28. desember, 2005
NEMA HVAÐ!?!?
Í kvöld skelltu okkar menn sér í langferð yfir til Goodison Park, þar sem þeir tóku botnlið Everton létt. Lokatölur urðu 1-3 fyrir Evrópumeisturum Liverpool og Everton-liðið endaði leikinn tveimur færri; yngri Neville-systirin og Mikel Arteta fengu báðir rautt eftir sitt seinna gula spjald. Mörk okkar manna skoruðu þeir Peter Crouch (sjötta í vetur), Steven Gerrard (þrettánda í vetur) og Djibril Cissé (tólfta í vetur), á meðan James Beattie skoraði mark Everton sem þýðir að átta-og-hálfs leikjahrina Liverpool án þess að fá á sig mark er á enda runnin. Eftir þennan leik eru Everton í sautjánda sæti með 17 stig, á meðan okkar menn eru í þriðja sætinu með tuttugu stigum meira, 37 stig, og hafa núna unnið níu leiki í röð í deildinni!
Og það sem gerir þetta ennþá betra er að Tottenham töpuðu í kvöld og manchester united
gerðu jafntefli á útivelli við Birmingham, þannig að nú erum við bara fjórum stigum á eftir þeim og eigum tvo leiki til góða. Þetta er allt að gerast, gott fólk!
Allavega, Rafa Benítez gerði þrjár breytingar á liði sínu í kvöld og stillti upp eftirfarandi mönnum:
Reina
Finnan - Carragher - Hyypiä - Warnock
Gerrard - Sissoko - Alonso - Kewell
Cissé - Crouch
BEKKUR: Dudek, Riise, Josemi, García, Morientes.
Það varð strax ljóst í hvað stefndi; eins og venjulega var ekki hægt að búast við fallegri knattspyrnu í þessum leik, þar sem Everton eru með leiðinlegri liðum í deildinni. Þar að auki er ávallt hart barist í nágrannaslag sem þessum og því var augljóst frá byrjun hvernig þessi leikur yrði. Miðjumoð, mikið um háa bolta og stungusendingar í eyður. Þó varð einnig strax ljóst hvort liðið væri líklegra í þessum leik, og eftir aðeins sautján mínútna leik voru okkar menn komnir yfir. David Weir skallaði háan bolta frá vörn Everton en Momo Sissoko hirti annan boltann á miðjunni og skallaði beint aftur að Weir. Þar skallaði Djibril Cissé hann vel niður fyrir Steven Gerrard, sem var fljótur að átta sig og skallaði hann beint aftur innfyrir vörnina á bak við Weir, þar sem Peter Crouch kom á sprettinum innfyrir, renndi sér í kringum Nigel Martyn í marki Everton og skoraði. 1-0 og þeir skrá þetta sko ekki sem sjálfsmark á neinn annan!
Aðeins fimm mínútum síðar vorum við komnir í 2-0. Eftir harða sókn okkar manna barst boltinn út úr teignum, þar sem Steven Gerrard tók hann niður, lék framhjá Phil Neville og negldi að marki. Boltinn hafði viðkomu í baki Joseph Yobo og fór þaðan í bláhornið, óverjandi fyrir Martyn. 2-0 fyrir okkar mönnum og hreinlega allt útlit fyrir stórsigur.
Eftir þetta tók við hálfgerð deyfð í leiknum; Everton-menn voru felmtri slegnir og áttu erfitt með að átta sig á því sem var að gerast, á meðan okkar menn settust að mínu mati einum of aftarlega og ætluðu bara að halda forskotinu. Það bar ekki tilætlaðan árangur, því þegar Everton-menn fóru að jafna sig og gerast ágengari endaði það bara á einn veg; tveimur mínútum fyrir hálfleik minnkaði James Beattie muninn eftir góða sókn þeirra bláu.
