18. desember, 2005
Þetta voru sannkölluð vonbrigði. Nú í morgunsárið töpuðu okkar menn í Liverpool 1-0 fyrir Sao Paulo frá Brasilíu í úrslitaleik Heimsmeistarakeppni félagsliða í Yokohama í Japan. Þessi tapleikur var í meira lagi pirrandi og svekkjandi, og er af nógu að taka, þannig að við skulum bara fara skipulega í þetta:
Í fyrsta lagi, þá kom Rafa mönnum á óvart og setti bæði Djibril Cissé og Peter Crouch á bekkinn í dag, og hóf leikinn þess í stað með Fernando Morientes einan frammi. Byrjunarliðið leit annars svona út:
Reina
Finnan - Carragher - Hyypiä - Warnock
Gerrard - Alonso - Sissoko - Kewell
García
Morientes
BEKKUR: Dudek, Josemi, Traore, Riise, Hamann, Pongolle, Cisse, Crouch.
Ókei, byrjunarliðið er komið frá, og þá skulum við bara strax koma næsta lið frá. Ég vill síður en svo að fólk komi inn á þessa síðu, lesi þessa leikskýrslu mína í dag og haldi að við Liverpool-menn séum tapsárir. Síður en svo, en engu að síður hefur maður yfir nógu að kvarta. Þannig að í stað þess að láta alla leikskýrsluna snúast um kvart og kvein ætla ég bara að koma því frá hérna:
Þetta brasilíska lið olli mér miklum vonbrigðum. Fyrir leikinn hafði þjálfari þeirra nær eingöngu talað um það hversu varnarsinnað lið Liverpool væri, að Sao Paulo-menn byggjust við að þurfa að sækja allan tímann og sækja sigurinn hart. Ónei, annað kom sko á daginn. Eftir 25 mínútur voru þeir komnir yfir og eftir það var bara eitt á dagskránni hjá þeim: vörnin. Að sjá hvernig þeir héngu í vörn og dældu boltanum fram aftur og aftur í síðari hálfleik var hreinlega til skammar. Auðvitað unnu þeir leikinn þökk sé þessari taktík og allt það, og eiga þannig séð sigurinn skilinn, en það skal enginn segja mér að þetta hafi verið knattspyrnunni til framdráttar. Ekki séns. Og að brasilískt lið skuli haga sér svona er bara eitthvað sem ég hef aldrei séð áður. Stórfurðulegt, og alveg ömurlegt að þurfa að horfa upp á liðið manns tapa fyrir svona heigulskap. Gérard Houllier var oft gagnrýndur fyrir að láta Liverpool spila of varnarsinnaðan bolta en hann stillti ALDREI upp svona varnarmúr í úrslitaleikjum um bikara. ALDREI!
Dómgæslan. Sko, við skoruðum þrjú mörk í þessum leik og þau voru öll dæmd af okkur. Fyrsta markið var tæpt en ókei, réttur dómur. Annað markið var svo pottþétt réttur dómur, García var rangstæður (naumlega, en þó). Þriðja markið, einni mínútu fyrir leikslok, var hins vegar fyllilega löglegt! Dómari leiksins rændi okkur jöfnunarmarkinu. Svo í uppbótartíma var greinilega brotið á Harry Kewell innan teigs en hann þorði ekkert að dæma. Aftur vorum við rændir! Þess fyrir utan þá var alveg ömurlegt að sjá dómarann aftur og aftur falla í þá gryfju að dæma á hverja einustu litlu snertingu Liverpool-manna, vegna þess eins að Brasilíumennirnir voru ótrúlega duglegir að láta sig falla í grasið. Menn virtust slasast lífshættulega við minnstu snertingu - ég átti svo sem von á því af þessu liði (hafði heyrt af því að þeir gerðu þetta) en það var alveg svakalegt að sjá þetta. Og dómarinn dæmdi á allt sem þeir báðu um. Ömurleg dómgæsla hjálpaði okkur ekki í þessum leik, síður en svo, og þegar mest reið á vorum við rændir löglegu jöfnunarmarki og vítaspyrnu í uppbótartíma. Æðislegt!
