beach
« Liðið gegn Arsenal | Aðalsíða | Liverpool semur við Adidas »

14. febrúar, 2006
L'pool 1 - Arsenal 0

Eins gott, segi ég nú bara. Eins gott!

Á meðan fréttir bárust af því að Gabriel Paletta hefði staðist læknisskoðun á Melwood nú síðdegis unnu okkar menn sanngjarnan sigur á vængbrotnu liði Arsenal á Anfield Road. Okkar menn voru í sókn allan tímann en þurftu þó að bíða þar til undir leikslokin með að ná að tryggja sér sigur, en það var á endanum Luis “Tumi Þumall” García sem var hetja kvöldsins. Eins gott, eins og ég sagði hér að ofan, því að jafntefli í þessum leik hefði verið ósanngjarnasta niðurstaða í leik okkar manna síðan við töpuðum fyrir Sao Paulo í úrslitum Heimsmeistarakeppni félagsliða fyrir rúmum tveimur mánuðum.

Ég spáði í gær fyrir um byrjunarlið í þessum leik og hafði rétt fyrir mér með allar stöður nema eina; Momo Sissoko kom á ný inn í liðið fyrir Didi Hamann og Steven Gerrard lék sem fyrr úti á hægri kanti. Rafa Benítez stillti liðinu því upp svona:

Dudek

Finnan - Carragher - Hyypiä - Riise

Gerrard - Alonso - Sissoko - Kewell

Morientes - Fowler

BEKKUR: Carson, Traoré, Hamann, Luis García, Cissé.

Okkar menn hófu strax sókn í upphafi leiks og fengu tvær hornspyrnur á upphafsmínútunum. Þær gáfu tóninn, en næstu 93 mínúturnar voru þeir rauðklæddu með boltann inní eða rétt fyrir utan vítateig Arsenal-manna, nær undantekningarlaust. Sjáið bara tölfræðina úr þessum leik:

Tölfræði: Liverpool —- Arsenal

Skot (á markið): 22 (10) —- 6 (2)

Hornspyrnur: 13 —- 1

Með boltann: 56% —- 44%

Varin skot: 3 —- 10

Það er alveg ljóst í mínum huga, að það eru ár og dagar síðan Arsenal hafa mætt til leiks á Anfield og verið jafn rækilega yfirspilaðir og þeir voru í kvöld. Betra liðið vann, svo einfalt er það. Jú, Arsenal hafa góða afsökun fyrir getuleysinu en það breytir því ekki að þetta var leikur sem við áttum að geta unnið, þurftum að vinna, og unnum. Skál fyrir því!

Lengi vel leit þó út fyrir að sigurinn næðist ekki; Jens Lehmann varði vítaspyrnu frá Steven Gerrard á 32. mínútu eftir að brotið hafði verið á Fernando Morientes, Johnny Riise átti tvö skot naumlega framhjá og Harry Kewell eitt, og þeir Robbie Fowler og Fernando Morientes fengu tvö dauðafæri hvor en náðu ekki að skora. Oft fannst mér við komast í góð færi en ætla að gera of flotta hluti, oft átti svoleiðis að klína boltann uppí samskeytin og inn, en þess í stað fór boltinn oft hátt yfir eða framhjá. Tíu af tuttugu og tveimur markskotum á rammann er of lítið að mínu mati, enda var ég á tímabili farinn að íhuga pistil þar sem ég ætlaði að taka saman tölfræði yfir það hversu oft Liverpool væru búnir að skora mörk úr fráköstum, þar sem við virðumst skjóta allt of oft framhjá rammanum, reynum aldrei nógu mikið á markvörð andstæðinganna.

