03. desember, 2005
YESSSSSSSSSSS!!!!
Frábær 3-0 sigur gegn liðinu í 5. sæti deildarinnar og Peter Crouch skorar tvö mörk. Og enn einu sinni höldum við hreinu.
Ég bara hreinlega get ekki annað en verið ofboðslega jákvæður akkúrat núna.
Þetta var með bestu leikjum Liverpool í deildinni og Liverpool liðið sýndi algjöra yfirburði á vellinum og sigurinn var síst of stór, hefði auðveldlega getað verið 4 eða 5-0. Markvörður þeirra Wigan manna var langbesti maðurinn þeirra og markvarslan hans á aukaspyrnu Gerrard í seinni hálfleik var hreint mögnuð.
Rafa byrjaði leikinn svona:
Reina
Finnan - Hyypiä - Carragher - Warnock
Garcia - Gerrard - Alonso - Kewell
Crouch - Morientes
Semsagt, að mínu mati okkar besta miðja með Stevie og Xabi inná miðjunni og Luis Garcia og Kewell á köntunum. Og Liverpool liðið lék frábærlega!!! Xabi og Stevie stjórnuðu öllu inná miðjunni og Luis Garcia og Kewell voru mjög ógnandi á köntunum og þá sérstaklega Kewell, sem var nokkrum sinnum óheppnin að skora ekki mark.
Fyrir framan þá voru svo Peter Crouch og Morientes, sem ollu Wigan allskonar vandamálum.
Rafa tók Harry Kewell út eftir um klukkutíma, enda hann að byrja leik í fyrsta skipti og setti Riise á kantinn. Didi kom svo inn fyrir Xabi Alonso og svo kom Cisse inn fyrir Peter Crouch og fékk Crouchy þá hyllinguna, sem honum hefur sennilega dreymt um að undanförnu.
Peter Crouch hefur oft á tíðum verið gríðarlega óheppinn fyrir framan markið og það var svo að loksins þegar hann skoraði, þá var heppnin heldur betur með honum. Crouch fékk boltann rétt hjá miðjunni og keyrði með hann í átt að marki. Hann skaut svo og boltinn fór í Wigan manninn Baines, lyftist uppí loftið og yfir Pollitt, markmann - sem var annars besti maður Wigan í leiknum. Gott mark og Peter Crouch loksins búinn að skora fyrir Liverpool.
20 mínútum síðar gaf svo Steve Finnan glæsilega sendingu innfyrir á Peter Crouch, sem lét boltann skoppa nokkrum sinnum áður en hann lyfti boltanum glæsilega yfir markvörðinn og í vinstra hornið. Virkilega gott mark.
Liverpool liðið var miklu, miklu betra en Wigan. Maður gat auðveldlega gleymt því að þetta voru liðin í 4. og 5. sæti í deildinni því Wigan átti aldrei sjens í þessum leik og Liverpool algjörlega yfirspilaði liðið á köflum. Í seinni hálfleik var það sama uppá teningnum. Wigan sótti svo í um 5 mínútur áður en Liverpool náði aftur undirtökunum. 20 mínútum fyrir leikslok fékk Liverpool svo hornspyrnu, sem Gerrard tók. Morientes átti skalla að marki, þar sem Luis Garcia stóð og tók boltann á kassann og inn.
Liverpool átti svo ótal tækifæri í viðbót. Kewell, Morientes og Gerrard gátu allir skorað, en Pollitt markvörður Wigan varði oft hreint ótrúlega. En sigurinn var aldrei í hættu og Pepe Reina átti alla bolta, sem komu á mark Liverpool. Frábær frammistaða.
Maður leiksins: Sko, það lék ekki einn Liverpool maður illa í dag. Harry og Luis Garcia voru sprækir á köntunum, Xabi og Stevie gjörsamlega áttu miðjuna og vörnin og Pepe voru örugg. Svo barðist Morientes vel og var klaufi að ná ekki að skora. Í raun ætti Steven Gerrard að vera maður leiksins, því hann var algjörlega frábær.
Hins verð ég auðvitað að velja PETER CROUCH. Hvað annað get ég gert? Ég hef ekki fagnað Liverpool marki eins mikið síðan í Istanbúl. Crouchy átti svo innilega skilið smá heppni og hana fékk hann loksins í þessum leik. Seinna markið hans var svo virkilega gott og enginn heppnis-stimpill á því. Núna verða fjölmiðlar að finna sér annað umræðuefni, því að Peter Crouch er kominn á blað. Frábært!
Staðan í deildinni klukkan 14:45 laugardaginn 2. desember er svona:
- Chelsea 37
- Liverpool 28
- manchester united
27
- Arsenal 26
Ég spyr bara: veit einhver hvað það er langt síðan við vorum í öðru sæti í deildinni???
Koma svo, Bolton og Portsmouth - haldið okkur í öðru sætinu!!!
Getur maður verið annað en ánægður??? Getum við í alvöru kvartað yfir einhverju í dag? Crouch skoraði, Kewell lék vel, við unnum 3-0 og erum komnir uppí annað sætið í deildinni. Við höfum núna unnið 6 leiki í röð í ensku deildinni og Pepe hefur haldið hreinu í átta leikjum í röð. Það er auðvitað alltaf gaman að vera Liverpool aðdáandi, en það er sérstaklega gaman í dag.