Ég verð að segja að þegar ég heyrði fyrst að SGE hefði valið Theo Walcott í landsliðið fannst mér það hugað val, en um leið meika sens að vissu leyti. "Lærdómsrík reynsla fyrir strák," hugsaði ég með mér. "Englendingar græða á þessu til lengri tíma."
En svo hefur annað komið á daginn. SGE notar hann bara ekki undir neinum kringumstæðum, alls alls ekki. Ekkert. Sem þýðir það að hann er ekki að læra neitt af þessu móti, hann er bara í bestu sætunum á vellinum sem áhorfandi. Hann verður ekkert reynslunni ríkari eftir fjögur ár ef hann hefur enga reynslu úr þessari keppni til að byggja á.
Að mínu mati skaut SGE sig alvarlega í fótinn með þessu landsliðsvali. Hann skildi eftir tvo sjóðheita, enska framherja í Darren Bent og Jermain Defoe og tók Walcott frekar. Og ætlar sér svo ekkert að nota Walcott. Það væri kannski ásættanlegt val að velja ungling í liðið sem menn ætla sér ekkert að nota, ef þeir Rooney, Owen og Crouch væru allir heilir í mótinu og engin ástæða til að ætla annað en að þeir yrðu allir með af krafti.
En þeir voru það ekki. Crouch var og er heill. Rooney var í kapphlaupi við tímann og það var ekkert víst hvort hann yrði nógu góður í tæka tíð til að spila í þessari keppni, og jafnvel nú er ekki öruggt að meiðslin hans taki sig ekki upp aftur í næsta leik.
Og Owen var ekki búinn að spila nema 27 mínútur á þessu ári. Tuttugu og sjö mínútur.
Sem sagt; Crouch, sem er góður í því sem hann gerir vel en annars takmarkaður framherji, Owen sem hefur ekkert spilað í ár og Rooney sem var meiddur. FRÁBÆR FRAMLÍNA!
Ef Rooney eða Crouch meiðast á næstunni liggur við að maður segi bara gott á Sven Göran Eriksson. Þessi landsliðshópur hans er brandari, hann er búinn að gera sjálfum sér miklu erfiðara fyrir, algjörlega að óþörfu. Ímyndið ykkur hvað hann væri miklu betur settur ef hann hefði Bent eða Defoe á bekknum í stað Walcott, sem hann treystir augljóslega ekki í þessa leiki.
Hvað Owen sjálfan varðar er þetta sorglegt en alls ekki nýjar fréttir. Þetta er ástæðan fyrir því að það kom aldrei til greina að eyða 16m punda í hann fyrir ári síðan. 16 milljónir fyrir leikmann sem spilar í mesta lagi hálft tímabilið er algjör sóun á peningum.
Ég er feginn að við erum að fá Bellamy.