Sá pistill reyndist hins vegar óþarfur, því með innkomu varamannanna Didi Hamann (f. Xabi Alonso), Luis García (f. Momo Sissoko) og Djibril Cissé (f. Robbie Fowler, sem var okkar hættulegasti maður í kvöld) virtist koma smá yfirvegun í sóknartilburði okkar, og það sýndi sig nær samstundis. Á 87. mínútunni fékk Didi Hamann boltann fyrir utan teig Arsenal-liðsins, í svipaðri stöðu og við höfum séð Kewell, Sissoko, Alonso og Gerrard skjóta margoft yfir/framhjá í síðustu leikjum, en í stað þess að reyna of flotta hluti einbeitti hann sér bara að því að skjóta föstu skoti og að hitta á rammann. Boltinn var fyrnafastur og tiltölulega nálægt Jens Lehmann - sem var besti maður vallarins í kvöld - en hann hélt boltanum ekki … hann rúllaði laus til hægri þar sem Luis García, maðurinn sem sérhæfir sig í mikilvægum mörkum, var mættur og skaut yfir marklínuna. 1-0 í blálokin og það mun enginn halda því fram að þetta hafi ekki verið verðskuldað!

MAÐUR LEIKSINS: Mér fannst liðið eins og það lagði sig leika virkilega vel í kvöld. Dudek bjargaði vel því litla sem þurfti að bjarga, vörnin okkar réði auðveldlega við þá Henry og Adebayor í kvöld auk þess sem þeir Finnan og Riise sóttu vel með upp kantana. Á miðjunni dældi Steven Gerrard hverjum boltanum á fætur öðrum inní teiginn, þrátt fyrir að vera greinilega ekki með fullri heilsu og hinum megin var Harry Kewell iðinn við kolann. Á miðjunni stjórnaði Xabi Alonso umferðinni og frammi voru þeir Robbie Fowler og Fernando Morientes alltaf að skapa fyrir hvorn annan og samherja sína, en náðu þó ekki að skora. Báðir voru klaufar, en þó sérstaklega Morientes sem virðist alltaf vera tveimur skrefum og seinn í fyrirgjafir og hefði átt að skora undir lokin, þegar hann fékk fyrirgjöf frá Gerrard á markteiginn en náði ekki að skalla að marki.

Einn maður í okkar liði bar þó af í kvöld. Alonso sótti mikið í þessum leik en engu að síður þá voru þeir Francesc Fabregas og Gilberto Silva lítið meira en áhorfendur í þessum leik. Hvernig stendur á því, gætu menn spurt, og hvernig í fjandanum stendur á því að Liverpool getur haldið uppi pressu á andstæðinginn í heilar 90 mínútur, án þess að þurfa reglulega að bakka niður í varnarlínuna á eigin vítateig þegar hitt liðið reynir sóknir?

Svar: MOHAMMED SISSOKO. Málið er ekki bara það að hann sé að vinna alla lausa bolta á miðjunni, heldur er hann einnig að elta menn uppi útum allan völl eins og blóðþyrstur hákarl, og hreinlega éta af þeim boltann. Fyrir vikið getur liðið leyft sér að sækja hærra uppi á vellinum, vitandi það að ef hann tapast er mjög líklegt að við vinnum hann aftur, mjög framarlega á vellinum. Þannig að í stað þess að þurfa að þruma til baka í hvert sinn sem boltinn tapast, alla leið aftur að eigin vítateig, til að vinna boltann á nýjan leik, er hægt að vinna boltann aftur í góðri vallarstöðu og halda bara áfram að sækja þar sem frá var horfið.

Þetta er einfaldlega ómetanlegt, og eins góðir og þeir Xabi Alonso og Dietmar Hamann eru í að vinna boltann af andstæðingunum þá eru þeir ekki nærri jafn góðir og Momo í þessu atriði, að þefa uppi þær stöður framarlega á vellinum þar sem boltinn getur unnist aftur til liðsins, og ganga svo frá málinu. Hann er ekki bara að éta boltann af miðju- og vængmönnum andstæðinganna heldur er hann beinlínis að pressa á bakverði liða og taka af þeim boltann líka!

