beach
« Byrjunarliðið gegn Blackburn komið. | Aðalsíða | Þriðja sætið okkar »

16. apríl, 2006
Blackburn 0 - L'pool 1

Jæja, okkar menn unnu verðskuldaðan útisigur á Blackburn Rovers í dag og skelltu sér þar með í 73 stig í deildinni. Fyrir vikið er pressunni viðhaldið á manchester united í þessari baráttu um annað sætið, þótt enn þurfi ansi mikið að gerast til að þeir missi okkur fram fyrir sig, og við getum líka sagt að hér með sé þriðja sætið endanlega í höfn.

Það var nokkuð um tíðindi fyrir þennan leik og í honum sem gætu haft áhrif á undanúrslitaleikinn í FA Bikarnum gegn Chelsea um næstu helgi. Fyrir leik kom í ljós að þeir Peter Crouch og Steven Gerrard væru ekki einu sinni í hópnum, og Harry Kewell var hvíldur á bekknum. Hvort að þeir Crouch og/eða Gerrard eru mikið meiddir eða voru bara hvíldir verður að koma í ljós, en við vonum náttúrulega að þeir verði báðir til í slaginn eftir viku.

Þá gerðist það í þessum leik að Momo Sissoko fékk gult spjald, og miðað við það sem Rafa Benítez sagði eftir Bolton-leikinn fyrir viku þá var þetta tíunda gula spjaldið hans í deildinni og hann er því kominn í tveggja leikja bann. Sem þýðir, því miður, að hann missir af leiknum gegn Chelsea um næstu helgi.

En allavega, víkjum að leik dagsins. Rafa stillti liðinu í dag svona upp:

Reina

Finnan - Carragher - Hyypiä - Warnock

Cissé - Sissoko- Alonso - Riise

Morientes - Fowler

BEKKUR: Dudek, Kromkamp, Traoré, García, Kewell.

Fyrri hálfleikurinn var vægast sagt mjög daufur framan af. Hann einkenndist af miklu miðjumoði og mikilli baráttu, en svo opnaðist hann aðeins þegar leið á. Á 23. mínútu átti Fernando Morientes að fá víti þegar hann var búinn að snúa Ryan Nelsen af sér en sá síðarnefndi tók höndum utan um hann innan teigs og reif hann niður. Alan Wiley dómari sá þó ekkert athugavert og leikurinn hélt áfram.

Nokkrum mínútum síðar kom svo sigurmarkið. Á 29. mínútu áttu okkar menn fína sókn upp völlinn og boltinn barst að lokum til Robbie Fowler. Hann tók hann úr loftinu á bringuna og skaut honum innfyrir, að því er virtist í áttina að Djibril Cissé sem var kolrangstæður. Cissé áttaði sig á því í hvað stefndi og hætti við að taka boltann, lét hann fara innfyrir sig og stóð steinrunninn í sömu sporunum. Blackburn-menn hættu að verjast og heimtuðu rangstæðudóminn en á meðan þeir gerðu það spratt Fernando Morientes innfyrir Cissé og hirti boltann, keyrði inná teiginn þar sem hann gaf boltann út í teiginn á Fowler sem kom aðvífandi og setti boltann í tómt netið. 1-0 fyrir Liverpool!

Þetta mark var náttúrulega mjög umdeilt og skil ég vel að Blackburn-menn séu fúlir að hafa tapað fyrir svona marki. Ef við hefðum fengið þetta mark á okkur hefði ég sjálfur brjálast fyrir framan skjáinn, þannig að ég skil þá vel. Cissé var rangstæður, sending Fowler var ætluð honum, og því er vissulega hægt að segja að hann hafi haft áhrif á leikinn. En slakur dómari leiksins, Wiley, mat þetta svo að Cissé hefði ekki haft nein áhrif og því stóð markið, okkar mönnum til mikillar lukku.