David Moyes hefur sennilega eytt öllu hléinu í að berja kjark í sína menn, segja þeim að þeir gætu jafnað þetta og svoleiðis. Sú ræða hans var orðin úrelt og gagnslaus innan við mínútu eftir að síðari hálfleikur hófst. Djibril Cissé pressaði Yobo sem gaf boltann frá sér, beint á Stephen Warnock. Warnock tók hann niður beint á Kewell sem var fljótur að átta sig og gaf boltann beint upp í hornið, bak við Hibbert bakvörð Everton. Þar var Cissé einn á auðum sjó, keyrði að David Weir og lék svo á hann og lagði boltann snyrtilega í fjærhornið. 3-1 fyrir okkar mönnum og nú var þetta eiginlega komið!
Það sem eftir lifði síðari hálfleiks voru okkar menn með alla stjórn á leiknum. Everton ógnuðu lítið og Liverpool voru nær því að bæta við ef eitthvað var, en þó var þetta aðallega hið týpíska miðjumoð sem einkennir nágrannaslagina jafnan. Um miðjan hálfleikinn var svo Phil Neville rekinn útaf eftir klaufalegt brot á Momo Sissoko, og þá var kraftur Everton-manna endanlega úti. Undir lokin var svo Mikel Arteta rekinn útaf fyrir pirringsbrot á Luis García, þannig að Everton enduðu eins og áður sagði tveimur færri, sem er ekki á bætandi fyrir David Moyes, sem á við næg vandamál að glíma þessa dagana.
Fernando Morientes kom inná fyrir Peter Crouch þegar um 20 mínútur voru til leiksloka og John Arne Riise kom inná um tíu mínútum síðar fyrir Harry Kewell, og svo loks kom Luis García inná fyrir Steven Gerrard. Sumir myndu segja að Rafa hafi hreinlega verið að gera lítið úr Everton-liðinu með síðustu skiptingunni, eins og hann væri að segja, “sko, við hvílum leikmenn gegn ykkur fyrir erfiðari leiki!”
MAÐUR LEIKSINS: Þótt liðið hafi varla leikið fallega knattspyrnu í kvöld var það að leika vel sem ein heild. Ég var ekki sáttur við hvað Everton-menn unnu marga skallabolta í teig okkar manna, en að öðru leyti vorum við með yfirburði á vellinum. Í hjarta þess alls var hinn ótrúlegi Xabi Alonso, klárlega maður leiksins að mínu mati. Xabi er vanur að vinna sér inn hrós fyrir að dreifa spilinu og sýna afburða sendingargetu, en frammistaða hans í kvöld minnti mig meira á útileikinn gegn Juventus en nokkuð annað. Hann fékk lítið pláss til að senda sína bolta út um víðan völl, þannig að hann beit bara á jaxlinn og henti sér af fullum krafti út í baráttuna um yfirráð við þá Cahill, Arteta og Neville. Og vann þá baráttu nánast einsamall - Sissoko var öflugur að vanda og Gerrard var ógnandi fram á við, en Alonso hélt utan um þetta allt saman og spilaði eins og sannur leiðtogi fyrir framan vörnina okkar. Frábær leikur hjá honum og það ætti hverjum manni að vera ljóst að þótt hann sé einn besti spyrnumaður í Evrópu í dag, sendingarlega séð, þá er honum ýmislegt fleira til lista lagt.
Jæja … nú fá okkar menn tveggja daga frí áður en þeir mæta í næsta leik, gegn W.B.A. á Anfield á laugardaginn. Ef við vinnum þann leik þá höfum við unnið tíu leiki í röð, en sumum þótti það ansi langsótt þegar þessi hugmynd var fyrst rædd á þessari síðu fyrir tveimur mánuðum (finn ekki tengilinn á færsluna, en mig minnir að Einar hafi spáð þessu eftir Fulham-tapið - **uppfært (EÖE): Færslan er hér
). Tíu sigurleikir í röð í ensku Úrvalsdeildinni væri vissulega glæsilegur árangur! Chelsea hvað, segi ég nú bara?!?
Frábært kvöld. Góða nótt Liverpool-aðdáendur … dreymi ykkur vel