Hvers vegna var Diego Lugano ekki rekinn útaf í þessum leik? Og nei þá er ég ekki að tala um tæklinguna hans á Gerrard í síðari hálfleiknum - hann var ekki síðasti maður og því var gult spjald rétt ákvörðun - heldur um leikaraskapinn hans í fyrri hálfleiknum. Hann hafði greinilega gert eitthvað til að reita Fernando Morientes til reiði því um leið og boltinn fór úr leik við hliðarlínuna hljóp Morientes beint uppað honum og sagði nokkur vel valin orð við hann. Lugano brást við þessu … með því að henda sér niður og grípa um andlit sér, eins og Morientes hefði skallað eða kýlt hann. Í endursýningunni sást að dómarinn horfði á atvikið og féll ekki fyrir bragði Lugano, Morientes slapp án refsingar. En hvað þá? Ef dómarinn metur það svo að Lugano hafi verið að leika þetta atriði frá A til Ö, hvers vegna fékk maðurinn þá ekki rauða spjaldið fyrir viðbjóðslegan leikaraskap??? Í hvaða fáránlega heimi fellur þetta ekki undir leikaraskap af verstu gráðu? Fáránlegt … þeir áttu að vera manni færri frá þessu augnabliki, að því gefnu að dómarinn hafi séð þetta (sem endursýningin sýndi).
Jæja, leikurinn. Hann fór frekar skringilega af stað - eftir rétt um 50 sekúndur var Gerrard búinn að gefa fyrir og Morientes skallaði rétt framhjá. Í kjölfarið kom einhver asni (hver nennir þessu?) inná völlinn og hengdi sig utan í netið á markinu bak við Rogerio Ceni, svo að það tók einhverjar 4-5 mínútur að fjarlægja hann og svo laga netmöskvana í markinu. Æðislegt.
Eftir það var þetta hálfgerð lognmolla, það var barátta í báðum liðum og spilið einkenndist af miðjumoði. Það var einhver deyfð yfir báðum liðum alveg þangað til þarna á 25. eða 26. mínútu, er Aloisio fékk boltann óáreittur á miðjunni og sendi háan bolta innfyrir vörn Liverpool. Þar kom hægri vængmaðurinn Mineiro aðvífandi og tók við boltanum, og renndi honum rólega framhjá Pepe Reina í markinu. 1-0 fyrir Sao Paulo og rúmlega ellefu leikja markaleysi varnarinnar hjá okkur lokið.
Í kjölfarið sýndu myndavélarnar hvar Sami Hyypiä var að taka á sig markið og biðjast afsökunar á slökum varnarleik, og ég held það hafi verið alveg rétt. Þótt það sé náttúrulega alltaf bakvörðurinn sem eigi að elta kantmanninn, þá á hann ekki að láta hann teyma sig út úr stöðu. Warnock gerði rétt í að elta hann inn að miðjunni en svo átti Hyypiä að taka við honum, en í stað þess að elta manninn fór hann í að reyna að stíga hann út, allt of seint, þannig að hann komst innfyrir og var á auðum sjó með boltann. Sami hefur spilað frábærlega í haust fyrir Liverpool, en hér gerði hann sig sekur um slæm mistök.
Í kjölfarið á þessu marki kom svona fimm mínútna kafli þar sem Brasilíumennirnir sóttu meira og virtust jafnvel ætla að bæta við marki, en okkar menn virtust sjokkeraðir og áttu erfitt með að ná tökum á leiknum. Á endanum gekk það þó og eftir því sem leið á hálfleikinn sóttum við meira og meira, svo að undir lokin var þetta orðin hálfgerð nauðvörn hjá Sao Paulo-liðinu.
Í síðari hálfleik var svo strax ljóst í hvað stefndi. Leikurinn hófst og Sao Paulo-liðið bakkaði strax alveg aftur að eigin vítateig, með Amoroso einan einhvers staðar í miðjuhringnum að reyna að vera fyrir varnarmönnum Liverpool. Við tók 45 mínútna sókn þar sem við áttum á endanum tuttugu skot að marki og einhverjar sautján hornspyrnur að mig minnir, og þar af átti Luis García sennilega svona tíu skot einn síns liðs, en allt kom fyrir ekki og Sao Paulo-menn fögnuðu ákaft í leikslok, enda nýkrýndir Heimsmeistarar félagsliða.
