miðj ...[Skoða]
villi sveins: Finnst engum öðrum en mér erfitt að tala ...[Skoða]
Björn Friðgeir: Nei, það er ekki þannig að það séu komni ...[Skoða]
Doddi: Kristján: Einar sagði ekki að munurinn á ...[Skoða]
Krizzi: Eins og Einar og Hafliði benda á þá erfi ...[Skoða]
Gummi: Þú leggur ekki að jöfnu Zidane og Marado ...[Skoða]
Kristján Atli: Stefán - ókei, ég virðist hafa hitt á mi ...[Skoða]
Biggi: Mér finnst Zidane vera besti leikmaður s ...[Skoða]
Hafliði: Já sannarlega glæsilegur árangur hjá "ke ...[Skoða]
Kristinn J: Einhvernveginn grunar mig að annaðhvort ...[Skoða]

Síðustu færslur

· West Ham á morgun
· Lucas Neill á leiðinni?
· Riðill C!
· Jöfn deild í byrjun ...
· Nýr haus
· Sissoko frá í 2 vikur

Tenglar

Einar :: EOE.is

Kristján Atli.com


NewsNow Liverpool

SKY

Liverpool Echo

BBC

Liverpool (official)

YNWA spjallborð

RAWK spjallborð

Soccernet

The Guardian

Daily Telegraph

Independent

LFC History

Liverpool.is

This Is Anfield

UEFA


Staðan í ensku

Tölfræði í ensku


The Liverpool Way Blog

RAWK blog

Kop Blog




Við notum
Movable Type 3.2

Efni þessarar síðu er birt undir skilmálum frá Creative Commons.

Creative Commons License