Í kjölfarið á markinu færðist mikil harka í leikinn. Xabi Alonso, John Arne Riise og Steve Finnan hjá Liverpool voru allir aðvaraðir fyrir brot og hinum megin voru þeir David Bentley, Lucas Neill og Robbie Savage allir aðvaraðir líka, en Savage fékk þó samt gult fyrir að mótmæla of mikið. Það var því einstaklega svekkjandi að sjá Momo Sissoko fá beint gult spjald fyrir sitt fyrsta brot, en ekki tiltal eins og allir hinir. Þetta er ekki í fyrsta sinn í vetur sem Momo nýtur ekki sömu sanngirni og aðrir leikmenn, og oft finnst manni eins og dómarar á Englandi þekki ekkert skemmtilegra en að spjalda hann. Mörg af hinum brotum hálfleiksins, svo sem hjá Savage og Alonso, voru grófari en brot Sissoko en þeir sluppu með tiltalið. Óskiljanlegt, og nú þarf Momo að missa af stórleiknum um næstu helgi.

Undir lok hálfleiksins fékk Lucas Neill svo spjald fyrir glórulausa tæklingu við miðlínuna á Djibril Cissé, en upp úr því urðu mikil rifrildi og mikill hiti á milli leikmanna og þjálfara beggja liða. Maður var því fegnastur að sjá Wiley flauta til hálfleiks án frekari skakkafalla.

Síðari hálfleikurinn var síðan aðeins opnari, fótboltalega séð. Blackburn-menn reyndu að sækja stíft framan af hálfleiknum en ógnuðu okkar mönnum lítið. Þeirra helsta ógn kom úr hornspyrnum Morten Gamst-Pedersen, en úr einni slíkri átti fyrrnefndur Nelsen skalla rétt framhjá á 51. mínútu. Það var fyrsta markskot Blackburn-manna í leiknum … sem segir allt sem segja þarf um það hvort liðið átti skilið að vinna í dag.

Eftir því sem líða tók á hálfleikinn færðu Liverpool-menn sig svo framar á völlinn og hefðu átt að innsigla sigurinn. Rafa tók Warnock meiddan útaf fyrir Harry Kewell, Fowler fór útaf fyrir Luis García og loks fór Morientes útaf fyrir Jan Kromkamp.

Hafi Alan Wiley dómari verið slakur í þessum leik þá var línuvörðurinn Blackburn-megin í seinni hálfleiknum ennþá verri. Hann tók tvisvar af okkar mönnum gott upphlaup með því að flagga á rangstöðu - fyrst á Cissé og svo á Kromkamp - en í báðum tilfellum var varnarmaður Blackburn fyrir innan okkar mann og okkar maður var inná sínum eigin vallarhelming þegar sendingin kom. Fáránleg dómgæsla.

Djibril Cissé klúðraði svo dauðafæri undir lokin þegar hann skaut í stöng fyrir opnu marki eftir gott upphlaup, auk dauðafærisins sem hann klúðraði undir lok fyrri hálfleiks einn gegn Friedel. Harry Kewell og Luis García fengu líka fín skotfæri en allt kom fyrir ekki, við náðum ekki að bæta við mörkum og 1-0 sigur var því staðreynd. Umdeilt sigurmark, en verðskuldaður sigur engu að síður.

MAÐUR LEIKSINS: Carra og Sami voru góðir í vörninni sem stóð fyrir sínu, þeir Xabi og Momo voru sterkir á miðjunni og Fowler skoraði markið sem skipti sköpum. Þó langar mig til að útnefna PEPE REINA sem mann leiksins í dag. Hann stóðst álagið mjög vel í þessum leik, þurfti reyndar ekki að verja mörg skot frá Blackburn-mönnum en hann greip vel inní allt sem þeir reyndu og dílaði rosalega vel við allar fyrirgjafirnar. Hann er einfaldlega öruggasti markvörður sem við höfum haft í fleiri, fleiri ár!