Þessi strákur er bara tvítugur, en miðað við hversu góður hann er nú þegar þá myndi ég segja að það sé mikilvægara en nánast allt annað hvað leikmannamálin snertir í dag, að halda þessum stráki innan raða Liverpool næstu 10+ árin. Að ala hann upp, njóta hans í nokkur ár og láta hann svo fara frá okkur á hátindi ferils síns, svo að annað lið geti notið góðs af, yrði ekkert annað en glæpur. Real Madríd gerðu sig seka um slíka heimsku með Claude Makelele, sem var víst ekki nógu frægur til að spila á miðjunni hjá þeim ( ?!?!? ) - Chelsea til góðs, en við bara verðum að halda í þennan strák út hans feril! Á honum byggist framtíðin, engin spurning!

Allavega, góður leikur í kvöld og gott fyrir sjálfstraustið að yfirspila Arsenal í 93 mínútur á Anfield. Fowler spilaði í heilar 80 mínútur og var að allan tímann, sem er góðs viti, og þeir Hamann, García og Cissé áttu góðar innkomur sem eykur breiddina og samkeppnina. Þá koma þeir Pepe Reina og Peter Crouch á ný inn í liðið fyrir leikinn um helgina, þannig að ég sé ekkert því til vanbúnaðar að við …

FLENGJUM ÞETTA HELVÍTIS manchester united LIÐ Á LAUGARDAGINN!!!

Eru menn ekki sammála því? :-)

.: Kristján Atli uppfærði kl. 21:59 | 1265 Orð | Flokkur: Leikskýrslur
Ummæli (38)

Frábær leikur hjá okkar mönnum.

Fowlerinn góður og Morientes ágætur. Finnst hann spila allt of aftarlega. Það heyrir til undantekninga að hann komist inn í teig til að taka á móti fyrirgjöfum. Ég held að hann sé að reyna of mikið. Hann og Fowler besta framherjaparið okkar. Ekki spurning. Ekki gleyma því að Morientes fiskaði víti. Púra víti.

Og af hverju tekur Gerrard vítin. Hann er léleg vítaskytta. Ég held hann skori að meðaltali úr þriðja hverju víti. Það væri gaman að sjá tölfræði varðandi það.

Og það að fá 13 horn og fá ekki eitt færi í kjölfarið er ekki bara skrítið heldur stórundarlegt. Gerrard á ekki að taka hornin heldur Alonso. Bæði Gerrard og Kewell eru með okkar bestu skallamönnum og alltaf líklegir að skora.

Og svo að lokum. Hvenær ætlar Finnan að hætta með þessa fallhlífarbolta inn í teig. Það er algerlega vonlaust að gera eitthvað úr þessum boltum. Neglið helv. tuðrunni inní og reynið að koma honum yfir eða framhjá fremsta varnarmanninum. Þetta er ekki flóknara en það. (Sorrý - Finnan var ágætur í leiknum. Get bara ekki hamið mig þegar hann er annar vegar.)

Pæliði svo í því ef við hefðum ekki unnið Arsenal þegar þeir þurftu að spila með varamarkmanninn í vörninni. Allt að því allavegana.

Frábær sigur og gott veganesti í mikilvægustu leiki leiktíðarinnar. Fræbært að nánast enginn skuli vera meiddur.

Áfram Liverpool!

Hössi sendi inn - 14.02.06 22:27 - (
Ummæli #7)

Ég er ekki bara að viðra skoðanir mínar á Morientes úti í loftið. Þegar Crouch var ekki að skora í byrjun leiktíðar, var ég alltaf til í að taka upp hanskann fyrir hann og reyndi að fá fólk til að sjá hvað hann var að gera fyrir aðra leikmenn á vellinum. Það verður ekki af honum tekið að hann er vinna eins og hestur þegar hann spilar og leggur sig allan fram.

Hins vegar síðan að Morientes kom til Liverpool finnst mér hann hafa verið að spila afleitlega. Hann átti að vera þessi striker sem átti að klára færin fyrir okkur. Hann gerði það með Real og Monaco en með Liverpool gerir hann það klárlega ekki.

