24. júní, 2006
Jæja, 16-liða úrslitin hófust með háværum hvelli í dag þar sem heimamenn Þjóðverjar og Argentínumenn tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitunum, en þessar tvær þjóðir munu mætast á föstudaginn kemur.
Þjóðverjar unnu stórgóðan 2-0 sigur á Svíþjóð í leik sem var einhver mesta einstefna mótsins hingað til. Á pappírnum átti þetta að verða hörkuleikur en eftir ellefu mínútna leik var Lukas Podolski búinn að skora tvisvar, eftir þrjátíu og fimm mínútur voru Svíar orðnir einum færri og áttu aldrei séns í þessum leik. Henrik Larsson skaut yfir úr vítaspyrnu (sem var rugl dómur) í seinni hálfleik en að öðru leyti var sigur heimamanna aldrei í hættu og ef þeir geta spilað svona gegn Argentínumönnum eru þeir til alls líklegir.
Í seinni leik dagsins unnu Argentínumenn svo 2-1 sigur á Mexíkó í stórskemmtilegum leik, þar sem Maxi Rodriguez skoraði sigurmarkið í fyrri hluta framlengingar með sannkölluðu draumaskoti, eftir að Rafael Marquez hafði komið Mexíkóum yfir og Hernan Crespo jafnað á fyrstu tíu mínútum leiksins. Mexíkóar voru betri aðilinn í fyrri hálfleik en í þeim seinni jafnaðist þetta aðeins út og einkenndist leikurinn yfir heildina af mikilli stöðubaráttu, mikilli refskák. En á endanum voru Argentínumenn vel að þessum sigri komnir, og Maxi Rodriguez er hetja þeirra í dag.
Sem sagt, fyrsti leikur 8-liða úrslitanna verður viðureign ÞÝSKALANDS og ARGENTÍNU. Það verður klárlega rosalegur slagur, tvær af stærstu knattspyrnuþjóðum allra tíma berjast um sæti í undanúrslitum keppninnar. Ég hélt ég myndi aldrei segja eftirfarandi orð, en Þjóðverjar eru með eitt skemmtilegasta liðið í þessari keppni og Argentínumenn hafa verið að spila frábærlega og virðast með ofursterkt lið sem er líklegt til að fara alla leið. Það verður flugeldasýning á föstudaginn!
Á morgun mæta Englendingar svo Ekvador í fyrri leik dagsins og svo mætast Hollendingar og Portúgalir í leik sem er algjörlega ómögulegt að spá fyrir um. Mótið verður meira spennandi með hverjum deginum, enda er það yndislegt að horfa á HM!