MAÐUR LEIKSINS: Liðið lék ekkert illa í dag, en heldur ekkert vel. Reina hafði ekkert að gera, nema að hirða þennan eina bolta úr netinu, og það reyndi ekkert á vörnina eftir að markið kom. Sami Hyypiä fær bágt fyrir markið en að öðru leyti er lítið hægt að kvarta yfir þeim, nema þá helst að maður hefði viljað sjá Warnock og Finnan vera virkari í sókninni í seinni hálfleik.
Á miðjunni byrjaði þetta erfiðlega en okkar menn náðu á endanum tökum á þessu. Alonso og Sissoko voru lítið með framan af en í síðari hálfleik voru þeir nánast einir á miðjunni, þar sem allir miðjumenn Sao Paulo héngu bara í vörn. Steven Gerrard var út um allt að leita að glufum en ekkert gekk, Luis García einnig og frammi var Fernando Morientes borinn ofurliði gegn fjölmennri vörn Brasilíumanna.
Í raun fannst mér við bara vera að sækja vel á einum stað í leiknum, og það var úti á vinstri vængnum. Harry Kewell tók Cicinho gjörsamlega í bakaríið í þessum leik og sýndi gamla takta sem maður hefur ekki séð til hans lengi. Hann fór hvað eftir annað framhjá þeim brasilísku og upp að endamörkum, dældi hverri fyrirgjöfinni á fætur annarri fyrir en þar var jafnan enginn til að fylgja þeim eftir. En allavega, Harry Kewell átti að mínu mati stórleik í dag og það er eiginlega eini bjarti punkturinn í þessu að geta - í fyrsta sinn í sögu þessarar síðu, að ég held - sagt eftirfarandi orð: Harry Kewell var maður þessa leiks!
Hvað tekur svo við? Eh, þetta var jú bara einn leikur um bikar og svekkjandi að tapa honum, en þetta hefur (vonandi) ekki nein áhrif á restina af tímabilinu. Okkar menn fljúga heim í nótt eða á morgun og vinna svo að því að snúa sólarhringnum við fyrir jólin. Á annan í jólum, eftir átta daga, er svo næsti leikur á heimavelli gegn Newcastle. Michael Owen og Co. eru á leiðinni í heimsókn og þá verðum við að gjöra svo vel og ná okkur á strik aftur, þar sem við erum í bullandi séns í deildinni (sérstaklega ef Arsenal vinnur Chelsea í dag, sem ég er að vona).
Við aðdáendurnir getum hins vegar hlakkað til jólanna … alltaf gaman þegar Liverpool-liðið tapar leik og fer svo í smá pásu. Það þýðir að aðdáendur annarra liða geta strítt okkur í heila viku … gaman …
Uppfært (Einar Örn): Já, ég hef svosem ekki miklu við þetta að bæta. Er sammála öllu, sem þú segir þarna, Kristján. Þetta var gríðarlega ósanngjarnt og sorglegt að sjá brasilískt lið spila svona bolta.
Við áttum auðvitað að klára eitthvað af þessum færum, en það hjálpar svosem ekkert sérstaklega þegar að dómarinn hagar sér svona furðulega. Það er í raun erfitt að vera fúll útí liðið. Við yfirspiluðum Suður-Ameríkumeistarana mestallan tímann og það segir sína sögu að staðan í hornspyrnum var 17-0. Já já, ég veit að við vinnu ekki leiki á hornspyrnum, en þessi tölfræði segir sína sögu.
Þetta var bara einn af þessum leikjum, þar sem vantaði alltaf smá heppni uppá að markið myndi detta.
En það mikilvægasta núna er að þetta drepi ekki niður í þann frábæra takt, sem var kominn í þetta Liverpool lið. Einu viðbrögðin við þessu er að taka Newcastle á Anfield á annan í jólum. Og ég hef fulla trú á því að þetta lið muni jafna sig á þessu og koma bandbrjálaðir í næsta leik.