Ef Morientes væri að leggja helling upp og væri að valda varnarmönnum vandræðum myndi þetta ekki fara svona í taugarnar á mér. Það er hins vegar ekki raunin. Leikurinn í dag undirstrikar þetta. Morientes var ekki að vinna neina skallabolta af ráði og þeir sem hann vann enduðu samt oftast á mótherja. Hann var ekki að leggja upp færi fyrir aðra leikmenn og misnotaði einhver 3 dauðafæri sjálfur, ef ekki fleiri. Hann er ekki að vinna vel varnarlega og það sjá það allir að þessi skallamaður af Guðs náð er svo sannarlega ekki að skora með skalla úr þessum föstu leikatriðum.

Auðvitað er ég ekki að segja að þetta sé allt Morientes að kenna. Hins vegar er hann að fá endalaust af tækifærum, endalaust af óverðskulduðum tækifærum. Ég ætla að minnsta kosti ekki að halda niðri í mér andanum þangað til að kvikindið hrekkur í gang.

Ég vona svo sannarlega að hann fari að skora og að ég þurfi að éta þessi orð ofan í mig, býst nú samt ekki við því. Smá tölfræði að lokum. Morientes er búinn að spila 46 leiki fyrir Liverpool síðan hann kom á 6.300.000 punda í janúar í fyrra. Hann hefur skorað 9 mörk. Það þýðir að hann þarf rúmlega fimm leiki til að skora og hvert mark er metið á ca. 700.000 pund. Ætlar einhver að reyna að færa rök fyrir því að þetta sé ásættanleg tölfræði hjá "heimsklassa" striker.

Óli J. sendi inn - 15.02.06 00:30 - (Ummæli #15)

Eiki Fr er jafn málefnalegur og plastflaska og kallar menn vitleysingja fyrir að koma með verðskuldaða gagnrýni á leikmann sem hefur fengið tækifæri og stuðning trekk í trekk (Morientes).

Eiki vill meina að Morientes hafi ekki verið að fá þann stuðning sem honum hefur vantað en það er bara alls ekki rétt. Hann hefur fengið umtalsvert fleiri mínútur heldur en til dæmis Cissé. Ekki þarf hann að spila á hægri kantinum þegar hann fær tækifæri, annað en Cissé. Og þrátt fyrir að vera alltaf hálftíma of seinn í flesta bolta og þrátt fyrir að afhenda mótherjunum boltann á silfurfati í þau skipti sem hann er ekki hálftíma of seinn, heldur Morientes stöðu sinni innan liðsins á einhvern ótrúlegan og óútskýranlegan hátt. Það kallar maður bæði tækifæri og stuðning.

Og hvað varðar stuðning frá leikmönnum, þ.e. hversu mikið þeir leggja upp á hann, þá hefur Morientes klúðrað þvílíkum bunka af dauðafærum að það er fráleitt að færa rök fyrir því að þeir séu ekki að service-a hann nóg. Veit ekki betur en að Kewell, Crouch og Gerrard (og auðvitað fleiri) séu að dæla á hann sendingum eins og rófulausir hundar.

Eiki slaufar síðan röksemdafærslunni með því að kalla Cissé höfuðlausa hænu sem kunni ekki að spila fótbolta. Ekki það að ég ætli að reyna að verja Cissé, því að mínu mati er hann búinn að valda vonbrigðum líka. Hins vegar hefur Cissé fengið fáránlega fá tækifæri með Liverpool, tækifæri sem hafa í staðinn verið sóuð á Morientes.

Að lokum - eitt quote frá BBC um leikinn:

"That Arsenal looked as though they might escape with a point was largely due to a combination of Lehmann's heroics and anxious Liverpool finishing, with Fernando Morientes missing good chances in each half."

Óli J. sendi inn - 15.02.06 11:29 - (
Ummæli #28)

Gaman að sjá hvað menn eru blóðheitir – jafnvel eftir sigurleiki ! Eftir lestur sumra athugasemdanna var ég við það að detta í þunglyndi og þurfti að minna mig á að okkar menn voru í gær að leggja lið af velli sem síðustu ár hefur endað 15-20 stigum ofar í deildinni !

En þetta eru að mörgu leyti skemmtilegar pælingar og nú verða menn bara að koma sér saman um hvort eigi að aflífa Morientes eða Cisse ... eða er það ??

