13. janúar, 2006
Jæja, nú virðist sem Jerzy Dudek, hetjan okkar frá því í Istanbúl í maí í fyrra, sé endanlega búinn að gera út um framtíð sína hjá Liverpool. Það var svo sem löngu orðið ljóst að hann ætti ekki mikla framtíð fyrir sér hjá liðinu, eftir sterka innkomu Pepe Reina í aðalliðinu og einnig eftir kaupin á Scott Carson fyrir ári síðan.
Nú er svo janúarmánuður upprunninn og ljóst að Jerzy Dudek er til sölu. Klúbburinn hefur hins vegar skellt þriggja milljón punda verðmiða á kappann, honum sjálfum til mikillar armæðu.
Um sl. helgi lét hann hins vegar miður skemmtileg orð í garð Rafa Benítez falla í viðtali við sjónvarpsmenn ytra, og fyrir vikið tel ég meira eða minna 0% líkur á því að hann muni nokkurn tímann klæðast Liverpool-treyjunni aftur. Auðvitað var Jerzy bara að viðra pirring sinn yfir þeirri stöðu sem hann er í núna, en hann hefur ekki leikið alvöru leik fyrir Liverpool síðan hann varði vítaspyrnu Schevchenko fyrir tæpum átta mánuðum síðan og nú er algjörlega óvíst hvort hann fái að fara frá liðinu í janúar, eins og hann hefur grátbeðið um að fá að gera. Rafa hefur sagt að þetta velti allt á því hvort að rétta tilboðið berist í Jerzy, þar sem hann hafi á sínum tíma kostað félagið mikinn pening og þeir séu ekki reiðubúnir að láta manninn fara frítt, og þótt sú afsökun dugi svo sem alveg þá er auðvelt að hafa samúð með Jerzy í þeirri stöðu sem hann er í núna. Pólland spilar á HM í sumar og honum er annt um sæti sitt þar, en verður örugglega ekki fyrsti kostur hjá landsliði sínu ef hann ekki spilar neinn einasta alvöru leik allan veturinn.
Hins vegar er spurning hvort hann hafi gengið of langt í gagnrýni sinni á Rafa með eftirfarandi orðum:
“Jafnvel þótt hann [Rafa Benítez] vilji nota mig í Liverpool-leik vil ég aldrei spila fyrir þetta félag aftur. Ég sé enga ástæðu til að ræða málin eitthvað frekar við Benítez. Það er tímasóun. Ég hef ákveðið að yfirgefa Liverpool, hvað sem það kostar, og ég mun ekki skipta um skoðun. Framkoma Benítez gerir mig bara enn pirraðri.”
Sem sagt, Jerzy er ósáttur.
Við Einar Örn höfum margoft í gegnum tíðina viðrað okkar skoðun á Jerzy (sjá leikskýrslu gegn Portsmouth í fyrra, ágætt dæmi) og sú skoðun stendur. Jerzy nánast vann úrslitaleik Deildarbikarsins vorið 2003 gegn manchester united
fyrir okkur og hann var sennilega stærsta hetjan af þeim öllum í sigrinum í Meistaradeildinni sl. vor, og fyrir það munum við ævinlega minnast hans með bros á vör. En það breytir ekki því að Jerzy var ekki nógu traustur leikmaður yfir heilt tímabil til að manna marklínuna hjá okkur. Það er engin tilviljun að Liverpool-liðið - með nákvæmlega eins mannaðri vörn og á sl. tímabili - skuli þegar vera búnir að halda hátt í tuttugu sinnum hreinu marki í vetur. Eina breytingin á varnaruppstillingunni er markvörðurinn, en Pepe Reina hefur nánast farið á kostum í vetur.
Spurningin er bara: hvenær fer Jerzy? Verður honum að ósk sinni um að fá að fara núna strax í janúar, svo að hann geti tryggt sér stöðu í byrjunarliði Pólverja í sumar, eða þarf hann að bíða fram á sumarið eftir tilfærslu? Ég vona persónulega að hann fái bara að fara strax, því ef hann þarf að húka lengur á tréverkinu verður hann bara enn pirraðri, og því pirraðri sem hann verður því meira mun hann tala illa um klúbbinn og Rafa, og fyrir vikið mun hann bara gera aðdáendum liðsins (og sjálfs sín) erfiðara fyrir að ætla að minnast hans með hlýhug.
Stundum þurfa menn bara að fá að fara áður en það er of seint, og að mínu mati á það við um Jerzy. Ef það gæti nú bara einhver klúbbur drullast til að bjóða nokkrar millur í hann …