10. desember, 2005
Jæja, félagar.
Þetta heldur áfram
Liverpool unnu semsagt verulega góðan sigur á Middlesboro á Anfield, 2-0.
Þessar leikskýrslur okkar eru allar farnar að líta eins út því þær byrja á upptalningu á tölfræði.
Við höfum núna unnið sjö leiki í röð í deildinni. Liverpool vörnin og Pepe Reina jöfnuðu í dag félagsmet með því að halda hreinu í 10 leikjum í röð.
Reina hefur ekki þurft að hirða boltann úr netinu í 900 mínútur, sem eru FIMMTÁN KLUKKUTÍMAR!
Þetta er með hreinum ólíkindum.
Allavegana, Rafa stillti upp liðinu svona:
Reina
Finnan - Hyypiä - Carragher - Riise
Gerrard - Sissoko - Alonso - Kewell
Crouch - Morientes
Liverpool var miklu betra liðið á vellinum. Boro átti ágætis kafla svona frá 5-20. mínútu, en annars var bara eitt lið á vellinum. Boro barðist ágætlega og þeir gáfu okkar mönnum ekki mikinn tíma, en það var bara ekki nóg.
Gerrard var virkilega öflugur framávið á kantinum og Sissoko var traustur á miðjunni og því hafði frekar slakur dagur hjá Xabi Alonso ekki mikil áhrif.
Frammi voru það svo Crouch og Morientes, sem náðu ekki að nýta ótal marktækifæri sem þeir nýttu ekki.
En um miðjan seinni háflleik þá breytti Rafa um taktík. Luis Garcia kom inn fyrir Crouch og þeir og Morientes náðu vel saman. Garcia komst svo upp hægri kantinn, gaf sendingu fyrir og Gerrard lét boltann fara framhjá sér. Boltinn rataði á Morientes, sem tók hann niður og setti hann örugglega í hornið. Nákvæmlega það sem hann þurfti á að halda.
Stuttu seinna kom svo löng sending inn fyrir, sem að Frank Quedrue skallaði óvart á Fernando Morientes, sem fékk boltann fyrir utan vítateig og vippaði glæsilega yfir Schwarzer. Tvö mörk hjá Morientes. Einsog einhver sagði: Form is temporary, class is permanent.
Sami Hyypia meiddist svo þegar að hann og Boateng skölluðu í hausinn á hvor öðrum. Hyypia fór því útaf og Momo kom inní vörnina í nokkrar mínútur en það hafði engin áhrif og Momo virkaði traustur. Sami kom svo inná með sárabindi um ennið og hvað gerir hann í fyrstu snertingu? Jú, hann skallar boltann frá eftir horn.
Djöfull var gaman að sjá Hyypia. Maður getur ekki annað en hlegið að þeim, sem voru að tala um að Sami væri kominn af sínu besta skeiði. Hann er einfaldlega búinn að vera stórkostlegur að undanförnu. Carra fær oftast mesta hrósið, en Sami Hyypia á ekki síður heiður af þessari frábæru frammistöðu varnarinnar.
Þessi árangur varnarinnar er líka allt öðruvísi en sú sterka vörn, sem að hann og Henchoz bjuggu til fyrir nokkrum árum. Þá voru þeir með Didi Hamann, sem varla fór fram fyrir miðju, fyrir framan sig og Liverpool spilaði gríðarlega varfærnislegan bolta. Núna erum við hins vegar að dóminera okkar leiki og það er í raun alls ekki hægt að ásaka okkur um að vera að spila varnarbolta.
Maður leiksins: Sko, ég hef verið að velta þessu vali okkar á mönnum leiksins að undanförnu. Það verður æ erfiðara að velja besta mann liðsins. Það er í raun frábært því að Liverpool liðið er að leika sem ein pottþétt heild. Þetta er LIÐ!
Gerrard var góður, Riise og Finnan voru virkilega góðir, Sami og Carra traustir, Reina varði vel nokkrum sinnum. Kewell átti góða spretti.
En Fernando Morientes var hetjan okkar í dag og hann á skilið að vera maður leiksins. Frábært fyrir Fernando að ná að skora. Núna þegar að Fernando Morientes er farinn að nýta færin sín, þá mega varnarmenn ensku úrvalsdeildarinnar vara sig.
Við erum núna komnir uppí annað sætið í deildinni með 31 stig eftir 15 leiki, 9 stigum á eftir Chelsea. Everton gera okkur vonandi greiða og ná stigi gegn Man U, en það myndi duga okkur til að halda öðru sætinu, þar sem við erum með betra markahlutfall en Man U.
Næsti leikur okkar er svo gegn Newcastle í deildinni á annan í jólum á Anfield. Það er svo vonandi að við mætum til leiks gegn Newcastle sem heimsmeistarar félagsliða. Við gætum allavegana ekki beðið um betra veganesti til Japan.