11. júní, 2006
Í dag spiluðu tvö uppáhaldsliðin mín á HM leiki, Holland og Mexíkó.
Ég hef haldið með Hollandi verulega lengi. Ég man að þegar ég var pínulítill þá hélt ég uppá Michel Platini og franska landsliðið. Sú aðdáun dó þó á einhverjum tíma niður. Í stað hennar þá varð Ruud Gullit átrúnaðargoðið mitt. AC Milan var mitt uppáhaldslið í Evrópuboltanum og veggirnir heima hjá mér voru þaktir plakötum af Gullit, van Basten og Riikjard. Þegar ég var 11 ára sá ég svo Hollendinga vinna EM keppnina á eftirminnilegan hátt. Síðan þá hafa mín landslið ekki unnið á stórmóti.
Ég hef haft sterkar taugar til Hollendinga síðan þá og þeir hafa verið mitt helsta lið á stórmótum. Allavegana, ég horfði á þá vinna Serbíu og Svartfjallaland (SOS) í dag. Leikurinn var sæmileg skemmtun, en þó olli hollenska landsliðið mér að vissu leyti vonbrigðum í þessum leik. Í raun má segja að Arjen Robben hafi verið allt í öllu í sóknarleik liðsins. Mér fannst miðjan og þá sérstaklega van Bommel og Cocu aldrei ná sér neitt sérstaklega á strik í leiknum. En það var samt fínt að ná sigri gegn þessu sterka liði SOS.
Fyrir okkur Liverpool menn, þá var Jan Kromkamp á bekknum allan tímann. Dirk Kuyt kom inná fyrir van Nilsteroy og virkaði ágætlega. Hann vann talsvert mikið aftur og átti góðan þátt í spilinu. Hann kom sér líka nokkrum sinnum í ágæt færi, en Arjen Robben var full markagráðugur í dag.
Hitt liðið mitt, sem spilaði í dag er Mexíkó. Þegar ég var tvítugur vann ég hjá Chupa Chups í Mexíkóborg. Eftir það hef ég ávallt haft ákaflega mikið álit á Mexíkó og íbúum þess frábæra lands. Áhugi þeirra á fótboltalandsliðinu hreif mig líka með og síðan þá hef ég alltaf haft sterkar taugar til Mexíkó.
Allavegana, þeir unnu Írani 3-1 í dag. Íran kom talsvert á óvart í leiknum og þeir voru sterkir í fyrri hálfleik. Í þeim seinni kom þó á endanum í ljós styrkur Mexíkóa og þeir unnu á endanum góðan sigur. Rafael Marquez var algjörlega frábær í leiknum. Hann spilar á miðjunni fyrir Mexíkó og var undirstaðan í flestöllum aðgerðum þeirra. Þvílíkur leikmaður. Lofar góðu fyrir framhaldið. Mexíkó ætti að fara ásamt Portúgal áfram úr þessum riðli.
Svo horfði ég með öðru auganu á Portúgal-Angóla, sem var skemmtilegur leikur. Ég hélt með Angóla í leiknum og það lið kom mér á óvart með að taka áhættu. En auðvitað voru Portúgalar of sterkir fyrir þá.