25. júní, 2006

Ókei, tveir leikir í dag en ég ætla bara að fjalla um einn. Fyrst unnu Englendingar nauman 1-0 sigur á Ekvador í einum leiðinlegasta leik mótsins. Ef Beckham hefði ekki sett þessa aukaspyrnu inn hefðu Englendingar ekkert gert til að vinna þann leik, þannig að þeir verða að gera betur í næstu umferð ef ekki á að fara illa.
Í seinni leiknum mættust síðan Hollendingar og Portúgalir, og þótt aðeins hafi verið skorað eitt mark var þetta einn skemmtilegasti og dramatískasti leikur keppninnar hingað til. Portúgalir unnu á endanum 1-0 eftir að Maniche skoraði í fyrri hálfleik, en alls fengu fjórir leikmenn að líta rauða spjaldið, eða tveir úr hvorum liðum.
Ég ætla ekki að ræða spjöldin sem mér fannst öll vera réttlát. Ég ætla heldur ekki að ræða Portúgalina, sem eru með eitt leiðinlegasta liðið í keppninni og eru svo óheiðarlegir að það hálfa væri nóg. Þeir áttu engu að síður sigurinn í þessum leik skilinn, og það er það sem ég ætla að ræða. Eins og glöggir lesendur síðunnar hafa tekið eftir berum við Einar Örn mjög sterkar taugar til hollenska liðsins, en fyrir utan leikmenn Liverpool í sínum landsliðum er lið Hollands jafnan það eina sem ég held með í stórmótum. Þetta tengist þjálfara liðsins, Marco Van Basten, allmikið því það var í blómatíma hans og hinna stjarnanna í gullliðinu sem ég féll fyrst fyrir Hollendingum. Þannig að í kvöld mætti segja að hafi orðið eilítið stjörnuhrap hjá mér, þar sem ég sá að þjálfarinn Van Basten kemst ekki með tærnar þar sem leikmaðurinn Van Basten hafði hælana.
Fyrst ætla ég að nefna það sem ég ætla ekki að skamma hann fyrir: liðsvalið. Ég var sammála því, þrátt fyrir gagnrýni annarra. Hann stillti upp sömu leikaðferð og í riðlakeppninni og sú aðferð hafði skilað ágætis árangri hingað til, þótt liðið hafi ekki beint sprungið út með látum eins og t.d. það spænska. Þá fannst mér ákvörðun hans að taka Ruud Van Nistelrooy út úr byrjunarliðinu réttlætanleg, því þótt hann hafi skorað eitt mark í keppninni (einu meira en Dirk Kuyt) þá var hann ekkert búinn að gera fyrir liðið í þremur leikjum en Kuyt átti góðan leik gegn Argentínu.
Síðan hófst þessi leikur og það kom fljótlega í ljós að Big Phil Scolari hafði undirbúið sína menn feykivel og Portúgalirnir áttu svör við öllu sem Hollendingarnir reyndu. Og það var þá, í hita leiksins, sem vankostir Van Bastens sem þjálfara sýndu sig í öllum regnbogans litum. Þetta fór úrskeiðis, meðal annars:
Arjen Robben og Robin Van Persie. Á meðan hinir hafa verið að syngja í grúppu í þessari keppni, og meira að segja Cristiano Ronaldo og Luis Figo sýndu samhug með liði Portúgala, héldu þessi tvö ungstirni áfram að syngja inná sitt hvora sólóplötuna á köntunum. Hversu margar fyrirgjafir framleiddu þeir fyrir Dirk Kuyt, og svo Jan Vennegor of Hesselink, í þessum leik? Ég taldi þær og þær sem voru ekki alveg út úr kú voru heilar tvær talsins! Robben þarf að þroskast, hann er einn hæfileikaríkasti knattspyrnumaður í heiminum en honum er algjörlega fyrirmunað að spila fyrir liðið, hann ætlar að gera þetta allt sjálfur og sýna hvað hann er góður. Hinum megin er Van Persie ekki mikið skárri, en hann náði þó betri árangri gegn Nuno Valente í kvöld en Robben, en hinn frábæri Miguel tók hann og snýtti honum í kvöld. Vandinn var bara sá að þegar Van Persie komst framhjá Valente leitaði hann alltaf að skotinu, í stað þess að gefa boltann. Þetta kom Marco Van Basten mikið við, því þar sem þetta var augljóslega ekki að ganga hjá Van Persie og Robben bjóst ég við breytingu strax í hálfleik, einhverju nýju í vængspili Hollendinga. Sú breyting kom þó aldrei, augljóslega af því að Van Basten átti engin önnur spil uppí erminni.