Það segir sína sögu að í dag hélt liðið hreinu í 33. skiptið í vetur, og þar af hefur Reina sjálfur haldið marki sínu hreinu þrjátíu sinnum. Nú eigum við eftir þrjá deildarleiki og einn eða tvo bikarleiki, og Reina þarf bara að halda hreinu í tveimur þeirra til að setja nýtt met í sögu Liverpool. Að halda marki sínu hreinu þrjátíu sinnum eða oftar er einfaldlega stórkostlegt afrek í nútímafótbolta.

Miðað við hversu mikið menn misstu sig yfir Petr Cech í fyrra, á hans fyrsta tímabili á Englandi, þá finnst mér ótrúlegt hversu lítið hefur verið fjallað í hlutlausum miðlum um Reina. Rafa og aðrir þekktir Liverpool-menn nútímans og fortíðarinnar hafa keppst við að hrósa Reina en hlutlausum pennum virðist vera slétt sama. Menn eru enn að sleppa sér yfir Cech, sem hefur þó ekki náð nærri því jafn góðum árangri - tölfræðilega séð - og Reina hefur gert.

Maður leiksins að mínu mati, yfirburðamarkvörður í Englandi í vetur og einn okkar besti leikmaður á þessu tímabili sem er að ljúka.

Jæja, nú tekur við vikubið eftir stórleiknum við Chelsea. Sem betur fer getum við brosað þá vikuna, með 73 stig og góðan útisigur í pokahorninu. Gleðilega páska! :-)

.: Kristján Atli uppfærði kl. 16:28 | 1222 Orð | Flokkur: Leikskýrslur
Ummæli (19)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.

Nafn:


Tölvupóstur (ath. póstfangið birtist ekki á síðunni):


Heimasíða (ekki nauðsynlegt):
:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar?





Flokkar

Almennt · Enska bikarkeppnin · Enski Boltinn · Fjölmiðlar · HM Félagsliða · Kannanir · Landslið · Leikmannakaup · Leikmenn · Leikskýrslur · Liverpool · Meiðsli · Meistaradeild · Sjónvarp · Slúður · Topp10 · Um síðuna · Upphitun · Vangaveltur · Veðmál · Þjálfaramál ·

Um Síðuna

Um Síðuna

Um höfundana

Einar Örn

Kristján Atli

Aggi

Síðustu leikir

·Blackburn 0 - L'pool 1
·Liverpool 1 - Bolton 0
·WBA 0 - L'pool 2
·Liverpool 3 - Everton 1
·Birmingham - Liverpool 0-7

Síðustu Ummæli

eikifr: Seinna "maður á móti markmanni" færið hj ...[Skoða]
SSteinn: Ég er nánast 100% á því að Momo sé ekki ...[Skoða]
JónH: If the attacking player in an offside po ...[Skoða]
Hannes: Stefán, ef þú ert ekki þegar búinn að sj ...[Skoða]
Baros: Alonso var hreint frábær fyrri hluta lei ...[Skoða]
Björn Friðgeir: Gotti: Takk fyrir þetta. Ég verð að viðu ...[Skoða]
Stefán: Veit e-r hvar er hægt að sjá mark besta ...[Skoða]
GOTTI: Samkvæmt knattspyrnureglunum var markið ...[Skoða]
Pétur: Vissulega átti Blackburn fyrsta markskot ...[Skoða]
Ingó: já flottur sigur. en mér finnst Cissé ek ...[Skoða]

Síðustu færslur

· Þriðja sætið okkar
· Blackburn 0 - L'pool 1
· Byrjunarliðið gegn Blackburn komið.
· Blackburn á morgun!
· Þarf að fínstilla vélina?
· 17 síðan 96

Tenglar

Einar :: EOE.is

Kristján Atli.com


NewsNow Liverpool

SKY

Liverpool Echo

BBC

Liverpool (official)

LFC History

Liverpool.is

This Is Anfield

UEFA


Staðan í ensku

Tölfræði í ensku




Við notum
Movable Type 3.2

Efni þessarar síðu er birt undir skilmálum frá Creative Commons.

Creative Commons License