20. júní, 2006
Jæja, þá er búið að spila til lykta A- og B-riðlana og orðið ljóst hverjir mætast í fyrstu tveimur leikjum 16-liða úrslitanna á laugardaginn.
Eftir að Þjóðverjar unnu auðveldan 3-0 sigur á Ekvador, sem hvíldu marga menn í dag, og Englendingar og Svíar gerðu 2-2 jafntefli er ljóst að það verða annars vegar England og Ekvador og hins vegar Þýskaland og Svíþjóð sem mætast á laugardaginn.
Mér líst vel á þessa leiki. Ekvadorum virtist vera sama um sigur í riðlinum sínum í dag og töpuðu frekar mótbárulaust fyrir heimamönnum í dag, en það er ekki þar með sagt að Englendingar valti yfir þá. Sérstaklega ekki því eins og kom í ljós í kvöld er vörn Englendinga ekki eins skotheld og menn héldu, Paul Robinson er ekki að eiga góða daga í markinu og þá vantar ennþá einhvern neista fram á við. Ofan á þetta bætist að Michael Owen meiddist strax á fyrstu mínútu í kvöld og er væntanlega úr leik á HM, auk þess sem Rio Ferdinand er eitthvað tæpur og Gary Neville gæti misst af næstu leikjum. Í ofanálag þá er Frank Lampard einfaldlega fjarverandi í þessari keppni, Wayne Rooney ekki kominn í almennilegt leikform og þá er auðvelt að sjá hvers vegna viðureign þessara tveggja liða á laugardag gæti orðið stórskemmtileg. Sérstaklega ef Ekvadorar skora snemma í leiknum, þá gæti þetta orðið rosaleg viðureign.
Í hinum leiknum munu heimamenn, Þjóðverjar mæta Svíum og það ætti líka að vera hörkuleikur. Þjóðverjar unnu góðan sigur í frekar tilgangslausum leik í dag, úr því að Ekvadorar ákváðu að vera ekki með, en á heildina hafa heimamenn heillað mig eilítið í keppninni í ár. Jú, vörnin þeirra er vafasöm ef sett undir pressu og eins og Svíar sýndu gegn Englendingum í kvöld þá geta þeir pressað lið mjög stíft og sótt grimmt. Í sókninni eru Þjóðverjar svo með hinn unga Podolski, sem komst loks á skrá í dag með mark, og markahæsta mann mótsins til þessa, hinn frábæra Miroslav Klose. Þannig að vörn Svíanna mun hafa nóg að gera á laugardag.
Sem sagt, laugardagurinn er orðinn klár og það er bara fyrsti leikdagur af fjórum í 16-liða úrslitunum. Á morgun kemur í ljós hvaða lið fara upp úr C- og D-riðli og hverjir mæta hverjum á sunnudaginn kemur. Ég get ekki beðið.
Hvað halda menn? Geta Svíar slegið heimamenn út? Verða Ekvadorar öskubuskuliðið í ár eða eru Englendingar of sterkir?