07. janúar, 2006
Liverpool er þá komið í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar í frábærum bikarleik.
Fyrir hlutlausa áhorfendur, þá var þetta sennilega hinn fullkomni bikarleikur, þar sem að litla liðið fór á köflum á kostum og stóra liðið lenti í miklum erfiðleikum.
Fyrir okkur Liverpool aðdáendur, þá samanstóð þessi leikur af 50 óbærilega lélegum mínútum og svo 40 frábærum lokamínútum.
Sinama-Pongolle og Xabi Alonso skoruðu báðir tvö mörk og Steven Gerrard skoraði 1 í 3-5 sigri okkar manna.
Benitez styrkti upp nánast sínu sterkasta liði í upphafi leiks:
Carson
Finnan - Carragher - Hyypiä - Riise
Gerrard - Alonso - Sissoko - Kewell
Crouch - Cissé
Leikurinn byrjaði ágætlega og Steven Gerrard skoraði frábært mark eftir einhverjar 10 mínútur. Cisse lagði boltann fyrir hann og Gerrard skoraði flott mark með bogaskoti. 1-0 og ég bjóst við því að Liverpool menn myndu valta yfir Luton.
En við tóku svo hryllilegustu 40 mínútur af fótbolta, sem ég hef séð frá Liverpool í langan tíma. Það gekk ekkert upp. Sóknirnar voru gjörsamlega bitlausar og hver sendingin á fætur annarri rataði á Luton leikmenn. Luton menn á móti börðust á fullu og spiluðu fínan fótbolta á tíðum.
Þeir ógnuðu sífellt meira og jöfnuðu leikinn að loknum hálftíma leik. Ekki nóg með það, heldur komust þeir yfir með marki frá Steve Robinson rétt fyrir hálfleik. Seinni hálfleikur byrjaði sæmilega og eftir nokkrar mínútur komst Harry Kewell einn innfyrir og gaf á Steven Gerrard, sem missti af boltanum, en varnarmaður Luton braut á honum klaufalega. Cisse tók vítið og var það arfaslakt. Hann gaf hann innanfótar á markmanninn.
Ég í raun skil ekki hvað fær menn til að taka svona vítaspyrnur, því eina leiðin til að skora úr svona vítaspyrnu er ef að markvörðurinn fer í vitlaust horn. Semsagt, það eru 50% líkur á að skora. Það eru ekki góðar líkur í vítaspyrnum.
Stuttu seinna missti Sami Hyypia svo boltann hrikalega klaufalega og Luton maður komst einn innfyrir. Carson kom á móti honum og Luton maðurinn fleygði sér í jörðina og dæmd var vítaspyrna. Sem betur fer fékk Carson þó aðeins gult. En Luton skoruðu úr vítinu og voru komnir í 3-1.
Nokkrum mínútum síðar var Momo Sissoko tekinn af velli og Florent Sinama-Pongolle kom inná og má segja að þessi skipting hafi algjörlega breytt gangi leiksins. Við tók virkilega góður kafli hjá Liverpool. Pongolle minnkaði muninn eftir að hafa verið inná í fimm mínútur eftir gott upphlaup Liverpool manna. 7 mínútum síðar skoraði Xabi Alonso svo frábært mark með skoti af um 40 metra færi, sem fór í fínum boga yfir markvörð Luton.
Pongolle kom svo Liverpool yfir með skallamarki og Xabi skoraði svo 5. markið eftir að markvörður Luton hafði farið í sóknina. Xabi fékk boltann og lék á markvörðuinn, sem var að hlaupa aftur og skoraði svo með skoti af 60 metra færi. Semsagt, tvö mörk frá Xabi af að meðaltali 50 metra færi.
Maður leiksins: Einsog þið getið lesið, þá sleppti ég því að minnast á vörnina. En vörnin okkar og þá sérstaklega þeir Jamie Carragher og Sami Hyypia léku sinn versta leik í langan tíma. Völlurinn virtist vera erfiður og mistök þeirra voru pínleg á tímum.
En ég nenni ekki að tala um það, þar sem það væri fárárnlegt að æsa sig yfir einum lélegum leik hjá þeim félögum.
En maður leiksins og sá sem breytti gangi leiksins er Florent Sinama-Pongolle. Hann átti frábæra innkomu og skoraði tvö góð mörk. Gott hjá honum.
En allavegana, Liverpool er komið áfram. Áhorfendur geta í raun ekki beðið um meira í bikarleik heldur en sást í dag. Þetta var erfiðara en það hefði þurft að vera, en sigurinn var þó sætur í lokin.
Einn allra stærsti munurinn á Liverpool liðinu undir stjórn Houlliers og Benitez er sá að þetta Liverpool lið í dag gefst ekki upp! Hvort sem það er í Istanbúl, á Reebok Stadium eða á Kenilworth Road í Luton, þá gefst liðið ekki upp. Í dag voru Liverpool 3-1 undir og algjörlega niðurlægðir af Luton. En þeir gáfust ekki upp! Rafa breytti smá til og menn svöruðu kallinu. Á frábærum kafla skoruðu Liverpool 4 mörk og breyttu töpuðum 3-1 leik í 3-5 sigur. Þetta er merki um gott lið.