Ruud Van Nistelrooy. Á bekknum í 96 mínútur. Mörk skoruð í kvöld? 0. Þegar þú ert einum leikmanni fleiri, í stórsókn en vantar mann inní teiginn til að klára færin, og hefur bara 10 mínútur til að jafna leikinn ellegar detta út í 16-liða úrslitum HM í knattspyrnu, ÞÁ SETURÐU RUUD VAN FOKKING NISTELROOY INNÁ HELVÍTIS VÖLLINN! Í alvöru. Þótt hann sé leikmaður manchester united
og þótt hann sé hálfviti sem hafi æst sig ofan í rassgat og rifist við Van Basten á æfingu í gær eftir að ljóst varð að hann myndi byrja á bekknum í kvöld. Jafnvel þá, þá brýturðu odd af oflæti þínu og setur manninn sem skorar fleiri mörk en næstum því hvaða annar framherji sem er í heiminum inná völlinn! Van Basten lét hér persónulegar deilur sínar við Van Nistelrooy eyðileggja heilt heimsmeistaramót fyrir Hollendingum. Sniðugt!
Jan Vennegor of Hesselink? Og svo bara dæla boltanum inná völlinn? Á tímabili bjóst ég við að hann myndi setja Robert Huth inná líka, þá hefði ég farið að leita að José Mourinho þarna á hliðarlínunni. Þú ert með TÓLF VARAMENN TIL AÐ VELJA ÚR, og þú setur slánann inn í teiginn og lætur menn svo bara dæla honum inní? Ekki sniðugt. Ég meina, Hollendingarnir voru þó að komast í færin þangað til Vennegor of Hesselink kom inná, eftir það fóru þeir bara í dælingar að fyrirskipan þjálfarans. Þeir hefðu sennilega jafnað á endanum ef hann hefði ekki skipt neinum fleirum inná, en Jan Vennegor of Hesselink? Piff!
Já. Ég er pirraður. Hollendingarnir eru vissulega með ungt lið og þessi keppni kom sennilega tveimur árum of snemma fyrir þá. Ég mun sennilega búast við meiru af þessum strákum á EM 2008. En kvöldið í kvöld var samt algjört klúður af hálfu Van Basten. Og svo er það spurning hvað verður um hann. Þetta var jú fyrsti tapleikur hans sem þjálfari Hollendinga, í rúmlega 20 leikjum á tveimur árum. Er ekki frekar hart að ætla að láta hann fara eftir sinn fyrsta tapleik? Það er spurning hvort hann verður áfram, eða hvort hann hreinlega getur það því hollenska pressan mun sennilega slátra honum á morgun. En það sýndi sig greinilega í dag hver munurinn er á óreyndum manni eins og Van Basten og hinum stórsnjalla Big Phil Scolari, sem sýndi enn og aftur hvers vegna hann er einn besti landsliðsþjálfari í heiminum. Eins leiðinlegir og Portúgalirnir eru þá eru þeir fjandi góðir, og miklu beittari og öflugri í sínum aðgerðum en Hollendingarnir í kvöld.
Þeir mæta Englendingum á föstudag og miðað við leik liðanna í dag sé ég lítið annað í spilunum en að Portúgal vinni þann leik. Jafnvel án Deco og Cristiano Ronaldo ættu þeir samt að hafa sigur gegn þeim ensku. Af hverju? Jú, enn og aftur er það Big Phil sem mun ríða baggamuninn. Því ef Marco Van Basten er gallaður þjálfari þá kemst hann ekki með tærnar þar sem Sven Göran Eriksson hefur hælana í þeim efnum. Við skulum orða það svo: ég var fúll eftir kvöldið en hafði þó geð í mér til að skrifa reiðipistil um Van Basten. Get ekki sagt það sama um Sven Göran Eriksson; því færri orð sem höfð eru um hann, því betra …