16. júní, 2006

Ég veit hverjir verða heimsmeistarar í knattspyrnu. Fékk vitrun fyrr í dag.
Málið er ekki bara það að Argentínumenn hafi á að skipa mjög reyndum og færum markverði í Abbondanzieri. Málið er heldur ekki það að þeir séu með einn mesta markaskorara í heiminum, Hernan Crespo, í fremstu víglínu. Málið er heldur ekki það að þeir séu með mjög leikreynda, skipulagða og illvíga vörn. Málið er heldur ekki það að á miðjunni séu tveir leikmenn, Cambiasso og Mascherano, sem eru algjör mulningsvél.
Og málið er heldur ekki það að þetta sé landslið sem býður upp á hvorki fleiri né færri en fimm töframenn: Javier Saviola, Leo Messi, Carlos Tevez, Pablo Aimar og Maxi Rodriguez.
Málið er það að í hjarta þessa liðs er leikmaðurinn sem mun að öllum líkindum verða stjarna þessarar heimsmeistarakeppni. Það er að segja, ef Argentínumenn endast mótið með sama hætti og þeir hafa spilað fyrstu tvo leiki sína. Við sáum marga leikmenn skora í dag og marga leikmenn leggja upp mörkin, en glöggir menn hafa líka séð að allar sóknirnar þeirra fara í gegnum sömu gatnamótin.
Þessi gatnamót heita Juan Roman Riquelme og þau eru einn besti leikmaður í heiminum. Ekki af því að hann getur tekið leikmenn á eins og Leo Messi getur, ekki af því að hann skorar jafn mikið og Hernan Crespo, og ekki af því að hann vinnur varnarvinnuna sína jafn vel og Javier Mascherano. Heldur af því að í huganum er hann einn snjallasti leikmaður sem ég hef séð. Við höfum einn svona hjá okkur í Liverpool, hann heitir Xabi Alonso og er að fara á kostum með Spánverjum. Riquelme er leikmaður sem Alonso ætti að líta upp til, því hann er sennilega sá eini í heiminum í dag sem er betri í sínum sérflokki en Alonso er.
Riquelme er svo snjall leikmaður að hann þarf ekki að hlaupa hratt eða vera snöggur í hreyfingum. Hugurinn hans vinnur á öðrum hraða en hugur annarra leikmanna, þannig að það er eins og hann sé með sekúndu í forgjöf á alla aðra þegar kemur að því að senda boltann frá sér. Hann sér möguleikann, sendir í svæði sem við hin þurfum þrjár endursýningar til að bera kennsl á, og svo sekúndu síðar rennur upp fyrir varnarmönnum það ljós að það sé búið að spila þá upp úr skónum.
Ef Riquelme heldur áfram að sýna okkur af hverju Maradona segir að hann sé mikilvægasti leikmaður Argentínu síðan hann sjálfur var að spila, af hverju José Pekerman kaus að byggja liðið sitt upp í kringum það að Riquelme gæti spilað sína bestu stöðu (ertu að hlusta, Sven Göran?), þá verða Argentínumenn heimsmeistarar. Það getur ekkert lið stöðvað þá eins og þeir spiluðu í dag!