26. desember, 2005
Ok, semsagt Liverpool vann áðan sinn sjöunda áttunda leik í röð í deildinni.
Þetta var frábær leikur hjá Liverpool liðinu og Newcastle átti aldrei nokkra glætu í leiknum. En maður er bara orðinn svo vanur svona dóminerandi frammistöðu hjá þessu Liverpool liði að maður er hættur að kippa sér upp við það.
Við unnum 2-0 en hefðum getað unnið 6-0 auðveldlega því að Shay Given var lang, lang, langbesti leikmaður Newcastle í leiknum.
Ekki nóg með það að við hefðum getað skorað fullt í viðbót, heldur komst Newcastle aldrei nokkurn tímann nálægt því að skora framhjá Pepe Reina.
En semsagt, Rafa stillti upp því liði, sem ég tel vera okkar sterkasta byrjunarlið í dag:
Reina
Finnan - Carragher - Hyypiä - Riise
Garcia - Gerrard - Alonso - Kewell
Crouch - Morientes
Semsagt, með hina örfættu Kewell og Garcia á köntunum og skallamennina Morientes og Crouch frammi.
Og frá fyrstu mínútu var alveg ljóst að Liverpool myndi vinna þennan leik. Ég held að Liverpool hafi verið með boltann 61% í fyrri hálfleik og þeir áttu 11 markskot á móti einu hjá Newcastle.
Liverpool komst svo yfir á 14 mínútu. Há sending kom nálægt vítateig Newcastle, Crouchy tók boltann niður og lék á Gerrard, sem plataði vörn Newcastle og skaut síðan frábæru skoti framhjá Shay Given, sem hafði stuttu áður varið fáránlega frá Harry Kewell.
Rétt fyrir leikhlé gaf Harry Kewell svo frábæra sendingu fyrir markið og þar kom Peter Crouch og skallaði að marki. Given varði, en boltinn snérist inn fyrir línuna og markið því gilt. 2-0 í hálfleik og leikurinn í raun búinn.
Rafa skipti svo í seinni hálfleik Pongolle inn fyrir Kewell, Cisse inn fyrir Crouch og Josemi inn fyrir Finnan, en það breytti litlu um yfirburði Liverpool. Geðsjúklingurinn Lee Bowyer fékk svo rautt spjald fyrir brot á Xabi Alonso og uppúr því komu smá slagsmál, þar sem að Crouch hrinti Bowyer og Gerrard lenti svo í einhverju stappi við Shearer og Bowyer. Crouch fékk gula spjaldið.
En þetta var hreinlega aldrei í hættu. Þetta Newcastle lið gat ekki neitt og Michael Owen sást ekki allan leikinn. Cisse hefði getað skorað mark, en Given varði og svo varði Solano á marklínu með hendinni frá Morientes, en ekker var dæmt.
Maður leiksins: Einsog að undanförnu, þá er þetta lið gríðarlega jafnt. Harry Kewell var frábær á kantinum, vörnin var pottþétt (annaðhvort var vörnin okkar frábær eða Newcastle liðið ömurlegt - sennilega blanda af báðu), Xabi og (sérstakelga) Gerrard áttu miðjuna og Morientes var góður frammi.
En ég ætla að velja Peter Crouch sem mann leiksins. Þessi leikmaður er einfaldlega frábær. Svo einfalt er það. Hann er í hverri einustu viku að sanna það hversu góð kaup hann er og hversu mikið rangt við höfðum fyrir okkur þegar við efuðumst um hæfileika hans. Nánast allar sóknir Liverpool áttu viðkomu hjá honum, hann spilaði boltanum frábærlega og skoraði mark. Frábær leikur.
Liverpool hefur þá unnið 7 8 leiki í röð í ensku deildinni án þess að fá á sig mark. Eini gallinn við daginn er að Chelsea, Tottenham og manchester united
unnu öll sína leiki (John Terry fékk að spila sem markvörður Chelsea í þeirra leik) og því erum við í sömu stöðu og fyrir leikinn í dag, en þó áttum við sennilega erfiðasta leikinn af toppliðunum í dag.
Þannig að við getum ekki annað en verið mjög sátt við þetta allt saman. Við erum enn í þriðja sætinu og erum nú það lið, sem hefur fengið fæst mörk á sig í deildinni. Þetta jólaprógramm byrjar frábærlega og núna er bara að halda því áfram með góðum sigri á Goodison Park á miðvikudaginn.
Þetta Liverpool lið er einfaldlega besta Liverpool lið, sem ég hef séð í mörg, mörg ár. Við erum að spila frábæran sóknarbolta, en það virðist ekkert hafa áhrif á vörnina. Ef við höldum áfram að spila svona vel, þá verður áfram gaman að vera Liverpool aðdáandi.
Gleðileg Jól!