02. júlí, 2006
“Við fórum kannski hægt af stað, en þær þjóðir sem voru að spila best í byrjun móts munu allar horfa á undanúrslitin í sjónvarpinu.”
-Raymond Domenech, þjálfari Frakka

Michael Ballack. Francesco Totti. Luis Figo. Zinedine Zidane. Fjórar af stærstu og mestu hetjum evrópskrar knattspyrnu síðasta rúma áratuginn, og burtséð frá áliti manna á hverjum og einum þeirra þá er eitthvað svo rétt við það að einn þeirra muni hampa heimsmeistaratitlinum eftir viku. Jafnvel þótt Fabio Cannavaro sé fyrirliði Ítala, og ekki Totti, þá þekki ég nokkra Ítali sem munu láta eins og allt sé gott í heimi vorum ef Totti fær að halda á styttunni þungu áður en hans ferli lýkur.
Eins og Raymond Domenech sagði eftir frækinn sigur á núverandi heimsmeisturum Brasilíu í gær, þá skiptir ekki mestu máli að byrja vel heldur að enda vel. Við Liverpool-menn þekkjum þessi fræði; þegar okkar menn töpuðu fyrir Olympiakos og Mónakó á útivelli, og spiluðu frekar illa, þá grunaði engann að nokkrum mánuðum síðar myndi Steven Gerrard lyfta Evrópubikarnum í Istanbúl (besta dæmi sem ég þekki um karmískt réttlæti heimsins, það sem Þjóðverjar, Ítalir, Portúgalir og Frakkar láta sig nú dreyma um). Það skiptir öllu að enda keppnina vel.
Hverjir munu standa uppi sem sigurvegarar? Margir veðja á að heimamenn fari alla leið, úr því þeir gátu unnið Argentínu, og benda þar á hina klassísku seiglu sem virðist vera hluti af súrefninu í Þýskalandi. Aðrir segja að Frakkarnir séu líklegir, þar sem í þeirra röðum séu enn margir leikmenn sem hafa farið alla leið áður og vita hvað til þarf. Enn aðrir segja svo eflaust að Ítalir hljóti að vinna þetta, þar sem hið dramatíska “slys” Gianluca Pessotto fyrir tæpri viku síðan hafi þjappað hóp þeirra saman og myndað þéttari einhug en fyrr, á meðan síðasti hópurinn vill meina að Big Phil Scolari, landsliðsþjálfari Portúgala, einfaldlega geti ekki tapað leik í Heimsmeistarakeppni.
Allt góðar og gildar ástæður fyrir sigri á HM, og allt eru þetta góðir leiðtogar og vel hæfir til að leiða lið sín til sigurs í stærstu íþróttakeppni heims. En það er nú einu sinni svo í knattspyrnunni að ekkert er fyrirfram öruggt; það er eitt af því sem gerir hana svo skemmtilega. Og rétt eins og Þjóðverjar gátu unnið Argentínumenn, sem flestir héldu að væru að innbyrða þessa keppni frekar létt, þá gætu þeir tapað fyrir Ítölum einmitt þegar engir nema Ítalir trúa að þeir geti tapað á heimavelli. Og rétt eins og Zidane reis upp úr ösku eigin ferils eins og fönix og hóf sig hátt til flugs í gær gegn Brasilíumönnum (besta frammistaða eins leikmanns í keppninni, ekki spurning) gæti Figo fellt hann á eigin bragði nú þegar allir halda að Frakkar séu ósigrandi.
Fyrir mótið var ég næsta viss um að Brasilíumenn yrðu ekki stöðvaðir. Í raun trúði ég því enn ekki að þeir gætu tapað fyrr en svona kortér var eftir í leik þeirra gegn Frökkunum. Í upphafi móts hugsaði ég fyrst með mér að kannski væri tími Spánverjanna loks kominn (hversu vitlaus getur maður verið?) og svo að Argentínumenn væru of góðir til að vinna þetta ekki. Nú síðast í gærmorgun fann ég svo innilega á mér að Englendingar gætu farið alla leið að ég var hreinlega steinhissa að sjá þá tapa fyrir Portúgölum.
Í dag finnst mér Zinedine Zidane vera langbesti leikmaður sem ég hef verið svo heppinn að sjá spila á minni ævi, Þjóðverjar vera sannarlega ósigrandi á heimavelli og algjörlega ómögulegt að hugsa til þess að Chelsea vinni ekki Englandsmeistaratitilinn á næstu leiktíð. En ég hef verið viss um margt í knattspyrnu áður, og jafnharðan verið minntur á að ekkert er fyrirfram öruggt. Þannig að ég býst við að vera leiðréttur; fyrst í undanúrslitum Heimsmeistarakeppninnar og svo vonandi í vetur líka.
Hvað halda menn? Hverjir verða Heimsmeistarar í knattspyrnu árið 2006? Skráið ykkar skoðun hér í dag, svo þið getið sagt “I told you so” við okkur hina eftir viku.