Ég var bara nokkuð sáttur við frammistöðu þeirra í gær. Morientes kom sér nokkrum sinnum í færi og fiskaði jafnframt vítaspyrnu sem því miður nýttist ekki. Ég skil reyndar ekki þá umræðu að hann hafi komið sér óverðskuldað í færi ... er það hægt ? Líklega hafa einhverjir verið búnir að ákveða það fyrirfram að hann yrði lélegur og svo ekki getað ákveðið sig hvort ætti að gagnrýna hann fyrir aðgerðaleysi eða slæma nýtingu ... og út kom þessi athyglisverði bræðingur !

Cisse var sprækur þessar 10 mínútur sem hann fékk. Kom sér a.m.k. nokkrum sinnum upp að endalínu til að senda fyrir og undirstrikaði að það er ekki svo vitlaus hugmynd hjá Benitez að nota hann á kantinum ... þar sem hann getur hlaupið fram og tilbaka eins og höfuðlaus hæna !

En ég er að vona að Benitez gefi Fowler og Morientes tækifæri í nokkra leiki til viðbótar. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir gætu náð vel saman ef þeir fá tíma. Þó að þeir séu komnir af léttasta skeiði hafa þeir í gegnum tíðina verið þefvísir á martækifæri auk þess sem að þeir eru báðir klókir spilarar með gott auga fyrir spili. Ef slíkir menn ná vel saman og fara spila hvorn annan uppi getur allt gerst ... og hver veit jafnvel bundið endi á markaþurrðina ?

s.már sendi inn - 15.02.06 14:33 - (Ummæli #34)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.

Nafn:


Tölvupóstur (ath. póstfangið birtist ekki á síðunni):


Heimasíða (ekki nauðsynlegt):
:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar?





Flokkar

Almennt · Enski Boltinn · Fjölmiðlar · HM Félagsliða · Landslið · Leikmannakaup · Leikmenn · Leikskýrslur · Liverpool · Meiðsli · Meistaradeild · Slúður · Topp10 · Um síðuna · Upphitun · Vangaveltur · Veðmál · Þjálfaramál ·

Um Síðuna

Um Síðuna

Um höfundana

Einar Örn

Kristján Atli

Aggi

Síðustu leikir

·L'pool 1 - Arsenal 0
·Wigan 0 - Liverpool 1
·Charlton 2 - "Liverpool" 0
·Chelsea 2 - Liverpool 0
·L'pool 1 - Birmingham 1

Síðustu Ummæli

Stjáni: Kannski hentar það bara Morientes svona ...[Skoða]
Einar Örn: >Já heyrðu, ég gleymdi einu. Hvað var væ ...[Skoða]
s.már: ... ojæja ... kannski að sé tímabært að ...[Skoða]
Óli J.: Kannski er það vitleysa í mér ... en ég ...[Skoða]
s.már: Gaman að sjá hvað menn eru blóðheitir – ...[Skoða]
Aggi: Góður sigur en stóð óþarflega tæpt. Garc ...[Skoða]
Vargurinn: Varðandi Morientes: Var það ekki hann ...[Skoða]
Arnar: Verð að taka undir með nokkrum hérna, hæ ...[Skoða]
Dóri: Já heyrðu, ég gleymdi einu. Hvað var væl ...[Skoða]
Johnny H: Þetta mál með hornspyrnur er að verða mj ...[Skoða]

Síðustu færslur

· Dudek eða Reina?
· Liverpool semur við Adidas
· L'pool 1 - Arsenal 0
· Liðið gegn Arsenal
· Liverpool staðfesta kaup á Paletta!
· Arsenal á Anfield, á morgun!

Tenglar

Einar :: EOE.is

Kristján Atli.com


NewsNow Liverpool

SKY

Liverpool Echo

BBC

Liverpool (official)

LFC History

Liverpool.is

This Is Anfield

UEFA


Staðan í ensku

Tölfræði í ensku




Við notum
Movable Type 3.2

Efni þessarar síðu er birt undir skilmálum frá Creative Commons.

Creative Commons License