26. apríl, 2006
Ok, það liggur við að ég lýsi mig vanhæfan til að skrifa leikskýrslu um þennan leik. Á sama tíma og varalið Liverpool mætti West Ham í tilgangslausum leik var nefnilega hitt uppáhaldsliðið mitt Barcelona að spila við Milan í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.
Þess vegna var ég að flakka ansi mikið á milli stöðva. Og það endaði þannig að ég horfði umtalsvert meira á Barcelona leikinn.
En allavegana, Rafa ákvað að stilla upp hálfgerðu varaliði í leiknum
Dudek
Finnan - Carragher - Traoré - Warnock
Kromkamp - Sissoko - Hamann - Cissé
Fowler - Morientes
Þannig að þessi leikur segir varla mikið um bikarúrslitaleikinn. Af þessu byrjunarliði er í raun bara líklegt að 3 byrji úrslitaleikinn, það er Finnan, Sissoko og Carragher.
En allavegana, Liverpool byrjaði betur og eftir fínan undirbúning frá Momo Sissoko fékk Djibril Cisse boltann við vítateigshornið og hann þrumaði boltanum í nærhornið framhjá Walker, slöppum markmanni West Ham. Ef að Roy Carroll nær sér ekki fyrir úrslitaleikinn, þá er ljóst að Walker gæti verið veikur hlekkur á þessu West Ham liði.
En allavegana, ég missti af slatta það sem eftir var fyrri hálfleiks, en Liverpool var ívið sterkara lið.
Í byrjun seinni hálfleiks þá léku West Ham menn sig listilega í gegnum Liverpool vörnina, sem var alveg útá þekju og Reo-Cooker setti boltann framhjá Dudek í markinu. Staðan orðin 1-1.
En Djibril Cisse kláraði leikinn fyrir okkur. Hann fékk langa sendingu inn fyrir frá Robbie Fowler, stakk vörnina af og skoraði svo í gengum klofið á Walker í markinu. 2-1. Vegna spennu í Meistaradeildarleiknum missti ég svo af síðustu mínútunum.
Það, sem helst bar til tíðinda var að Luis Garcia var rekinn af velli. Ég sá atvikið aðeins í endursýningu og gat ekki fyrir mitt litla líf skilið af hverju Luis Garcia var rekinn útaf. Einsog ég sá þetta var brotið á Garcia, hann laminn í framan og fyrir það fékk hann rautt spjald, ásamt West Ham leikmanninum. Kannski að einhver skýri þetta betur út fyrir mér í ummælunum.
Maður leiksins: Af því, sem ég sá var Momo að leika virkilega vel. En Djibril Cisse skoraði tvö mörk í leiknum og fyrir það er hann maður leiksins.
En allavegana, þá er bara einn leikur eftir í deildinni og svo bikarúrslitaleikurinn. Varaliðið okkar vann West Ham og því ætti aðal-liðið að gera það líka, en þó veit maður aldrei hvernig hlutirnir fara í bikarnum.